Færsluflokkur: Spaugilegt
7.7.2013 | 22:15
Auðvelt töfrabragð til að finna út aldur fólks og skóstærð
Spaugilegt | Breytt 8.7.2013 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.7.2013 | 23:31
Íhaldssamur kennari með einfaldan smekk
Það er kúnst að vera kennari. Eða öllu heldur er það kúnst að vera góður kennari. Hvað er góður kennari? Svar: Sá sem laðar fram það besta hjá nemendum og - það sem skiptir jafnvel meira máli: lætur þeim líða vel í skólanum. Ákjósanlegasta staðan er þegar nemendur hlakka til að mæta í skólann.
Kennarinn er fyrirmynd. Afstaða hans til námsefnisins hefur mótandi áhrif á nemendur. Framkoma hans, talsmáti og jafnvel klæðaburður verður nemendum til eftirbreytni.
Skólamyndir af kennara - sem nú hefur sest á helgan stein - í Dallas í Texas hafa vakið athygli. Í 40 ár hefur hann haldið sig staðfastur við nokkurn veginn sama stíl: Hárgreiðslu, gleraugu, yfirvararskegg, skyrtu með stórum flaksandi kraga og brúna vestispeysu. Að vísu skóf hann af sér yfirvararskeggið 1975. En skeggið kom aftur sterkt til leiks 1976.
![]() |
Límdi fyrir munn sjö ára stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2013 | 18:25
Lausn á vandamáli þingmanna
Eitt af stóru vandamálunum sem íslenska þjóðin glímir við er klæðaburður þingmanna. Margir þingmenn eru á þunglyndislyfjum vegna kvíðahnútar sem þeir eru með í maganum á kvöldin. Þeir eru í öngum sínum og bryðja svefntöflur til að létta á andvökunóttunum. Áhyggjurnar eru svo gríðarlegar af því hverju skuli klæðast daginn eftir. Hvað má? Hvað má ekki?
Það er auðvelt að bæta bölið og heilsu þingmanna. Það þarf aðeins að samræma klæðnað þingmanna. Þetta er gert við presta. Þeir klæðast flestir samskonar kjólum. Þetta er gert við fermingarbörn. Þau klæðast samskonar hvítum kjólum. Þingmenn tækju sig vel út í bleikjum kjólum. Sérstaklega Sigmundur Davíð.
![]() |
Elín Hirst lofar að skipta um buxur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.7.2013 | 21:42
Þetta vissir þú ekki!
Geitur eru merkilegri skepnur en margur heldur í fljótu bragði. Til að mynda hafa í aldir geitaspörð verið notuð til að lina þjáningar gigtveikra. Það þarf aðeins að taka inn fimm geitaspörð á fastandi maga í átta daga. Spörðunum er skolað niður með hvítu víni. Við magakveisu hefur öldum saman gefist vel að þamba geitahland. Það slær einnig á eyrnaverk. Geitalifur heldur draugum og öðrum framliðnum ófreskjum í skefjum. Ekki má gleyma því að þurrkað og mulið geitareista (af hafri) tekið inn með nægu vínmagni er kröftugasta meðal sem til er gegn ófrjósemi kvenna.
Þessi lyf og þessar aðferðir eru mörg hundruð árum eldri en nútímakukl lækna sem dæla í sjúklinga hættulegum pillum framleiddum af fégráðugum og glæpsamlegum auðhringum. Nútímalækningar eru svo ungar að þær eru í raun óhefðbundnar á meðan aldagamlar aðferðir með geitaafurðir eru hefðbundnar lækningar.
Geitur éta allt. Þær éta gaddavír, girðingastaura, niðursuðudósir, smásteina og hvað sem er. Þær vilja ekki vera skilgreindar grænmetisætur og vera þar með settar í flokk með Hitler. Geitur éta grasamat aðeins eins og meðlæti. Á sama hátt og annað fólk en Hitler nartar í grænmeti með kjöti, fiski og þess háttar.
Geitur eru húmoristar. Þeim þykir fátt skemmtilegra en að hræða fólk og hrella. Þá hlæja geiturnar inn í sér.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.7.2013 | 00:18
Fólki sem er fífl hjálpað að fóta sig í tilverunni
Fólk er fífl. Það vita allir. Nema fólkið sjálft. Það þarf leiðbeiningar um hvert skref. Annars fer allt í rugl. Þess vegna er brýn þörf á sem flestum umferðarmerkjum. Fjöldi embættismanna á launaskrá ríkisins vinnur að því hörðum höndum að hanna og koma fyrir sem víðast merkingum til að leiðbeina fólki sem er fífl. Í dag bættust 17 ný umferðarmerki í hóp þeirra tuga umferðarmerkja sem þegar eru út um allt.
Það er gott til þess að vita að ríkisstarfsmenn geri fleira en naga blýanta allan daginn alla daga. Þeir leggja sig líka fram um að leiðbeina kjánum. Einmitt núna þegar sól hefur verið minni í sumar (hún á kannski eftir að stækka) en elstu menn muna hefur innanríkisráðherra boðað að í nálægð við allar ísbúðir landsins verði komið upp skilti sem sýnir gamaldags (klassískan) rjómaís úr vél. Án þessa skiltis er veruleg hætta á að fólk sem er fífl kaupi sér í óvitaskap ís úr frystikistum stórmarkaða. Lítill fugl hvíslaði að mér að þetta væri gert að ósk Sigmundar Davíðs. Hann ku vera sólginn í rjómaís beint úr vél.
Áður en þetta skilti er fest upp sannreyna embættismenn Vegagerðarinnar og Framkvæmdastofnunar samgöngumála að ísinn sé afgreiddur í brauðformi og að það sé rjómabragð af honum.
Eitt af mörgu góðu við að fjölga umferðarskiltum á Íslandi er að það er atvinnuskapandi. Ekki endilega þannig að það fjölgi störfum heldur þannig að embættismenn innanríkisráðuneytisins (og stofnana sem heyra undir það) hafi eitthvað fyrir stafni. Það gerir engum gott að slæpast í vinnunni og hanga á fésbók. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum er ríkur vilji hjá Framkvæmdastofnun samgöngumála að setja í næsta átaki upp skilti sem gefur til kynna hvar megi nálgast rammíslenska pylsu með öllu og hvar sé mögulegt að kaupa kalda mysu.
Gríðarlega mikil stemmning er fyrir því að setja upp við allar götur nálægt vínveitingastöðum skilti sem upplýsir að hætta sé á að þar fari ölvuð manneskja til síns heima (eða út í buskann). Aðgát skal höfð í nærveru drukkinna.
Þetta bráðnauðsynlega skilti sýnir hættu á að nautgripir detti ofan á bíla. Eina vandamálið er að bílstjóri getur á engan hátt komið í veg fyrir það. En þegar nautgripur dettur ofan á bíl getur bílstjórinn verið nokkuð viss um að það var nautgripur sem datt ofan á bílinn (en ekki geimskip eða loftsteinn). Það veitir öryggiskennd að vera ekki í vafa.
Hvar er hægt að fóðra krókódíla með fötluðum?
Sumt fólk er "mannýgt". Það stangar bíla. Erlendis hefur gefist vel að setja upp skilti nálægt bílum með hvatningu um að mannýgir stangi spegla á bílunum frekar en sjálft "boddýið". Þannig má komast hjá því að dælda bílana.
![]() |
17 ný umferðarmerki taka gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.6.2013 | 23:01
Bráðskemmtileg og holl aðferð við að matreiða eggjahræru
Mörgum vex í augum að matreiða eggjaköku (ommilettu). Enda er það töluvert stúss. Það er fráhrindandi. Fólk þarf helst að hafa skál og þeytara eða písk við höndina. Það eiga bara ekki allir skál og þeytara eða písk. Þá er gott að kunna hina aðferðina. Hún er þannig: Þú tekur hrátt egg og vefur því innan í handklæði. Því næst vefur þú snæri þétt utan um handklæðið sitthvoru megin við eggið og hnýtir rembihnút á. Eggið þarf að sitja pikkfast innan í handklæðinu og vera vel dúðað.
Þessu næst bindur þú snærisspotta í sitthvorn enda handklæðisins. Snærisspottarnir þurfa að vera nógu langir til að þeir ásamt handklæðinu myndi sippuband. Svo er bara að vippa sér út á mitt gólf og sippa 20 sinnum. Gæta skal þess vandlega að sá hluti handklæðisins sem er vafinn utan um eggið lendi ekki í gólfinu. Að minnsta kosti ekki mjög harkalega. Enginn skal efast um hollustu þess að sippa. Betri líkamsrækt er vandfundin ef frá eru taldir göngutúrar, sund, hjólreiðar, skokk...
Að þessu loknu er sömu aðferð beitt við næsta egg. Og þar næsta. Og öll þau egg sem fjölskyldan ætlar að snæða þann daginn. Þar á eftir eru eggin soðin í vatni alveg eins og venja er. Þegar skurnin er fjarlægð af soðnum eggjunum kemur þessi fínasta ommiletta í ljós.
Spaugilegt | Breytt 27.6.2013 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2013 | 21:38
Hvað er að gerast með unga fólkið í dag?
Nýverið hlustaði ég á Útvarp Sögu. Reyndar hlusta ég á Útvarp Sögu á hverjum degi. Í þessu tiltekna dæmi sagði maður nokkur (að mig minnir Kristinn Snæland. Kannski einhver annar) áhugaverða sögu. Hún var af vini sögumanns. Vinurinn fékk það skemmtilega verkefni að sækja afadóttur sína, 12 ára stelpu, reglulega úr einhverju námskeiði og skutla henni heim. Afinn hlakkaði til að fá þetta tækifæri til þátttöku í lífi stelpunnar. Hann sá fram á mörg skemmtileg samtöl.
Þegar á reyndi varð lítið um spjall. Stelpan var aldrei fyrr sest inn í bílinn hjá afa en hún dró upp síma og hamaðist stöðugt á lyklaborði hans. Hún mátti ekkert vera að því að spjalla við afa. Síminn átti allan hennar hug.
Þessi frásögn rifjaðist upp fyrir mér í dag. Þá átti ég erindi í matvöruverslun. Mig langaði í kalt Malt. Á stéttinni fyrir utan urðu á vegi mínum þrjár unglingsstúlkur. Þær voru á leið inn í verslunina. En hömuðust allar steinþegjandi á síma sína. Það vakti undrun mína hvað þær gengu hratt og örugglega þrátt fyrir að vera með augu límd á símaskjái.
Eins og oft vill verða þegar farið er inn í matvöruverslun ílengdist ég örlítið. Mér varð á að kaupa fleira en Malt þegar upp var staðið. Þegar ég hélt að afgreiðslukassa lenti ég í röð á eftir stelpunum. Þær voru ennþá að hamast á símunum. Rétt á meðan þær borguðu fyrir sælgæti og gosdrykki fékk síminn smá frí. Við það tækifæri skiptust þær á örfáum orðum. Það sannaði að þær voru ekki mállausar. Samt þögðu þær á leið út, allar að hamast á símanum.
Er þetta það sem koma skal? Hættir fólk að tjá sig munnlega? Færist spjall og önnur samskipti fólks inn í síma og tölvur?
Ég held að það hafi verið 1998 eða 1987 sem ég var staddur í Kaupmannahöfn. Þar rölti ég eftir gangstétt. Við hlið mér gekk ókunnugur danskur maður. Það voru ekki fleiri staddir þarna nálægt. Við röltum nánast hlið við hlið. Skyndilega heilsar Daninn á dönsku. Ég tók undir kveðjuna. Hann spurði hvað væri títt. Ég svaraði að ég segði allt gott. Áfram hélt spjallið í smá stund. Mér þótti einkennilegt að Daninn horfði aldrei til mín. En spjallið hélt áfram. Ég horfði á Danann þegar ég svaraði honum. Svo tók ég allt í einu eftir því að hann var með tól á eyranu og þráð sem hékk þaðan niður í brjóstvasa. Það var í fyrsta skipti sem ég sá það sem kallast handfrjálsan búnað. Daninn var að tala í síma - við einhvern annan en mig.
Spaugilegt | Breytt 26.6.2013 kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2013 | 22:03
Einfalt sparnaðarráð fyrir þá sem eiga ekki ljósmyndavél
Flestir eiga sér draum. Draum um að taka ljósmyndir. Margir þeirra eiga sér einnig annan draum. Draum um að eiga ljósmyndavél. Draum um að taka á hana ljósmyndir. Ljósmyndir til að hengja upp á vegg. Skreyta húsakynni sín - og jafnvel annarra - með þessum ljósmyndum.
Vandamálið er það að sumt af þessu draumórafólki er fátækt. Það á engan pening fyrir ljósmyndavél. Sumt af þessu draumórafólki á að vísu pening fyrir ljósmyndavél. En það á engan pening fyrir því að láta framkalla myndina yfir á pappír.
Hvað er þá til ráða? Lausnin er einföld. Hún felst í því að teikna myndir sem líta út alveg eins og ljósmyndir. Eiginlega þarf lítið annað til en þolinmæði. Það er seinlegt að rissa upp þannig myndir. En hvað liggur svo sem á? Hver er að flýta sér? Er einhver að missa af strætó?
Þetta er sömuleiðis gott sparnaðarráð fyrir hvern sem er. Málið er að nostra við smáatriðin. Nostra og nostra. Það má til að mynda fá ókeypis brúnan innpökkunarpappír á næsta pósthúsi og dusta rykið af trélitunum. Þá verður útkoman svona:
Ef enginn er pappírinn þá er málið að teikna á vegginn.
Ef engir litir eða málning er til taks er hægt að nota kolamola. Útkoman verður eins og svart-hvít ljósmynd.
Ef illa gengur að ná tökum á teikningunni getur verið ráð að vinna myndina á haus. Það gefst oft betur.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.6.2013 | 23:44
Mjög örstutt smásaga um bíl
Sólin skín á himni og varpar hlýjum geislum til jarðar. Blessuð sólin elskar allt. Það er heppilegt að hún skíni á himni en ekki einhvers annars staðar. Þá væri ekki eins gott veður. Tóti litli tindilfætti hefur lokið námi í Háskólanum. Hann er staurblankur eftir margra ára nám. Vikum saman voru aðeins kínverskar núðlusúpur í matinn. Þetta er erfitt. Hann hefur fyrir fjölskyldu að sjá. En nú er hann útskrifaður úr sínu fagi, kominn með vinnu og fastar tekjur. Hann er samt auralaus eftir þrengingar námsáranna.
Tóti er laghentur. Hann er þúsund þjala smiður. Allt leikur í höndunum á honum. Hann dreymir um að eignast stóran alvöru amerískan glæsikagga. Fjármálin leyfa það ekki. Þennan sólríka dag hittir Tóti frænda sinn. Sá er að láta afskrá gamlan Kadilják sem fékk ekki skoðun. Bíllinn er gangfær. "Boddýið" er hinsvegar ónýt ryðhrúga og að auki dældað á öllum hliðum.
Tóti er snöggur að suða Kadiljákinn út úr frænda. Hans næsta verk er að taka á leigu bílskúr til fjögurra mánaða. Öll næstu kvöld og allar helgar fara í að gera gamla bílinn upp. Tóti fjarlægir af bílnum króm, ljós, rúður og annað slíkt. Hann fer með slípirokk yfir ryðblettina, réttir beyglur og ryðbætir öll göt. Það er sparslað og grunnmálað. Að næstum fjórum mánuðum liðnum er bíllinn tilbúinn undir sprautun. Tóti fer í Bílanaust og finnur þar fallegustu bílamálningu sem hann hefur séð: Gull-sanseraða málningu í úðabrúsa. Í samráði við sölumann kaupir Tóti þá spreybrúsa sem til þarf í verkið. Sölumaðurinn ráðleggur honum að æfa sig fyrst á að spreyja á pappa til að fá tilfinningu fyrir fjarlægð og því hvað þarf að úða miklu á fastan flöt bílsins.
Þetta er á föstudegi. Tóti hefst þegar handa. Hann byrjar á að sprauta bílinn aftan frá. Allt gengur rosalega vel. Tóti nær að mála aftari hluta bílsins eins og best verður á kosið. Vandvirkni ræður för. Upp úr miðnætti gerir Tóti hlé á. Hann heldur áfram daginn eftir. Og næstum líkur verkinu þegar komið er að kvöldi. Þá þagnar síðasti spreybrúsinn. Bíllinn er allur fagurlitaður gull-sanseraða litnum. Nema frambrettið vinstra megin.
Þegar hér er komið sögu var Hvítasunnuhelgi. Tóti er svo spenntur fyrir því hvað bíllinn sé fínn að hann dundar sér alla Hvítasunnuhelgina við að koma aftur fyrir í bílnum rúðum, ljósum og krómi. Á þriðjudeginum mætir hann fyrstur manna í Bílanaust til að kaupa einn málningarbrúsa til viðbótar svo vinstra frambrettið fái sama lit og bíllinn. "Því miður. Þessi litur er ekki til. Hann er uppseldur," svarar afgreiðslumaðurinn.
Tóti biður hann um að panta meira af þessum lit. Við eftirgrennslan kemur í ljós að framleiðslu á þessum lit hefur verið hætt. Góðu fréttirnar eru þær að ómálaða brettið er farþegamegin. Tóti kemst þess vegna hjá því að horfa á það. Að nokkrum dögum liðnum er hann búinn að steingleyma ómálaða brettinu. Aðeins farþegar og aðrir sjá það. Þeim þykir þetta kjánalegt.
Fleiri smásögur og leikrit:
Spaugilegt | Breytt 24.6.2013 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2013 | 00:40
Misskilningur
Það er glæsileg sýning hjá farandsirkusnum. Í einu atriði kemur maður með stóran krókódíl inn á svið. Maðurinn klæðir sig úr rándýrum jakkanum og brýtur hann rækilega saman. Síðan bankar hann tvö högg á höfuð krókódílsins. Viðbrögð krókódílsins eru þau að opna ginið upp á gátt. Maðurinn leggur jakkann á neðri skolt krókódílsins. Krókódíllinn lokar þegar í stað kjaftinum svo hvergi sést í fína jakkann.
Maðurinn bankar aftur tvö högg á höfuð dýrsins. Það opnar ginið. Maðurinn tekur jakkann úr kjafti krókódílsins, fer í jakkann, snýr sér í hring og hneigir sig. Síðan spyr hann áhorfendur hvort að einhver þeirra hafi kjark og þor til leika þetta eftir.
Gömul kona stendur upp. Hún staulast hægt og með erfiðismunum upp á svið. Þegar hún er komin að manninum segir hún: "Þú mátt ekki banka mjög fast í höfuðið á mér. Ég er svo gömul og veikburða."
Spaugilegt | Breytt 23.6.2013 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)