Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Unga fólkið gerir mig hissa

  Eftir því sem ég eldist hærra upp ellilífeyrisaldurinn gengur mér verr að skilja hugsunarhátt ungs fólks.  Það er skrítið fólk.  Áðan verslaði ég smávegis í matvöruverslun.  Ung stelpa á kassanum stóð sig vel í að stimpla inn verðið á vörunum.  Að því búnu gaf hún mér fúslega upp heildarverð innkaupanna.  Ég greiddi með seðli sem nánast passaði við það.  Aðeins 2 krónur umfram.  Þá spurði stúlkan:  "Viltu afganginn?"  Ég varð eitt spurningarmerki:  "Af hverju ætti ég ekki að vilja afganginn?"  Hún svaraði:  "Þetta eru bara 2 krónur." 

 

 

   


Aðdáunarverður metnaður

  Á árum áður voru Prince Polo og kók þjóðarréttur Íslendinga - þá sjaldan er þeir gerðu sér dagamun.  Í dag er þjóðarrétturinn pylsa og Kristall með sítrónubragði. 

  Þangað til nýverið samanstóð pylsan af uppsópi af gólfi kjötiðnaðarmannsins.  Það eru breyttir tímar.  Nú til dags er eru meiri er meiri sérviska við framleiðsluna.

  Vinsælustu sölustaðir pylsunnar eru afgreiðslulúgur Bæjarins bestu.  Varast ber að rugla þeim saman við samnefnt héraðsfréttablað á norðanverðum Vestfjörðum.  Pylsan í Bæjarins bestu kostaði 430 kall uns verðið hækkaði í 480 á dögunum.  Nokkru síðar skreið það í 500 kall.  Núna er erlendir ferðamenn komu til landsins og hófu að hamstra pylsu var verðið snarlega hækkað í 550 kall.

  Þetta er alvöru bisness.  Fyrst að ferðamaðurinn er reiðubúinn að borga 550 kall með bros á vör þá um að gera að sæta lagi.  Hann hefur ekki hugmynd um að í bensínsjoppum á borð við Kvikk kostar pylsan 349 kall.  Verðmunurinn er 201 króna. 

pylsa 


Skammaður í búð

  Ég átti erindi í verslun.  Keypti fyrir 2000 kall.  Borgaði með hundraðköllum.  Pirraður afgreiðslumaður:  "Af hverju ferðu ekki í banka og færð seðla?"  Ég:   "Bankarnir eru lokaðir út af Covid-19"  Hann:  "Þá bíður þú með klinkið þangað til þeir opna."  Ég:  "Hvað er málið?"  Hann:  "Bara djöfulsins ruddaskapur að henda í mann hrúgu af 100 köllum."

 


Samherjasvindlið

Eftir að ég tók virkan þátt í starfsemi Frjálslynda flokksins skipti ég um hest í miðri á;  kúplaði mig út úr pólitískri umræðu.  Hinsvegar brá svo við í gær að vinur minn bað mig um að snara fyrir sig yfir á íslensku yfirlýsingu frá Anfin Olsen,  nánum samstarfsmanni Samherja í Færeyjum.  Þetta á erindi í umræðuna:  Reyndar treysti ég ekki minni lélegu færeysku til að þýða allt rétt. Þú skalt ekki heldur treysta henni.  Ég á líka eftir að umorða þetta almennilega. Ég hef fengið flogakast af minna tilefni.

Hefst þá málsvörn Anfinns:

Ég hef ítrekað sagt frá eignarviðskiptum í félaginu Framherja en útlitið verður stöðugt svartara um þessi viðskipti. Ég og konan eigum 67% hlut í Sp/f Framherja sem er móðurfélag félagsins. Hin 33% eiga Sp/f Framinvest. Í þessu félagi á Samherji 73% og ég og konan 27%. Samanlagður eignarhlutur Samherja í félaginu Framherja er 24%. Ég er forstjórinn og hef fullan ákvörðunarrétt ásamt nefndum í móðurfélaginu og dótturfélögunum sem eru P/F Akraberg, P/F Eysturoy og P/F Regn.

Í sjónvarpsþættinum var vísað til skjala um 16 peningaflutninga til og frá Framherja og Framinvest frá 2010. Allir flutningarnir voru vegna kaupa og sölu á skipum. 2011 var færeyski makrílkvótinn hækkaður úr 85000 tonnum í 150000 tonn. Aðeins eitt uppsjávarfyrirtæki var þá í Færeyjum sem gat tekið á móti makríl til matvinnslu. Vegna makrílstríðsins gátum við ekki landað erlendis. Okkur var nauðugur einn kostur að útvega frystiskip sem gat veitt og verkað eins og móðurskip, svo mest verðmæti fengjust úr þessum stóra makrílkvóta.

Høgaberg

2011 og 2012 Í samstarfi við Samherja gátum við útvegað eitt slíkt skip með hraði. 2011 keyptum við trollarann Geysir frá Katla Seafood sem hafði bækistöðvar í Las Palmas í Kanaríeyjum. Það er dótturfyrirtæki Samherja. Við settum skilyrði fyrir því að Katla Seafood myndi kaupa skipið aftur á sömu upphæð að vertíð lokinni. Þetta var endurtekið 2012. Þá var það systurskipið Alina. Skipin voru formlega kaypt, því þau þurfti að skrásetja í Færeyjum til að geta farið á veiðar. Hluti af áhöfninni var útlendingar. Samið var um að laun þeirra væru gerð upp samkvæmt montøravtaluni (ég held að þetta orð standi fyrir að umreikna) í dönskum krónum. Þrír fjárflutningar voru gerðir samtals upp á 4,9 milljónir króna. Katla Seafót fór frammá að annar kostnaður við skipin báðar vertíðirnar yrði greiddur í dollurum og evrum, til að losna við kostnað vegna gjaldeyrisskipta. Flutningarnir voru gerðir upp í gegnum Framinvest vegna þess að það félag hafði gjaldeyrisreikning til að gjalda Katla Seafood. Framherji gerði svo upp við Framinvest sömu upphæð í dönskum krónum. Gerðir voru upp fjórir fjárflutningar upp á til samans 6,1 milljón dollara og 38,047 evrur.

Fríðborg

2010 samdi Samherji við útgerðarfyrirtækið sem átti rækjuskipið Friðborg um kaup á skipinu. Samherji fór með kaupin í gegnum Framinvest sem er dótturfélag í Færeyjum. Kaupandinn var Katla Seafood á Akureyri, dótturfyrirtæki Samherja. Kaupverðið var millifært í gegnum Framinvest. Þegar allt var upp gert reyndist kaupverðið vera lægra og var mismunurinn endurgreiddur til Katla Seafood á Akureyri.

Akraberg

Sex fjárflutningar voru vegna kaupa P/F Akraberg á trollara frá þýska félaginu DFFU - Deutsche Fischfang Union, dótturfyrirtækis Samherja. Skipinu var breytt til að geta heilfryst slægðan og afhausaðan fisk, uppsjávarfisk og rækjur. Breytingin varð dýrari en reiknað var með. Bankarnir sem höfðu samþykkt að fjármagna kaupin, Realurin og Arion banki, vildu sjá skipið áður en endanlegt lán yrði veitt. Þá þurfti að fá millifjármögnun frá Esja Seafood, dótturfyrirtæki Samherja á Kýpur. Það lán var afgreitt í febrúar 2014, uppá 2,6 milljón evrur. Það var endurgreitt í fernu lagi síðar 2014. Sjötti fjárflutningurinn vegna milligreiðslunnar var í maí 2015. Hann var vegna vaxta og endanlegs uppgjörs vegna lánsins. Þetta var í evrum og var afgreitt í gegnum Framherja sem nú hafði fengið gjaldeyrisreikning. Síðar var gert upp við P/F Akraberg.

  KVF (færeyska sjónvarpið) telur grunsamlegt að ég hafi í útvarpi sagt að kostnaðurinn væri 140-150 milljónir er Akraberg kom til Færeyja þegar hið rétta var að kostnaðurinn varð 160 milljónir. Kaupverðið á Akraberg var 111,8 milljónir. Breytingin kostaði 51,2 milljónir. Lögfræðikostnaður, skráning og fleira var 2,0 milljónir. Það komu upp vandamál með skipið, og útgreiðslur fóru til færeyskrar þjónustu vegna breytinga og umbóta. Þetta skýrir muninn á upphæðinni sem ég gaf upp og endanlegum kostnaði.

Faroe Origin

16. og síðasti fjárflutningurinn sem KVF vísar til er vegna Faroe Origin. Þegar hlutafélagið Faroe Origin var stofnað með því fororði að kaupa hlut af aktivunum frá búnum (ég,veit ekki hvað þetta þýðir. Kannski eitthvasð um þá sem verða virkir í búinu?) frá Faroe Sedafood þá kom Samherji með 25% hlutafjársins. Starfsemin gekk illa. 2015 var hlutafé fært niður í 0. Síðan var nýtt hlutafjárútboð og hlutur Samherja varð 3,5 milljónir. Þá upphæð lagði Framherji til. Það var endurgreitt með einni millifærslu frá Esja Seafood á Kýpur í desember 2015.

Það eru forréttindi að vera í samstarfi við sterkt útlent fyrirtæki. Við höfum starfað með Samherja síðan 1994. Innanhúss viðskipti Samherja eru okkur óviðkomandi. Það er þungt fyrir mig, fjölskyldu mína og okkur öll í Framherja að vera sakaður um þátttöku í ólöglegum og óvanalegum viðskiptum sem ég á enga aðild að.

 


Furðuhlutir

  Fólk er alltaf að fá hugmyndir.  Sérstaklega fá margir hugmyndir um allskonar hluti og matvæli.  Stundum mætti uppfinningarfólkið hafa taumhald á sér í stað þess að hefja framleiðslu á uppfinningunni.  Til að mynda er stundum ástæða til að ráðast í markaðskönnun.  Hún gæti bjargað mörgum frá því að missa aleiguna í stóru gjaldþroti.  Hér má sjá nokkur dæmi sem markaðurinn hafnaði.

  Blátt sýróp var ekki að gera gott mót.  Né heldur augnhár fyrir bíla.  Hvað með gosdrykki með bragði á borð við beikon, hnetusmjör og buffaló-vængi?  Svo var það snilldin að sameina buxur og strigaskó.  Hárgreiða með tönnum og lautarferðarbuxur?  Hvað var þessi að pæla sem ætlaði að slá í gegn með barnapúða sem veldur martröð?  Eða sykurfrauð með pizza-bragði?

blátt syrópaugnhár á aðalljósumgosdrykkir með skrýtnu bragðisameinaðar buxur og skóhárgreiður með tennurbuxur fyrir lautarferðmartraðafígúra fyrir börncandy-flos með pizza-bragði  


Undarlegt samtal í banka

  Ég var að bruðla með peninga í bankaútibúi.  Það var tuttugu mínútna bið.  Allt í góðu með það.  Enginn var að flýta sér.  Öldruð kona gekk hægum skrefum að gjaldkera.  Hún tilkynnti gjaldkeranum undanbragðalaust hvert erindið var.  "Ég ætla að kaupa peysu hjá þér,"  sagði hún.  Gjaldkerinn svaraði:  "Við seljum ekki peysur.  Þetta er banki."  Konan mælti áður en hún snérist á hæl og gekk burt:  "Já,  ég veit það.  Ég hélt samt að þið selduð peysur." 

peysa


Söluhrun - tekjutap

 

 Sala á geisladiskum hefur hrunið,  bæði hérlendis og erlendis.  Sala á geisladiskum hérlendis var 2019 aðeins 3,5% af sölunni tíu árum áður.   Sala á tónlist hefur þó ekki dalað.  Hún hefur að stærstum hluta færst yfir á netið.  

  98% af streymdri músík á Íslandi kemur frá sænska netfyrirtækinu Spotify.  Alveg merkilegt hvað litla fámenna 10 milljón manna þorp,  Svíþjóð,  er stórtækt á heimsmarkaði í tónlist.

  Tæpur þriðjungur Íslendinga er með áskrift að Spotify.  Þar fyrir utan er hægt að spila músík ókeypis á Spotify.  Þá er hún í lélegri hljómgæðum.  Jafnframt trufluð með auglýsingum. 

  Annar stór vettvangur til að spila ókeypis tónlist á netinu er youtube.com.  Þar eru hljómgæði allavega.    

  Höfundargreiðslur til rétthafa eru rýrar.  Það er ókostur.  Þetta þarf að laga.  

  Ókeypis músík hefur lengst af verið stórt dæmi.  Ég var í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal á sjöunda áratugnum (6-unni).  Þar var líka Bændaskóli.  Nemendur í honum áttu svokölluð real-to-real segulbandstæki.  Einn keypti plötu og hinir kóperuðu hana yfir á segulbandið sitt.

  Nokkru síðar komu á markað lítið kassettusegulbandstæki.  Flest ungmenni eignuðust svoleiðis.   Einn kosturinn við þau var að hægt var að hljóðrita ókeypis músík úr útvarpinu.  Það gerðu ungmenni grimmt.  

  Með kassettunni varð til fyrirbærið "blandspólan".  Ástríðufullir músíkunnendur skiptust á safnspólum.  Þannig kynntu þeir fyrir hver öðrum nýja spennandi músík.  Síðar tóku skrifaðir geisladiskar við því hlutverki. 

  Sumir rétthafar tónlistar skilgreina ókeypis tónlistarspilun sem tekjumissi.  Það er rétt að sumu leyti.  Ekki öllu.   Þegar ég heyrði nemendur Bændaskólans á Hólum blasta Bítlaplötum þá blossaði upp löngun í Bítlaplötur.  Sem ég síðar keypti.  Allar.  Fyrst á vinyl.  Svo á geisla. 

  Ég veit ekki hvað litla kassettutækið sem hljóðritaði lög úr útvarpinu skilaði kaupum á mörgum plötum.  Þær voru margar.  Sem og blandspólurnar. 

  Stór hluti þeirra sem spilar músík á Spotify og youtube.com kynnist þar músík sem síðar leiðir til plötukaupa.  Eða mætingu á hljómleika flytjenda.  Á móti kemur að mörg lög sem menn spila á Spotify og youtube.com hefði hlustandinn aldrei keypt á plötu.  Fólk tékkar á ótal lögum og flytjendum án þess að heillast af öllu.  Þess vegna er rangt að reiknað tap á höfundargreiðslum sé alfarið vegna spilunar á öllum lögum.   

  Netveiturnar hafa ekki drepið tónlist í föstu formi.  Vinyllinn er í stórsókn.  Svo brattri að hérlendis hefur sala á honum átjánfaldast á níu árum.  Sér þar hvergi lát á. 

rpm    

   


Viðgerðarmaðurinn Albert

  Hann er þúsundþjalasmiður.  Sama hvað er bilað;  hann lagar það.  Engu skiptir hvort  heimilistæki bili,  húsgögn,  pípulagnir,  rafmagn, tölvur,  bílar eða annað.  Hann er snöggur að kippa hlutunum í lag.  Hann smíðar, steypir, flísaleggur,  grefur skurði,  málar hvort sem er utan eða innan húss.  

  Um tíma bjuggum við á sama gistiheimili.  Þar þurfti af og til að dytta að hinu og þessu.  Þá var viðgerðarmaðurinn Albert í essinu sínu.  Á gistiheimilinu bjuggu einnig hjón frá Kambódíu.  Samkomulagið var gott.  Ásamt öðrum íbúum vorum við eins og eins stór fjölskylda.  Svo bar við að viðgerðarmaðurinn Albert og ég sátum í herbergi kambódísku hjónanna.  Hjör á stórum fataskáp þeirra hafði gefið sig.  Hurðin dinglaði kengskökk.  Hjónin báru sig illa undan þessu. 

  Viðbrögð viðgerðarmannsins Alberts voru að sitja í sínum stól og líta í rólegheitum í kringum sig.  Hann kom auga á járntappa af gosflösku.  Teygði sig eftir honum.  Um leið dró hann upp svissneskan hníf.  Eða réttara sagt eftirlíkingu að svissneskum hníf.  Með hnífnum hnoðaðist hann á tappanum án þess að skoða hjörina. Að skömmum tíma liðnum teygði hann sig í hana.  Eftir smástund var hurðin komin í lag.  Fataskápurinn var eins og nýr.  Viðgerðarmaðurinn Albert stóð ekki upp af stól á meðan viðgerðarferlið stóð yfir.           

albert         


Veitingaumsögn

 - Réttur:  International Basic Burger

 - Veitingastaður:  Junkyard,  Skeifunni 13A í Reykjavík

 - Verð:  1500 kr.

 - Einkunn:  ** (af 5)

  Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti.  Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari.  Alveg ljómandi.  Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu,  sinnepi,  lauk og súrsuðum gúrkum.  Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi.  Né heldur lauk.  Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk.  Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær. 

  Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa.  Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali.  Mér var ekki boðið upp á það.  Kokteilsósa er allt í lagi.  Verra er að hún var skorin við nögl.  Dugði með helmingnum af frönskunum.  Fór ég þó afar sparlega með hana.  Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.   

  Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum.  Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði. 

borgari

 

 

 

 

 

 

 

 

Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger.  Við gætum verið að tala um vörusvik.  Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.   

 source       


Hverjir selja ljótu húsin?

  Um allt land eru ljót hús.  Þau eru aldrei til sölu.  Nema parhús í Kópavogi.  Það var til sölu.  Eftir fréttaflutning af því var togast á um það.  Fyrstur kom.  Fyrstur fékk.  Í auglýsingum fasteignasala eru öll hús og allar íbúðir á söluskrá þeirra ýmist fallegar og rúmgóðar eða sérlega fallegar og glæsilegar.  Sumar eru bjartar og virkilega glæsilegar og snyrtilegar.  Allar eru vel staðsettar.  Jafnvel tekið fram að stutt sé í allar áttir.  Gott útsýni eða eða sérlega gott útsýni.  Þá eru þær vel skipulagðar eða bjóða upp á ýmsa möguleika. 

  Sumt í fasteignaauglýsingum kemur eins og þruma úr heiðskýru lofti.  Til að mynda þegar  tekið er fram að þvottaaðstaða sé í íbúðinni.  Kætast þá börnin smá yfir að þurfa ekki að fara með allan þvott í þvottahús langt út í bæ. 

  Einnig þegar tekið er fram að gólfefni fylgi með.  Hvernig er íbúð án gólfefnis?  Svo er það aðal sölutrikkið:  Mynddyrasími fylgir.  Húsið er til sölu á 120 milljónir en án mynddyrasíma.  Nei,  jú,  hann fylgir með.  Sala!    

hús        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.