Færsluflokkur: Spaugilegt
15.6.2013 | 21:21
Þekkir þú skepnuna?
Fólk ofmetur iðulega þekkingu sína á dýrum. Fólk heldur að það þekki dýr sem það umgengst oft. Jafnvel daglega. Það heldur líka að það þekki dýr sem ber sjaldnar fyrir augu. Látum reyna á þekkinguna. Hér eru myndir af nokkrum dýrum. Langt þar fyrir neðan eru nöfnin á þeim.
Mynd A
Mynd B
Mynd C
Mynd D
Mynd E
Mynd F
Mynd G
Mynd H
Mynd I
-
-
-
-
-
-
-
-
-
Mynd A: Þetta er augabrúnamaur. Hann lifir í augabrúnum á okkur og víðar á skrokknum. En aðallega í augabrúnum. Þar grefur hann sig niður að hluta og skemmtir sér vel. Sú er ástæðan fyrir því að okkur klæjar stundum örlítið í augabrún. Þá er maurinn að krafsa. Af sömu ástæðu fáum við stundum eins og örlitla flösu í augabrúnir. Við varla sjáum hana reyndar. Við sjáum ekki maurinn eiginlega heldur. Nema vera með öflugt stækkunargler fyrir framan spegil. Góðu fréttirnar eru að maurinn styrkir ofnæmiskerfi líkamans. Hann heldur því sívakandi.
Mynd B: Höfuðlús. Þarna er hún að fikra sig áfram á mannshári, kvikindið atarna. Lengi vel þótti mikil prýði af höfuðlúsinni. Þeir lúsugustu voru eftirsóttir. Hvort heldur sem var til vinnu eða undaneldis.
Mynd C: Húsaflugulirfa.
Mynd D: Vespa
Mynd E: Fiðrildalirfa. Hún er krútt.
Mynd F: Skógarmítill. Hann er alveg að springa. Hann er svo uppbelgdur af blóði. Þetta er stórhættuleg skepna. Leitið upplýsinga um skógarmítil. Gúglið kvikindið.
Mynd G: Sæormur. Hann er örsmár.
Mynd H: Vatnabjörn. Hann er líka örsmár. Þú verður ekkert var við hann þó að drekkir hann.
Mynd I: Britney Spears
Spaugilegt | Breytt 16.6.2013 kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2013 | 21:39
Einvígi indverskrar prinsessu og geltandi frosks
Í gær kvaddi Bubbi Morthens sér hljóðs. Hann skipaði indversku prinsessunni, Leoncie (Icy Spicy), að halda kjafti. "Leoncie, farðu að þegja," sagði hann. Indverska prinsessan hlýddi ekki. Þess í stað kallaði hún Bubba geltandi frosk. Eða réttara sagt: Hún sagði hann hljóma eins og geltandi frosk. Það er eiginlega það sama. Til viðbótar dró indverska prinsessan hæfileika Bubba í efa. Mjög svo í efa. Bubbi hafði áður efast um hæfileika indversku prinsessunnar og sakað hana um að vera dóna. Þau gefa lítið fyrir hæfileika hvors annars. Hvað er til ráða?
Leoncie hefur komist að sanngjarnri niðurstöðu. Niðurstöðu sem gengur út á það að þau etji kappi hvort við annað. Fari í tónlistareinvígi. Eðlilega á hlutlausu svæði. Indverska prinsessan stingur upp á Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hún hefur sterkan grun um úrslitin: Að Bubbi fari grátandi heim.
Þorir Bubbi? Tekur hann áskorun indversku prinsessunnar? Eða lúffar hann? Í umræðunni á fésbók hallast flestir að því að hann setji skottið niður og þori ekki.
Spaugilegt | Breytt 15.6.2013 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.6.2013 | 00:48
Litlu verður Vöggur feginn
Ég brá mér norður í Skagafjörð. Það var nemendamót á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi. Endurfundir skólasystkina. Þvílíkt gaman. Við höfum hist á fimm ára fresti síðustu áratugi. Þetta er svo gaman að það slær flestu við. Núna erum við að nálgast sextugs aldurinn. Þegar við hittumst svona dettum við rúma fjóra áratugi aftur í tímann. Flest er eins og það var. Það er að segja stemmningin. Skemmtileg atvik rifjast upp. Hellast yfir. Á unglingsárunum áttaði maður sig ekki á því hvað við skólasystkinin vorum góðir vinir. Þegar við hittumst núna áttar maður sig betur á því hvað vinaþelið er sterkt; hvað manni þykir vænt um þessa góðu og skemmtilegu vini.
Allt annað: Í gær átti ég erindi í Neinn, bensínstöð við Hringbraut. Þar er út við glugga borð. Þar eru fjórir barstólar. Þeir voru auðir þegar ég mætti á svæðið. Ég keypti eitthvað smotterí og settist síðan á einn stólinn. Fór að glugga í vikuritið Grapevine. Eftir að hafa gluggað í Grapevine í nokkra stund stóð skyndilega yfir mér ábúðafullur maður merktur Landvélum. Hann horfði brúnaþungur á mig. Örvænting og ásökun skein úr hverjum andlitsdrætti. Að lokum stundi hann upp: "Ég sat hérna." Hann var greinilega miður sín og í ójafnvægi.
Ég sá í hendi mér að þetta sæti var honum kært. Ég ákvað þegar í stað að gera góðverk dagsins. Ég færði mig yfir í næsta sæti og hélt áfram að glugga í Grapevine. Hann tók umsvifalaust gleði sína og settist í gamla sætið sitt. Svo sátum við þarna tveir í dágóða stund og glugguðum í Grapevine. Það þurfti ekki meira til að gleðja hann. Hann kumraði af ánægju og sötraði appelsín. Litlu varð Vöggur feginn.
Spaugilegt | Breytt 14.6.2013 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
5.6.2013 | 22:37
Það er gaman að sjá fjörulabba
Víða um land, einkum á Vestfjörðum, er skemmtileg skepna á vappi. Hún heitir fjörulabbi. Fjörulabbi heldur sig að mestu í sjónum. Þegar enginn sér til laumast fjörulabbinn í land. Mest ber á því um fengitíma. Þá má sjá fjörulabba hér og þar í fjöru og jafnvel upp í hlíðum. Fjörulabba er alveg sama þó að hann sjáist. Hinsvegar gætir hann þess vandlega að enginn sjái hann koma upp úr sjónum né fara í sjóinn. Þess vegna hefur enginn séð það.
Fjörulabbi er svo gott sem alveg eins og kind að stærð og lögun. Reyndar hafa sjónarvottar komið auga á fjörulabba sem er alveg eins og hundur að stærð og lögun.
Fjörulabbi er ekki feiminn við ljósmyndavél. Þvert á móti sækir hann í að "pósa" fyrir framan myndavél. Besta aðferð til að komast í návígi við fjörulabba er að glenna framan í hann myndavél. Þess eru dæmi að foreldri ætli að taka mynd af börnum sínum á Vestfjörðum þegar fjörulabbi kemur aðvífandi, stuggar við börnunum og stillir sér upp fyrir framan ljósmyndavélina. Frekjan er svo gengdarlaus.
Spaugilegt | Breytt 6.6.2013 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.6.2013 | 00:26
Lulla frænka
Ég hef átt fleiri skemmtilega ættingja en Önnu á Hesteyri. Anna Marta og móðir mín voru bræðradætur. Systir pabba, Lulla, var líka skemmtileg. Ég hélt upp á hana. Hún var með annan fótinn á Kleppi og Geðdeild Borgarspítala. Margoft reyndi hún að svipta sig lífi áður en það tókst. Lulla var góð kona, trygglynd og ættrækin. Eftir að ég flutti sem unglingur til Reykjavíkur var hún dugleg að bjóða mér í heimsókn. Hún var sömuleiðis dugleg að heimsækja mig. Ekki síst eftir að synir mínir komu til sögunnar. Hún átti það til að koma í heimsókn mörg kvöld í röð. Það var gaman. Lulla frænka var alltaf skemmtileg.
Lulla gerði sér aldrei grein fyrir því að hún ætti við andleg veikindi að stríða. Þegar hún var vistuð inni á Kleppi eða Geðdeild Borgarspítala sagði hún: "Það halda margir að þetta sé geðdeild. Það er eins og hver önnur della. Þetta er heimili fyrir fólk sem þarf að hvíla sig."
Eitt sinn var Lulla sett í vinnu hjá Múlalundi. Múlalundur er það sem kallast verndaður vinnustaður. Þá sagði Lulla: "Það er alveg merkilegt hvernig getur safnast á einn vinnustað, eins og Múlalund, fólk sem eitthvað er að. Ef það er ekki vangefið eða geðveikt þá er það á hækjum eða í hjólastól. Það er eitthvað að öllum þarna nema mér.
Spaugilegt | Breytt 6.6.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2013 | 21:45
Anna á Hesteyri og bíllinn hennar
Anna frænka á Hesteyri var orðin nokkuð fullorðin þegar hún tók bílpróf og áskotnaðist Skoda bifreið. Mig minnir að frændi okkar, útgerðarmaður, hafi gefið Önnu bílinn og bílprófið. Eða alla vega verið henni innanhandar með hvorutveggja. Bíllinn reyndist Önnu mikið ævintýri. Hún skrifaði mömmu bréf og lýsti bílnum eins og um undur væri að ræða sem fáir hefðu séð með eigin augum.
Bílinn skoðaði Anna í bak og fyrir. Meðal annars vegna þess að hún þurfti að vita hvar einhver takki var í bílnum. Ég man ekki hvort að það var takki til að opna bensínlok, húdd eða skottlok. Anna og vinnukarl hennar skiptu liði og leituðu skipulega að takkanum. Karlinn leitaði inni í bílnum. Anna leitaði utan á bílnum. Þar á meðal skreið Anna undir bílinn. Það var afrek út af fyrir sig. Anna var það mikil um sig. Hún sagði þannig frá: "Það var aldeilis heppni að ég skyldi leita undir bílnum. Þar fann ég nefnilega varadekk. Ef ég hefði ekki leitað undir bílnum hefði mér aldrei dottið í hug að þar væri varadekk."
Bíllinn entist Önnu í mörg ár. Þó þjösnaðist hún á honum eins og um sterkbyggða dráttarvél væri að ræða. Á móti kom að bíllinn var aldrei mikið ekinn í kílómetrum talið. Að því kom að bíllinn gafst upp. Þá var Anna að keyra á honum yfir á með stórgrýttum botni. Anna hringdi miður sín í mömmu mína og sagði ótíðindin. Mamma spurði hvort bíllinn hafi lent á stórum steini sem hefði skemmt eitthvað undir bílnum. Anna andvarpaði, dæsti og svaraði döpur: "Nei, það er afar ólíklegt. Ég hef oft keyrt yfir stærri steina sem hafa bankað miklu fastar undir bílinn án þess að hann hafi drepið á sér. Það er einhver önnur ástæða fyrir því að bíllinn stoppaði."
Fleiri frásagnir af Önnu frænku: http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1290123/
Spaugilegt | Breytt 11.6.2013 kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.5.2013 | 00:42
Bestu trommuleikararnir
Spin er næst söluhæsta bandaríska músíktímaritið. Rolling Stone er söluhæst. Rolling Stone er jafnframt söluhæsta músíktímarit heims. Sala á þessum tímaritum í pappírsútgáfu hefur dalað töluvert eftir tilkomu internetsins. Pappírsútgáfan af Rolling Stone selst í hálfri annarri milljón eintaka í dag - eftir að hafa áður verið nálægt tveimur milljónum eintak. Pappírsútgáfan af Spin selst í hálfri milljón eintaka. Að mestu í áskrift út um allan heim. Það er svo einkennilegt í Bandaríkjunum að Spin og önnur bandarísk músíktímarit - önnur en Rolling Stone - eru ekki seld í blaðsöluvögnum eða sjoppum. Þess í stað eru helstu bresku músíktímaritin seld þar.
Engu að síður eru Spin og Rolling Stone ráðandi í heiminum í umfjöllun um rokkmúsík.
Nú hefur ritstjórn Spin tekið saman vel rökstuddan lista yfir bestu trommuleikara heims. Svona listar Spin ráðast ekki af samanburði á tæknilegri færni hljóðfæraleikara heldur hvað hljóðfæraleikararnir gera fyrir hljómsveitirnar sem sínar. Listar Spin eru þess vegna jafnan ólíkir öðrum slíkum listum.
Allir svona listar eru fyrst og fremst léttvægur samkvæmisleikur. Enginn Stóridómur. Smekkur fyrir músíkstílum og tónlist viðkomandi hefur margt að segja. Þetta er aðeins til gamans.
Þannig er listi Spin yfir bestu trommuleikarana:
1. Dave Grohl (Nirvana)
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2013 | 00:05
Varaforsetinn vill súkkulaðikúlur í stað blýkúlna
Varaforseti Bandaríkja Norður-Ameríku heitir Jói Biden. Hann hefur sérkennilegan kæk. Þegar hann skrökvar þá klípur hann í nefið á sér og kippir í. Fyrir bragðið er hann oft og iðulega blóðugur um nefið.
Nú hefur Jói fengið hugljómun og ákafan áhuga fyrir því að í Bandaríkjum Norður-Ameríku verði hefðbundnum byssukúlum, blýkúlum, skipt út fyrir súkkulaðikúlur. Rök hans fyrir því eru þau að blýkúlur séu varasamar og geti valdið skaða. Súkkulaðikúlur muni aftur á móti gleðja. Foreldri sem skjóti á börn sín í misgripum fyrir innbrotsþjófa kunni vel að meta að skjóta á þau súkkulaðikúlum í stað blýkúlna. Hrískúlur eru of léttar og ekki nothæfar. Gegnheilar súkkulaðikúlur - helst suðusúkkulaði - séu málið.
Jói bar þetta undir Hussein Obama forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Obama svaraði því til að hann sé mest fyrir hamborgara og mjólkurhristing.
Það jaðrar við að Pete Seeger (200 ára gamall) sé með færeyska húfu.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2013 | 22:35
Áríðandi að vita
Á eða við sturtu er að öllu jafna lítil hilla eða bakki. Vandamálið er að fæstir vita til hvers sá búnaður er. Sumir hengja fötin sín á þetta á meðan þeir skola af sér. Þá rennblotna fötin. Það er ekki gott. Aðrir koma þarna fyrir logandi kerti. Þeir ætla að hafa það kósý á meðan þeir sturta sig. Vatnið úr sturtunni er eldsnöggt að slökkva á kertinu. Þá er ekkert gaman lengur. Enn aðrir troða þarna allskonar sápum, sjampói, hárnæringu, Aloe Vera geli, rakáhöldum, hárlakki, tannbursta og allskonar. Þetta er ekki staður til að fylla með svoleiðis dóti.
Eini tilgangurinn með litlu hillunni er sá að þar er hægt að leggja frá sér bjórdósina á milli sopa.
Spaugilegt | Breytt 19.5.2013 kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2013 | 23:12
Það þarf að passa upp á bjálfa
Fólk kann ekki fótum sínum forráð. Það er bjálfar. Ef ekki væri fyrir ákveðni, árvekni og afskiptasemi opinberra embættismanna er næsta víst að margur lendi í vandræðum. Ekki aðeins með sig. Einnig með sína. Þökk sé mannanafnalöggunni og öðrum slíkum spaugfuglum.
Ábúðafulli, ábyrgðarfulli, metnaðarfulli og meira fulli embættismaðurinn nærist á því að veita bjálfum leiðsögn. Annars fer illa. Bjálfar gætu til að mynda tekið upp á því að synda í straumhörðum fossum við lífshættulegar aðstæður ef engin væri forvörnin. Hún felst í því að banna sund á svoleiðis stöðum.
Embættismenn eru vakandi og sofandi yfir því að koma auga á eitthvað sem áríðandi er að banna. Eða eitthvað til að beina bjálfum inn á réttar brautir. Forða þeim frá hættum og vandræðagangi. Stundum kemur fyrir að samviskusömustu og hugmyndaríkustu embættismönnum dettur ekkert í hug. En samviskan lætur þá ekki í friði. þeir vita að bjálfarnir treysta á leiðsögn þeirra. Bjálfarnir horfa um allt í leit að skiltum með upplýsingum um hvað má ekki. Frekar en að hafa ekkert skilti láta embættismenn setja upp skilti með upplýsingum um að skiltið sé ekki í notkun.
Í öðrum tilfellum er gripið til þess ráðs að gefa á skilti upp nánari upplýsingar um skilti sem þjónar engum öðrum tilgangi. Bjálfar fyllast öryggistilfinningu þegar þeir lesa upplýsingar um að þannig skilti megi ekki snerta vegna þess að brúnir þess séu hættulega beittar.
Embættismenn grípa oft til stílbragðs sem kallast stofnanamál. Það einkennist af því að enginn skilur almennilega hvað þeir eru að segja. Ekki þeir sjálfir heldur. Samt hljómar textinn ábyrgðarfullur og leiðbeinandi. Eins og: "Reykingar bannaðar innan 15 feta allsstaðar."
Huga þarf að og skima eftir skiltum frá embættismönnum hvar sem þau kunna að leynast. Brýnt er að vita að ekki megi skjóta vélhjólaknapa í landi Skógræktar ríkisins. Annað er útbreiddur misskilningur og refsivert athæfi.
Spaugilegt | Breytt 9.5.2013 kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)