Færsluflokkur: Lífstíll
2.5.2015 | 18:43
Jón Þorleifs í einkennilegum mótmælagöngum
Ég hef áður sagt frá því hvers vegna Jón Þorleifsson, verkamaður og rithöfundur, var reglulega fjarlægður af lögreglunni 1. maí. Um það má lesa með því að smella á hlekk hér neðst. Jón tók aftur á móti virkan þátt í mörgum öðrum mótmælagöngum. En gekk ekki í takt við aðra göngumenn. Þvert á móti. Hann gekk í öfuga átt; á móti göngumönnum. Hann þandi út olnbogana til að gera sig sem breiðastan. Göngumenn urðu að taka stóran sveig til að komast framhjá honum. Stundum til vandræða, til að mynda þegar tveir eða fleiri héldu á lofti breiðum borða. Eða hópur foreldra í einni kös ýtti á undan sér barnavögnum. Eða þegar nokkrir fatlaðir voru hlið við hlið í hjólastólum. Aldrei vék Jón fyrir neinum. Hann stoppaði við svona aðstæður og beið eftir því að hinir sveigðu til hliðar.
Jón þurfti ekki að vera ósammála baráttumálum göngunnar til að bregðast svona við. Þó var það í sumum tilfellum. Oftar var þetta þó vegna þess að Jón var ósáttur við einhverja þá sem stóðu að göngunni eða auglýsta ræðumenn. Það þurfti ekki mikið til.
Síðustu áratugi ævi sinnar sinnaðist Jóni við ættingja sína. Mér skilst að upphaf þess megi rekja til andúðar hans á verkalýðsforingjunum Gvendi Jaka og Eðvarði Sigurðssyni. Bróðir Jóns hafi reynt að leiðrétta einhverjar ranghugmyndir hans varðandi þessa menn eða eitthvað í gjörðum þeirra. Jón tók því illa.
Tekið skal fram að ættingjar Jóns voru og eru afskaplega gott og vandað fólk. Suma þeirra þekki ég. Samhljóða vitnisburð hef ég frá öðrum um þá sem ég þekki ekki.
Í fyrsta skipti sem ég heyrði Jón nefna bróðir sinn var í sambandi við verkalýðsforingjana. Jón úthúðaði þeim og sagði síðan óvænt: "Ég skil ekki hvað ég þoldi helvítið hann Kristján bróðir lengi."
Ég hissa: "Ha? Af hverju segir þú þetta?"
Jón: "Þetta fífl trúir öllu sem Gvendur Jaki og Eðvarð ljúga að honum."
Ég: "Hvernig þá?"
Jón: "Hann er trúgjarnasti maður sem ég þekki. Hann er svo trúgjarn að þegar hann lýgur einhverju sjálfur þá trúir hann því samstundis."
----------------
Fleiri sögur af Jóni hér
Lífstíll | Breytt 3.5.2015 kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.5.2015 | 22:21
Tónlistarsmekkur staðnar við 33ja ára aldur
Fyrir nokkru heimsótti ég í fyrsta skipti eftir hálfrar aldar hlé æskuvin. Við erum að detta inn á sjötugs aldur. Hann á gott plötusafn. Allar plötur Led Zeppelin, Deep Purple, Jimi Hendrix, The Doors, Janis Joplin og svo framvegis. Eftir að hafa flett í gegnum hans stóra plötusafn (sem þekur stóran vegg) uppgötvaði ég að hann á enga plötu með neinum tónlistamanni sem hefur komið fram á sjónarsvið eftir miðjan áttunda áratug.
Þá varð mér hugsað til fleiri jafnaldra okkar. Staðan er lík. Jú, einhverjir Bítlageggjarar hafa meðtekið Oasia. Stónsarar hafa bætt Primal Scream í púkkið. Kinksarar hafa tekið Blur opnu örmum. Í öllum þeim tilfellum er um að ræða smekk fyrir sömu músík þó að flytjendur séu aðrir.
Rannsókn byggð á spilun tónlistar á spotify.com hefur leitt í ljós að tónlistarsmekkur almennt staðnar við 33ja ára aldur. Þetta er hærri aldur en áður hefur verið talið. Hingað til hefur verið útbreidd skoðun að tónlistarsmekkur mótist á unglingsárum og staðni um það leyti sem framhaldsskólanámi lýkur. Það er að segja á þeim árum sem nýstofnað fjölskyldulíf tekur við af skólagöngu. Nú hefur þeirri kenningu verið hnekkt.
Lífstíll | Breytt 2.5.2015 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.4.2015 | 22:17
Ekki borða pizzu beint úr pizzukassanum!
Ítalskt fátækrafæði, svokölluð pizza eða flatbaka, nýtur rosalega mikilla vinsælda á Íslandi. Þetta er stór hringlaga ofnbökuð hveitiflatbaka, bökuð með margvíslegum matarafgöngum úr ísskápnum sem álegg. Hún er vinsæl í heimsendingu. Einnig til að grípa með heim (take away).
Hún er afgreidd í flötum pappakassa, skorin í misstórar sneiðar (líkt og rjómaterta). Fólk gúffar græðgislega í sig sneið og sneið. Á meðan malla óétnu sneiðarnar eftir í pizzakassanum þangað til röðin kemur að þeim.
Í pappanum eru skaðleg flúorefni sem berast auðveldlega í pizzuna. Komin inn í líkama neytandans safnast þau þar fyrir. Sem dæmi um skaðsemi þeirra má nefna að tíðni fósturláta sextánfaldast. Barátta gegn þessu er mikilvægari en barátta gegn hefðbundnum fóstureyðingum.
Til að sporna gegn skaðsemi pizzu í pappakassa er ráð að færa hana eldsnöggt á stóran disk um leið og heim er komið.
Ef að pizzakassinn er merktur svansmerki er öllu óhætt.
Lífstíll | Breytt 1.5.2015 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.4.2015 | 20:16
Klámfengin brjóst
Bæjarráð Venice strandar í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjum Norður Ameríku fer full bratt í að breyta reglum um sólbað í ríkinu. Í gær samþykkti bæjarráðið að leyfa konum að njóta sólar berbrjósta. Fyrirmyndin er teprulaus - frjálslynd - ríki í Evrópu. Samkvæmt bestu heimildum hefur ekkert verulegt tjón skapast af berbrjósta konum í sólbaði í Evrópu.
Í sunnanverðum Bandaríkjum Norður-Ameríku hefur bert kvenmannsbrjóst verið skilgreint sem gróft klám. Sjónvarpsstöðin CBS var sektuð um mörg hundruð milljónir króna eftir að í beinni útsendingu sást í brjóst á Janet Jackson (þegar Justin Timberlake svipti af brjóstinu taupjötlu). Sektinni var hnekkt eftir margra ára rándýr réttarhöld. CBS til bjargar varð að geirvarta sást ekki. Stjarna var límd yfir hana. Án stjörnunnar hefði CBS átt á hættu að missa starfsleyfi.
Samþykkt bæjarráðs Venice strandar í Kaliforníu hefur þegar vakið upp harða umræðu. Svo mjög klámfengin sem hún þykir vera. Klókara - til að ná sátt - hefði verið að taka skrefið til hálfs í fyrstu atrennu: Að leyfa aðeins annað brjóstið bert í sólbaði næstu 5 ár. Að þeim tíma liðnum mætti meta árangurinn og hugsanlega taka ákvörðun um að leyfa hinu brjóstinu að njóta sólar.
![]() |
Vilja leyfa berbrjósta sólböð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 24.4.2015 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2015 | 11:40
Vopnaðir innbrotsþjófar fengu hirtingu. Ekki fyrir viðkvæma!
Fjörtíu og níu ára gamall maður svaf vært ásamt konu sinni í Cordoba í Argentínu. Um klukkan hálf fjögur var þögnin í húsinu rofin. Það leyndi sér ekki að óboðnir gestir höfðu brotist inn í íbúðina. Maðurinn spratt á fætur eins og stálfjöður til að kanna málið. Fyrr en varði stóð hann fjögur ungmenni að verki; þrjá drengi og eina stúlku.
Tveir drengjanna voru vopnaðir byssum. Þeim gafst ekki tóm til að munda þær til gagns. Maðurinn brá eldsnöggt japönsku samuraia-sverði á loft og lagði til þeirra. Hann kunni að beita því. Innbrotsþjófarnir komu engum vörnum við. Eina ráðið var að flýja eins hratt og fætur toguðu og forða sér á bíl. Ökuferðin fékk snautlegan endi. Ökumaðurinn leið út af vegna blóðmissis og klessukeyrði bílinn. Farþegarnir voru engu betur settir. Bíllinn flaut í blóði.
Ræningjarnir verða ekki til stórræða á næstunni. Þeir fá að sleikja sárin á bak við lás og slá. Þeir munu bera ljót ör það sem eftir er.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2015 | 20:04
Blautklútar fjarlægðir úr verslunum vegna skaðsemi
Fyrir mánuði síðan - eða því sem næst - skýrði ég samviskusamlega frá því á þessum vettvangi hversu hættulegir blautklútar geta verið. Í því sambandi vísaði ég til skelfilegrar reynslu Evu Tausen af þeim. Hún situr uppi með skaddaða sjón. Svo skaddaða að hún er ófær um að aka bíl.
Eva er ein þekktasta söngkona Færeyja. Hún hefur jafnframt náð frama á heimsmarkaði í kántrý-deildinni. Náð toppsæti kántrý-vinsældalista víða um heim og hlotið alþjóðleg verðlaun. Um þetta má lesa með því að smella snöfurlega á þennan hlekk: hér
Færeyskir fjölmiðlar fjölluðu eðlilega vel og rækilega um sjónskaða Evu. Þá spruttu upp hinar ólíklegustu konur og vitnuðu um hliðstæða reynslu af blautklútunum. Kornið sem fyllti mælinn var þegar Oda Kjartansdóttir Ström steig fram í vikunni og lýsti í færeyska útvarpinu sjónskaða sem klútarnir ollu henni. Nú hafa blautklútarnir verið fjarlægðir úr færeyskum verslunum. Þeir heita First Price. Eru til sölu í íslenskum búðum. Fólki er ráðlagt að nota í andlitið einungis blautklúta með svansmerkinu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2015 | 19:36
Samgleðjumst vegna rausnalegra launahækkana
Eðlilega hafa ríflegar nýsamþykktar launahækkanir stjórnenda HB Granda vakið athygli. Þó eru það ekki nema 33% hækkanir. Minni athygli hafa vakið 75% launahækkanir stjórnarmanna VÍS. Þegar betur er að gáð er ekki um háar launagreiðslur að ræða. Menn eru að fá þetta 200 til 350 þúsund kall fyrir að sitja mánaðarlegan stjórnarfund. Hann getur teygst alveg yfir í á annan klukkutíma. Á móti vegur að gott kaffibrauð er á borðum. Engu að síður eru stjórnarfundir leiðinlegir. Ef laun stjórnamanna væru lægri myndi enginn fást til að taka sæti í stjórn svona fyrirtækja. Þeir myndu allir sem einn flytja til útlanda. Útlend fyrirtæki myndu togast á um þá ef stjórnarlaun þeirra á Íslandi væru skorin við nögl.
Þar fyrir utan fá stjórnarmenn ýmissa annarra íslenskra fyrirtækja alveg upp í 1,2 milljónir í mánaðarlaun fyrir fundinn.
Þetta er fagnaðarefni. Þetta staðfestir að fyrirtækin eru vel rekin. Þau hafa efni á þessu. Þau búa við gott atlæti. Ennþá betra er að eigendur þessara sömu fyrirtækja eru að greiða sér þessa dagana allt upp í nokkra milljarða í arð. Það er reisn yfir því.
Ómenntaði skófluskríllinn nýtur góðs af. Hann er ofdekraður. Hver sem þiggja vill fær 3,5% launahækkun á næstu dögum. Liðið þarf ekkert að gera annað en samþykkja það. Nýverið fengu allir starfsmenn HB Granda íspinna að gjöf frá fyrirtækinu.
![]() |
Stjórn VÍS fékk 75% hækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 17.4.2015 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.4.2015 | 16:39
Svefninn göfgar
Eitt sinn eftir kvöldlokun á bar í Ármúla varð umsjónarkona vör við að einhver var ennþá inni á karlaklósettinu. Dyrnar þar voru læstar. Hún bankaði á hurðina og kallaði. Viðbrögð voru engin. Hún brá á það ráð að hringja á leigubíl með ósk um aðstoð við að opna hurðina. Leigubílstjóri kom og hafði meðferðis verkfæratösku. Áður en hann hófst frekari handa bankaði hann hraustlega á klósetthurðina með skafti á stóru skrúfjárni. Skaftið náði að magna upp hávært hljóð sem bergmálaði um herbergið.
Eftir nokkur högg heyrðust þungar stunur fyrir innan. Einhver var að rumska þar. Leigubílstjórinn herti á bankinu. Þá heyrðist hrópað frá klósettbásnum hátt og reiðilega: "Hættu þessum helvítis hávaða! Það er enginn svefnfriður!"
![]() |
Svaf í strætó og endaði í fangaklefa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2015 | 20:38
Jafnaldrar í góðum gír
Fátt er skemmtilegra en að fylgjast með fólki fagna afmæli sínu. Hver afmælisdagur er sigur. Honum fylgir sigurgleði og þakklæti fyrir að hafa orðið þess aðnjótandi að bæta enn einu árinu í reynslubankann. Með tilheyrandi allri þeirri skemmtun sem síðasta ár bauð upp á.
Hér með færi ég Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra míns og ykkar, bestu afmæliskveðjur. Það var ekki seinna vænna að halda upp á afmælið röskum mánuði eftir fæðingardaginn. Apríl er að mörgu leyti heppilegri til hátíðahalda en mars (sem er frekar dauflegur mánuður).
Forsætisráðherrann okkar er fertugur. Ég hef sterkan grun um að hann sé í hópi yngstu forsætisráðherra Íslands. Og jafnvel þó leitað sé út fyrir landsteina.
Eitt það skemmtilega við aldur forsætisráðherrans er að hann er á svipuðum aldri og Blaz Roca. Það telur þó að þeir hafi ekki mætt í fermingarveislu hjá hvor öðrum.
![]() |
Stemning í fertugsafmæli Sigmundar Davíðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2015 | 21:27
Týndir feluleikstjórar
Í gær átti ég erindi í sænsku húsgagnaverslunina Ikea í Grðabæ. Þar var allt í rugli og upplausn. Að mér skilst hafði verið auglýstur feluleikur fyrir börn í búðinni. Búðin er hönnuð sem völundarhús að hætti gatnakerfis Kópavogs. Þar er alla daga fólk úr nágrannasveitafélögum illa áttað. Það hefur týnt sér til langs tíma og finnur sig ekki fyrr en seint eða aldrei. Þetta er líka ástæðan fyrir íbúafjölgun í Kópabogi. Fólk ætlar að keyra í gegnum Kópavog á leið til Garðabæjar eða Hafnarfjarðar. Áður en hendi er veifað er það orðið íbúar í Kópavogi og ratar ekki út.
Ikea hafði ráðið tvo hámenntaða og þjálfaða útlenda feluleikstjóra til leiks. Þeir fundust hvergi þegar feluleikurinn átti að hefjast. Þeir eru ekki ennþá fundnir. Óstaðfestur orðrómur er um að þeir hafi hugsanlega villst til Akureyrar. Heyrst hefur af tveimur umkomulausum strandaglópum í reiðuleysi á KEA hótelinu. Í KEA.
Það er lán í óláni að hinir týndu séu þrautþjálfaðir í feluleiknum "Týndur - fundinn". Næsta víst er að þeir væru miklu týndari ef þetta hefðu verið amatörar.
![]() |
Feluleiksstjórar IKEA ófundnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 13.4.2015 kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)