Færsluflokkur: Kjaramál
24.9.2024 | 08:34
Togast á um utanlandsferðir og dagpeninga
Utanlandsferðir hafa löngum freistað opinberra embættismenn ríkis og bæja. Togast er á um setu í nefndum, ráðum og æðri embættum. Öllum brögðum er beitt til að komast í utanlandsferðir. Þær eru bitlingur. Ekki aðeins er sport að fara í utanlandsferðir sem almenningur borgar heldur fylgja drjúgir dagpeningar með í pakkanum.
Undantekning frá reglunni var borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar. Hann beitti ströngu aðhaldi í rekstri borgarinnar. Hann fór aðeins í eina utanlandsferð í embætti. Hún var til Færeyja í boði Færeyinga. Þetta var svo óvenjulegt að illar tungur komu af stað lygasögu um að Ólafur væri flughræddur.
26 ferðir til útlanda á þessu kjörtímabili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
3.2.2024 | 10:09
Bónusgreiðslur og Bónuskort
Í kjölfar bankahrunsins 2008 uppgötvaðist að bankarnir gengu á bónuskerfi. Starfsmenn smöluðu gömlu fólki eins og rollum í réttir. Smöluðu því af öruggum bankabókum yfir í Sjóð 9 og hvað þeir hétu allir þessir sjóðir.
Bónuskerfið virkaði svo vel að Samkeppniseftirlitið og Skatturinn hafa tekið það upp. Fleiri mætti virkja með bónuskerfi. Til að mynda bílastæðisverði. Það yrði handagangur í öskjunni ef vörðurinn fengi 1000 kall og Bónuskort fyrir hvern bíl sem hann sektar. Hann myndi sleppa matar- og kaffihléi til að ná bónusnum upp.
Hvað með lögguna? Hvað ef hún fengi 10.000 kall og Bónuskort fyrir hverja handtöku? Ekki má gleyma dómurum. Þeir mættu fá vænan bónus og Bónuskort fyrir hver óskilorðsbundinn dóm.
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.1.2024 | 11:03
Hvar er mesta atvinnuþátttaka og minnsta?
Mikil atvinnuþátttaka bendir til velsældar. Að sama skapi er dræm atvinnuþátttaka vísbending um vesaldóm. Á meðfylgjandi skjali má sjá yfirgripsmikla samantekt á þessu. Ef smellt er á skjalið þá stækkar það til muna og verður læsilegra.
Listinn spannar aldursbilið 15 - 74ra ára. Hvar sem borið er niður skara Færeyingar framúr. Sama hvort einstakir aldurshópar eru skoðaðir eða aðrir tilteknir hópar. Til að mynda atvinnuþátttaka kvenna. Allt flottast í Færeyjum!
Gleðilegan Þorra!
22.4.2020 | 06:04
Óþægilega þröngar skorður
Mér áskotnaðist "Cashout Ticket" frá Gullnámunni. Gullnáman er spilavíti rekið af góðmennsku af Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ). Upphæð miðans er kr. 25,-. Það er metnaðarlítil upphæð. Þess vegna datt mér í hug að hressa upp á upphæðina, Bæta nokkrum núllum við. Ég gerði það oft - með góðum árangri - á dögum ávísana.
Þá kom reiðarslag. Ég kíkti á bakhlið miðans. Þar stendur skýrum stöfum: Miðar eru ógildir ef þeir eru falsaðir eða þeim hefur verið verið breytt.
Hver er munur á breyttum miða og fölsuðum?
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.4.2020 | 09:30
Furðuleg sölubrella
Á föstudaginn bauð 10-11 landsmönnum í kaffi- og kakóveislu. Það gerði fyrirtækið með 2ja dálka x 40 cm auglýsingu í grænum lit í Fréttablaðinu (einkennislit fyrirtækisins). Hvað með það? Vel boðið. Nema hvað. Svo einkennilega vill til að fyrirtækið 10-11 er ekki til. Þetta var vinsæl matvöruverslun. Hún vann sér til frægðar að vera dýrasta búð landsins. Svo breyttist hún í Kvikk og Krambúðina. Þá lækkaði verðið um 25% með einu pennastriki. Svo einfalt og auðvelt var það.
Þetta var hrekkur. Langt frá 1. apríl. Kaffiþyrstur kunningi minn ók til Mosfellsbæjar og Voga á Vatnsleysuströnd. Honum fannst hann vera hafður að fífli. Hvergi var ókeypis kaffi að finna. Reyndar þurfti þetta ekki til að hann væri eins og hafður að fífli. Hann er fífl.
Annað: Rory and The Hurricanes voru stóra nafnið í Liverpool á undan Bítlunum. Miklu munaði að Bítlarnir sömdu sín eigin lög. Góð lög. Bestu lög rokksögunnar. Að auki tefldu Bítlarnir fram tveumur bestu rokksöngvurum dægurlagaheims. Ringo var trommari Hurrycanes. Já, og síðar Bítlanna. Þar veðjaði hann á réttan hest. Mestu skipti að honum þótti Bítlarnir vera miklu fyndnari og skemmtilegri en liðsmnenn Hurrycanes. Að vera í Bítlunumn var eins og að vera í skemmtiþætti Monty Python. Fyndnustu brandarar í heimi á færibandi.
Kjaramál | Breytt 13.4.2020 kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.4.2020 | 23:56
Ósvífin sölubrella
"Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni. Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig. Og aðra. Ennþá brýnni er spurningin: Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan?
Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit. Þar segir í flennistórum texta: "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM".
Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni: "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða."
Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni. Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði. Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum.
Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið. Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs). Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,- Nema á Reykjavíkurvegi. Þar kostaði hann kr. 188.8,-. Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum: "Ódýrasta eldneytisverð á landinu".
Ég var nokkuð sáttur við það. Þangað til ég ók framhjá Costco. Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-
7.8.2018 | 08:21
Örstutt smásaga um bílaverkstæði
Stelpurnar á bílaverkstæðinu Þrjú hjól undir bílnum raða sér í kringum eldhúsborðið. Það er kaffitími. Sigga "litla" brestur í grát. Hún grætur með hljóðum eins og kornabarn. Hinar stelpurnar þykjast taka ekki eftir þessu. Þetta gengur vonandi fljótt yfir. Svo reynist ekki vera. Hún gefur í. Korteri síðar spyr Sigga "sprettur": "Hvað er að? Meiddir þú þig í tánni?"
"Ég fékk uppsagnarbréf áðan," upplýsir Sigga "litla". "Mér er gert að rýma skrifborðið mitt fyrir klukkan fimm." Henni er eins og smávegis létt. Nokkuð slær á grátinn.
"En þú ert sú eina sem kannt á kaffivélina," mótmælir Sigga "stóra". Hún fær þegar í stað kvíðakast. Sigga "litla" róar hana: "Þið getið notað hraðsuðuketilinn og skipt yfir í te."
"Kakómjólk er líka góð," skýtur Sigga "sæta" að. "Hún er sérlega góð með rjómatertu sem er skreytt með jarðaberjum og kíví. Ég hef smakkað svoleiðis. Ég hef líka smakkað plokkfisk."
Kaffispjallið er truflað þegar inn þrammar stór, spikfeitur og tröllslegur maður. Hann hefur rakað af sér vinstri augabrúnina. Fyrir bragðið er léttara yfir þeim hluta andlitsins. "Ég þarf að láta stilla bílinn minn," segir hann.
"Stilla vélina?" spyr Sigga "litla" kjökrandi.
"Nei, útvarpið. Það er stillt á Rás 2. Ég vil að það sé stillt á rás 1."
"Ekkert mál. Þú mátt sækja bílinn á föstudaginn í næstu viku."
"Frábært! Lánið þið manni bíl á meðan?"
"Nei, en við getum leigt þér reiðhjól. Reyndar er það í barnastærð. Á móti vegur að leigan er lág. Aðeins 7000 kall dagurinn."
"Ég hef prófað að setjast á reiðhjól. Þá datt ég og fékk óó á olnbogann. Kem ekki nálægt svoleiðis skaðræðisgrip aftur. Ég kaupi mér frekar bíl á meðan þið dundið við að stilla á Rás 1."
"Þú getur líka keypt pylsuvagn. Hérna neðar í götunni er einn til sölu."
"Takk fyrir ábendinguna. Þetta lýst mér vel á. Ég skokka þangað léttfættur sem kiðlingur." Hann kjagar umsvifalaust af stað. Í vitlausa átt.
Andrúmsloftið er léttara.
"Eigum við ekki að syngja kveðjusöng fyrir Siggu "litlu?", stingur Sigga "sprettur" upp á. Því er vel tekið. Fyrr en varir hljómar fagurraddað "Éttu úldinn hund kona, éttu úldinn hund".
Þetta er svo fallegt að Siggu "litlu" vöknar enn og aftur um augu. Hún hugsar með sér að úldið hundakjöt þurfi ekki endilega að vera síðra en þorramatur. Kannski bara spurning um rétt meðlæti.
Er síðustu söngraddirnar fjara út grípur Sigga "sprettur" tækifærið og biður Siggu "litlu" um að tala við sig undir fjögur augu. Þær ganga út á mitt gólf.
"Hvað er málið með þennan brottrekstur?"
"Ég fékk formlega viðvörun fyrir 3 mánuðum. Mér var hótað brottrekstri ef ég bætti ekki mætinguna. Þú veist að ég sef of oft yfir mig. Vekjaraklukkan er til vandræða. Hún gengur fyrir rafmagni. Þegar rafmagni slær út þá fer klukkan í rugl."
"Þú færð þér þá bara batterísklukku."
"Ég get það ekki. Ég á ekkert batterí."
"Það er einhver skekkja í þessu. Þú stofnaðir verkstæðið. Þú ert eini eigandi þess og ræður öllu hérna. Hvernig getur þú rekið sjálfa þig?"
"Að sjálfsögðu hvarflar ekki að mér að mismuna fólki eftir því hvort að um eiganda eða óbreyttan launþega ræðir. Annað væri spilling. Svoleiðis gera Íslendingar ekki. Hefur þú ekki lesið blöðin? Ísland er óspilltasta land í heimi."
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.12.2017 | 07:44
Íslenskar vörur ódýrari í útlendum búðum
Íslensk skip hafa löngum siglt til Færeyja. Erindið er iðulega fyrst og fremst að kaupa þar olíu og vistir. Þannig sparast peningur. Olían er töluvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi. Meira að segja íslenska landhelgisgæslan siglir út fyrir íslenska landhelgi til að kaupa olíu í Færeyjum.
Vöruverð er hæst á Íslandi. Svo einkennilegt sem það er þá eru vörur framleiddar á Íslandi oft seldar á lægra verði í verslunum erlendis en á Íslandi. Það á við um íslenskt lambakjöt. Líka íslenskt lýsi. Hér fyrir neðan er ljósmynd sem Ásmundur Valur Sveinsson tók í Frakklandi. Hún sýnir íslenskt skyr, eitt kíló, í þarlendri verslun. Verðið er 3,39 evrur (417 ísl kr.).
Hátt vöruverð á Íslandi er stundum réttlætt með því að Ísland sé fámenn eyja. Þess vegna sé flutningskostnaður hár og markaðurinn örsmár. Gott og vel. Færeyjar eru líka eyjar. Færeyski markaðurinn er aðeins 1/7 af þeim íslenska. Samt spara Íslendingar með því að gera innkaup í Færeyjum.
Hvernig má það vera að skyr framleitt á Íslandi sé ódýrara í búð í Frakklandi en á Íslandi - þrátt fyrir háan flutningskostnað? Er Mjólkursamsalan að okra á Íslendingum í krafti einokunar? Eða niðurgreiðir ríkissjóður skyr ofan í Frakka?
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 07:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.8.2017 | 08:04
Allir verða að hjálpast að
Lambakjötið hrannast upp óselt. Þökk sé meðal annars vopnasölubanni sem Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, setti á Rússa. Út af fyrir sig var gott að draga úr vopnasölu. Brögð eru að því að vopn séu notuð til illra verka. Rússar eru seinþreyttir til reiði. Gunnar Bragi þurfti að ögra þeim ítrekað með digurbarkalegum yfirlýsingum á alþjóðavettvangi til að knýja fram viðbrögð. Seint og síðarmeira tókst það. Rússar hættu að kaupa íslenskt lambakjöt og makríl.
Íslendingar verða sjálfir að hlaupa í skarðið sem Rússar skilja eftir. Hrun blasir við sauðfjárbændum. Þetta eru hamfarir. Allir verða að hjálpast að. Öflugt átak þarf til að auka tímabandið lambakjötsneyslu á meðan markaðurinn leitar jafnvægis.
Góðu fréttirnar koma úr Garðahreppi. Í sumarbyrjun var opnað þar Kaupfélag. Það selur lambahakk. Slíkt hafði ekki sést í íslenskum matvöruverslunum til áratuga - þrátt fyrir mikla eftirspurn. Kaupfélag Garðahrepps hefur jafnframt sannað að hægt er að verka lambaskrokk þannig að kótelettur séu beinlausar.
Nýverið hóf Bónus að selja í lítersfötu fulleldaða kjötsúpu. Það er til fyrirmyndar. Almenningur veit ekki af þessu. Ef hann fær vitneskju um þetta er líklegt að kjötsúpan verði einnig seld í 3ja lítra fötu.
Einhver er byrjaður að kynna til sögunnar lambabeikon. Man ekki hver.
Þetta dugir ekki til að vinda afgerandi ofan af kjötfjallinu. Almenningur verður að leggjast á árar; leggja hausinn í bleyti og koma með hugmyndir og ábendingar um hvað megi betur fara til að efla lambakjötsneyslu.
Hér eru punktar í púkkið:
- Frosið lambakjöt í kæliklefum matvöruverslana er óaðlaðandi; grátt og guggið. Lystugra væri að umbúðirnar sýndu ljósmynd af fulleldaðri máltíð: Steiktu eða grilluðu kjöti ásamt girnilegu meðlæti.
- Hafa einfaldar og spennandi uppskriftir á öllum pakkningum á frosnu lambakjöti. Skipta þeim út fyrir nýjar með reglulegu millibili.
- Margir búa einir. Heilt læri eða heill lambahryggur er of stór skammtur fyrir þá. Minni einingar þurfa einnig að vera í boði. Kannski eins og þriðjungur af hrygg eða kvart læri.
- Það þarf stöðugt að glenna lambakjöt framan í neytendur. Til að mynda með því að vera með smakk í öllum helstu stórmörkuðum daginn út og inn. Smakk er einhver virkasta söluaðferð sem til er. Mun betri leið til að minnka kjötfjallið en urða kjötið.
- Margir kvarta undan og undrast að kubbasteik hafi hvergi sést til áratuga - þrátt fyrir mikla eftirspurn.
- Lambagúllas hefur ekki fengist í áraraðir - þrátt fyrir mikla eftirspurn.
- Það þarf að fá lambakjötið vottað sem þjóðarrétt Íslendinga. Hampa því framan í milljónir erlendra ferðamanna. Bjóða hvarvetna upp á lamborgara (lambaborgara). Engin vegasjoppa má vera svo aum að hún bjóði ekki upp á lamborgara.
- Vöntun er á úrvali lambakjötsáleggs. Hangikjöt og rúllupylsa eru ekki nóg. Það þarf kjötsneiðar sem keppa við roastbeaf og skinku.
- Sumir vinsælustu veitingastaðir landsins selja enga lambakjötsrétti. Munar þar mestu um Ikea. Þessu þarf að kippa í lið.
- Liður í aðlögunarferli innflytjenda ætti að vera námskeið í fjölbreyttri matreiðslu á lambakjöti. Námskeiðið getur staðið öllum opið fyrir vægt hráefnisgjald.
- Fjölga þarf fullelduðum lambakjötsréttum án meðlætis. Helst einhverjum sem þarf ekki að hita. Til að mynda gætu lambanaggar verið ágætt snakk (með pítusósu).
Taka allt kjötið heim og selja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 1.9.2017 kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.5.2017 | 16:13
Costco veldur vonbrigðum
Ég átti erindi í Hafnarfjörðinn. Um leið var bíllinn að suða um að fá bensín. Af því að ég er töluvert á rúntinum um allt höfuðborgarsvæðið þá var upplagt að virkja gömlu kaupfélagshugsjónina og gerast félagsmaður í breska útibúi Costco í Garðabæ (sem er útibú frá bandarísku demókratamóðurfélagi). Ég sé í hendi mér að til lengri tíma er sparnaður að kaupa bensínlítrann þar á 170 (fremur en 186 í Orkunni).
Allt gekk þetta hratt og vel fyrir sig. Allir sem ég átti samskipti við voru Bretar (allt í góðu. Það er ekkert atvinnuleysi á Íslandi. En eitthvað atvinnuleysi í Bretlandi). Frekar fáir á ferli - miðað við að það er 2. í Costco. Ég rölti hring inni í búðinni. Einsetumaður sem eldar ekki mat þarf ekki að fínkemba matvörubretti. Þó sá ég út undan mér að flest allt er selt í miklu stærri pakkningum en íslenskir neytendur eiga að venjast. Einnig að ekki er hægt að kaupa staka flösku af hinu eða þessu. Aðeins 20 - 40 flöskur í einingu. Enda heitir Costco fullu nafni Costco heildverslun. Fjölmennir vinnustaðir og stærri mötuneyti geta gert hagstæð kaup. Einnig stórar fjölskyldur. Ýmislegt er á hærra verði en fyrst var slegið upp. Til að mynda kranavatn. Það er á 11 krónur en ekki 6. Aðeins í 30 flaskna pakkningu. Sem svo sem eru ekki vond kaup - nema í samanburði við ókeypis kranavatn.
Ég skimaði vel um fatadeildina. Rúmfatalagerinn er töluvert ódýrari. Hvort sem um er að ræða gallabuxur, skyrtur, nærföt eða sokka.
Bónus, Krónan, Kostur, Nettó, Iceland og Elkó þurfa ekki að óttast flótta á sínum viðskiptavinum yfir til Costco. Að því leyti olli Costco mér vonbrigðum. Verðlagningin þar er ekki sú róttæka bylting sem lá í loftinu - og var boðuð.
Ég keypti ekkert í Costco nema bensín. Ég skráði ekki hjá mér verð sem ég sá. Ég man að kílóverð á Prince Póló er um 1100 kall. Svipað og í Bónus. Heitur kjúklingur er á 1300 kall. Er það ekki svipað og í Krónunni? Kókómjólkin er á 230 kall. Er það ekki svipað og í Bónus? Kellog´s kornflögur á 475 kall. Sama verð og í Bónus. Pylsa og gosglas kostar 400 kall í Costco en 195 kall í Ikea (hinumegin við götuna).
Ég fagna innkomu Costco alla leið. Undanfarnar vikur hafa íslenskar verslanir lagt sig fram um að lækka verð til að mæta samkeppninni. Ekki aðeins íslenskar verslanir. Líka erlendir framleiðendur og heildsalar. Margir þeirra hafa skilgreint Ísland sem hálaunasvæði; dýrt land og verðlagt sínar vörur hátt til samræmis við það. Nú þurfa þeir að endurskoða dæmið til að mæta samkeppninni.
Annað gott: Costco selur ekki innkaupapoka. Viðskiptavinir verða að taka poka með sér að heiman. Eða fá hjá Costco pappakassa - ef þeir eru til staðar í það skiptið. Ég sá fólk draga upp úr pússi sínu platspoka frá Bónus og Hagkaupum.
Ástæða er til að taka með í reikninginn að viðskiptavinir Bónus, Krónunnar, Kosts, Iceland, Nettó og Elkó þurfa ekki að borga 5000 kall með sér til að spara aurinn og henda krónunni. Eða þannig.
Túpupressan fæst nú í Skagafirði
Túpupressan vinsæla fæst ekki í Costco. Hinsvegar fæst hún núna á Sauðárkróki. Nánar tiltekið hjá Nudd & trimform, Skagfirðingabraut 6. Listi yfir aðra sölustaði má finna með því að smella HÉR
Ódýrara í Costco en hann bjóst við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 28.5.2017 kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)