Færsluflokkur: Ferðalög

Svívirðilegur áróður gegn Íslandi

  Á Norðurlöndunum er gríðarmikill áhugi fyrir því að sækja Ísland heim.  Ástæðurnar eru margar.  Þar á meðal að íslenska krónan er lágt skráð.  Einnig að Íslendingar hafa staðið sig sérlega vel í baráttunni gegn kórónaveiruna.  Þar að auki þykir íslensk tónlist ævintýraleg og flott,  sem og íslenskar kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

  Ekki eru allir sáttir við þetta.  Norska dagblaðið VG hvetur fólk til að heimsækja EKKI Ísland.  Bent er á að Ísland þyki svalt og íbúarnir ennþá svalari.  Vandamálið sé yfirþyrmandi ferðamannafjöldi:  Sex ferðmenn á móti hverjum einum Íslendingi og það sé eins og allir ætli í Bláa lónið á sama tíma og þú.

  VG segir að til sé vænni valkostur.  Þar séu reyndar hvorki jöklar né eldfjöll.  Hinsvegar öðlast fólk þar sálarró og frið í afskekktum óspilltum sjávarþorpum og fordómaleysi. 

  Staðurinn sé óuppgötvaður eyjaklasi sem svo heppilega vill til að er landfræðilega nær Noregi en Ísland.  Hann heiti Færeyjar.  

Færeysk eggjatýnsla 

 

 

  

 

 


Ósvífin sölubrella

  "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?" spyr Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.  Eðlileg spurning sem margir hafa spurt sig.  Og aðra.  Ennþá brýnni er spurningin:  Hvenær er dýrari vara ódýrasta varan? 

  Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðu auglýsing í rauðbleikum lit.  Þar segir í flennistórum texta:  "LÆGSTA VERÐIÐ Í ÖLLUM LANDSHLUTUM". 

  Í litlum og illlæsilegum neðanmálstexta má með lagni stauta sig framúr fullyrðingunni:  "Orkan býður lítrann á lægsta verðinu í öllum landshlutum - án allra skilyrða." 

  Auðséð er á uppsetningu að auglýsingin er ekki hönnuð af fagmanni.  Líka vegna þess að fagmaður veit að bannað er að auglýsa með hæsta stigs lýsingarorði.  Líka vegna þess að ekki má ljúga í auglýsingum. 

  Ég átti erindi um höfuðborgarsvæðið.  Ók framhjá nokkrum bensínstöðvum Orkunnar (Skeljungs).  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 216,80,-  Nema á Reykjavíkurvegi.  Þar kostaði hann kr. 188.8,-.  Sú stöð var merkt í bak og fyrir textanum:  "Ódýrasta eldneytisverð á landinu". 

  Ég var nokkuð sáttur við það.  Þangað til ég ók framhjá Costco.  Þar kostaði bensínlítrinn kr. 180.9,-  


Fjölmiðlar ljúga gróflega

  Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna.  Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið.  Svo kom veiran til Íslands. 

  Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum).  Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.

  Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar.  Samt.  Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?).  Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?).  Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu.  Bæði meðal karla og kvenna.  85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri,  vinna sér til gagns og gamans.  Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu.  Þannig mætti áfram telja.  

  Annað en þó þessu skylt.  Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna.  Hann var skotinn með það sama. 

 


EazyJet um Ísland og Íslendinga

  Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet.  Skrapp til Edinborgar í Skotlandi.  Skömmu síðar aftur til Íslands.

  Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír.  Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins.  Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.  

  Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn.  Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi.  Reyndar veit ég að svo er.

  Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum.  Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum! 

  Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.

  Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík".  Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim.  Þessar stofur eru: 

1.  Black kross

2.  Apollo ink

3.  Reykjavik ink

  Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum.  Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti. 

  Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi.  Ég skrifa af reynslu til margra ára.  Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio.  Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.  

 


Hótel Jórvík

  Á tíunda áratug síðustu aldar átti ég erindi til Þórshafnar á Langanesi.  Var með skrautskriftarnámskeið þar.  Gisti á Hótel Jórvík.  Hótelstýran var hölt öldruð kona.  Hún var hálf heyrnarlaus.  Lá því hátt rómur.  Auk mín dvöldu á hótelinu flugmaður og dúettinn Súkkat. 

  Ég kom mér fyrir í hótelinu síðdegis á föstudegi; hafði herbergisdyrnar opnar.  Ég heyrði að hótelsíminn hringdi.  Kerla svaraði.  Viðmælandinn var auðheyranlega að bjóðast til að hjálpa til.  Hótelstýran hrópaði í tólið:  "Ég slepp létt frá kvöldmatnum.  Ég er bara með nýja kalla sem komu í dag.  Hinir fóru í morgun.  Ég get þess vegna hitað upp afganginn af karríkjötinu frá því á mánudaginn og nýju kallarnir fatta ekki neitt!"

  Um kvöldið var karríkjötsréttur í matinn. 

  Hótelstýran lét okkur vita að hún hefði bjór og vín til sölu.  Við gestirnir pöntuðum eitthvað af veigum.  Enginn var barinn.  Konan sótti drykkina inn í hliðarherbergi.  Hún bar þá ekki fram í umbúðum heldur í vatnsglösum. 

  Nokkrum árum síðar var forsíðufrétt í DV um að við húsleit í Hótel Jórvík hefði fundist töluvert magn af heimabrugguðum bjór og víni ásamt bruggtólum.  Hótelstýran sagðist ekki selja áfengi.  Hún væri að geyma þetta fyrir sjómann sem hún vissi ekki hvað hét. 

Hótel Jórvík

 

 


Lúxusvandamál Færeyinga

 

Skemmtilegt er að fylgjast með uppganginum í Færeyjum síðustu árin.  Íbúum fjölgar árlega um 3%.  Nú eru þeir að nálgast 52000.  Sífellt fækkar þeim sem flytja frá eyjunum.  Að sama skapi fjölgar þeim sem flytja aftur heim eftir búsetu erlendis.  

  Til viðbótar eru Færeyingar frjósamasta þjóð í Evrópu.  Að meðaltali eignast færeyskar konur 2,5 börn.  Íslenskar konur eignast aðeins 1,7 börn.  Það dugir ekki til að viðhalda stofninum.  Tíðni hjónaskilnaða í Færeyjum er sú lægsta í Evrópu.

  Ferðamönnum hefur fjölgað mjög að undanförnu.  Ríkissjóður fitnar sem aldrei fyrr.  Tekjur hans uxu um rúm 20% í fyrra.  Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um rúm 15%.  Fyrir bragðið geta bæði ríki og sveitarfélög kastað sér í allskonar framkvæmdir.  Fjöldi gangna eru í smíðum og enn fleiri fyrirhuguð.  Göng til Suðureyjar verða lengstu neðansávargöng í heimi.  Ekki er frágengið hvaðan þau liggja.  Kannski verða þau 26 kílómetrar.  Kannski styttri.  En samt þau lengstu.  

  Sífellt fjölgar fögum og námsbrautum á háskólastigi.  Æ færri þurfa að sækja framhaldsnám til útlanda.

  Útlánsvextir eru 1,7%.

  Uppsveiflan í Færeyjum veldur ýmsum lúxusvandamálum.  Til að mynda skorti á heimilislæknum, leikskólaplássum og húsnæði.  Hvort heldur sem er íbúðum til kaups eða leigu,  svo og hótelherbergjum.  Sem dæmi um skortinn þá er í byggingu blokk í Klakksvík.  Í henni eru 30 íbúðir.  350 sóttu um að fá að kaupa.  Skorturinn hefur þrýst upp húsnæðisverði og leigu. 

  Allt stendur þetta til bóta.  Hús af öllu tagi eru á byggingarstigi:  Skólahús,  hótel, íbúðahús,  iðnaðarhúsnæði,  landspítala, leikskóla og svo framvegis.  Þetta hefur leitt til skorts á vinnuafli í byggingaiðnaði.  Það er sótt til Austurevrópu.  Í fyrra var 525 Rúmenum veitt atvinnuleyfi í Færeyjum.


Fullur þingmaður

  Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél.  Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni.  Hann var blindfullur.  Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið.  Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um.  Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni.  Þá var hann blindfullur.  Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti:  "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín."  Fólkið hlýddi.  Flugfreyjan stökk að honum og öskraði:  "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera?  Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"

  Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti:  "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."


Skemmtilegt verðlag í Munchen

  Ég er enn með hugann við Munchen í Þýskalandi eftir að hafa dvalið þar um páskana.  Ísland er dýrasta borg í heimi.  Munchen hefur til margra ára dansað í kringum 100. sæti.  Verðlag þar er nálægt þriðjungi lægra en í Reykjavík að meðaltali.  Auðveldlega má finna dæmi þar sem munurinn er meiri.

  Ég fer aldrei inn í verslanir í útlöndum.  Nema stórmarkaði.  Já, og plötubúðir.  Helstu útgjöld snúa að mat og drykk.  Í stórmarkaðskeðju sem heitir Rewe fann ég Beck´s bjór á 94 kr. (0,69 evrur).  Hálfur lítri. 4,9%.   

  Á Íslandi er Beck´s örlítið dýrari,  389 kall í ÁTVR.  Taka má tillit til þess að hérna er hann 5%.  Það telur. 

  1,5 lítra vatnsflaska kostar 41 kr. (0,30 evrur).

  Glæsilegt morgunverðarhlaðborð kostar 667 kr (4,9 evrur).

  Á gistiheimilinu sem hýsti mig kostar hálfur lítri af bjór úr krana á 340 kr. (2,5 evrur) fram á kvöld.  Síðar um kvöldið hækkar verðið í 476 kr. (3,5 evrur).

  Ég hef engan áhuga á fínum veitingastöðum.  Nenni ekki að sitja og bíða eftir að matur sé eldaður.  Kýs frekar mat sem þegar er eldaður.  Ég gerði þó undantekningu er ég sá að á asískum veitingastað var boðið upp á stökka önd (crispy) með grænmeti og núðlum.  Sá veislumatur kostar 803 kr. (5,9 evrur).  Enginn málsverður kostaði mig 1000 kall.  Sá dýrasti var á 952 kr.  Það var lambakjöt í karrý. 

morgunverður í munchenþýskur morgunverður 

stökk öndbarinnlamb í karrý


Tilviljun?

  Listafræðikennarinn minn í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á áttunda áratugnum var Björn Th. Björnsson.  Hann var afskaplega skemmtilegur.  Hann hafði sérstæðar kenningar um hitt og þetta og fylgdi þeim eftir af rökfestu.  Ein var sú að ekki væri til neitt sem heiti tilviljun.  Einhverjir mölduðu í móinn og tefldu fram sögur af meintum tilviljunum.  Björn fór yfir dæmið lið fyrir lið.  Ætíð tókst honum að greina fyrirbærið þannig að í raun hefði frekar verið tilviljun að þetta hefði ekki gerst.

  Mér varð hugsað til Björns er ég var í Munchen um páskana.  Þá sat ég á gistiheimilinu á spjalli við tvo aðra gesti; unga dömu frá Indlandi og ungan mann frá Afganistan.  Hann er búsettur í Eistlandi.  Þau höfðu aldrei áður hitts.

  Fljótlega kom í ljós að bæði voru á leið til Írlands með haustinu.  Norður-Írlands eða lýðveldisins?  Dublin.  Hvers vegna Dublin?  Til að fara í skóla þar.  Hvaða skóla?  Þau reyndust vera á leið í sama skóla.  Bæði göptu af undrun áður en þau ákváðu að verða Fésbókarvinir og halda hópinn.  Til að byrja með myndu þau ekki þekkja neina aðra samnemendur skólans. 

   Tilviljun?  Björn Th.  hefði farið létt með að hrekja þá kenningu.  Samt.  Af 7,5 milljörðum jarðarbúa eru tveir unglingar - sem ekki þekktust - frá sitthvoru landinu á leið til Dublin í haust.  Þeir voru samtímis á litlu gistiheimili í Munchen í Þýskalandi í örfáa daga.  Þeir tóku tal saman.  Ég giska á að hvorugur hafi lent á spjalli við fleiri en kannski 10 aðra gesti gistiheimilisins.

        


Furðuleg lög

  Ég fagnaði frjósemishátíðinni - kenndri við frjósemisgyðjuna Easter (Oester) - úti í Munchen í Þýskalandi.  Næstum aldarfjórðungur er síðan ég kom þangað síðast.  Margt hefur breyst.  Á þeim tíma var fátítt að hitta einhvern enskumælandi.  Allt sjónvarpsefni var á þýsku.  Hvergi var hægt að kaupa tímarit, dagblöð eða annað lesefni á ensku.  Í dag tala allir ensku.  Í fjölvarpinu nást enskar sjónvarpsstöðvar.  Í blaðabúðum fást ensk og bandarísk tímarit og dagblöð. 

  Á meðan rigndi í Reykjavík var steikjandi sólskin í Munchen alla daga.  Það var notalegt.  Ég var vel staðsettur mitt í miðbænum,  við hliðina á umferðamiðstöðinni (central station).  Þar inni sem og fyrir utan er ekki þverfótað fyrir veitingastöðum og allrahanda verslunum.  Ég átti ekki erindi inn í eina einustu verslun,  ef frá eru taldir stórmarkaðir og blaðsölustaðir.  

  Fyrsta daginn rölti ég um nágrennið;  reyndi að átta mig á því og kortleggja það.  Að því kom að ég þreyttist á röltinu og hitanum.  Hvergi var sæti að sjá nema við veitingastaði.  Ég tyllti mér á tröppur fyrir utan DHL póstþjónustu.  Lét sólina skína á andlit og handleggi.  Hún býr til D-vítamín á húðinni.  Það kemur af stað kalkupptöku sem þéttir bein og styrkir hár, húð og tennur.  

  Ég var varla fyrr sestur en að mér snaraðist lögreglumaður.  Hann tilkynnti mér að stranglega væri bannað að sitja á gangstéttum.  Ég benti honum á að ég sæti á tröppum en ekki gangstétt.  Hann hélt því fram að tröppurnar væru skilgreindar sem hluti af gangstétt.  Ég stóð upp og spurði hver væri ástæðan fyrir svona banni.  "Af því að þetta eru lög," útskýrði laganna vörður ábúðafullur á svip.

  Þetta olli mér vangaveltum.  Helst dettur mér í hug að lögunum sé beint gegn betlurum,  útigangsmönnum og rónum.  Að minnsta kosti sáust engir slíkir þarna.  Það er sérstakt í miðbæ stórborgar (hálf önnur milljón íbúa).  Reyndar varð einn betlari á vegi mínum.  Hann var fótalaus en á stöðugu vappi.  Rölti um á höndunum.   

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband