Færsluflokkur: Ferðalög

Fara verður varlega að álfabyggðum

  Ég treysti ekki Ragnhildi Jónsdóttur til að túlka rétt afstöðu álfa til vegastæðis nýs Álftanesvegar í Garðahrauni.  Ég hef sannfrétt af álfum sem eru ekkert áfjáðir í að hopa vegna vegaframkvæmda.  Þeir eru eins og álfar út úr hól(i) þegar kemur að svona stóru verkefni.  Hvað með huldufólkið þarna?  Hefur það ekkert að segja?  Má vaða með skítugum skóm yfir það?  Ég veit um einn huldumann sem á huldu-Land Rover bíl.  Það kemur þessu máli ekkert við.  En huldubíllinn er góður.  Og sparneytnari en margur Land Rover.  Það munar 17%.

  Undanfarin 2 ár hefur verið unnið að byggingu Hofs (bænahúsi Ásatrúarmanna) í Efra-Ási í Hjaltadal í Skagafirði.  Hofinu er ekki ætlað að höfða til ferðamanna.  Það er fyrst og fremst til heimabrúks fyrir íbúa í Efri-Ási.  Þeir sækja styrk til Óðins, Týs,  Þórs og allra hinna aðal guðanna.  

   Svo skemmtilega vill til að ég er fæddur og uppalinn í Hjaltadal.  Þekkti að góðu einu Sverri,  föður bóndans í Efri-Ási.  Eitt sinn sat Sverrir ásamt fleirum fyrir utan hús í Efri-Ási eftir hádegismat þegar í hlað renndi trúboði frá Fíladelfíu.  Sá tilkynnti heimamönnum að hann væri að selja guðs orð.  Sverrir spurði:  "Selur þú það eftir vigt eða orðafjölda?"  Trúboðinn snérist á hæli og brunaði burt án frekari orðaskipta.  

 


mbl.is Álfakirkjan verður færð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskar í Vesturheimi - IV

   

  Um páskana var kvikmynd Baltasar Kormáks,  Contraband,  sýnd í bandarísku sjónvarpi.  Hún var margspiluð á hverjum einasta degi.  Það var gaman að sitja í setustofu fullri af ferðamönnum frá ýmsum löndum og fylgjast með þeim horfa á þessa ágætu mynd.   Allir virtust kunna vel við myndina.  Engin óskaði eftir því að skipta um sjónvarpsrás.  Fólk sem rambaði inn í salinn eftir að myndin byrjaði beið í lok spennt eftir byrjuninni til að horfa á frá upphafi.

  Fátt er um almennilegt drykkjarvatn í Bandaríkjunum.  Í búðum er hægt að kaupa vatn.  Ein tegundin ber af,  Icelandic Glacial.  Það er besta og ferskasta vatnið.  Að auki í töff hannaðri flösku.  Eins og nafnið gefur til kynna er vatnið rammíslenskt.  Það er gaman að sjá Icelandic Glacial í bandarískum matvöruverslunum.

ícelandic glacial

 

 

 

  Ég reikna með að unglingar á kassa í bandarískum stórmörkuðum á borð við Walmart séu lágt launaðir.  Svo gott sem allir eru hörundsdökkar stelpur þó að blökkumenn séu lágt hlutfall af íbúafjölda,  í þessu tilfelli Washington DC.  Stelpurnar eru kurteisar og kunna sína rullu.  

  Á hverjum degi keypti ég mínar Budweiser-kippur.  Afgreiðsludaman tók fram þunnan gegnsæjan plastpoka og spurði:  "Má bjóða þér annan poka?"  Á því var ætíð þörf.  Pokarnir eru það haldlitlir að þeir bera ekki þunga.   Eitt kvöldið hljóp óvænt í mig galsi.  Í stað þess að jánka öðrum poka spurði ég:  "Hvað í ósköpunum ætti ég að gera við annan poka?"

  Afgreiðsludaman svaraði um hæl:  "Ég veit það ekki,  herra.  Verslunarstjórinn segir að ég eigi alltaf að spyrja að þessu."

  Í annað skipti var afgreiðsludaman greinilega á sínum fyrsta vinnudegi.  Margt vafðist fyrir henni þegar hún afgreiddi þá sem voru á undan mér í röð.  Þegar röð kom að mér bað daman um persónuskilríki.  Ég hváði.  Daman útskýrði:  "Þú ert að kaupa áfengan bjór.  Ég þarf að ganga úr skugga um að þú hafir aldur til þess."

  Ég (næstum sextugur):  "Ókey.  Er ég dálítið barnalegur í útliti?"

  Hún:  "Þetta er bara regla.  Allir sem kaupa áfengan drykk verða að sýna fram á að þeir hafi aldur til þess."

  Ég rétti dömunni vegabréfið mitt.  Hún fletti upp í því og las ábúðafull upphátt:  "08-05-1956.  Já, þetta er í lagi."     

 


Páskar í Vesturheimi - III

easter-chocolate-bunnies
 
 
 
 
  Mig grunar að fáar þjóðir geri eins mikið úr frjósemishátíðinni,  páskunum,  og Íslendingar.  Mörgum vikum fyrir páskana er ekki þverfótað í íslenskum matvöruverslunum fyrir páskaeggjum í ýmsum stærðum.  Um svipað leyti hellist blessaður páskabjórinn yfir land og þjóð.
 
  Í Washington DC fór lítið fyrir páskunum.  Í matvöruverslunum mátti sjá nett úrval af litlum súkkulaðikanínum og súkkulaðieggjum.  Súkkulaðieggin eru í sömu stærð og hænuegg.  Þau eru pökkuð inn í skrautlegan álpappír.  
  Ég veit ekki hvort að þau eru fyllt með nammi,  eins og íslensku eggin.  En ósköp eru þau ræfilsleg í samanburði við íslensku risaeggin.
 
  Súkkulaðikanínurnar eru í hóflegri stærð.  Það er meira úrval af þeim.  Fleiri útfærslur en eggjunum.  Hver kanína er einn til tveir munnbitar.  
 
  Á páskadag heilsaðist fólk í WDC með kveðjunni:  "Gleðilega páska!"  Allar verslanir og allir veitingastaðir voru opnir eins og á venjulegum sunnudegi.  Engin páska-tilboð eða páska-gylliboð.  
 
  Miðað við hvað Kaninn gerir almennt mikið úr tyllidögum og er duglegur að selja allskonar glingur stingur í stúf hvað frjósemishátíðin er lágstemmd í WDC.  
 
  Til samanburðar var á laugardaginn Plötubúðadagurinn.  Næstu daga á undan,  sama dag og næstu daga á eftir voru fjölmiðlar í WDC undirlagðir umfjöllun um Plötubúðadaginn.  Með þeim árangri að á laugardeginum þurfti að hleypa fólki inn í hollum í plötubúðirnar.  Það voru langar raðir,  margra metra langar,  fyrir utan hverja einustu plötubúð í WDC.  Ég nennti ekki að hanga í þannig röð.  En rölti framhjá.  Flestar helstu plötubúðirnar í WDC eru við sömu götu.  Það er verslunargata,  18. stræti,  í nokkurri fjarlægð frá miðbænum.  
 
  Í umfjöllun um Plötubúðadaginn kom fram að sala á vinylplötum vex bratt í Bandaríkjunum.  Geisladiskurinn víkur hratt fyrir niðurhali.  Einn viðmælandi benti réttilega á að sálfræðiþátturinn sé vinylplötunni í hag:  Það að vera með 12" flykki í fanginu,  stóra mynd á framhlið,  stórt letur á bakhlið,  nærhald og textablað,  setja hlunkinn á spilarann,  ræsa tækið,  koma klunnalegum hausnum með nálinni á sinn stað,  sjá ferlíkið snúast...  Þetta er athöfn sem gerir svo mikið úr upplifuninni að hlusta á plötu - áður en platan fer að hljóma.  Fyrir músíkdellufólk er þetta eins og helgiathöfn.    
 
  Geislaspilarann eða músík í tölvunni vantar allt sem gerir "athöfn".   Það er alveg eins hægt að setja útvarpið í gang.  
 
  Í móttökunni á gistiheimilinu sem ég dvaldi á var að jafnaði spiluð leiðinleg R & B músík.  Inn á milli spilaði ung dama heila plötu með Of Monster and Men.  Dag eftir dag.  Það var dásemd.  Aðspurð vissi hún ekki hvers lensk OMAM er.  Hún sagðist elska þessa plötu.  Varð mjög hissa þegar ég upplýsti hana um að OMAM væri íslensk hljómsveit.  Það örlaði jafnframt á efasemdum því að hún spurði:  "Hvernig veistu?"
 
 
 

Páskar í Vesturheimi - II

wdc a
  Í Washington DC vekur athygli gríðarlega hátt hlutfall af skrifstofubyggingum.  Þegar málið er skoðað nánar þá á það sér eðlilegar skýringar.  WDC er stjórnsetur alríkisstjórnar Bandaríkja Norður-Ameríku.  Þarna er stjórnsýslan eins og hún leggur sig:  Alþingi,  ráðuneyti  forsetaembættið og það allt.  
 
  Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fjölmennari en Íslendingar.  Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að embættismenn bandaríska alríkisins séu um það bil 1000 sinnum fleiri en skrifstofu- og embættismenn íslenska ríkisins.   Það þarf margar skrifstofur undir þann fjölmenna hóp sem nagar blýanta í nafni bandaríska alríkisins.  
 
  Víða eru bílastæðisplön.  Þau eru römmuð inn með hænsnaneti.  Það er togað og teygt.  Ber þess merki að óprúttnir stytti sér leið með því að klöngrast yfir það.  Plönin sjálf eru ekki með sléttu yfirborði.  Þau eru öll í hólum og lautum,  holum og hæðum.  Undirlagið er olíuborin möl.  Ég giska á að plönin séu rekin af einkaaðilum.  Inni á miðju plani er pínulítill skúr.  Þar hafast við 3 starfsmenn. Í öllum tilfellum hörundsdökkir ungir menn.  Þeir rukka 15 dollara (um 1700 kall) fyrir daginn.   
 
  Gönguljós við gangbrautir eru skemmtileg.  Þegar gangandi vegfarandi fær grænt ljós þá hefst niðurtalning á ljósaskilti í sek.  Það er mismunandi eftir gatnamótum hvort að gangandi fái 60 eða 80 sek.  Þegar 18 sek. eru eftir má enginn halda út á gangbraut.  Þeir sem lagðir eru af stað fá 18 sek. til að koma sér yfir.
 
  Það er ekki bundið við WDC heldur viðgengst um öll ríki BNA að alkahólprósenta er ekki gefin upp á bjórumbúðum.  Það er vandamál fyrir ókunnuga.  Sumir vilja kaupa léttan 3% bjór.  Aðrir sækja í 6% bjór.  Starfsfólk verslana er verra en ekkert.  það þykist vita og giskar á.  Jafnan með óþægilegum skekkjumörkum.  
 
  Ég hef ekki staðfestingu á en mér er sagt að þetta hafi allt með það að gera að ekkert samræmi sé með áfengislögum hinna ýmsu ríkja Bandaríkjanna.  Leyfður hámarksstyrkleiki bjórs sé mismunandi.  Bjórframleiðendur fríi sig vandræðum með því að gefa ekki upp styrkleika bjórsins.    
 
  Í WDC er mikið af áhugaverðum söfnum.  Það er frítt inn á þau.  Hæst ber kannski Smithsonian listasafnið.  
 
 
 
  Þar getur að líta bandaríska myndlist af ýmsu tagi.  Allt frá mörg hundruð ára gömlum málverkum til nútíma vídíóverka.  Þarna er fræga myndin hans Andys Warhols af mannréttindabaráttukonunni og anti-rasistanum Marilyn Monroe.  
 
mm
 
  Þarna eru málverk af Muhammeth Ali og fleiri hnefaleikaköppum;  ýmsum öðrum íþróttahetjum,  forsetum og fleirum.  Mér skilst að uppskriftin af ókeypis aðgangi að söfnum í WDC sé sú að það laði ferðamenn til WDC.  Mig minnir að árlega komi 6 milljónir ferðamanna til WDC.  Þeir troðist í ókeypis söfn og skilji eftir sig góðan pening í formi hótelgistingar og matar og drykkjar.  
 
  Þegar ég var staddur við inngang Smithsonian safnsins blossaði upp í mér íslenskur Geysiskall.  Mig langaði virkilega til að hefja umsvifalaust þarna við innganginn rukkun á aðgengi.  Hundruð túrista streymdi að.  Hvað hefði þá munað um að borga mér eins og 500 kall? 

Páskar í Vesturheimi

wdc
  Ég brá mér vestur um haf til að fagna stórhátíðinni kenndri við frjósemisgyðjuna Oester,  páskana (eða easter).  Nánar tiltekið var stefnan sett á Washington DC,  höfuðborg Bandaríkja Norður-Ameríku.  Hún er einnig kölluð morðhöfuðborgin.  Mannslífið er til fárra fiska metið þarna um slóðir.
 
  Glæpir í WDC eru ekki bundnir við morð.  Það er öll flóran.  Kynferðisofbeldi,  vopnuð rán,  innbrot og annað slíkt er daglegt brauð.  Ég varð ekki var við það á annan hátt en þannig að dag og nótt ómuðu sírenur lögreglubíla og bláu blikkljósin lýstu upp hverfið.  Einn daginn rölti ég mér til gamans um nokkur íbúðahverfi.  Við mörg hús og í görðum eru auglýsingaspjöld með upplýsingum um að þar séu öryggismyndavélar, skynjarar og annað slíkt í notkun.  
 
  Það er ekki hægt að villast í WDC.  Svo auðvelt er að rata að það er vandræðalegt.  Götukerfið er svipað og í New York.  Þar heita götur 1. stræti, 2. stræti, 3ja stræti og svo framvegis.  Götur í hina áttina heita 1. Ave,  2. Ave,  3ja Ave og svo framvegis.  Í WDC heita götur einnig 1. stræti, 2. stræti og 3ja stræti.  Götur í hina áttina bera bókstafi:  A-stræti, B-stræti og C-stræti.  Mjög snjallt.  Undarlegt að þessi uppskrift sé ekki ráðandi í borgum heimsins.  
 
  Ráðamenn í Reykjavík og á Akureyri þurfa að huga að þessu.  Það auðveldar ferðamanninum heldur betur að rata.  
   
  Umferð í WDC er róleg og afslöppuð (ólíkt brjálæðinu í New York).  Ég fékk mér gistingu í miðbænum,  í útjaðri Kínahverfisins.  Einhverra hluta vegna er gistiheimilið ómerkt.  
 
wdc cvh
   
  Ég varð var við að fleiri gistiheimili eru algjörlega ómerkt.  Miðað við hvað Kaninn er almennt harður í auglýsingamennsku þá er þetta einkennilegt.  Ástæðan hlýtur að vera einhver praktísk.  Hugsanlega tengd hárri glæpatíðni.   
 
  Í Kínahverfinu er ógrynni af fjölbreyttum veitingastöðum:  Japönskum, indverskum, thailenskum,  vietnömskum,  kínverskum...  Ég hélt mig við þá sem buðu upp á hlaðborð.  Þá er hægt að bragða á einu og öðru framandi án þess að sitja uppi með fullan disk af einhverju ekki góðu.  Annars fannst mér allur matur góður.  
 
wdc kínamatur
 
  Það er ekki beinlínis galli en mér gekk illa að muna eftir því að öll verð eru gefin upp án virðisaukaskatts.  Hann er á bilinu 10 - 14,5%.  Þegar greitt er fyrir mat eða leigubíl eða eitthvað þá þarf að auki að bæta 15% þjórfé ofan á upphæðina.  
 
  Það er í góðu lagi.  Hlaðborð með öllu er á 2500 kall.  
 
  Á nóttunni er mannlífið fjörlegt sem aldrei fyrr í Kínahverfinu.  Fullorðna fólkið er heima að sofa og unglingarnir leika lausum hala.  Þarna má sjá ungan hraustan dreng slá sér upp á því að hlaupa með blaðsölustand undan Washington Post og henda honum á gangstéttina skammt frá.  Þvílíkur töffari!  Og ekki eldri en þetta.  
  
 

Tómt rugl í umferðarmerkingum

Auðskildar umferðamerkingar eru vandfundnar.  Einkum er ruglið áberandi þegar menn frumsemja umferðarmerkingar.  Fáir þurfa nauðsynlegar á skýrum lögum og reglum að halda en þeir sem sjá um umferðarmerkingum.  Skýringin kann að vera sú að í þeim bransa eru menn iðulega fullir í vinnunni,  dómgreindarlausir og éta hamborgara.  Í verstu tilfellum fikta þeir við eiturlyf.

  Í enskumælandi löndum eru nánast allir ólæsir sem vinna við vegamerkingar.  Fyrir bragðið er ekki þverfótað fyrir rangri stafsetningu á orði eins og SCHOOL (skóli).

scholl - shcool Aschool - shoolschool - scoholschool - sohoolshcool 

  Svo ekki sé minnst á klúðrin með orðið STOP:

stop sotpstop sotp astop sotp bstop - bus sotp 

  Þegar svo ólíklega vill til að orðið STOP sé rétt stafsett þá er næsta víst að BUS í BUS STOP sé vitlaust.

stop - sus stop 

  Það væri aðeins til að æra óstöðugan að hlaða hér inn ljósmyndum af vegamerkingum með orðinu CLEAR eða öðrum sem eru stafsett á allan ómögulegan máta.

  Svo eru það hin skiltin.  Hvernig á að skilja þetta.  Önnur örin vísar til hægri.  Í texta er áréttað að halda til hægri.  Hin örin vísar til vinstri.  Vegurinn virðist jafnframt sveigja til hægri. 

skilti - beygja til hægri 

  Textann má skilja á tvo vegu:  "Dragið úr hraða -  Börn á ferð"  eða "Hægfara börn".  Sennilega er átt við fyrrnefndu túlkunina.  Til að allrar sanngirni sé gætt þá hef ég séð svona skilti og get vottað að átt hefur verið við táknmyndina af barninu.  Bakspiki hefur verið bætt við.  Sennilega á sjálfu skiltinu (það er auðvelt ef maður á svart kontakt-plast) frekar en í fótósjoppi.  Bakspikinu er þá ætlað að laða fram túlkun á að skiltið vari við hægfara börnum.  Enda býður textinn upp á það.       

skilti - hæg börn 

.

     


mbl.is Lögleysa í umferðarmerkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjörið hefst á þriðjudaginn

 

   Laila av Reyni er færeysk tónlistarkona,  fatahönnuður,  stílist og innanhúsarkítekt.  Hún er hátt skrifuð á öllum þessum sviðum.  Til að mynda hefur hún ítrekað hannað fatnað á fulltrúa Danmerkur í Miss World;  einnig á Eivöru og fleiri stjörnur.  Á undanförnum árum hefur Laila verið þekkt bakraddasöngkona í Færeyjum.  Á síðasta ári sendi hún frá sér plötu með frumsömdu efni.  Platan fékk afskaplega lofsamlega dóma og var tilnefnd til færeysku tónlistarverðlaunanna FMA 2014. 

  Núna er Laila stödd á Íslandi,  meðal annars til að fylgjast með tískusýningu í Hörpu.  Hún ætlar líka að stíga á stokk og syngja fyrir Íslendinga.  Hljómleikarnir bera yfirskriftina "Litli Íslandstúrinn 2014 * 1. - 5. apríl".  Með í för er færeysk-íslenski dúettinn Sometime.  Hann er skipaður Rósu Ísfeld oog Danna,  kenndum við Maus.

  Fjörið hefst þriðjudaginn 1. apríl í Lucky Records á Rauðarárstíg.  Það er ekki aprílgabb.  Hljómleikarnir byrja klukkan 16.30 og standa til klukkan 18.00.  Ókeypis aðgangur.  

  Næstu hljómleikar eru fimmtudaginn 3. apríl í Café Rosenberg við Klapparstíg.  Þeir byrja klukkan 21.00.  Miðaverð er 2000 kr.

  Daginn eftir,  föstudaginn 4. apríl,  fá Akranesingar að njóta skemmtunar.  Þá eru hljómleikar í Gamla Kaupfélaginu.  Þeir standa frá klukkan 23.00 til 03.00.  Miðaverð er 2000 kr. í forsölu en 2500 við hurð.

  5. apríl er "Langur laugardagur" í miðbæ Hafnarfjarðar.  Þá er opið hús í Fjörukránni á milli klukkan 13.00 til 17.00.  Margt er þar um að vera á vegum Menningar & listafélags Hafnarfjarðar,  Norrænu Ferðaskrifstofunnar,  Hönnunar í Hafnarfirði o.fl.  Boðið verður upp á ýmsar uppákomur,  færeyskt smakk,  glaðning fyrir börn og sitthvað fleira,  ásamt því sem seldar verða nýbakaðar vöfflur og kaffisopi.  

  Klukkan 18.30 er í boði,  fyrir aðeins 5000 kr.,  færeysk veislumáltíð og lokahljómleikar "Litla Íslandstúrsins".  Heimsfrægur færeyskur stjörnukokkur,  Birgir Enni,  töfrar fram bestu fiskisúpu í heimi,  matreiðir lamb og fleira góðgæti.  Í leiðinni fræðir hann gesti um leyndarmálið á bakvið veisluna.  

  Hljómleikarnir hefjast klukkan 21.30.  Ef einungis þeir eru sóttir er miðaverð 2000 kr.      

 

litli Íslandstúrinn 1.-5. 2014


Kvikmyndarumsögn

gamlinginn_

 - Titill:  Gamlinginn sem skreið út um glugga og hvarf

 - Leikstjóri:  Felix Herngren

 - Leikarar:  Robert Gustafsson,  Alan Ford, Mia Skaringer

 - Einkunn: ***1/2

   Þessi ljúfa gamanmynd byggir á samnefndri metsölubók eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson.  Hún hefur verið gefin út á íslensku og fengið frábæra dóma (5 stjörnur,  fullt hús).  Leikstjórinn Felix Herngren er þekktur fyrir sjónvarpsþættina ágætu  Solsiden

  Í grófum dráttum fjallar myndin um mann sem yfirgefur elliheimilið sitt á hundrað ára afmælisdegi sínum.  Stingur af eins og í rælni.  Þetta er einfeldningur.  Flóttasagan býður upp á marga góða brandara.  Inn í hana fléttast önnur saga sem fyllir upp í og skýrir persónuleika gamla mannsins.  Í þeirri sögu er farið yfir lífshlaup hans.  Hann er með sprengjublæti.  Það býður sömuleiðis upp á marga góða brandara.    

  Þetta er gamanmynd;  fyndin,  hlý og notaleg.  Í framvindunni jaðrar við spennu á köflum.  Takturinn er jafn og þéttur.  Flestir leikararnir eru trúverðugir.   Þar fer fremstur í flokki Robert Gustafsson í hlutverki Gamlingjans (á ýmsum aldursskeiðum).  Hann á stjörnuleik.  Það er gaman að sjá Miu Skaringer á öðrum vettvangi en í  Solsiden.  Hún túlkar reyndar svipaða týpu og þar.  Það styrkir trúverðugleikann.  Flott leikkona.         

  Einn af framleiðendum myndarinnar er Íslendingurinn Sigurjón Sighvatsson.  Það er gæðavottorð. 

  Án þess að hafa lesið bókina geng ég út frá því sem vísu að heppilegast sé að sjá myndina áður en bókin er lesin.  Kvikmyndin hlýtur að vera aðeins útdráttur úr bókinni.  Ég mæli með myndinni sem góðri kvöldskemmtun. 


Lulla frænka og afi

  Lulla frænka var með skemmtilegt jafnaðargeð.  Hún kippti sér sjaldnast upp við hlutina.  Það var eiginlega sama hvað bar til tíðinda.  Hún sýndi yfirleitt engin skapbrigði.  Var jafnan róleg til orðs og æðis.  Hló sjaldan,  brosti sjaldan og reiddist sjaldan.  Samt kom það fyrir að henni mislíkaði eitthvað.  Líka að hún skellti upp úr.  En það var afar sjaldgæft.  Heyrði til undantekninga og vakti þá undrun viðstaddra.

  Faðir hennar,  afi minn,  féll frá 1976.  Ég hringdi í Lullu og bar henni fréttina.  Lulla sagði,  róleg að vanda:  "Æ,  já.  Það var svo sem komið að þessu." (Afi var á sjúkrahúsi í margar vikur áður en hann lést).  Svo bætti Lulla við sallaróleg:  "Mér þykir hálf leiðinlegt að það síðasta sem ég sagði við hann var:  Haltu kjafti!"

  Ég hrökk við undir þessari lýsingu.  Lullu var tamar að vera orðvör en kjaftfor.  Ég spurði hana hvers vegna hún hefði sagt afa að halda kjafti.   Það var þannig að hún hafði sumarið áður verið í heimsókn á heimili mínu norður í Skagafirði.  Daginn sem hún hélt suður brá hún sér í heimsókn á næsta bæ.  Afi fór með.  Að sögn Lullu deildi afi stöðugt á aksturslag dóttur sinnar.  Honum þótti hún keyra óþægilega hægt á meðan hún keðjureykti og púaði þykkum reyk á framrúðuna.  Ekið var eftir einbreiðum malarvegi og Lulla var ekkert að fylgja miðju vegarins af nákvæmni.  Afi óttaðist að hún myndi keyra út af.  Hann var með stöðugar aðfinnslur.  Þau komust þó vandræðalaust á leiðarenda og aftur til baka.  Komin aftur í Hrafnhól,  æskuheimili mitt,  kastaði Lulla kveðju á heimilisfólk og hélt suður til Reykjavíkur.  Bærinn á Hrafnhóli stóð á háum hól.  Hann var snarbrattur til tveggja hliða en hægt að aka heim á hlað frá þriðju hlið.  Lullu gekk brösulega að snúa bíl sínum við á hlaðinu.  Hún var með hausinn hálfan út um glugga til að sjá betur stöðuna.  Afi kallaði til hennar að gæta sín á að missa bílinn ekki fram af hólnum.  Þá var það sem Lulla kallaði til baka:  "Haltu kjafti!" um leið og hún ók úr hlaði. 

 

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1362238/  


Hlálegur misskilningur

  Einu sinni sem oftar var ég með skrautskriftarnámskeið á Selfossi.  Ferðin frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði var óþægilega þung vegna hríðarbyls.  Ég velti fyrir mér að fá mér hótelgistingu á Selfossi fremur en brjótast aftur til baka yfir heiðina um miðnætti.  Ég deildi vangaveltunum með nemendunum.  Af því spratt fjörleg umræða.  Þar á meðal var sögð saga sem margir heimamenn könnuðust við.  Höfðu heyrt (en kannski svokölluð flökkusaga).  Hún var eitthvað á þessa leið:

  Vegna þæfingsfærðar og ofankomu myndaðist umferðarhnútur á Hellisheiði.  Sýslumaðurinn á Selfossi kom þar að.  Hann var í gullbrydduðum herskrúða,  með gullhnöppum og kaskeiti.  Sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í héraðinu tók hann umferðarstjórn þegar í stað í sínar hendur.  Hann óð út á veg og hófst handa við að leysa umferðarhnútinn.  Þá kom þar brunandi eldri ökumaður.  Hann hringdi umsvifalaust í lögregluna og tilkynnti að maður í lúðrasveitabúningi væri að atast í umferðinni uppi á Hellisheiði.  Allt væri komið í rugl og umferðarhnút.      


mbl.is „Alltaf sama ruglið í löggunum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband