Færsluflokkur: Spaugilegt

Hvar er húfan mín?

   Víða sunnar á hnettinum gengur fólk um bísperrt með hatt á höfði.  Það er til að verjast sterkum sólargeislum.  Bæði til að hlífa augunum og einnig til að forðast - eins og fætur toga - að verða rauðháls.  Í aldanna rás hefur fagurt og glæst höfuðfat orðið stöðutákn.  Því veglegra sem höfuðfatið er þeim mun merkilegri á eigandi höfuðsins að vera.  Af þessu hafa sprottið ýmsar tískubylgjur og skemmtileg afbrigði.  Höfuðfötin eru skreytt með fjöðrum, blómum, borðum og allskonar glingri.

  Einna lengst er gengið í Finnlandi hvað þetta varðar.  Finnar þurfa reyndar ekki að skýla sér fyrir sól eða vindum.  Þar er svalandi logn.  Fyrir bragðið geta Finnar leyft sér höfuðskraut án tillits til veðurs.  Þeir geta gripið eitthvað fallegt úr náttúrunni og hrúgað því á höfuðið.  Þetta getur verið rabbabari,  fífur,  söl,  trjágreinar,  gras eða annað sem fegrar viðkomandi og gefur tignarlegt yfirbragð.  Það þarf ekki að sauma neitt eða kosta öðru til. 

  Karlmenn skreyta iðulega herðarnar í stíl.  Þeim þykir vera reisn yfir því.  

  Svo einkennilegt sem það er þá er það einungis elsta kynslóðin sem keppist við að vera með höfuðskraut.  Ungir Finnar láta ekki sjá sig með svoleiðis.  Þeim þykir þetta asnalegt.

finni2finni1finni4finni5finni7finni6finni3

  Ungir Finnar safna frekar hári og greiða það fram í langan topp.  Þetta eru svölustu rokkstjörnurnar í Finnlandi:


Ekki gera ekki neitt

  Nú er ekki rétti tíminn til að híma inni í myrkum kompum.  Það er komið að því að rífa sig upp úr sleninu,  spretta á fætur og fara út úr húsi.  Muna bara eftir því að klæða sig til samræmis við veðrið.  Það er ekkert sem heitir vont veður heldur aðeins að vera ekki rétt klæddur.  Það er ekki nóg að fara einungis út úr húsi.  Málið er að komast út í náttúruna.  Njóta hennar í botn og leika við dýrin sem á vegi verða.

utivist1.jpgutivist2.jpgutivist3.jpgutivist4.jpgutivist8.jpgutivist7.jpg


mbl.is Gæsirnar flúnar vegna kulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta mjólk í heimi

  Tveir enskir bræður selja dýrustu mjólk í heimi.  Það er togast á um hvern dropa af henni.  Hún þykir svo rosalega góð.  Bretar selja allan vökva í hálfpottsskammti (570 millilítrar).  Bræðurnir selja hálfpottinn af mjólkinni á 250 sterlingspund (45 þúsund íslenskar krónur). 

  Leyndarmálið á bak við bragðgæði mjólkurinnar er margþætt.  Að hluta til liggur það í fóðrinu sem kúnum er gefið.  Það samanstendur af sérinnfluttu korni úr svissnesku Ölpunum annars vegar og hinsvegar japönsku þangi.  Mestu máli skiptir hinsvegar að þegar bræðurnir eru ekki að fóðra beljurnar þá fer vinnudagur þeirra í að gefa kusunum notalegt höfuðnudd tímunum saman.  Það gefur mu-mu góða tilfinningu.  Þeim líður vel.  Það skilar sér í góðri mjólk.    

  Þetta geta íslenskir bændur tekið sér til fyrirmyndar.  Þeim þykir hvort sem er gaman að nudda;  standa í þessu eilífa nuddi.  Nóg er til af þangi við Íslandsstrendur.  Það er spurning með kornið.  Kannski vex korngras við Vatnajökul?


Þannig á að koma sér í form fyrir sumarverkin

  Nú styttist í öll skemmtilegu sumarverkin og dútlið í garðinum.  Hvað er skemmtilegra en anda að sér nýsleginni töðu á sólríkum sumardegi,  raka hana saman,  reita arfa,  kveikja á grillinu,  sötra ískaldan bjór,  grilla nokkrar lambasneiðar og baka kartöflur?  Sumardagurinn fyrsti (einnig kallaður fyrsti dagur Hörpu) er núna á Þórsdaginn,  25. apríl.  Í Færeyjum heitir sá dagur fánadagurinn.  Þá draga Færeyingar færeyska fánann að húni.  Íslendingar draga íslenska fánann að húni.  Þannig fögnum við sumarkomunni.

  Stóra vandamálið við sumarverkin er að fólk veit aldrei hvernig það á að hefja verk.  Koma sér af stað og koma sér í rétta gírinn.  Hér er auðskilið kennslumyndband sem sýnir á skilmerkilegan hátt hvernig best er að standa að því:

 

  Í þessari örstuttu, eldsnöggu og léttu leikfimiæfingu fara fram snarpar teygjuæfingar.  Um leið fær líkaminn gott adrenalínkikk.  Í nokkrum kröftugum andköfum eru lungun fyllt af súrefni sem berst til heilans og skerpir á hugsun dagsins.  Að auki hellist yfir löngun til að tína upp rusl af gangstétt,  götu og garði nágrannans og koma ruslinu aftur ofan í ruslatunnur hans.  Það er afgreitt með hraði því löngunin til að hefja sem allra fyrst sumarverk í eigin garði er miklu sterkari.     


Brandari í íslenskri auglýsingu orðinn að veruleika

hurðin úr heimili Pauls

  Munið þið eftir Lottó-auglýsingunum með Jóni Gnarr?  Þar lék hann Lýð Oddsson.  Sá hafði margt fróðlegt að segja um líf sitt sem auðmanns í kjölfar þess að vinna í Lottói.  Fyndnasta sjónvarpsauglýsingin gekk út á það að Lýður hefði fjárfest í hurð.  Hurðin var áður í eigu söngvarans Barrys Manilows.

  Fyndni brandarans lá í langsóttri veruleikafirringu tengdri fræga (Séð og heyrt) fólkinu.  Eða hvað?  Fyrir helgi var sett í sölu hurð úr húsi sem hýsti bítilinn Paul McCartney á unglingsárum hans.  Paul bjó í húsinu í örfá ár frá 13 ára aldri.  Síðar gekk Paul til liðs við skólahljómsveit Johns Lennons,  Quarrymen.  Hún breyttist í The Beatles og starfaði í Þýskalandi áður en heimsfrægðin bankaði á dyr.  Ekki samt sömu dyr og voru nú til sölu.  Ási heitinn vinur minn (bróðir Röggu Gísla) sá The Beatles skemmta í Þýskalandi á sínum tíma.  Það er önnur saga.

  Um er að ræða hrörlega gulgræna útihurð.  Uppsett verð fyrir hurðina var um milljón ísl. kr.  (5000 sterlingspund).  1970 var hurðin tekin úr umferð og sett í geymslu.  Þegar á reyndi var togast á um hurðina og hún að lokum seld á 1,5 millj. ísl. kr. (7500 sterlingspund). Kaupandinn hyggst leyfa Bítlaaðdáendum að taka ljósmynd af sér gegn greiðslu við hurðina.  Á hurðinni er póstlúga sem þeir geta smeygt í gegn umslagi merktu sér.  Þetta fjárfesting til lengri tíma. 


Vitlausa fólkið ofsótt

  Það er ekkert gamanmál að vera vitlaus.  Ég get vottað það.  Vitlausa fólkið verður iðulega fyrir aðkasti frá þeim sem telja sig vitið hafa meira.  Og reyndar einnig frá öðru vitlausu fólki.  Enda er oft kvartað undan einelti í garð tiltekinna vitlausra.  Oftast án þess að sá vitlausi hafi gert sér grein fyrir því sjálfur.  Sem er svo sem ekkert skrítið vegna þess að sjaldnast er um eiginlegt einelti að ræða.  Það er aðeins verið að gengisfella orðið einelti.  

  Nú hefur Ólafur Ólafsson,  sakborningur í Al-Thani málinu,  upplýst að afar sérstakur saksóknari sé tekinn upp á því "að hlera vitlausa menn úti í bæ".   Vitlausa fólkið er hvergi óhult.   


mbl.is „Hlera vitlausa menn úti í bæ“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráð frá Ráðgjafahorni heimilanna: Gestasæti

  Allir kannast við það að fá stundum í heimsókn leiðinlegan gest.  Gest sem skemmir góða og afslappaða kvöldstund í faðmi fjölskyldunnar.   Það er til ráð við þessu.  það er að koma sér upp góðu og hlýlegu sæti á afskektum stað í húsinu. Til að mynda við hliðina á stiga.  Þar er leiðinlega gestinum boðið sæti.  Honum er fært mjólkurglas og kannski kexkaka.  Svo er hann bara skilinn eftir þar.  Á meðan kemur heimilisfólkið sér fyrir í stofunni og horfir á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu án þess að skipta sér af gestinum sem situr aleinn við hliðina á stiganum allt kvöldið.

saeti_vi_stiga_1197320.jpg

 


Byltingarkennd hönnun

  Fréttir frá umheiminum berast seint og illa til íbúa í Norður-Kóreu.  Jafnvel þeir hæst settu í Norður-Kóreu - sem búa ekki við eins harða ritskoðun og almenningur - sitja uppi með allskonar brenglaðar hugmyndir af veruleikanum.  Upplýsingaflæðið er svo takmarkað og misvísandi. 

  Nýverið barst - eftir krókaleiðum - leiðtoga Norður-Kóreu,  Kim Jong Un,  til eyrna óljóst slúður um að Hussein,  forseti Bandaríkja Norður-Ameríku,  ætti vatnsrúm.   Kim vildi eðlilega ekki vera eftirbátur Husseins.  Báðir leiðtogar norður-ríkis sem á kjarnorkuvopn og samstíga um margt fleira.

  Kim setti færustu verkfræðinga og hönnuði Norður-Kóreu umsvifalaust í það verkefni að hanna fyrir sig vatnsrúm.  Til að trompa kollegann í Norður-Ameríku bað Kim um að sitt vatnsrúm væri með áföstu lesljósi - svo að hann geti lesið ljóð eftir föður sinn undir svefninn. 

  Útkoman fór fram úr björtustu vonum.  Vatnsrúmið þykir einstaklega smart.

vatnsrúm 

 


mbl.is Sprenging talin í undirbúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smásaga um rómantíska helgarferð til Parísar

    Myrkur grúfði yfir djúpunum og andi súrrealisma sveif um draumaheima.  Vekjaraklukka rauf þögnina assgoti harkalega.  Jói á skóflunni spratt á fætur,  greip eldsnöggt til hamars á náttborðinu og mölbraut vekjaraklukkuna með hnitmiðuðu hamarshöggi. 
  "Verði ljós," hugsaði Jói um leið og hann ýtti á slökkvarann.  "Það er skrítið að kveikja ljós með því að ýta á slökkvara," hugsaði Jói og var dálítið rangeygur á því augnabliki.
  Svo leit hann í kringum sig.  Hann kom auga á ókunnuga konu sem svaf við hlið hans.  Hún var vöknuð og horfði undrandi á Jóa. 
  "Ðaðaðaðaðaðaða," sagði konan ákveðin.  Svo bætti hún við ennþá ákveðnari:  "Ða ða."
  Jói á skóflunni hugsaði með sér:  "Það getur verið gott að kunna þennan frasa ef að ég lendi í því að kveðast á við einhvern."  Í keppni í kveðskap þarf staka að byrja á sama staf og staka keppinautarins endar á.  Yfirleitt tapar sá sem fær framan í sig eins og blauta tusku stöku sem endar á stafnum ð.  Upphátt spurði Jói á skóflunni:
  "Af hverju talar þú svona einkennilega?"
  Konan svaraði samviskulaus:  "Vegna þess að tungan á mér er föst við góminn.  Ég talaði svo mikið í gær að tungan á mér bræddi úr sér.  Þá klauf ég hana.  Eftir það fór ég að tala tungum tveim.  Til að laga þetta ætlaði ég að kaupa gel sem heitir Tungutak.  Í ógáti keypti ég gel sem heitir Tonnatak. Það límdi tunguna við góminn."
  Jói á skóflunni hafði engan skilning á þessu.  Hann heyrði ekki einu sinni hverju konan svaraði.  Hann hófst þegar handa við að klæða sig í spariföt. 
  "Hvað er klukkan?" spurði konan.  Hún var forvitna týpan.
  "Hvernig á ég að vita það?" ansaði Jói. 
  "Kanntu ekki á klukku?" spurði konan forvitnari en áður.
  "Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að kunna á klukku þegar ég á ekki einu sinni úr?" spurði Jói á móti. 
  Jói hafði aldrei séð þessa konu áður.  Hann hugsaði:  "Hvernig komst þessi kona inn til mín?" 
  Samstundis fékk hann bakþanka sem jöðruðu við þunglyndi.  Hvað var hann að hnýsast í einkamál ókunnugrar konu?  Hann velti samt fyrir sér möguleikum:  Skreið hún inn um glugga?  Hafði hún skotist inn til hans þegar hann skrapp út til að sækja póstinn sinn?
  Jói lauk við að klæða sig í jakkaföt úr íslenskri kjötsúpu (besta sem ég fæ).  Hann setti á sig bindi;  sparibindi.  Flott dömubindi.  Hann sýndi á sér fararsnið.
  "Hvert ertu að fara?" spurði forvitna konan. 
  "Í vinnuna," svaraði Jói undanbragðalaust.  "Ég vinn á flugvellinum hérna rétt hjá," útskýrði hann til að enginn misskilningur kæmi upp.
  "Það er enginn flugvöllur hérna," fullyrti konan.
  "Jú," svaraði Jói.  "Hann er neðanjarðar og fáir vita af honum.  Þetta er leynilegur njósnaflugvöllur."
  Jói gekk út í nóttina.  Hann ætlaði út á strætóstoppistöð en villtist.  Á vegi hans varð gömul kona í hjólastól.  Hún gerði sér dælt við Jóa. 
  "Vilt þú giftast mér," spurði gamla konan.
  "Ertu viss um að við séum ekki þegar gift?" spurði Jói og taldi áríðandi að það kæmist á hreint.
  "Já,  ég hef aldrei gifst," svaraði sú gamla. 
  "Ég kannast samt svakalega vel við þig," svaraði Jói.
  "Það gæti verið vegna þess að ég bjó heima hjá þér frá því að þú fæddist og leigi ennþá í kjallaranum heima hjá foreldrum þínum," útskýrði konan. 
  "Það getur svo sem verið," játaði Jói á skóflunni og hélt áfram för.  Á næsta götuhorni hitti hann fallegustu konu sem hann hafði augum litið.  Nei,  það var reyndar á þar næsta götuhorni.
  Jói á skóflunni var dolfallinn af hrifningu.  Hann spurði konuna hvort að hann mætti bjóða henni út að borða.  Hún tók vel í það.  Hann leiddi hana að pylsuvagninum Bæjarins bestu og bauð henni upp á pylsu með öllu.  Fjárhagurinn leyfði ekki að hann spanderaði í gosdrykk með.  Það var í góðu lagi.  Pylsan var safarík. 
  "Má ég bjóða þér í rómantíska helgarferð til Parísar um næstu helgi?"  spurði Jói. 
  Fallega konan samþykkti það.  Þau bundust fastmælum um að hittast á Flugstöðinni í Keflavík klukkan 3 næsta föstudag og verja rómantískri helgi í París fram til mánudags.
  Jói mætti tímanlega á Flugstöðina í Keflavík.  Tíminn leið.  Ekkert bólaði á fallegu konunni.  Nöfn þeirra voru kölluð upp í hátalarakerfi Flugstöðvarinnar.  Síðasta útkall.  Þá birtist gamall maður í göngugrind.  Hann gekk rakleiðis til Jóa.  Heilsaði honum og kynnti sig sem afa fallegu konunnar.  Hann útskýrði málið.  Fallega konan hafði dottið.  Afinn lá undir grun um að hafa hrint henni niður stiga.  Það kom fram síðar.  Fallega konan var fótbrotin og handleggsbrotin.  Hún lá á spítala.  Afinn vildi ekki láta helgarferðina til Parísar ónýtast.  Þess vegna mætti hann í staðinn fyrir fallegu konuna.
  Jói á skóflunni var ekki sáttur.  Hann ákvað þó að gera gott úr þessu.  "Ég týni kallinum bara á flugvellinum í París," hugsaði hann.  Það gerði hann.  Síðan hefur ekkert til afans spurst.
.
.
Fleiri smásögur og leikrit:
.
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
 - Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.

Anna á Hesteyri sendi póst

Anna Marta

  Þegar aldurinn færðist yfir Önnu frænku á Hesteyri dró úr póstsendingum frá henni.  Kannski vegna þess að rithöndin varð óstyrkari.  Kannski vegna þess að sjón dapraðist.  Kannski þó helst vegna þess að hún fór að nota síma í auknum mæli eftir að landið allt varð eitt og sama gjaldsvæðið hjá Símanum.  Áður var mjög dýrt að hringja út fyrir sitt gjaldsvæði.  Þannig símtöl kölluðust langlínusímtöl.  Lengst af var að auki aðeins hægt að hringja langlínusamtöl á afmörkuðum tímum dags:  Klukkutíma að morgni og tvo klukkutíma síðdegis.  Eða eitthvað svoleiðis.

  Þó að landið yrði eitt gjaldsvæði þá voru símreikningar Önnu mjög háir.  Jafnan upp á tugi þúsunda.  Hún var stundum í vandræðum með að standa skil á þeim. 

  Hugsanlega sendi Anna oftar póst en við ættingjar og vinir hennar urðum varir við.  Anna varð nefnilega sífellt kærulausari með að merkja nákvæmt póstfang á umslögin.

  Um tíma bjó ég á Grettisgötu 64 í Reykjavík.  Flest hús við Grettisgötu eru fjölbýlishús (blokkir).  Þetta eru gamlar byggingar og gamaldags.  Á útidyrahurð hvers stigagangs er ein bréfalúga.  Inn um hana setur póstburðarmaðurinn allan póst í einni hrúgu.  Íbúarnir sjálfir fiska síðan úr bunkanum sinn póst. 

  Eitt sinn sá ég í pósthrúgunni umslag með áletruninni  "Heimilisfólkið á Grettisgötu í Reykjavík".  Umslagið hafði verið opnað.  Ég kíkti í umslagið.  Það innihélt fjölda ljósmynda af Önnu,  foreldrum hennar,  mömmu minni og hennar systkinum og afa mínum.  Þegar ég kannaðist svona vel við fólkið á myndunum þekkti ég einnig rithönd Önnu utan á umslaginu.  Póstsendingin var frá Önnu til mín.  Ég rak jafnframt augu í að póststimpillinn á umslaginu var margra vikna gamall.

  Á þessum árum lagði póstburðarfólk sig í líma við að koma öllum pósti til rétts viðtakanda hversu fátæklegar,  rangar eða villandi sem upplýsingar utan á umslagi voru.  Í þessu tilfelli hafði póstburðarmaðurinn brugðið á það ráð að bera sendinguna frá Önnu fyrst á Grettisgötu 1.  Þegar enginn veitti umslaginu viðtöku þar var það næst borið út á Grettisgötu 2.  Þannig koll af kolli uns það barst loks í réttar hendur á Grettisgötu 64.    

  Anna frænka féll frá 2009.  Fyrir jólin 2008 hringdi í mig kona.  Hún kynnti sig með nafni og sagðist hafa fengið jólakort frá Önnu á Hesteyri.  Konan þekkti Önnu ekki neitt en hafði lesið um hana á blogginu mínu.  Konan var þess fullviss að jólakortið væri ætlað einhverri alnöfnu sinni.  Þær væru nokkuð margar svo konan brá á þetta ráð;  að hringja í mig.  Utan á umslagið hafði Anna aðeins skrifað nafnið og Reykjavík.  En ekkert heimilisfang. 

  Nafnið hringdi einhverjum bjöllum hjá mér.  Ég hafði heyrt það áður.  Ég bað konuna um að lesa fyrir mig textann í jólakortinu.  Þar kallaði Anna viðkomandi systir.  Þá áttaði ég mig á því að Anna hefði nefnt þetta nafn einhvern tíma við mig í samhengi við aðventísta (Anna var aðventísti).  Mér dugði að hringja í Kirkju sjöunda dags aðventísta og spyrja um heimilisfang konunnar.  Hún reyndist vera búsett í Kópavogi (en ekki Reykjavík). 

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1286915/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband