Færsluflokkur: Menning og listir

Málshættir

  Málshættir eru upplýsandi og fræðandi.  Nauðsynlegt er að halda þeim til haga.  Þeir geyma fyrir komandi kynslóðir gömul rammíslensk orð sem gott er að kunna.  Þeir geyma líka gömul orðatiltæki yfir vinnubrögð sem tilheyra fortíðinni en gott er að kunna skil á.  

  Íslenskir páskaeggjaframleiðendur hafa blessunarlega haldið málsháttum á góðu lífi á frjósemishátíðinni kenndri við frjósemisgyðjuna Easter.  Ástæða er til að rifja þá einnig upp á vetrarsólstöðuhátíð ljóss og friðar,  kenndri við Jólnir (Óðinn).

Feginn verður óbarinn biskup

Sjaldan fellur eggið langt frá hænunni

Allir hafa eitthvað gott til hunds að bera

Seint koma jólin en koma þó

Margt er til í mömmu

Þeir skvetta úr klaufunum sem eiga

Glöggt er gests eyrað

Ekki sést í skóinn fyrir hnjánum

Eigi geym þú ost í frysti

Allt er best í óhófi

Ekki er hún betri lúsin sem læðist

Enginn er verri þó hann vakni

Neyðin kennir nöktum manni að synda

Sjaldan er allt sem týnist

Betur sjá augu en eyru


Hvenær er íslensk tónlist íslensk?

  Nýafstaðinn dagur íslenskrar tónlistar setti margan góðan manninn í bobba.  Allir vildu Lilju kveðið hafa.  Vandamálið er að það hefur ekki verið skilgreint svo öllum líki hvenær íslensk tónlist er íslensk.

  Frekar lítill ágreiningur er um að tónlist samin af Íslendingi og flutt af Íslendingi sé íslensk.  Og þó.  Sumir hafna því að hún sé íslensk ef söngtexti er á öðru tungumáli en íslensku.  Gott og vel.  Hvers lensk er hún þá?  Ensk ef textinn er á ensku, segja sumir.  Eða fer það eftir framburði söngvarans?  Er "Lifun" með Trúbroti bandarísk plata?  Eða kanadísk?

  Samkvæmt þessu eru plötur Bjarkar, Kaleo og Of Monsters and Men ekki íslenskar.  Ein plata Sigur Rósar er sungin á bullmáli.  Hún er ekki íslensk.  Það er ekki hægt að staðsetja þjóðerni hennar.   

  Þegar Eivör flutti til Íslands þá stofnaði hún hljómsveit, Krákuna,  með íslenskum hljóðfæraleikurum.  Íslenska plötufyrirtækið 12 Tónar gaf út plötu með henni.  Hún seldist fyrst og fremst á Íslandi.  Enda spilaði hljómsveitin aðallega á Íslandi.  Textarnir eru á færeysku.  Þar með er þetta færeysk tónlist en ekki íslensk.  Eða hvað?

  12 Tónar gáfu út aðra plötu með Eivöru.  Þar eru gömul rammíslensk lög sungin á íslensku.  Líka lög sungin á færeysku, ensku og sænsku.  Platan hlaut dönsku tónlistarverðlaunin sem besta danska vísnaplatan það árið.  Þetta er snúið.

  Lengi tíðkaðist að íslenskar hljómsveitir sungu íslenska texta við erlend lög.  Er það íslensk tónlist?  Íslenskari tónlist en þegar Íslendingur syngur íslenskt lag með frumsömdum texta á ensku?

  Hvernig er þetta í öðrum greinum?  Gunnar Gunnarsson skrifaði sínar bækur á dönsku.  Eru þær ekki íslenskar bókmenntir?  William Heinesen skrifaði sínar bækur á dönsku.  Samt eru þær skilgreindar sem perlur færeyskra bókmennta.

     


Styttur af Björk

  Hérlendis vantar fleiri styttur af körlum.  Undan því hefur verið kvartað áratugum saman.  Einnig hefur verið brugðist vel við því af og til.  Enda enginn skortur á uppástungum.  Kröfur eru háværar um styttu af Gvendi Jaka (helst tvær til að túlka tungur tvær),  steraboltanum Jóni Páli,  Hemma Gunn og svo framvegis. 

  "Styttur bæjarins sem enginn nennir að horfa á," söng Spilverk þjóðanna á sínum tíma.

  Nú er komið annað hljóð í strokkinn.  Í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur er komin fram tillaga um styttu af konu.  Einkum er sjónum beint að styttu af Björk.  Hugmyndin er frumleg og djörf.  En ekki alveg út í hött.

  Enginn Íslendingur hefur borið hróður Íslands víðar og betur en Björk.  Án hennar væri ferðamannaiðnaðurinn ekki stærsta tekjulind Íslands.  Spurning hvernig henni sjálfri lýst á uppátækið.  Upplagt er að reisa eina styttu af henni við Hörpu.  Aðra við Leifsstöð.  Í leiðinni má breyta nafni flugstöðvarinnar.  Að kenna hana við Leif the Lucky (Lukku-Láka) er hallærislegt.  Í Liverpool er flugstöðin kennd við John Lennon.  Í Varsjá er flugstöðin kennd við Chopin.  Flustöðin í Sandgerði ætti að vera kennd við Björk.

 


mbl.is Vill reisa styttu af Björk við Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestu, undarlegustu og klikkuðustu jólalögin

  Hver eru bestu jólalögin?  En furðulegustu?  Tískublaðið Elle hefur svör við þessum spurningum.  Lögunum er ekki raðað upp í númeraðri röð.  Hinsvegar má ráða af upptalningunni að um nokkurskonar sætaröðun sé að ræða; þeim er ekki stillt upp eftir stafrófi né aldri eða öðru.  Fyrstu 5 lögin sem tslin eru upp eru fastagestir í efstu sætum í kosningum/skoðanakönnunum um bestu jólalögin.  Nema "At the Christmas Ball".  Ég hef ekki áður séð það svona framarlega. Samt inn á Topp 10. 

"Have Yourself a Merry Little Christmas" með Judy Garland (einnig þekkt með Frank Sinatra, Sam Smith og Christina Aguilera)

"At the Christmas Ball" með Bessie Smith

"Happy Xmas (War is Over)" með John Lennon, Yoko Ono og the Plastic Ono Band

"Fairytale of New York" með Kirsty Mcoll og the Pouges.  Á síðustu árum hefur þetta lag oftast verið í 1. sæti í kosningum um besta jólalagið.

"White Christmas" með Bing Crosby (einnig þekkt í flutningi Frank Sinatra, Kelly Clarkson,  Jim Carrey og Michael Bublé)

"Christmas in Hollis" með Run MDC

"Last Christmas" með Wham!  Í rökstuðningi segir að þrátt fyrir að "Do They Know It´s Christmas" sé söluhærra lag þá hafi það ekki roð í þetta hjá ástarsyrgjendum.

"Christmas Card from a Hooker in Minneapolis" með Tom Waits

"Jesus Christ" með Big Star

"Little Drummer Boy (Peace on Earth)" með David Bowie og Bing Crosby.

Af einkennilegum jólalögum er fyrst upp talið "Christmas Unicorn".  Þar syngur Sufjan Stevens í hálfa þrettándu mínútu um skeggjaðan jólaeinhyrning með ásatrúartré.

Klikkaðasta jólalagið er "Christmas with Satan" með James White.

Skiljanlega veit tískublaðið Elle ekkert um íslensk jólalög.  Þó er full ástæða til að hafa með í samantektinni eitt besta íslenska jólalag þessarar aldar,  "Biðin eftir aðfangadegi" með Foringjunum.  

 


Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


Íslendingur vínylvæðir Dani

  Á seinni hluta níunda áratugarins blasti við að vinylplatan væri að hverfa af markaðnum.  Þetta gerðist hratt.  Geisladiskurinn tók yfir.  Þremur áratugum síðar snéri vínyllinn aftur tvíefldur.  Nú hefur hann rutt geisladisknum af stalli.  

  Ástæðan er margþætt.  Mestu munar um hljómgæðin.  Hljómur vinylsins er hlýrri, dýpri,  þéttari,  blæbrigðaríkari og notalegri.  Að auki er uppröðun laga betri og markvissari á vinylnum að öllu jöfnu.  Báðar plötuhliðar þurfa að hefjast á öflugum grípandi lögum.  Báðar þurfa að enda á sterkum og eftirminnilegum lögum.  

  Spilunarlengd hvorrar hliðar er rösklega 20 mín.  Hún heldur athyglinni á tónlistinni vakandi.  Þar með tengist hlustandinn henni betur.  Hann meðtekur hana í hæfilegum skömmtum.

  Geisladiskurinn - með sinn harða, kantaða og grunna hljóm - var farinn að innihalda of mikla langloku.  Allt upp í 80 mín eða meir.  Athygli er ekki vakandi í svo langan tíma.  Hugurinn fer að reika eftir um það bil 40 mín að meðaltali.  Hugsun beinist í aðra átt og músíkin verður bakgrunnshljóð.  Auk þessa vilja flæða með of mörg óspennandi uppfyllingarlög þegar meira en nægilegt pláss er á disknum.    

  Stærð vinylsins og umbúðir eru notendavænni.  Letur og myndefni fjórfalt stærra.  Ólíkt glæsilegri pakki.  Fyrstu kynni af plötu er jafnan við að handleika og horfa á umslagið.  Sú skynjun hefur áhrif á væntingar til innihaldsins og hvernig það er meðtekið.  Setur hlustandann í stellingr.  Þetta spilar saman.

  Í bandaríska netmiðlinum Discogs.com er stórt og áhugavert viðtal við vinylkóng Danmerkur,  Guðmund Örn Ísfeld.  Eins og nafnið gefur til kynna er hann Íslendingur í húð og hár.  Fæddur og uppalinn á Íslandi af skagfirskum foreldrum.  Sprenglærður kvikmyndagerðarmaður og grafískur hönnuður.  Hefur framleitt fjölda músíkmyndbanda og hannað plötuumslög.  

  Með puttann á púlsinum varð hann var við bratt vaxandi þörf á vinylpressu.  Hann keypti í snatri eina slíka.  Stofnaði - ásamt 2 vinum - fyrirtækið Vinyltryk.  Eftirspurn varð slík að afgreiðsla tók allt upp í 6 mánuði.  Það er ekki ásættanlegt í hröðum tónlistarheimi.

  Nú hefur alvara hlaupið í dæmið.  1000 fm húsnæði verið tekið í gagnið og innréttað fyrir fyrstu alvöru risastóru vinylpressu í Danmörku í 60 ár.  Nafni fyrirtækisins er jafnframt breytt í hið alþjóðlega RPM Records.  

  Nýja pressan er alsjálfvirk, afkastamikil en orkunett.  Hún spýtir út úr sér plötum 24 tíma á sólarhring í hæstu gæðum.  Afreiðslutíminn er kominn niður í 10 daga.  

  Netsíðan er ennþá www.vinyltryk.dk (en mun væntanlega breytast til samræmis við nafnabreytinguna, ætla ég).  Verð eru góð.  Ekki síst fyrir Íslendinga - á meðan gengi íslensku krónunnar er svona sterkt.  

gudm örn ísfeldguðmundur örn ísfeldplötupressan   

    


Sjónvarpsþátturinn Útsvar

 

  Spurningakeppnin Útsvar hefur til fjölda ára verið einn vinsælasti dagskrárliður Sjónvarpsins.  Þar hefur margt hjálpast að:  Skemmtilegar og fjölbreyttar spurningar,  góðir spyrlar og ágæt sviðsmynd, svo fátt eitt sé nefnt.    

  "Ef það er ekki bilað þá þarf ekki að gera við það," segir heilræðið.  Þetta hefðu embættismenn Sjónvarpsins mátt hafa í huga.  Þess í stað réðust þeir á haustmánuðum í að stokka rækilega upp.  Látum vera að skipt hafi verið um spyrla.  Hugsanlega var það að frumkvæði fráfarandi spyrla,  Sigmars og Þóru.  Þau stóðu vaktina með glæsibrag í áratug.

  Verra er að sviðsmyndinni hefur verið kollvarpað ásamt fleiru.  Ekki endilega til hins verra.  Kannski jafnvel til bóta.  Vandamálið er að fastgróinn fjölskylduþáttur þolir illa svona róttæka breytingu á einu bretti.  Svoleiðis er margsannað í útlöndum.  Ekki aðeins í sjónvarpi.  Líka í útvarpi og prentmiðlum.  Fjölmiðlaneytendur eru afar íhaldssamir.

  Gunna Dís og Sólmundur Hólm eru góðir og vaxandi spyrlar.  Það vantar ekki.

  Tvennt má til betri vegar færa.  Annarsvegar að stundum eiga sumir keppendur til að muldra svar.  Þá er ástæða til að skýrmæltir spyrlar endurtaki svarið.  Hitt er að í orðaruglinu er skjárinn af og til of stutt í nærmynd.  Það er ekkert gaman að fylgjast með keppendum horfa á skjáinn hjá sér.  Þetta verður lagað,  ætla ég.  

útsvar

 


Íslensk bók í 1. sæti yfir bestu norrænar bækur

  Breska blaðið the Gardian var að birta lista yfir tíu bestu norrænu bækurnar.  Listinn er vel rökstuddur.  Hvergi kastað til höndum.  Að vísu þekki ég einungis til þriggja bóka á listanum og höfunda þeirra.  Það dugir bærilega.  Ekki síst vegna þess að listinn er tekinn saman af rithöfundinum frábæra Sjón.  Þannig er listinn:

1.  Tómas Jónsson metsölubók - Guðbergur Bergsson

2.  Novel 11, Book 18 - Dag Solstad

3.  The endless summer - Madame Nielsen

4.  Not before sundown - Johanna Sinisalo

5.  New collected poems - Tomas Tranströmer

6.  Crimson - Niviaq Korneliussen (grænlenskur)

7.  Mirror, Shoulder, Signal - Dorthe Nors

8.  Turninn á heimsenda - William Heinesen  (færeyskur)

9.  The Gravity of Love - Sara Stridsberg

10. Inside Voices, Outside Light - Sigurður Pálsson 

william Heinesenturnin á heimsendaInside Voices, Outside Lighttómas jónsson metsölubók


Er Game of Thrones að leita að þér?

  Innan skamms hefjast tökur á áttundu seríunni af sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.  Þeir hafa notið gríðarmikilla vinsælda.  Ekki síður hérlendis en út um allan heim.  Nú stendur yfir leit að fólki í nokkur hlutverk.  Íslendingar smellpassa í þau.  Meðal annars vegna þess að fólkið þarf að vera norrænt í útliti og háttum.

  Þetta eru hlutverkin:

  - Norrænn bóndi á aldrinum 25 - 35 ára.  Hann vinnur við landbúnað.  Tökur á hlutverkinu verða skotnar um miðjan nóv.

  - Hortug en aðlaðandi norræn dama á aldrinum 18 - 25 ára.  Þarf að vera kynþokkafull.  Upptökur fara fram í fyrrihluta nóv.

  - Norrænn varðmaður á aldrinum 18 - 25 ára.  Tökur eru í desember.

Eitt hlutverk til viðbótar en kallar ekki á norrænt útlit en passar mörgum Íslendingum:

  - Málaliði á aldrinum 35 - 50 ára.  Þarf að vera líkamlega stæltur (hermannalegt útlit) og kunna að sitja hest.

 


Stórskemmtileg íslensk kvikmynd - umsögn

Undir trénu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 - Titill:  Undir trénu

 - Handrit:  Huldar Breiðfjörð og Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

 - Leikstjóri:  Hafsteinn Gunnar Sigurðsson

 - Leikarar:  Edda Björgvinsdóttir,  Sigurður Sigurjónsson,  Steindi Jr.,  Þorsteinn Bachman, Selma Björnsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir

 - Tegund:  Drama/harmleikur/grín

 - Einkunn: **** (af 5) 

  Sumar kvikmyndir eru þannig að eftir því sem áhorfandinn veit meira um þær fyrirfram þeim mun ánægjulegra er áhorf.  Aðrar kvikmyndir eru þannig að áhorfandinn má ekki vita fyrirfram neitt um framvindu né tilteknar senur.  Hámarks upplifun næst með því að myndin komi stöðugt á óvart.

  Undir trénu fellur undir síðarnefndu lýsinguna.  Ég hvet eindregið þá sem sjá myndina að þegja um hana - ef frá er talið að mæla með henni.

  Óhætt er að upplýsa örfáa punkta.  Myndin segir tvær sögur.  Önnur er af ungu pari sem stendur í skilnaðarbasli.  Hin er af foreldrum unga mannsins.  Þeir eiga í nágrannadeilum vegna trés í garðinum.  Það er orðið of stórt.  Varnar sólargeislum leið að garði nágranna.

  Sögurnar tvær fléttast lipurlega saman.  Framvinda beggja styrkir hina.  Pakkinn er 2 fyrir 1; að fylgjast með tveimur spennandi og viðburðaríkum sögum á sama tíma.  

  Tilfinngaróf áhorfandans sveiflast hratt til og frá.  Allar lykilpersónur vekja samúð.  Það er sjaldgæft í kvikmynd sem byggir á harðvítugum átökum.  Svo ekki sé minnst á átökum á tveimur vígstöðvum.  Hefðbundna uppskriftin er átök á milli góðs og ills.  Hér er dramatíkin af og til óvænt brotin upp með vel heppnuðu skopi.

  Miklu skiptir úrval margra bestu leikara landsins.  Túlkun þeirra er frábær og hefur mikið að segja um útkomuna.  Edda Björgvins toppar sig.  Hefur hún þó allan leikferil verið í hæstu hæðum.  

  Steindi Jr. er í burðarhlutverki;  gaurinn að skilja og sonur hjóna í nágrannaerjum.  Hann - amatör/leikmaður - er settur í rosalega bratta stöðu/áskorun að leika á móti bestu leikurum Íslands.  Hann veldur hlutverkinu.  Það hjálpar að hans "karakter" er þekktur sem galgopi í göslaragangi.    

  Tónlist Daníels Bjarnasonar er áhrifarík.  Iðulega dimm og drungaleg.  Boðar eitthvað ógnvænlegt.  Karlakór setur svip á tónlistina.  Gegnir einnig því hlutverki að túlka tilfinningasveiflur persónunnar sem Siggi Sigurjóns leikur.  Virkilega vel heppnað. Tónlistin á stóran þátt í því hvað þetta er góð kvikmynd.  

  Eins og algengt er með íslenskar myndir þá er nafnið ekki lokkandi.  Það gefur ekkert forvitnilegt til kynna.   

  Ég mæli eindregið með Undir trénu sem virkilega góðri kvöldskemmtun í kvikmyndarhúsi.  Þó ekki fyrir viðkvæma.

 

        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband