Færsluflokkur: Samgöngur

Nýtt og betra

  Það er merkilegt að ekki sé búið að koma fyrir hljóðdeyfi á höggborinn.  Það er leiðinda hávaði frá þessu verkfæri.  Hvellur og óþægilegur hávaði sem ærir alla nærstadda og í töluvert stórum radíus frá bornum.  Það væri strax til bóta ef borinn gæti boðið upp á mismunandi tóna þannig að hægt sé að spila róandi lagstúf með honum.  En hljóðdeyfir er betri kostur.  Hann er hljóðlátari aðferð.

  Tækninni fleygir fram við allt svona.  Sú var tíð að hellulagnamenn bröltu um á hnjánum til að leggja gangstéttarhellur eða vegahellur.  Það tók heilu dagana að helluleggja örfáa metra.  Í dag eru hellur lagðar fljótt og snyrtilega eins og teppi með hellulagningavél.  Vélin fer ekki hratt yfir.  En hún helluleggur tugi metra á klukkutíma.  

hellulagt.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

Lengi vel var meiriháttar mál að leggja malbikaða vegi.  Með ýtum var jarðvegi rutt upp í rétta hæð.  Þar sem ekki var nóg um möl voru vörubílar á þeytingi með möl úr malargryfjum.  Yfirborðið sléttað út.  Heitt malbik lagt ofan á það.  Það tók heilu mánuðina að leggja hvern vegaspotta.  Fjölmenni þurfti til.  Við hvert verkefni var sett upp lítið þorp vegavinnuskúra.  Þar sváfu vegavinnuflokkar.  Einn skúrinn var mötuneyti.  Það varð að fóðra kvikindin.  

  Núna er farið að leggja malbikaða vegi á annan hátt.  Menn fá malbikaða vegi upprúllaða og leggja þá eins og teppi.  Rúlla þeim eftir slóðinni.   Það þarf aðeins einn mann í verkið.  Hann leggur veginn jafn hratt og hann gengur.  

vegur_lag_ur.jpg   Af því að tækninýjungar eru til umræðu má ég til með að nefna nýjan penna sem var að koma á markað.  Hann lítur út eins og venjulegir pennar.  Munurinn er sá að þegar orð er vitlaust stafsett þá titrar penninn.  Víbrar og gefur smá stuð.  Hann hættir ekki að víbra fyrr en orðið er rétt stafsett.  


mbl.is Ólétt kona stöðvaði vinnu höggbors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólki sem er fífl hjálpað að fóta sig í tilverunni

  Fólk er fífl.  Það vita allir.  Nema fólkið sjálft.  Það þarf leiðbeiningar um hvert skref.  Annars fer allt í rugl.  Þess vegna er brýn þörf á sem flestum umferðarmerkjum.  Fjöldi embættismanna á launaskrá ríkisins vinnur að því hörðum höndum að hanna og koma fyrir sem víðast merkingum til að leiðbeina fólki sem er fífl.  Í dag bættust 17 ný umferðarmerki í hóp þeirra tuga umferðarmerkja sem þegar eru út um allt. 

  Það er gott til þess að vita að ríkisstarfsmenn geri fleira en naga blýanta allan daginn alla daga.  Þeir leggja sig líka fram um að leiðbeina kjánum.  Einmitt núna þegar sól hefur verið minni í sumar (hún á kannski eftir að stækka) en elstu menn muna hefur innanríkisráðherra boðað að í nálægð við allar ísbúðir landsins verði komið upp skilti sem sýnir gamaldags (klassískan) rjómaís úr vél.  Án þessa skiltis er veruleg hætta á að fólk sem er fífl kaupi sér í óvitaskap ís úr frystikistum stórmarkaða.  Lítill fugl hvíslaði að mér að þetta væri gert að ósk Sigmundar Davíðs.  Hann ku vera sólginn í rjómaís beint úr vél. 

umferðarmerki - ís

  Áður en þetta skilti er fest upp sannreyna embættismenn Vegagerðarinnar og Framkvæmdastofnunar samgöngumála að ísinn sé afgreiddur í brauðformi og að það sé rjómabragð af honum. 

  Eitt af mörgu góðu við að fjölga umferðarskiltum á Íslandi er að það er atvinnuskapandi.  Ekki endilega þannig að það fjölgi störfum heldur þannig að embættismenn innanríkisráðuneytisins (og stofnana sem heyra undir það) hafi eitthvað fyrir stafni.  Það gerir engum gott að slæpast í vinnunni og hanga á fésbók.  Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum er ríkur vilji hjá Framkvæmdastofnun samgöngumála að setja í næsta átaki upp skilti sem gefur til kynna hvar megi nálgast rammíslenska pylsu með öllu og hvar sé mögulegt að kaupa kalda mysu. 

  Gríðarlega mikil stemmning er fyrir því að setja upp við allar götur nálægt vínveitingastöðum skilti sem upplýsir að hætta sé á að þar fari ölvuð manneskja til síns heima (eða út í buskann).  Aðgát skal höfð í nærveru drukkinna. 

umferðarskilti - ölvaðir á ferliumferðarskilti - nautgripir detta ofan á bíla

  Þetta bráðnauðsynlega skilti sýnir hættu á að nautgripir detti ofan á bíla.  Eina vandamálið er að bílstjóri getur á engan hátt komið í veg fyrir það.  En þegar nautgripur dettur ofan á bíl getur bílstjórinn verið nokkuð viss um að það var nautgripur sem datt ofan á bílinn (en ekki geimskip eða loftsteinn).  Það veitir öryggiskennd að vera ekki í vafa. 

  Hvar er hægt að fóðra krókódíla með fötluðum?

umferðarskilti - krókódílar fóðraðir með fötluðum

  Sumt fólk er "mannýgt".  Það stangar bíla.  Erlendis hefur gefist vel að setja upp skilti nálægt bílum með hvatningu um að mannýgir stangi spegla á bílunum frekar en sjálft "boddýið".  Þannig má komast hjá því að dælda bílana.    

umfer_arskilti_-_haetta_a_a_mjog_havaxnir_rekist_i_spegil_a_rutum.jpg


mbl.is 17 ný umferðarmerki taka gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri og bíllinn hennar

  Anna frænka á Hesteyri var orðin nokkuð fullorðin þegar hún tók bílpróf og áskotnaðist Skoda bifreið.  Mig minnir að frændi okkar,  útgerðarmaður,  hafi gefið Önnu bílinn og bílprófið.  Eða alla vega verið henni innanhandar með hvorutveggja.  Bíllinn reyndist Önnu mikið ævintýri.  Hún skrifaði mömmu bréf og lýsti bílnum eins og um undur væri að ræða sem fáir hefðu séð með eigin augum.

  Bílinn skoðaði Anna í bak og fyrir.  Meðal annars vegna þess að hún þurfti að vita hvar einhver takki var í bílnum.  Ég man ekki hvort að það var takki til að opna bensínlok,  húdd eða skottlok.  Anna og vinnukarl hennar skiptu liði og leituðu skipulega að takkanum.  Karlinn leitaði inni í bílnum.  Anna leitaði utan á bílnum.  Þar á meðal skreið Anna undir bílinn.  Það var afrek út af fyrir sig.  Anna var það mikil um sig.  Hún sagði þannig frá:  "Það var aldeilis heppni að ég skyldi leita undir bílnum.  Þar fann ég nefnilega varadekk.  Ef ég hefði ekki leitað undir bílnum hefði mér aldrei dottið í hug að þar væri varadekk."

  Bíllinn entist Önnu í mörg ár.  Þó þjösnaðist hún á honum eins og um sterkbyggða dráttarvél væri að ræða.  Á móti kom að bíllinn var aldrei mikið ekinn í kílómetrum talið.  Að því kom að bíllinn gafst upp.  Þá var Anna að keyra á honum yfir á með stórgrýttum botni.  Anna hringdi miður sín í mömmu mína og sagði ótíðindin.  Mamma spurði hvort bíllinn hafi lent á stórum steini sem hefði skemmt eitthvað undir bílnum.  Anna andvarpaði, dæsti og svaraði döpur:  "Nei,  það er afar ólíklegt.  Ég hef oft keyrt yfir stærri steina sem hafa bankað miklu fastar undir bílinn án þess að hann hafi drepið á sér.  Það er einhver önnur ástæða fyrir því að bíllinn stoppaði." 

Anna Marta

Fleiri frásagnir af Önnu frænku:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1290123/


Sparnaðarráð

  Á síðustu árum hefur íslenskur landbúnaður dregist saman.  Búum hefur fækkað og fólk flutt á mölina til að rýna í hagtölur í stað þess að framleiða hráefni til matseldar.  Þvers og kruss um landið standa aðgerðarlausar dráttarvélar.  Engum til gagns.  En mörgum til leiðinda.  Á sama tíma eykst stöðugt spurn eftir léttum og liprum mótorhjólum til að snattast um bæinn með niðurstöður úr hagfræðiútreikningum.  Á tímabili önnuðu kínversk mótorhjól að nokkrum hluta eftirspurninni.  Þegar á reyndi kom í ljós að þau voru úr plasti og duttu í sundur við að fara yfir hraðahindrun.  Margir fengu vinnu við að tína upp plastdót úr kínversku hjólunum.  Það sló tímabundið á atvinnuleysi.  Aðeins tímabundið.  Það kaupir enginn viti borin manneskja kínverskt mótorhjól í dag.  Óvitibornar manneskjur eru svo fáar að þær mælast varla í hagtölum mánaðarins.

  Lausnin á vandamáli dagsins er handan við hornið.  Hún felst í því að hvaða laghent stúlka sem er getur án fyrirhafnar breytt dráttarvél í lipurt snatthjól.  Það eina sem þarf til er svissneskur hnífur.  Allt annað er til staðar:  Stýri, sæti, mótor, framljós, afturljós, dekk og svo framvegis.  Það allra besta er að þegar dráttarvél er breytt í snatthjól þá eru til afgangs tvö varadekk.  Þessi lausn er svo ókeypis og auðveld að hún er sparnaðarráð. 

motorhjol_ur_drattarvel.jpg

    


Flugvöllinn í Vatnsmýri! Skemmtilegir flugvellir

  Það er lúxus að hafa flugvöll í Vatnsmýri.  Staðsetningin er farþegum til mikilla þæginda.  Þjóðfélagið hagnast á henni í samanburði við aðra valkosti (svo sem að færa flugið til Sandgerðis).  Það liggur gríðarmikill sparnaður í eldsneyti,  sliti á bílum,  vegaframkvæmdum og mannslífum. 

  Víða um heim er að finna skemmtilega staðsetta flugvelli. 

flugvöllurGibraltar-Airport

   Flugvöllurinn í Gíbraltar er inni í miðri borginni.  Hann er staðsettur þvert á aðal umferðagötu borgarinnar.  Þegar flugvél lendir eða tekur á loft hinkrar fólkið í bílunum sínum rétt á meðan.  Þetta fyrirkomulag hefur aldrei verið til verulegra vandræða.  Þvert á móti þá þykir þetta kósý.

flugvöllurMadeira-Airport

  Flugvöllurinn í Madeira stendur á súlum ofan í fjörunni.  Lengst af var hann of stuttur.  Það kom fyrir að ekki tókst að stöðva flugvél í tæka tíð og hún endaði ofan í fjöru.  Því fylgdi vesen.  Þess vegna var flugvöllurinn lengdur fyrir 13 árum.  Engu að síður er víst kúnst að lenda á honum. 

flugvöllurTenzing-Hillary-Airport

  Það er verra með flugvöllinn Lukla í Nepal.  Ef ekki tekst að stöðva flugvél á brautarenda þá tekur við 2000 feta fall.  Flugvöllurinn er erfiður hvað margt annað varðar.  Sterkar vindkviður og hnausþykk þoka setja oft strik í reikninginn.  Um þennan flugvöll fara allir sem flandra upp Mount Everest. 

flugvöllurBarra-International-Airport

  Alþjóðaflugvöllurinn í Barra þjónar hlutverki baðstrandar þegar flugvél er hvorki að lenda eða taka á loft.  Baðstrandargestir eru stöðugt hvattir til að fylgjast með flugáætlun til að lenda ekki í vegi fyrir flugvélum. 

flugvöllurCourchevel-Airport

  Flugvöllurinn í Courchevel þykir sérlega glannalegur.  Hann liggur í bröttum hólum og yfirborðið.  Orðið flughált er komið úr lýsingu á þessum flugvelli.  Hann er iðulega þakinn íshellu sem flugvélarnar dansa á.  Alvarleg hætta á að illa fari er ekki meiri en svo að flugbrautin er umkringd háum og þéttum snjó sem virkar eins og stuðpúði þegar flugvélar nuddast utan í hann.

  Flugvöllurinn þykir það glannalegur að hann var notaður til að hræða bíógesti í James Bond myndinni Tomorrow Never Dies.  Bond er sýndur lenda flugvél þarna. 

flugvöllur-Juancho-E.-Yrausquin-Airport

  Juanco E. Yrausquin flugvöllurinn á Saba í Karabíska hafinu er einn sá erfiðasti í heimi.  Flugbrautin er aðeins 1300 fet að lengd og flestar flugvélar þurfa að fullnýta lengdina bæði við lendingu og flugtak.  Þessi hættulegi flugvöllur er talin vera ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að byggja upp ferðamannatraffík til eyjarinnar. 


Wow sló í gegn enn einu sinni!

 

 wow flugfreyjur

  Ég brá mér til Lundúnaborgar yfir páskana,  frjósemishátíð til heiðurs frjósemisgyðjunni Oester (Easter).  Það var ægilegur barlómur í Bretum.  Meira um það síðar.  Allt annað hljóð og jákvæðara var í flugáhöfn Wow.  Hún lék við hvern sinn fingur og reitti af sér vel heppnaða brandara.  Farþegar veltust um úr hlátri.  Þetta var í annað sinn sem ég ferðast með Wow til útlanda og aftur til baka.  Ég gerði skilmerkilega grein fyrir fyrri ferðinni.  Sjá:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1255933/ 

  Eins og þar kemur fram þá endurtóku flugfreyjur ekki sömu brandara á leið út og á heimleið.  Né heldur endurtóku þær sömu brandara í ávarpi á íslensku og ávarpi á ensku. 
  Engu að síður ætla ég að flugfreyjurnar nýti bestu brandarana oftar en einu sinni.  Það gera bestu uppistandarar.  Þeir nýta vel heppnaða brandara eins og og markaðurinn leyfir.  Það er einungis jákvætt.  Um að gera að leyfa sem flestum að njóta góðra brandara.
   Þegar ég innritaði mig á Flugstöðinni í Keflavík átti ég orðastað við miðaldra hjón,  mér ókunnug.  Þau höfðu einu sinni áður ferðast með Wow.  Þau voru ekki alveg jafn ánægð með brandara flugfreyjanna og ég.  Nefndu sem dæmi að flugfreyja hefði kynnt útgönguleiðir út frá þeim forsendum að ef farþegar væru óánægðir með þjónustuna um borð þá væru 8 útgönguleiðir.  Svo tiltók hún hvar þær voru.  
  "Það er ekki við hæfi að grínast með neyðardyr ef flugvél nauðlendir eða hrapar," sagði maðurinn alvörugefinn.  Mér þótti þetta hinsvegar mjög fyndinn brandari.  
  Í þessari annarri utanlandsferð minni með Wow reiknaði ég með að heyra "brot af því besta" frá ávarpi flugfreyja í fyrri ferðinni.  En, nei.  Það voru einungis nýjir brandarar og engu síðri.   
  Ég ætla ekki að endursegja þá.  Fyndni þeirra ræðst af stemmningu augnabliksins;  hvernig þeir eru sagðir við réttar aðstæður.  Meirihluti farþega var útlendingar.  Þeir urðu hissa á bröndurunum til að byrja með en skemmtu sér þeim mun betur þegar á leið. 
  Ein flugfreyjan fékk farþega til að fagna með áköfu lófataki 25 ára hjúskaparafmæli annarrar flugfreyju.  Þeirri stemmningu var fylgt eftir með tilkynningu um að Wow væri hraðfleygasta flugfélag í Evrópu.  Farþegar voru beðnir um að samfagna og sýna samstöðu með því að setja hendur á loft.  Og síðan með því að veifa höndum frá vinstri til hægri.  Því næst með því að ýta fast á sæti fyrir framan til að herða enn frekar á hraða flugvélarinnar og setja nýtt hraðamet.
  Farþegar létu sitt ekki eftir liggja.  Þeir lögðust fast á sætin fyrir framan sig eftir að hafa veifað höndum. 
  Flugfreyjan þakkaði fyrir góða þátttöku en upplýsti að flugvélin hafi ekki náð meiri hraða við þetta heldur hafi verið um 1. apríl hrekk að ræða.
  Ég efast um að þessi brandari skili sér á prenti.  En um borð hitti hann algjörlega í mark.  Hláturgusur gengu yfir farþegarýmið um leið og menn skömmuðust sín pínulítið fyrir að hafa "hlaupið" 1. apríl.  Til að enginn væri ósáttur vegna hrekksins var öllum farþegum gefið páskaegg.  Enginn var ósáttur.  Allir voru meira en sáttir og skemmtu sér vel. 
  Ég bar undir eina flugfreyjuna hvernig þetta væri með brandarana.  Hún svaraði:  "Við spilum það bara eftir hendinni.  Það er svo gaman þegar það er gaman.  Útlendir farþegar eru alltaf dálítið hissa til að byrja með.  Það er líka gaman."
  Ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar með Wow. 
    
 

Auðvelt að verjast bílaflakki

  Algengt er að bílar fari á flakk.  Þeir renna burt.  Þeir fjúka burt.  Þeir fljúga burt.  Þeim er stolið.  Það er til einföld aðferð sem kemur í veg fyrir öll slík óhöpp.  Aðferðin felst í því að leggja við ljósastaur eða aðra jarðfasta hluti og tjóðra bílinn rækilega við þá.  Til að mynda með því að kaupa ódýran reiðhjólalás.  Einhverjum kann að finnast það vera haldlítil vörn gegn bílaþjófum.  Auðvelt er að klippa reiðhjólalás í sundur.  Málið er að bílaþjófar eru heimskir.  Þeir fatta þetta ekki og sniðganga tjóðraða bíla.

  Það er líka hægt að bora með steinbor í malbikið og festa bílinn með böndum.

bill_festur_ni_ur.gif

bill_tjo_ra_ur.jpglitill_bill_me_storum_las.jpg


mbl.is Bíll flaug á hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri sendi póst

Anna Marta

  Þegar aldurinn færðist yfir Önnu frænku á Hesteyri dró úr póstsendingum frá henni.  Kannski vegna þess að rithöndin varð óstyrkari.  Kannski vegna þess að sjón dapraðist.  Kannski þó helst vegna þess að hún fór að nota síma í auknum mæli eftir að landið allt varð eitt og sama gjaldsvæðið hjá Símanum.  Áður var mjög dýrt að hringja út fyrir sitt gjaldsvæði.  Þannig símtöl kölluðust langlínusímtöl.  Lengst af var að auki aðeins hægt að hringja langlínusamtöl á afmörkuðum tímum dags:  Klukkutíma að morgni og tvo klukkutíma síðdegis.  Eða eitthvað svoleiðis.

  Þó að landið yrði eitt gjaldsvæði þá voru símreikningar Önnu mjög háir.  Jafnan upp á tugi þúsunda.  Hún var stundum í vandræðum með að standa skil á þeim. 

  Hugsanlega sendi Anna oftar póst en við ættingjar og vinir hennar urðum varir við.  Anna varð nefnilega sífellt kærulausari með að merkja nákvæmt póstfang á umslögin.

  Um tíma bjó ég á Grettisgötu 64 í Reykjavík.  Flest hús við Grettisgötu eru fjölbýlishús (blokkir).  Þetta eru gamlar byggingar og gamaldags.  Á útidyrahurð hvers stigagangs er ein bréfalúga.  Inn um hana setur póstburðarmaðurinn allan póst í einni hrúgu.  Íbúarnir sjálfir fiska síðan úr bunkanum sinn póst. 

  Eitt sinn sá ég í pósthrúgunni umslag með áletruninni  "Heimilisfólkið á Grettisgötu í Reykjavík".  Umslagið hafði verið opnað.  Ég kíkti í umslagið.  Það innihélt fjölda ljósmynda af Önnu,  foreldrum hennar,  mömmu minni og hennar systkinum og afa mínum.  Þegar ég kannaðist svona vel við fólkið á myndunum þekkti ég einnig rithönd Önnu utan á umslaginu.  Póstsendingin var frá Önnu til mín.  Ég rak jafnframt augu í að póststimpillinn á umslaginu var margra vikna gamall.

  Á þessum árum lagði póstburðarfólk sig í líma við að koma öllum pósti til rétts viðtakanda hversu fátæklegar,  rangar eða villandi sem upplýsingar utan á umslagi voru.  Í þessu tilfelli hafði póstburðarmaðurinn brugðið á það ráð að bera sendinguna frá Önnu fyrst á Grettisgötu 1.  Þegar enginn veitti umslaginu viðtöku þar var það næst borið út á Grettisgötu 2.  Þannig koll af kolli uns það barst loks í réttar hendur á Grettisgötu 64.    

  Anna frænka féll frá 2009.  Fyrir jólin 2008 hringdi í mig kona.  Hún kynnti sig með nafni og sagðist hafa fengið jólakort frá Önnu á Hesteyri.  Konan þekkti Önnu ekki neitt en hafði lesið um hana á blogginu mínu.  Konan var þess fullviss að jólakortið væri ætlað einhverri alnöfnu sinni.  Þær væru nokkuð margar svo konan brá á þetta ráð;  að hringja í mig.  Utan á umslagið hafði Anna aðeins skrifað nafnið og Reykjavík.  En ekkert heimilisfang. 

  Nafnið hringdi einhverjum bjöllum hjá mér.  Ég hafði heyrt það áður.  Ég bað konuna um að lesa fyrir mig textann í jólakortinu.  Þar kallaði Anna viðkomandi systir.  Þá áttaði ég mig á því að Anna hefði nefnt þetta nafn einhvern tíma við mig í samhengi við aðventísta (Anna var aðventísti).  Mér dugði að hringja í Kirkju sjöunda dags aðventísta og spyrja um heimilisfang konunnar.  Hún reyndist vera búsett í Kópavogi (en ekki Reykjavík). 

  Fleiri sögur af Önnu á Hesteyri:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1286915/


Óhefðbundið

  Sumir ökumenn fara í hvívetna eftir umferðarlögum.  Þeir leggja til að mynda bílnum einungis í lögleg bílastæði.  Það er hefðbundin hegðun.  Aðrir reyna þetta en tekst ekki alltaf sem best upp.  Enn aðrir fara óhefðbundnar leiðir.  Þeir búa til sínar eigin reglur eftir hentugleika.  Það eru þeir sem eiga dýrustu fjölskyldubílana.  Frumleiki þeirra vekur hvarvetna undrun og hrifningu.

bíl illa lagt Ö

  Þessi notar alltaf spil á vörubíl til að leggja fjölskyldubílnum snyrtilega í holur sem hann hefur áður grafið.

illa lagt í stæði G

  Fjölskyldumenn sem ólust upp með heimilisdýrum umgangast bíla sína eins og lifandi verur.  Eftir langa ökuferð leggja þeir bílinn á hliðina.  Það er til að leyfa honum að hvílast.  Jafnframt brynna þeir honum um leið.

illa lagt bíl - ofan á tré

  Örfáir ökumenn kunna þá list að leggja ofan á trjám.  Það er svo að bílinn renni ekki úr stæðinu.  

bíl illa lagt Æ

  Fleiri reyna að leggja á ljósastaur.  Það tekst sjaldnast vel.   Vænlegra er að leggja á vegrið.      

illa lagt bíl-mynd 1


mbl.is 30 milljarðar á ári í umferðarslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna á Hesteyri

Anna Marta

  Þegar ég byrjaði að blogga fyrir nokkrum árum var það fyrst og fremst til að eiga orðastað við ættingja og vini.  Liður í því spjalli var að rifja upp sögur af Önnu frænku á Hesteyri.  Hún og móðir mín voru bræðradætur.  Svo skemmtilega vildi til að fleiri en ættingjarnir höfðu gaman af sögunum.  Þær urðu kveikja að bók um Önnu sem varðveitir sögurnar betur.  Og var ekki seinna vænna.  Anna lést nokkrum mánuðum eftir útkomu bókarinnar.

  Ég gerði hlé á upprifjun á sögum af Önnu þegar bókin kom út.  Ég vildi ekki trufla sölu á henni.  Þegar Anna féll frá var ég ekki í stuði til að skrá fleiri sögur fyrst á eftir.  Nú er hlé á enda.  Á næstunni birti ég hér fleiri sögur af Önnu.

  Anna var afskaplega greiðvikin.  Hún vildi öllum vel.  Hún var stöðugt að hugsa um það hvernig hún gæti glatt aðra.  Hún var dugleg að skrifa ættingjum og vinum bréf.  Sömuleiðis notaði hún símann óspart.  Símreikningar hennar voru töluvert hærri en á öðrum heimilum.

  Í desemberbyrjun eitt árið hringdi Anna í frænku okkar í Reykjavík.  Sú var með slæma flensupest.  Það olli Önnu áhyggjum.  Hvernig fer þá með jólahreingerninguna?  Hvað með jólainnkaupin,  jólaskreytingar og jólabakstur?  Frænkan í Reykjavík viðurkenndi að þetta væri óheppilegur árstími fyrir flensu.  Hinsvegar væri maður hennar og unglingssynir við góða heilsu og gætu sinnt því brýnasta.  "Þeir kunna ekki að baka,"  fullyrti Anna áhyggjufull.  Frænkan í Reykjavík taldi góðar líkur vera á að flensan yrði að baki fyrir jól.

  Nokkrum dögum síðar fékk frænkan í Reykjavík stóran kassa frá Önnu.  Í honum voru tertur með glassúr,  jólakaka og fleira bakkelsi.  Þó að Anna væri lítið fyrir bakstur þá hafði hún undið sér í að bjarga jólabakstrinum fyrir frænkuna í Reykjavík.  Verra var að bakkelsið hafði orðið fyrir töluverðu hnjaski í póstflutningum frá Hesteyri í Mjóafirði til Reykjavíkur.  Það var ekki eins lystugt á að líta og þegar Anna tók það úr ofninum á Hesteyri.  Ennþá verra var að ofan á tertunum skoppuðu bæði efri tanngómur og neðri. 

  Frænkan í Reykjavík hringdi þegar í stað í Önnu.  Þakkaði vel fyrir bakkelsið og spurði hvort að rétt væri tilgetið að Anna saknaði fölsku tannanna sinna.  "Hvernig getur þú vitað það?"  spurði Anna gapandi hissa.  Frænkan í Reykjavík sagðist hafa fundið þær í kassanum.  Anna varð heldur betur glöð við þessi tíðindi.  Hún var búin að gera allsherjar leit að tönnunum dögum saman.  Svo vel vildi til að hún vissi af manni í Reykjavík sem ætlaði að vera í Mjóafirði yfir jólin.  Ef hratt væri brugðist við mætti koma tönnunum á hann.  "Það kæmi sér vel fyrir mig að vera með tennurnar um jólin,"  útskýrði Anna.  Það tókst.   

.

falskar tennurfalskar tennur A


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband