Hvenær er íslensk tónlist íslensk?

  Nýafstaðinn dagur íslenskrar tónlistar setti margan góðan manninn í bobba.  Allir vildu Lilju kveðið hafa.  Vandamálið er að það hefur ekki verið skilgreint svo öllum líki hvenær íslensk tónlist er íslensk.

  Frekar lítill ágreiningur er um að tónlist samin af Íslendingi og flutt af Íslendingi sé íslensk.  Og þó.  Sumir hafna því að hún sé íslensk ef söngtexti er á öðru tungumáli en íslensku.  Gott og vel.  Hvers lensk er hún þá?  Ensk ef textinn er á ensku, segja sumir.  Eða fer það eftir framburði söngvarans?  Er "Lifun" með Trúbroti bandarísk plata?  Eða kanadísk?

  Samkvæmt þessu eru plötur Bjarkar, Kaleo og Of Monsters and Men ekki íslenskar.  Ein plata Sigur Rósar er sungin á bullmáli.  Hún er ekki íslensk.  Það er ekki hægt að staðsetja þjóðerni hennar.   

  Þegar Eivör flutti til Íslands þá stofnaði hún hljómsveit, Krákuna,  með íslenskum hljóðfæraleikurum.  Íslenska plötufyrirtækið 12 Tónar gaf út plötu með henni.  Hún seldist fyrst og fremst á Íslandi.  Enda spilaði hljómsveitin aðallega á Íslandi.  Textarnir eru á færeysku.  Þar með er þetta færeysk tónlist en ekki íslensk.  Eða hvað?

  12 Tónar gáfu út aðra plötu með Eivöru.  Þar eru gömul rammíslensk lög sungin á íslensku.  Líka lög sungin á færeysku, ensku og sænsku.  Platan hlaut dönsku tónlistarverðlaunin sem besta danska vísnaplatan það árið.  Þetta er snúið.

  Lengi tíðkaðist að íslenskar hljómsveitir sungu íslenska texta við erlend lög.  Er það íslensk tónlist?  Íslenskari tónlist en þegar Íslendingur syngur íslenskt lag með frumsömdum texta á ensku?

  Hvernig er þetta í öðrum greinum?  Gunnar Gunnarsson skrifaði sínar bækur á dönsku.  Eru þær ekki íslenskar bókmenntir?  William Heinesen skrifaði sínar bækur á dönsku.  Samt eru þær skilgreindar sem perlur færeyskra bókmennta.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Nú er ég alveg ráðþrota!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 11.12.2017 kl. 13:02

2 identicon

,, Hvenar drepur maður mann og hvenar drepur maður ekki mann " ?  Ég er þó alveg viss um að Lifun er íslenskt meistaraverk.

Stefán (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 21:12

3 identicon

Mér finnst að Íslensk tónlist sé þannig : Lagið er íslenskt,ljóðið íslenskt, flytjandi Íslenskur.

Bakraddir Íslenskar.

Tala ekki um að það séu íslenskir hljóðfæraleikarar sem leika undir.

Og tekið upp í Íslensku Stúdíói sem heitir Íslensku nafni.

Þetta geri ég við tónlistina sem ég hef verið að senda frá mér undanfarin ár.

Og Íslensk útgáfa sem gefur út tónlistina.

Þetta er Íslenskt.

Guðmundur Óli Scheving (IP-tala skráð) 11.12.2017 kl. 21:15

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég er líka ringlaður.  Ekki í fyrsta sinn.

Jens Guð, 12.12.2017 kl. 23:16

5 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  ég hefði haldið það.  Þangað til ég las fullyrðingar á Fésbók um að "Lifun" sé bara ensk dægurlagapalta. 

Jens Guð, 12.12.2017 kl. 23:18

6 Smámynd: Jens Guð

Guðmundur Óli,  svo sannarlega ertu að lýsa rammíslenskri tónlist. 

Jens Guð, 12.12.2017 kl. 23:19

7 identicon

Ég skil ekki þetta Fésbókardæmi varðandi Lifun sem þú nefnir Jens. Platan er rammíslensk að öllu leiti, samin og flutt af fimm íslenskum tónlistarséníum, þremur frá Keflavík, einum frá Akranesi og einum frá Reykjavík. Lifun er því frekar íslensk dreifbýlisplata en ensk, nema það að upptökur fóru vissulega fram í Englandi. Mikið meistaraverk Lifun og mikil upplifun að hlusta á. Söngur plötunnar hefur lítillega verið gagnrýndur, en aðalsöngvari plötunnar ( og jafnframt aðal tón og textaskáld plötunnar ), Gunnar Þórðarson hefur sagt taka fulla ábyrgð á því.

Stefán (IP-tala skráð) 13.12.2017 kl. 19:18

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  á degi íslenskrar tónlistar gagnrýndi einstaka maður að útvarpsstöðvar spiluðu lög með enskum textum.  Þeir höfnuðu því að tónlist með texta á útlensku væri skilgreind íslensk.

Jens Guð, 14.12.2017 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.