Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Rangur misskilningur

  Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu.  Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn.   Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum.  Oft áfengum. 

  Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni.  Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði.  Líka hamborgara.

  Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum.  Þangað inn kom par,  á að giska 17-18 ára.  Parið fór skoðunarferð um staðinn.  Svo spurði stelpan:  "Eigum við að fá okkur hamborgara?"  Strákurinn svaraði:  "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni." 

  "Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.  

  "Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.  

  Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir.  Strákur þrætti.  Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu.  Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan.  Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn:  "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni,  er það?"

  Afgreiðslumaðurinn útskýrði:  "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."

  Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði:  "Skrýtið.  Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."

bsí


Fólkið sem reddar sér

  Fjórar fjölskyldur í Essex á Englandi urðu heimilislausar eftir að íbúðir þeirra brunnu til kaldra kola.  Þetta atvikaðist þannig að húsbóndinn á einu heimilinu tók eftir því að útimálningin var farin að flagna af.  Honum hraus hugur við að þurfa að eyða sólríkum degi í að skafa málninguna af.  Til að spara sér puð brá hann á ráð:  Hann úðaði bensíni yfir húsið og kveikti í.  Málningin fuðraði upp eins og dögg fyrir sólu.  Líka húsið og nálæg hús.

  Orkuboltinum Christina Lamb í Cornwall á Englandi datt í hug að reisa verönd við hús sitt.  Hún hófst þegar handa við að grafa grunn.  Í ákafa tókst henni að höggva í sundur gasleiðslu bæjarins sem stóð eftir í ljósum loga.

  Mike Howel í Bristol á Englandi var ekkert að æsa sig yfir því að festa fingur í smíðabekk sínum.  Fingurinn var pikkfastur.  En hann var svo sem ekki að fara neitt.  Mike hafði fátt betra að gera þann daginnn en rölta með fingurinn og smíðabekkinn 3ja kílómetraleið á sjúkrahús.  Það tók aðeins 8 klukkutíma.  Hefði tekið styttri tíma ef vegfarendur hefðu ekki stöðugt verið að stoppa og spyrja út í dæmið.  

       


Keypti karl á eBay

  Staurblankur enskur vörubílstjóri,  Darren Benjamin,  sat að sumbli.  Hann vorkenndi sér mjög.  Bæði yfir blankheitunum og ennfremur yfir að vera alltaf einn.  Það er einmanalegt.  Eftir margar og miklar vangaveltur yfir stöðunni fékk hann hugmynd.  Hún var sú að auglýsa sig til sölu á uppboðsvefnum eBay.  Hann hrinti henni þegar í framkvæmd.  Hann lýsti söluvörunni þannig:  "Kynþokkafullur en blankur vörubílstjóri til sölu."

 Viðbrögð voru engin fyrstu dagana.  Síðan fór Denise Smith að vafra um eBay.  Hún rakst á auglýsinguna.  Henni leist vel á ljósmyndina af kallinum.  Hún bjó í Milton Keynes eins og hann.  Henni rann blóðið til skyldunnar.  Yfir hana helltist vorkunn vegna aðstæðna hans.  Jafnframt blossaði upp í henni löngun til að veita ummönnun. 

  Denise bauð 700 kr. í kauða.  Hún var viss um gagntilboð.  Það kom ekki.  Tilboðinu var tekið.  Hann flutti þegar í stað inn til hennar.  Enda lá það í loftinnu.  Hann var orðinn eign hennar.  Þar með gat Darren sagt leiguíbúð sinni upp.  Það sparaði pening.

  Umsvifalaust var blásið til formlegs brúðkaups.  Eða eiginlega brúðgumakaups. 


Smásaga um viðskipti

  Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind.  Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína.  Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur.  Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.

  Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk.  Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum.  Ágæt innkoma,  lítil vinna en einmanaleg.  Tíminn leið hægt.  Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla. 

  Svo rakst hann á auglýsingu.  Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf.  Hann hringdi og var boðaður í viðtal.  Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans. 

  Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar.  Maðurinn sýndi þeim áhuga.  Spurði mikils og hrósaði framtakinu.  Hann fékk hugmynd:  Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu?  Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana.  Hún fagnaði.  Nonni líka.  Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni.  Hún var fögur og hláturmild. 

  "Drífum í þessu,"  skipaði bróðirinn.  "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi."  Þau ruku af stað.  Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl.  Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu.  Nú var gaman.  Fegurðardísin daðraði við hann.  Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar.  Bróðirinn kom með skjal til undirritunar.  Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.

  "Ég get ekki kvittað undir þetta,"  kvartaði Nonni.  "Ég skil ekki helminginn af þessu.  Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."

  "Já, það er rétt,"  viðurkenndi maðurinn.  "Við þurfum að umorða textann.  Þetta er  bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það.  En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."

  "Ég á erfitt með að skrifa undir þetta,"  mótmælti Nonni. 

  "Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?"  flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum.  Fallegt bros hennar sló hann út af laginu.  Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því.  Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans:  "Ég var að stríða þér!"  

  "Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd. 

  "Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.   

  Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9.  Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig!  Bróðir minn er lasinn.  Hann var með ælupest í nótt.  Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann.  Slá inn símanúmer, netföng og það allt.  Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar.  Já,  gerum það fyrst."

  Dagurinn leið hratt.  Stelpan var stríðin.  Það var mikið hlegið.  Nonni sveif um á bleiku skýi.

  Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga.  Svo kom helgi.  Á mánudeginum mætti hann strangur á svip.  "Ég hef legið undir feldi," sagði hann.  "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér.  Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf.  Plan okkar gengur ekki upp."

  Þetta var reiðarslag.  Nonni reyndi að bera sig vel.  Lán í óláni var að kynnast stelpunni.  Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda.  "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.

  "Nei,  höldum honum hérna!"  mótmælti bróðirinn höstuglega.  "Þú afsalaðir þér honum til mín.  Ég þinglýsti skjalinu.  Þetta eru einföld viðskipti.  Ekki illa meint.  Sumir eru lúserar.  Aðrir sigurvegarar.  Þeir hæfustu lifa!"                   

 

lundikind


Metnaðarfullar verðhækkanir

  Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum.  Daglega verðum við vör við ný og hærri verð.  Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum.  Landinn fjölmennir til Tenerife   Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu.  Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins.  Arðgreiðslur sömuleiðis.  Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.

  Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu.  Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna.  Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.

pylsa


Hefur eignast lög sín eftir hálfrar aldar illindi og málaferli

  Forsagan er þessi:  Á sjöunda áratugnum haslaði bandarískur drengur,  Tom Fogerty,  sér völl sem söngvari.  Til undirleiks fékk hann "instrúmental" tríó yngri bróður síns,  Johns.  Samstarfið gekk svo vel að Tom og tríóið sameinuðust í nýrri hljómsveit sem hlaut nafnið Creedence Clearwater Revival. 

  Framan af spilaði hún gamla blússlagara í bland við frumsamin lög bræðranna.  Í ljós kom að John var betri lagahöfundur en stóri bróðir, betri söngvari og gítarleikari.  Að auki var hann með sterkar skoðanir á útsetningum og stjórnsamur.  Frábær söngvari og gítarleikari.  Frábær lagahöfundur.  Spilaði líka á hljómborð og saxafón.  

  Tom hrökklaðist úr því að vera aðalkall í að vera "aðeins" rythma gítarleikari á kantinum.  Ekki leið á löngu uns hann hætti í hljómsveitinni og hóf lítilfjörlegan sólóferil.  Á meðan dældi CCR út ofursmellum.  Að því kom að hryn-par (bassi, trommur) hennar bar sig aumlega undan ofurríki Johns og var með ólund.

  Hann bauð hryn-parinu að afgreiða sín eigin lög á næstu plötu CCR,  "Mardi Grass".  Það varð þeim til háðungar.  

  Í framhaldinu vildi John hefja sólóferil.  En hann var samningsbundinn plötufyrirtæki sem liðsmaður CCR.  Hann reyndi allra leiða til að rifta samningnum.  Án árangurs.  Hryn-parið og Tom stóðu þétt við bak plötufyrirtækisins.  Seint og síðar meir tókst John að öðlast frelsi með því að framselja til plötufyrirtækisins höfundarrétt vegna CCR katalógsins.  Þar með átti hann ekki lengur sín vinsælustu lög.  Allar götur síðan hefur hann barist fyrir því að eignast lögin sín.  Á dögunum upplýsti hann að loksins væri hann orðinn eigandi allra sinna laga eftir langar og strangar lagaflækjur.     

          


Aldrei aftur Olís

  Ég átti leið um Mjóddina.  Í hitamollunni langaði mig skyndilega - en ekki óvænt - í ískalt Malt og íspinna.  Til að komast í þær kræsingar renndi ég að bensínstöð Olís,  eins og svo oft áður í svipuðum erindagjörðum.  Um leið og ég sté inn um dyrnar ákvað ég að byrja á því að skjótast á salerni til að pissa - vitandi að Maltið rennur hratt í gegn.  Líka afgreiddur krabbameinssjúklingur í blöðruhálskirtli.  Það kallar á tíð þvaglát. 

  Ég bað afgreiðsludömuna um lykilinn að salerninu.  Hún svaraði með þjósti:  "Salernið er bara fyrir viðskiptavini.  Þú hefur ekki verslað neitt.  Þú ert ekki viðskiptavinur!"

  Hún strunsaði í burtu og fór að sinna einhverju verkefni;  svona eins og til að undirstrika að samskiptum okkar væri lokið.  Sem og var raunin.  Samskiptum mínum við Olís er lokið - til frambúðar. 

 

Uppfært 7.6.

  Fulltrúi Olís hringdi í mig áðan.  Hann baðst ítrekað afsökunar á móttökunum sem ég fékk.  Hann er búinn að funda með starfsfólkinu í Mjódd og útskýrði fyrir mér hvernig á þessum mistökum stóð.  Í stuttu máli var um einskonar misskilning að ræða;  eða réttara sagt þá oftúlkaði afgreiðsludaman fyrirmæli sem henni voru gefin skömmu áður en mig bar að garði.  Ég þáði afsökunarbeiðnina og hef tekið Olís í sátt.  

 

   


Geggjuð rúm

  Allflest rúm eru hvert öðru lík.  Þau eru íburðarlitlar ljósar ferkantaðar dýnur ofan á grind.  Þessi einfalda útfærsla hefur gefist vel í gegnum tíðina.  En eins og með svo margt annað þá sjá einhverjir ástæðu til að gera þetta öðruvísi.

  Hvað með líkamslaga dýnu?  Eða vera vel varinn í jarðskjálfta í svo háu rúmi að stíga þarf upp tröppur til að komast í það og klöngrast ofan í það umlukið traustum veggjum.

  Svo er það hreiðrið. Í það þarf marga púða til að herma eftir ungum og eggjum. 

  Bókaástríða er plássfrek.  En hún getur sparað kaup á rúmi.

  Sjómenn komnir á aldur geta upplifað góða tíma í bátsrúmi.

  Að sofa í líkkistu er varla þægilegt.  Samt er vel bókað í gistihús sem býður upp á Dracúla-þema.   

  Kóngafólki hættir stundum við að fara hamförum í prjáli.  Það fylgir stöðu þess. 

  Í Suðurríkjunum í USA taka margir ástfóstri við pallbílinn sinn.  Svo mjög að þeir breyta honum í rúm. 

  Vatnsrúm eru allavega. 

  Þegar barn hefur horft á kvikmyndina Jaws er freistandi að hræða það með því að hátta það í hákarlsrúm. 

   Smellið á mynd til að hún verði skýrari og stærri.

rúm arúm brúm crúm erúm hrúm irúm jrúm krúm lrúm m

  


Veitingaumsögn

 - Réttur:  Beikon ostborgari

 - Staður:  TGI Fridays í Smáralind

 - Verð:  2895 kr.

 - Einkunn:  ****

  TGI Fridays er fjölþjóðleg matsölukeðja með bar.  Fyrsti staðurinn var opnaður í New York á sjötta áratugnum.  Staðirnir eru mjög bandarískir,  hvort heldur sem eru innréttingar, veggskreytingar, matseðill eða matreiðsla.   

  Beikon ostborgarinn (World Famous Bacon Cheeseburger) er matmikill hlunkur.  Sjálfur borgarinn er 175 gr nautakjöt.  Ofan á hann er hlaðið stökku beikoni,  hálfbráðnum bragðgóðum bandarískum osti,  tómatsneiðum,  rauðlauk og  salatblaði.  Á kantinum eru franskar (úr alvöru kartöflum) og hunangs-sinnepssósa.  Sú er sælgæti.  

  Bæði borgarinn og frönskurnar eru frekar bragðmild.  Það var ekkert vandamál.  Á borðinu voru staukar með salti og pipar.  Ég bað um kartöflukrydd sem var auðsótt mál.

  Ég er ekki mikill hamborgarakall en get með ánægju mælt með þessum. 

fridays


Íslenskt hugvit vekur heimsathygli

  Í Danmörku er starfrækt ein fullkomnasta og afkastamesta vinyl-plötupressa heims, RPM Records.  Þar er meðal annars boðið upp á hágæða grafíska hönnun og tónlistarmyndbönd fyrir youtube.  Eigandinn er grafískur hönnuður að mennt og lærður kvikmyndagerðarmaður.  Hann kemur úr Svarfaðardal og heitir Guðmundur Örn Ísfeld. 

  Afurðir RPM Records hafa margar hverjar ratað í heimspressuna.  Núna síðast segir bandaríska tímaritið Rolling Stone frá nýjustu plötu kanadísku poppstjörnunnar Weeknd,  margfalds Grammy-verðlaunahafa auk fjölda annarra verðlauna og viðurkenninga.   

 

Rolling-Stone-logo

The Weeknd’s Newest Record Could Destroy Your Turntable — Or Your Extremities

“Out of Time” available as a vinyl record pressed into an actual, working saw blade.

In a collaboration that could cost the Weeknd’s fans their fingers (and over $1,000), the singer has teamed with art collective MSCHF to release his latest single “Out of Time” as a vinyl record pressed into an actual, working saw blade.

The limited-to-25-copy pressing of the Vinyl Blade — up for blind auction now at the MSCHF site until April 8, with a low bid of $1,000 — allegedly works on both turntables and table saws, although MSCHF doesn’t recommend the latter.

“Attempting to use Vinyl Blade on a saw could result in serious injury or death,” the packaging states, while the Weeknd similarly warns, “Do not operate while heartbroken.”

“Vinyl Blade includes a turntable adaptor. Please note that the Vinyl Blade has sharp edges, is a non-standard diameter, and is significantly heavier than a standard vinyl record,” MSCHF added of the unique record. “All of these factors may affect playback on some turntables. Handle with care and only play at 33 RPM. Vinyl Blade’s grooves are copper-clad steel, which may wear your stylus down faster than a normal record.”


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.