Færsluflokkur: Lífstíll
19.3.2023 | 11:00
Með 19 skordýrategundir í hári og hársverði
Um nokkurt skeið hefur tíðindum af líki reggí-konungsins, Bobs Marleys, verið póstað fram og til baka á samfélagsmiðlum. Þar er fullyrt að við líkskoðun hafi fundist í hári hans og hársverði 19 tegundir af skordýrum. Aðallega lús en einnig köngulóm og fleira. Samtals töldust dýrin vera 70.
Litlu skiptir þó að vísað sé til þess að um falsfrétt sé að ræða. Ekkert lát er á dreifingu fréttarinnar. Þannig er það almennt með falsfréttir. Miklu meiri áhugi er á þeim en leiðréttingum.
Bob Marley dó 1981 eftir erfiða baráttu við krabbamein í heila, lungum og lifur. Í krabbameinsmeðferðinni missti hann hárið, sína fögru og löngu "dredlokka". Hann lést með beran skalla. Þess vegna voru engin skordýr á honum. Síst af öllu lús. Þar fyrir utan hafði hann árum saman þvegið hár og hársvörð reglulega upp úr olíu. Bæði til að mýkja "dreddana" og til að verjast lús. Hún lifir ekki í olíubornu hári.
Til gamans má geta að Bob Marley var ekki aðeins frábær tónlistarmaður. Hann var líka góðmenni. Þegar hann samdi lagið "No Woman, No Cry" þá vissi hann að það myndi slá í gegn og lifa sígrænt til frambúðar. Hann skráði fótalausan jamaískan kryppling, Vincent Ford, fyrir laginu. Sá hafði hvergi komið að gerð þess. Uppátækið var einungis til þess að krypplingurinn fengi árlega ríflegar höfundargreiðslur. Bob skráði einnig konu sína, Ritu Marley, fyrir nokkrum lögum af sömu ástæðu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
5.3.2023 | 12:33
Metnaðarfullar verðhækkanir
Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum. Daglega verðum við vör við ný og hærri verð. Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum. Landinn fjölmennir til Tenerife Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu. Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins. Arðgreiðslur sömuleiðis. Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.
Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu. Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna. Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.2.2023 | 13:30
Poppstjörnur á góðum aldri
18. febrúar komst japanska myndlista- og tónlistarkonan Yoko Ono á tíræðisaldur. Þá var kveikt á friðarsúlunni í Viðey til að samfagna með henni. 43 ár eru síðan hún varð ekkja Johns Lennons er hann var myrtur úti á götu í New York. Svona er lífið.
Árlega höfum við ástæðu til að fagna hverju ári sem gæfan færir okkur. Um leið gleðst ég yfir yfir hækkandi aldri poppstjarna barns- og unglingsára minna.
Kántrý-útlaginn Willie Nelson kemst á tírðisaldur í apríl. Þessi eiga líka afmæli í ár (aldurinn innan sviga):
Tína Turner, Grace Slick (Jefferson Airplane) og Ian Hunter (Mott the Hoople) (84)
Ringo Starr og Smokey Robinson (83)
Bob Dylan, Joan Baez, Eric Burdon (Animals), Paul Simon og Neil Diamond (82)
Paul McCartney, Roger McGuinn (Byrds) og Brian Wilson (Beach Boys) (81)
Mick Jagger, Keith Richards, Roger Waters (Pink Floyd) og Steve Miller (80)
Rod Stewart, Ray Davies (Kinks), Roger Daltrey (Who) og Carly Simoon (79)
John Fogerty (Creedence Clearwater Revival), Debbie Harry (Blondie), Robert Wyatt, Neil Young, Pete Townshend (Who) og Eric Clapton (78)
Patti Smith, Linda Ronstadt, Donovan og Dolly Parton (77)
Arlo Guthrie, Elton John, Carlos Santana, Emmylou Harris, Joe Walsh og Iggy Pop (76)
Rober Plant (Led Zeppelin), Stevie Nicks (Fleedwood Mac) og Alice Cooper (75)
Bruce Springsteen og Hugh Cornwell (Stranglers) (74)
Peter Gabriel, Stevie Wonder og Billy Joel (73)
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.1.2023 | 08:38
Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið
Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna. Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga. Nægir að nefna "Jolene", "9 to 5" og "I will always love you". Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston. Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.
Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi. Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið. Ekki seinna vænna. Hún ætlar að vanda sig við umskiptin. Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone. Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk. Útkoman varð hamfarapopp.
Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk. Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður. Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones), "Purple Rain" (Prince), "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd).
Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara. Þeir eru: Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival), Steven Tyler (Aerosmith), Pink, Steve Perry (Journey), Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili.
Vinnuheiti plötunnar er "Rock star".
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.1.2023 | 13:10
Ást í háloftunum
Ég brá mér á pöbb. Þar var ung kona. Við erum málkunnug. Við tókum spjall saman. Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir. Hún var með bullandi prófskrekk. Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar. Hún var að slá á skrekkinn.
Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur. Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur. Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum. Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál. Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir. Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út. Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.
Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum. Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar. Þau höfðu að vísu átt góða nótt. En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig. Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll. Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.
Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan. "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi. "En hvað með flugprófið?" spurði hún. "Það var spaug," svaraði hann. "Ég veit ekkert um flugvélar. Ég er strætóbílstjóri!"
Lífstíll | Breytt 15.1.2023 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2022 | 23:58
Óvinafagnaður
Ég var gestkomandi úti í bæ. Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur. Þær höfðu ekki hist í langan tíma. Það urðu því fagnaðarfundir. Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri. Þær báru henni illa söguna. Fundu henni allt til foráttu. Sögðu hana vera mestu frekju í heimi, samansaumaðan nirfil, lúmska, snobbaða, sjálfselska, ósmekklega, ófríða, vinalausa, drepleiðinlega kjaftatík...
Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur. Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri: "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."
Hin tók undir það og bætti við: "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"
Það gerðu þær.
Lífstíll | Breytt 19.12.2022 kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
27.11.2022 | 08:04
Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja
Íslendingar eru hræddir. Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur. Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi. Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur.
Hvað er til ráða? Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum. Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim? Hver eru öruggustu?
Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan, Jemen og Sýrland.
Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum. Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.
1 Ísland
2 Nýja-Sjáland
3 Írland
4 Danmörk
5 Austurríki
6 Portúgal
7 Slóvenía
8 Tékkland
9 Singapúr
10 Japan
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.11.2022 | 01:52
Gullgrafarar
Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja. Fátækt fólk er laust við það vandamál. Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni. Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.
Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri. Hún var á aldur við börn hans. Þau mótmæltu. Töldu hana vera gullgrafara. Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann. Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans. Þetta gekk eftir. Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.).
John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi. Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann. Hún var allt að því eltihrellir (stalker). Hún kemur út auðmannafjölskyldu. Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður. Góð í því. En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde. John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar.
Yoko er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna. Hún væri bara í klassískri músík. Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana. Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum.
Dæmi um undirferli Yokoar: Hálfblindur John keyrði út í móa. Yoko slasaðist. Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft. Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna. John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið. Þannig gat hann annast hana. Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá. George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins. Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni. Yoko fattaði það ekki. George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi.
Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta. Mjög fögur. 26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni. Hann dó. Hún fór í mál við son hans. Krafðist helming arfs. Þá dó hún. Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.
Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara, Rod Stewart. Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara. Það reyndist ekki virka. Rachel náði af honum 35 milljónum dollara.
Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju. Peningar skipti þar engu máli.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.10.2022 | 09:29
Stysta heimsreisa sögunnar
Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu. Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni. Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði. Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt, allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni. Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun. Endastöðin átt að vera New York. Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu.
Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini. Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi. Hann datt rækilega í það. Skálaði ítrekað við gesti og gangandi. Hver á fætur öðrum bað um orðið, flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar. Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda. Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.
Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl. Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann. Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum. Húsbíllinn var kyrrsettur. Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.10.2022 | 00:02
Skemmtileg bók
- Titill: Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
- Höfundur: Steinn Kárason
Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum. Segir þar frá ungum dreng - 10 - 11 ára - á Sauðárkróki. Bakgrunnurinn er sjórinn, sjómennska og sveitin í þroskasögunni. Inn í hana blandast kaldastríðið, Kúbudeilan og Bítlarnir. Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.
Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar. Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá. Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma. Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin. Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er. Mörg brosleg atvik eru dregin fram. En það skiptast á skin og skúrir. Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.
Þetta er stór og mikil bók. Hún spannar 238 blaðsíður. Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.
Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur, blaðagreinar, tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)