Færsluflokkur: Spaugilegt
27.8.2013 | 22:00
Smásaga um súran hval
Það var fyrir hálfri öld. Íslensk alþýðuheimili voru fátæk. Það þurfti að spara hverja krónu. Engu var eytt í óþarfa. Þvert á móti þurfti að beita ýtrustu útsjónarsemi til að endar næðu saman. Það mátti ekkert út af bregða til að heimilið stæði skil á sínum gjöldum. Heimilisfaðirinn fagnaði hverri aukavinnu sem bauðst. Húsmóðirin framlengdi endingu á slitnum fötum heimilisfólksins með því að staga í og sauma bætur yfir slitnustu fleti. Það var sjaldan svigrúm til að gera sér dagamun. Þó var það reynt á stórhátíðum.
"Gunni minn, þú þarft að skjótast fyrir mig í búðina," kallaði húsmóðirin á átta ára drenginn, elstan þriggja barna. "Af því að sumardagurinn fyrsti er á morgun þá ætla ég að hafa súran hval í eftirrétt á morgun. Taktu þennan hundrað króna seðil og keyptu 250 grömm af súrum hval."
Gunni lét ekki segja sér það tvisvar. Honum þótti gaman að fara í búðina. Það var svo gaman að horfa á allt góðgætið sem þar fékkst. Hann var vanur að heita sjálfum sér því að þegar hann yrði fullorðinn þá myndi hann kaupa nammi. Hann var viss um að það væri bragðgott.
Gunni var ekkert að flýta sér í búðinni. Hann gaf sér góðan tíma til að skoða margt. Lyktin var góð. Eftir langan tíma gekk hann að kjötborðinu, veifaði 100 króna seðlinum og bað um súran hval. Kaupmaðurinn tók við seðlinum og troðfyllti þrjá innkaupapoka af súrum hval.
"Það verður aldeilis veisla heima hjá þér," kallaði kaupmaðurinn glaður í bragði þegar hann horfði á eftir Gunna kjaga um búðina með hvalinn.
"Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun," útskýrði Gunni um leið og hann rogaðist með pokana út úr búðinni.
Á heimleiðinni varð Gunni hvað eftir annað að setjast niður og hvíla sig. Hvalkjötið var svo þungt. Hann hlakkaði til að fá hrósið frá mömmu sinni fyrir dugnaðinn og eljuna. Viðbrögðin urðu önnur. Mamman hrópaði í geðshræringu: "Keyptir þú hval fyrir allan peninginn? Ertu búinn að missa vitið?"
Hún beið ekki eftir svari. Það var hárrétt ákvörðun. Það kom ekkert svar. Hún settist niður, fól andlitið í höndum sér og fór að hágráta. Hún grét af reiði. Grét af vonbrigðum. Grét í ráðaleysi og örvinglan.
Gunni horfði undrandi á þessi viðbrögð. Að honum læddist grunur um að hann hefði klúðrað einhverju við innkaupin. Hann vissi ekki hverju. Hann mat stöðuna þannig að betra væri að læðast í burtu í stað þess að leita skýringar. Hann læddist hljóðlega inn í litla herbergi systkinanna, klifraði upp í efri kojuna og beið þess að pabbi kæmi heim úr vinnunni. Það var alltaf léttara yfir mömmu þegar pabbi var heima.
Gunni spratt fram þegar hann heyrði pabba koma inn úr dyrunum. Sem betur fer var mamma hætt að gráta. Hún var samt eins og niðurdregin, ef vel var að gáð. En ekki reiðileg.
"Gunni minn, leggðu á borð. Við fáum okkur að borða," sagði hún. Gunni hlýddi. Mamma bar á borð skál með súrum hval.
Það hýrnaði yfir pabba. "Það er bara veisla," sagði hann fagnandi. "Já, það er sumardagurinn fyrsti á morgun," upplýsti mamma.
Öllum þótti hvalurinn góður. Líka morguninn eftir þegar hvalur var á borðum í stað hafragrautar. Hvalurinn vakti ekki alveg sömu kæti þegar hann var hádegisverðurinn. Yfir kvöldmatnum spurði pabbi: "Væri ekki ráð að hafa soðnar kartöflur með hvalnum? Hann er dálítið einhæfur svona einn og sér í hvert mál."
"Nei," mótmælti mamma. "Ef við förum að drýgja hvalinn með kartöflum eða brauði eða öðru þá sitjum við uppi með hvalinn í allt sumar. Það væri annað ef við ættum ísskáp. Þá væri hægt að hafa hvalinn í annað hvert mál. En eins og þetta er verðum við að hafa hvalinn í öll mál þangað til hann er búinn."
Allir andvörpuðu og vissu að þetta var rétt. Eftir því sem dögunum fjölgaði varð hvalurinn ólystugri. Öllum bauð meira og meira við hvalnum. Kjötið tapaði þéttleika. Það varð slepjulegra og hlaupkenndara með hverjum deginum sem leið. Allir minnkuðu skammtinn sinn við hverja máltíð. Allir kúguðust. Kannski var það ekki einungis vegna þess hvað súr hvalur í öll mál dag eftir dag eftir dag er einhæf fæða. Kannski tapaði hvalurinn bragðgæðum við að standa sólarhringum saman í hlýju eldhúsi. Kannski var þetta samverkandi. Enginn hafði áhuga á að komast að hinu sanna í því. Það var aldrei minnst á hval eftir þetta á heimilinu. Aldrei.
---------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit:
- Bílasaga
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1303801/
Spaugilegt | Breytt 28.8.2013 kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2013 | 14:12
Auðlærðar aðferðir til að lesa í veðrið
Stöðug vætutíðin í vor og sumar hefur slævt tilfinningu Íslendinga fyrir veðrinu. Veðrið er alltaf eins. Við erum hætt að hugsa út í það. Hætt að spá í veðrið. Hætt að tala um veðrið. Veðrið er bara þarna. Alveg eins og í gær. Alveg eins og í síðustu viku. Alveg eins og í síðasta mánuði. Alveg eins og í allt sumar.
Þetta er hættuleg staða. Ef að skyndilega hitnar í veðri og enginn tekur eftir því er næsta víst að illa getur farið. Til að forðast hættuna er ástæða til að hafa augun hjá sér. Skima stöðugt allt í kringum sig. Reyna að koma auga á vísbendingar. Það er auðveldara en halda má í fljótu bragði. Þumalputtareglan er að læra utan að eftirfarandi atriði:
Tekur vodkaglasið úti á veröndinni skyndilega upp á því að halla undir flatt? Svoleiðis hendir í heitu veðri. Einkum ef um plastglas er að ræða.
Liggur umferðarkeilan í götunni eins og sprungin blaðra? Gáðu að því. Kannski er þetta húfa sem álfur hefur týnt. Ef þetta reynist vera umferðarkeila er heitt í veðri.
Sjást fuglar aðeins í skugga? Hvergi annarsstaðar? Þá er heitt.
Liggur hálfsofandi dýr ofan í vatnsskálinni á veröndinni? Ef að dýrið harðneitar að yfirgefa vatnsskálina má reikna með að heitt sé í veðri.
Liggur hesturinn ofan í vatnsbalanum sínum? Það gerir hann bara í heitu veðri.
Leka spaðarnir á loftkælingunni niður? Það er ekkert flott.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.8.2013 | 21:38
Skondin skilaboð
Þegar fyrirtæki, stofnanir eða heimili í Danmörku eru heimsótt er ekki byrjað á því að bjóða upp á kaffi. Kannski er slíkt aðeins séríslenskur siður. Ég veit það ekki. Í Danmörku er gesturinn spurður að því hvort hann vilji Carlsberg eða Tuborg. Það er góður siður.
Víða erlendis er rótgróin og sterk pöbbamenning. Hún er í Danmörku, Þýskalandi of út um allt Bretland. Og víðar. Þar um slóðir er fastur siður að karlar (og nokkrar konur) skreppi á pöbbinn eftir kvöldmat. Það má mikið ganga á til að menn skrópi á pöbbinn.
Þar sem margir pöbbar eru í samkeppni á sama svæði er reynt að lokka viðskiptavini inn með skondnum texta á auglýsingaskilti. Textinn skartar ekki tilboði eða slíku. Hann skartar sniðuglegheitum. Fólk stoppar við skiltin til að lesa broslegan texta. Sá sem staðnæmist fyrir utan pöbba er líklegri til að kíkja inn heldur en sá sem gengur framhjá.
Hér eru sýnishorn:
"Súpa dagsins er ROMM!"
"Áfengi leysir ekki vandamál þín... Ekki heldur mjólk."
"Ef þú drekkur til að gleyma, vinsamlegast borgaðu fyrirfram."
"Ef lífið færir þér sítrónu skaltu laga sítrónusafa og finna einhvern sem lífið hefur fært vodka og slá upp partýi!!!"
"21 árs aldurstakmark. Hér eru börnin búin til en fá ekki afgreiðslu"
"Ekki gleyma að kaupa gjafakort handa pabba á feðradaginn (mundu að þú ert ástæðan fyrir því að hann drekkur)"
"Drekktu þrefaldan, sjáðu tvöfalt, hegðaðu þér eins og þú sért einn"
Það má líka skilja Act single sem "hegðaðu þér eins og einhleypur".
Rúsínan í pylsuendanum er textinn á skiltinu hér fyrir neðan:
"Eitthvað hnyttið, djúpviturt og ögrandi (forstjórinn bað mig um að skrifa þetta)"
![]() |
Carlsberg næstum uppurinn í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2013 | 21:53
Spaugileg húðflúraklúður
Ég hitti mann sem ég kannast lítillega við. Við tókum spjall saman. Einhverra hluta vegna barst tal að skrautskrift. Maðurinn sagði að sér veitti ekki af tilsögn í skrift. Hann skrifaði svo illa að það væri til vandræða. Því til sönnunar bretti hann upp ermi og sýndi mér húðflúr á handleggnum. Þar stóð skýrum stöfum ÓLA FUR.
Þetta húðflúr fékk maðurinn sér úti í Hollandi fyrir fjörtíu árum eða svo. Þar hafði hann vel við skál rambað inn á húðflúrstofu, skrifað nafn sitt á blað og beðið um að það væri flúrað á handlegginn. Maðurinn var óvanur að skrifa nafn sitt með eintómum upphafsstöfum. Því fór svo að hann hafði í ógáti of mikið bil á milli A og F. Hollenski húðflúrarinn hélt að um tvö nöfn væri að ræða og hafði bilið ennþá stærra.
Maðurinn skammast sín svo mikið fyrir þetta klúður að hann hefur alla tíð falið húðflúrið í stað þess að flagga því með stolti.
Þetta er gallinn við húðflúr: Það er varanlegt "skraut" á líkamanum. Að vísu eru snjallir húðflúrarar lagnir við að flúra ofan á gömul húðflúr og "lagfæra" þau. Það er líka hægt að láta fjarlægja húðflúr. Eftir stendur þá ör. Það er síst snotrara en ljótt húðflúr.
Út um allan heim má finna klaufaleg húðflúr, hvort heldur sem er með vitlaust stafsettum texta eða einstaklega illa teiknuð. Þetta er sérlega áberandi í sunnanverðum Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ástæðan er margþætt. M.a. sú að Suðurríkjamenn eru vanir að gera hlutina sjálfir. "Redda sér" án aðstoðar fagmanna. Rauðhálsarnir í suðrinu eru lausir við pjatt og eltast ekki við fínlegustu útfærslur. Það er krúttlegt.
Mörg húðflúr eru teiknuð innan fangelsismúra. Það er ekki einskorðað við Suðurríkin. Margir sem sitja í fangelsi hafa ekki góð tök á réttritun. Þetta á einnig við um þá fanga sem húðflúra. Þeir eru ekki fagmenn. Því er útkoman skrautleg.
Húðflúr með svona og álíka yfirlýsingum eru vinsæl meðal fanga og fyrrverandi fanga: "Iðrast einskis". Gallinn er sá að það vantar t í orðið nothing.
"Enginn draumur er of stór" er metnaðarfull yfirlýsing. Réttritunin er ekki eins metnaðarfull. Það vantar annað o í Too.
"Til fjandans með yfirvöld" er algeng yfirlýsing á handleggjum rauðhálsa. Ótrúlega oft er s ofaukið í orðinu system.
Á þútúpunni má finna mörg myndbönd þar sem flytjandi tónlistar er ranglega skráður Bob Marley. Þetta er algengara en með aðra tónlistarmenn. Ég hef séð mörg vel heppnuð húðflúr með andliti Bobs Marleys. Það allra flottasta er á tónlistarmanninum Hilmari Garðarssyni, teiknað af Sverri "Tattú". Hér er aftur á móti ágætt húðflúr með andliti Jimis Hendrix. En það er merkt Bob Marley.
Ekki er öllum gefið að teikna og húðflúra andlit svo vel sé. Það er sérstök kúnst. Jafnvel flestir annars góðir teiknarar eiga í basli með að teikna andlit. Bandaríska and-rasíska mannréttindabaráttukonan fagra Marilyn Monroe (skráð meintur kommúnisti í skjölum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI) er vinsælt viðfangsefni húðflúrara. Sjaldan með góðum árangri.
Siðvöndum húðflúraranum þótti Marilyn full léttklædd (neðri myndin). Hann kappklæddi hana.
Aðdáendur furðufugsins Mikjáls Jacksonar hafa margir hverjir fengið sér húðflúr með mynd af "fríkinu". Það er svo sem nokkuð sama hver útkoman er. Húðflúruð mynd af Mikjáli er ekkert furðulegri en ljósmynd af honum.
Spaugilegt | Breytt 20.8.2013 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.8.2013 | 21:46
Það er fylgst með þér
Veggirnir hafa eyru. Það er fylgst með þér úr öllum áttum. Þú sleppur ekki hvert sem leiðin liggur. Hvað sem þú gerir; allt er kortlagt. Ásarnir og holtin, allt hefur það tungur og álfur í sérhverjum hól. Ef að vel er gáð hafa flest hús andlit. Þau eru með augu sem fylgjast með hverri hreyfingu. Til að átta sig á þessu þarf aðeins að "spotta" húsin frá tilteknu sjónarhorni.
Þessi litla sæta kirkja í Flórída lætur ekki mikið yfir sér. En ef læðst er fyrir rétt horn á henni má auðveldlega greina hvernig hún glennir upp glyrnurnar.
Skoðum nokkur önnur dæmi af handahófi:
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2013 | 20:46
Greitt eftir eyranu
Þegar árunum fjölgar fækkar hárunum. Einkum á hvirflinum á karlmönnum. Þau sem eftir sitja grána. Menn bregðast við á ýmsan máta. Sumir taka varla eftir þessu. Aðrir fagna. Þeim þykir breytingin færa sér yfirbragð virðulegs eldri manns. Það er gott að losna við galgopasvip unglingsáranna.
Svo eru það þeir sem bregðast ókvæða við. Þeir hefja gagnsókn og berjast á hæl og hnakka gegn þróuninni. Hárígræðsla og snotur kolla geta gert kraftaverk.
Þegar svoleiðis lúxus er ekki fyrir hendi má grípa til annarra ráða. Klassíska leiðin er að safna hári fyrir ofan annað eyrað og greiða það (hárið, ekki eyrað) yfir skallann. Þegar best tekst til fattar enginn hvað er í gangi.
Gott ráð er að safna einnig hári allt umhverfis eyrað og í hnakkanum, leyfa því að falla niður að öxlum. Skegg hjálpar heilmikið. Þar með er talað um að viðkomandi sé loðinn um höfuðið og enginn áttar sig á skallanum.
Til að leiða athyglina enn fremur frá hvirflinum er upplagt að svitna vel undir höndunum. Þá beinir fólk sjónum ekki eins ofarlega.
Það er einn galli við þessa hárgreiðslu: Þegar viðkomandi er berhöfðaður úti að ganga og gustur kemur, feykir hárinu af hvirflinum og það flaggar eins og láréttur fáni fyrir ofan eyrað.
Það gerist ekki oft. En ég hef séð svoleiðis. Það kemur ekki nógu vel út.
Oft vill brenna við að menn séu heldur seinir á sér að bregðast við breytingunni á hárvexti. Þegar þeir loks taka ákvörðun um að safna hári frá eyra yfir hvirfil líður á löngu þangað til hárið nær yfir hvirfilinn. Á meðan er hárgreiðslan skrítin. Þolinmæði vinnur þrautir allar. Málið er að halda sínu striki.
Jafnvel þó að ekkert sé hvassviðrið þá er hlýðir hárið ekki alltaf fyrirmælum um að sitja eins og þægur krakki á hvirflinum. Margir sem aðhyllast þessa útfærslu þróa með sér kæk sem felst í því að strjúka hárið stöðugt. Ganga þannig úr skugga um að það sitji vel og veita því strangt aðhald.
Algengt vandamál við aðferðina er að hún virkar vel í spegilmyndinni beint framan frá en aftar á höfðinu er allt í klúðri.
Önnur aðferð er að safna hári í hnakkanum og greiða það snyrtilega fram á enni. Þá er ekkert klúður í hnakkanum.
Ein heimsfrægasta útfærsla á "greitt frá hnakka" er íslensk. Jón "sprettur" límir hárið úr hnakkanum á ennið á sér og krullar það þar.
Enn ein aðferðin er að safna síðu skeggi og greiða það rækilega yfir höfuðið. Eins og einskonar húfu.
Frægasta hárgreiðsla heims er sennilega sú sem einkennir bandaríska auðmanninn Donald Trump. Hann brúkar hárið úr hnakkanum með góðum árangri til að vera hárprúður. Fyrrverandi ástkona segir hann aðeins þurfa hálftíma á morgnana til að græja dæmið. Hann notar ljósmynda-spreylím til að festa hluta af hárinu úr hnakkanum fram á enni. Þannig tryggir hann að skalli komi ekki í ljós þó að veðurguðirnir blási.
Myndin hér fyrir neðan er frá því áður en Donald komst upp á lag með að brúka ljósmynda-spreylímið:
Spaugilegt | Breytt 16.8.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2013 | 20:49
Töfrar ljósmyndarinnar
Ljósmyndir eru merkilegt fyrirbæri. Það er hægt að ljúga með þeim. Það er ennþá auðveldara eftir að "fótósjopp" kom til sögunnar. Ljósmyndir geta líka lýst raunveruleikanum betur en margt annað. Þær geta varðveitt augnablikið; komið tíðarandanum og stemmningunni rækilega til skila. Meðfylgjandi eru nokkrar skemmtilegar para- og fjölskyldumyndir sem staðfesta þetta.
Efsta myndin er auðsjáanlega samsett úr tveimur myndum af sama parinu.
Næst efsta myndin er af gæfum vatnafiski sem heitir Som. Það er ónákvæmt að kalla hann og dömuna eiginlegt par. Meira svona vini.
Neðsta myndin segir stærstu eða skrítnustu söguna.
![]() |
Sannleikurinn á bak við fyrir og eftir myndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2013 | 11:25
Einföld og örugg aðferð við að skræla egg
Hungrið sverfur að. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa hrært í túnfiskssalat. Já, eða rækjusalat. Þá er ráð að skella slettu af því ofan á flatkökusneið og fá sér bita. Skyndilega verður hart undir tönn. Það er eggjaskurn í salatinu. Matarlystin hverfur eins og dögg fyrir sólu. Eggjaskurn er ólystug. Nema fyrir hænur. Þær kunna vel að meta skurn.
Vandamálið við að skræla egg liggur í því að hvít skurn og egg eru samlit. Þess vegna er veruleg hætta á að bútar af skurn verði eftir á egginu. Það er til gott ráð við þessu. Þannig er aðferðin:
Þú hellir Coca Cola í skál. Því næst er harðsoðnum eggjum komið fyrir í kókinu. Skálin er sett inn í ísskáp. Á nokkrum vikum eyðir kókið allri skurn utan af eggjunum. Algjörlega. Vel og snyrtilega. En lætur sjálft eggið í friði. Að öðru leyti en því að það fær sætt bragð yst. Það kallast veislukeimur.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.7.2013 | 21:59
Eitraður brandari
Ég rakst á þessa skemmtilegu mynd á netinu. Ég sprakk úr hlátri og ætlaði seint að hætta að hlæja. Ég veit ekki hvers vegna. Það er bara eitthvað óbærilega fyndið við þessa mynd. Til að sitja ekki einn að þessum hláturvaka smellti ég myndinni inn á Fésbók. Á örfáum mínútum var hálft þriðja hundrað manns búið að deila henni yfir á sínar síður. Myndin kitlaði greinilega hláturtaugar fleiri. Því er mér ljúft og skylt að setja hana líka hér inn:
Já, holtin og veggirnir hafa eyru eins og flugan.
![]() |
Bandaríkjamenn festa Snowden |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
8.7.2013 | 23:34
Dýr eru furðufuglar
Flest - eða jafnvel öll - dýr þurfa að sofa endrum og eins. Þó ekki sé nema til að taka smá kríu. Sum dýr verða pínulítið brosleg þegar þau sofa. Önnur verða krúttleg þegar þau sofa. Norska dagblaðið VG efndi á dögunum til samkeppni um bestu ljósmyndir af sofandi dýrum. Þátttaka var góð. Hátt á annað þúsund mynda bárust. Þessar þóttu bestar:
Hvutti kom sér makindalega fyrir í ferðavöggu ungabarnsins, naut sín í botn og steinsofnaði.
Þessi ku vera sofandi þó að rifi í annað augað. Myndin er á hvolfi. Ef að hún snýr rétt skilar sér ekki hvað hvutti er eitthvað krumpaður.
Það er arfgengt hjá sumum hundum að sýna tennurnar í svefni. Kenningin er sú að þetta sé varnaraðferð. Aðrir hundar og önnur dýr sjá að tennurnar eru beittar og sterklegar. Jafnframt virðist dýrið vera vakandi þó að það sofi.
Hárlausir kettir hringa sig saman í svefni. Þannig nýta þeir betur líkamshitann.
Þessi sefur með eyrun sperrt. Hann er á vakt gagnvart minnsta grunsamlega hljóði þó að hann leyfi sér að dotta.
Þessi hvutti er vanur að sofa undir sæng. En þegar heitt er í veðri lætur hann aftari hluta líkamans standa undan sænginni.
Merðir mynda hjartaform þegar þeir fá sér dúr.
Flest dýr teygja úr sér þegar þau vakna. Sum teygja úr sér á meðan þau sofa.
Krúttlegt.
![]() |
Hvolpur fastur í vél bílsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 9.7.2013 kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)