Færsluflokkur: Lífstíll

Ást í háloftunum

  Ég brá mér á pöbb.  Þar var ung kona.  Við erum málkunnug.  Við tókum spjall saman.  Hún var í flugnámi og ætlaði að taka próf daginn eftir.  Hún var með bullandi prófskrekk.  Sú var ástæðan fyrir pöbbarölti hennar.  Hún var að slá á skrekkinn.  

  Við höfðum ekki spjallað lengi er ungur maður settist við borðið hjá okkur.  Hann þekkti okkur ekki en var hress og kátur.  Hann sagðist vera nýskilinn að Vestan og það væri eitthvað eirðaleysi eða einmannleiki í sér. Tal beindist fljótlega að prófskrekknum.  Maðurinn sagði að prófið væri ekkert mál.  Hann væri flugmaður og gæti leiðbeint konunni daginn eftir.  Tók hún þá gleði sína og skrekkurinn fjaraði út.  Vel fór á með þeim og að lokum leiddust þau út í leigubíl.

  Nokkru síðar sagði bardaman mér að snurða hafi hlaupið á hjá skötuhjúunum.  Konan hafði komið grátandi á barinn og sagt farir sínar ekki sléttar.  Þau höfðu að vísu átt góða nótt.  En að lokinni heimaleikfimi um morguninn flýtti maðurinn að klæða sig.  Hann sagðist vera of seinn út á flugvöll.  Hann þyrfti að sækja konuna sína þangað.

  Bólvinkonan benti honum á að hann hefði sagst vera fráskilinn að Vestan.  "Ég var bara að vitna í dægurlag með Önnu Vilhjálms," svaraði hann hlæjandi.  "En hvað með flugprófið?"  spurði hún.  "Það var spaug,"  svaraði hann.  "Ég veit ekkert um flugvélar.  Ég er strætóbílstjóri!"    

flugvél


Óvinafagnaður

  Ég var gestkomandi úti í bæ.  Þar hittust einnig tvær háaldraðar systur.  Þær höfðu ekki hist í langan tíma.  Það urðu því fagnaðarfundir.  Þær höfðu frá mörgu að segja. Þar á meðal barst tal að frænku þeirra á svipuðum aldri.  Þær báru henni illa söguna.  Fundu henni allt til foráttu.  Sögðu hana vera mestu frekju í heimi,  samansaumaðan nirfil,  lúmska,  snobbaða,  sjálfselska,  ósmekklega,  ófríða,  vinalausa,  drepleiðinlega kjaftatík...

  Systurnar fóru nánast í keppni um að rifja upp og segja af henni krassandi sögur.  Í æðibunuganginum hrökk upp úr annarri:  "Það er nokkuð langt síðan ég hef heyrt frá henni."

  Hin tók undir það og bætti við:  "Eigum við ekki að kíkja snöggvast til hennar?"

  Það gerðu þær.  

 


Friðsömustu og öruggustu lönd til að heimsækja

  Íslendingar eru hræddir.  Þeir óttast að fara í miðbæ Reykjavíkur.  Óttinn við að verða stunginn með hnífum er yfirþyrmandi.  Stjórnvöld í löndum fjölmennustu túrista til Íslands vara þegna sína við að fara í miðbæ Reykjavíkur. 

  Hvað er til ráða?  Eitthvert þurfa ferðamenn að fara til að sletta úr klaufunum.  Hver eru hættulegustu lönd til að sækja heim?  Hver eru öruggustu?  

  Það þarf ekki vísindalega útreikninga til að vita að hættulegustu lönd er Afganistan,  Jemen og Sýrland.

  Institute for Economics and Peace hefur reiknað dæmið með vísindalegum aðferðum.  Niðurstaðan er sú að eftirfarandi séu öruggustu lönd heims að ferðast til.  

1  Ísland

2  Nýja-Sjáland

3  Írland

4  Danmörk

5  Austurríki

6  Portúgal

7  Slóvenía

8  Tékkland

9  Singapúr

10 Japan


Gullgrafarar

 

  Fólk sem á rosalega marga peninga á við vandamál að etja.  Fátækt fólk er laust við það vandamál.  Þetta snýst um hvort makinn sé ástfanginn af viðkomandi eða peningahrúgunni.  Líkurnar á að síðarnefnda dæmið eigi við eykst með hverju árinu sem munar á aldri parsins.

  Þegar bítillinn Paul McCartney tók saman við Heather Mills var hann 26 árum eldri.  Hún var á aldur við börn hans.  Þau mótmæltu.  Töldu hana vera gullgrafara.  Hún myndi láta hann barna sig og skilja við hann.  Þar með væri hún komin með áskrift að ríflegu meðlagi og vænni sneið af fjármunum hans.  Þetta gekk eftir.  Hún fékk 50 milljón dollara í vasann (x 144 kr.). 

  John Lennon og Yoko Ono er flóknara dæmi.  Hún var ekki á eftir peningum er hún tók upp á því að sitja um hann.  Hún var allt að því eltihrellir (stalker).  Hún kemur út auðmannafjölskyldu.  Hún var og er framúrstefnu myndlistamaður.  Góð í því.  En var ekki fræg utan þess fámenna hóps sem aðhylltist avant-garde.  John Lennon var farseðill hennar til heimsfrægðar. 

  Yoko er ekki öll þar sem hún er séð.  Þegar henni tókst að ná John frá þáverandi eiginkonu hans og barnsmóður hélt hún því fram að hún þekkti lítið sem ekkert til Bítlanna.  Hún væri bara í klassískri músík.  Eina manneskjan í New York sem vissi ekkert um Bítlana.  Hún var ekki fyrr tekin saman við John en hún fór að dæla frá sér þokkalegum popplögum. 

  Dæmi um undirferli Yokoar:  Hálfblindur John keyrði út í móa.  Yoko slasaðist.  Hún var rúmföst og gat sig lítið hreyft.  Bítlarnir voru að hljóðrita Abbey Road plötuna.  John plantaði rúmi handa Yoko í hljóðverið.  Þannig gat hann annast hana.  Svo gerðist það að John, Paul og Ringo brugðu sér frá.  George Harrison var að dunda á annarri hæð hljóðversins.  Þar voru skjáir sem sýndu úr öryggismyndavélum í byggingunni.  Yoko fattaði það ekki.  George sá hana tipla léttfætta þvert yfir hljóðversgólfið og stela frá honum súkkulaðikexi. 

  Anna Nicoli Smith var bandarísk nektarfyrirsæta.  Mjög fögur.  26 ára giftist hún 89 ára gömlum auðmanni.  Hann dó.  Hún fór í mál við son hans.  Krafðist helming arfs.  Þá dó hún.  Einnig sonur hennar sem var eiturlyfjafíkill.                

  Rachel Hunt var 21 árs sýningardama er hún giftist hálf fimmtugum breskum söngvara,  Rod Stewart.  Hann hélt að hann hefði tryggt sig gegn gullgrafara.  Það reyndist ekki virka.  Rachel náði af honum 35 milljónum dollara. 

  Svo getur alveg verið að venjulegt blásnautt fólk verði í alvöru ástfangið af vellauðugri manneskju.  Peningar skipti þar engu máli.   

 

anna-nicole-smith-and-husband-j-howard-marshallRod Stewart   


Stysta heimsreisa sögunnar

  Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu.  Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni.  Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði.  Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt,  allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni.  Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun.  Endastöðin átt að vera New York.  Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu. 

  Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini.  Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi.  Hann datt rækilega í það.  Skálaði ítrekað við gesti og gangandi.  Hver á fætur öðrum bað um orðið,  flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar.  Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda.  Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.    

  Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl.  Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann.  Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum.  Húsbíllinn var kyrrsettur.  Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.

 


Skemmtileg bók

 - Titill:  Glaðlega leikur skugginn í sólskininu

 - Höfundur:  Steinn Kárason

  Sögusviðið er Skagafjörður á sjöunda áratugnum.  Segir þar frá ungum dreng -  10 - 11 ára - á Sauðárkróki.  Bakgrunnurinn er sjórinn,  sjómennska og sveitin í þroskasögunni.  Inn í hana blandast kaldastríðið,  Kúbudeilan og Bítlarnir.  Steinn kemur andrúmslofti þessara ára vel til skila.  

  Ég ætla að stór hluti sögunnar byggi á raunverulegri upplifun höfundar.  Ég kannast við suma atburði sem sagt er frá.  Ég var barn í Skagafirði á þessum tíma.  Fyrir bragðið var sérlega gaman fyrir mig að rifja upp bernskubrekin.  Bókin er þar fyrir utan líka skemmtileg og fróðleg fyrir fólk sem veit ekki einu sinni hvar Skagafjörður er.  Mörg brosleg atvik eru dregin fram.  En það skiptast á skin og skúrir.  Ógeðfelldir atburðir henda sem og mannlegur breyskleiki í ýmsum myndum.

  Þetta er stór og mikil bók.  Hún spannar 238 blaðsíður.  Káputeikning Hlífar Unu Bárudóttur er flott.

  Steinn Kárason er þekktur fyrir fræðibækur,  blaðagreinar,  tónlist og dagskrárgerð í ljósvakamiðlum.   

GladlegaLeikurSkugginn


Hættulegar skepnur

  Öll vitum við að margar skepnur eru manninum hættulegar.  Við vitum af allskonar eiturslöngum,  ljónum,  krókódílum,  hákörlum, ísbjörnum,  tígrisdýrum og svo framvegis.  Fleiri dýr eru varhugaverð þó við séum ekki sérlega meðvituð um það.  Einkum dýr sem eru í öðrum löndum en Íslandi. 

  -  Keilusnigill er umvafinn fagurri skel.  En kvikindið bítur og spúir eitri.  Það skemmir taugafrumur og getur valdið lömun.

  -  Tsetse flugan sýgur blóð úr dýrum og skilur eftir ssig efni sem veldur svefnsýki.  Veikindunum fylgir hiti,  liðverkir,  höfuðverkur og kláði.  Oft leiðir það til dauða.

  - Sporðdrekar forðast fólk.  Stundum koma upp aðstæður þar sem sporðdreki verður á vegi fólks.  Þá stingur hann og spúir eitri.  Versta eitrið gefur svokallaður "deathstalker".  Það veldur gríðarlegum sársauka en drepur ekki heilbrigða og hrausta fullorðna manneskju.  En það drepur börn og veikburða.

  - Eiturpílufroskurinn er baneitraður.  Snerting við hann er banvæn.

  - Portúgölsku Man O´War er iðulega ruglað saman við marglyttu.  Enda er útlitið svipað.  Stunga frá þeirri portúgölsku veldur háum hita og sjokki.

  - Í Víetnam drepa villisvín árlega fleiri manneskjur en önnur dýr.  Venjuleg alisvín eiga til að drepa líka.  Í gegnum tíðina haf margir svínabændur verið drepnir og étnir af svínunum sínum.

  -  Hættulegasta skepna jarðarinnar er mannskepnan.  Hún drepur fleira fólk og aðrar skepnur en nokkur önnur dýrategund.   

  goldenpoisonfrogsmall0x0snigilltsetse-flyxMjPs9YK4NbzAhK25AV7N8-320-80


Drykkfeldustu þjóðir heims

  Þjóðir heims eru misduglegar - eða duglausar - við að sötra áfenga drykki.  Þetta hefur verið reiknað út og raðað upp af netmiðli í Vín.  Vín er við hæfi í þessu tilfelli.

  Til að einfalda dæmið er reiknað út frá hreinu alkahóli á mann á ári.  Eins og listinn hér sýnir þá er sigurvegarinn 100 þúsund manna örþjóð í Austur-Afríku;  í eyjaklasa sem kallast Seychelles-eyjar.  Það merkilega er að þar eru það nánast einungis karlmenn sem drekka áfengi.

  Talan fyrir aftan sýnir lítrafjöldann.  Athygli vekur að asískar, amerískar og norrænar þjóðir eru ekki að standa sig. 

1 Seychelles-eyjar : 20.50

2 Úganda: 15.09 

3 Tékkland : 14.45 

4 Litháen: 13.22 

5 Lúxemborg: 12.94 

6 Þýskaland: 12.91 

7 Írland: 12.88 

8 Lettland: 12.77 

9 Spánn: 12.72 

10 Búlgaria: 12.65 

11 Frakkland: 12.33 

12 Burkina Faso: 12.03 

13 Portúgal: 12.03 

14 Austurríki: 11.96 

15 Slóvenia: 11.90       


Hvenær hlæja hundar?

  Hundar hafa brenglað tímaskyn.  Þeir kunna ekki á klukku.  Þeir eiga ekki einu sinni klukku.  Þegar hundur er skilinn eftir einn heima þá gerir hann sér ekki grein fyrir því hvað tímanum líður.  Hann áttar sig ekkert á því hvort heimilisfólkið er fjarverandi í fimm mínútur eða fimm klukkutíma.  Oft dottar hann þegar hann er einn.

  Hundar hafa kímnigáfu.  Þegar þeim þykir eitthvað verulega fyndið þá anda þeir eldsnöggt frá sér.  Það hljómar eins og þeir séu að snýta sér.  Húmor hunda er ekki upp á marga fiska.  Hundur hlær að ýmsu sem er ekki sérlega fyndið.  Sömuleiðis er hægt að segja hundi bráðfyndinn brandara án þess að hann sýni viðbrögð.  Setur bara upp hundshaus og horfir sljór á mann.  "Pönslínan" fer fyrir ofan garð og neðan.  Engu að síður er góð skemmtun að vita þetta og kannast við þegar hundur hlær.  Eitt sinn missteig ég mig heima fyrir framan símborð og féll við.  Þá hló heimilishundurinn tvisvar. 

  Þegar hundur horfir neikvæður á mann þá leitar skott hans til vinstri.  Þegar hann er jákvæður leitar það til hægri.


Furðufluga

  Ég var að stússa í borðtölvunni minni.  Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins.  Ég hélt að hún færi strax.  Það gerðist ekki.  Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð.  Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður.  Þetta truflaði mig.  Ég sló hana utanundir.  Hún hentist eitthvað í burtu.

  Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins.  Ég endurtók leikinn með sama árangri.  Hún lét sér ekki segjast.  Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.

  Háttalag hennar veldur mér umhugsun.  Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt.  Í hennar huga hafi við,  ég og hún,  verið að leika okkur.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.