Færsluflokkur: Ferðalög
7.3.2014 | 21:53
Lulla frænka forðaði sér
Eins og áður hefur komið fram í upprifjun minni af Lullu frænku þá var hún dugleg að heimsækja systkini sín. Þau bjuggu öll á Norðurlandi en Lulla í Reykjavík. Í heimsóknum sínum norður til systkinanna dvaldi Lulla vikum saman á hverjum bæ. Öllum til mikillar gleði og ánægju. Lulla var svo skemmtileg.
Norðurreisa Lullu fékk óvæntan endi eitt sumarið. Hún mætti til bróðir síns að kvöldi dags. Er leið að háttatíma gekk heimilisfólkið og Lulla til hvílu. Morguninn eftir var Lullu og bíl hennar hvergi að finna. Á þessum árum var símasamband með öðru sniði en í dag. Aðeins var möguleiki á að hringja út fyrir sína sveit í einn eða tvo klukkutíma snemma morguns og eða að kvöldi til. Um kvöldið var gerð tilraun til að hringja í síma Lullu í Reykjavík. Hún svaraði. Sagðist hafa vaknað óvænt snemma nætur. Þá mundi hún skyndilega eftir því að hestalest átti að fara úr Reykjavík norður í land einhverja næstu daga. Lullu hugnaðist ekki að lenda inni í hestaþvögu. Hún spratt þegar í stað á fætur, rauk út í bíl og brunaði suður til Reykjavíkur - án þess að kveðja kóng né prest eða skilja eftir sig orðsendingu. Mikilvægara var að komast hjá hestaþvögunni.
Nú leita ég til þín, kæri lesandi, eftir hjálp við að staðsetja hestalestina - upp á seinni tíma sagnfræði (Bókaforlag hefur óskað eftir því að fá að gefa út sögurnar af Lullu frænku í bókarformi). Þetta var einhvern veginn þannig að hestalest flutti póst á milli landshluta af einhverju sérstöku tilefni. Frímerkjasafnarar sættu lagi, sendu póst og náðu þar póststimpli sem aðeins var notaður í þessari einu póstlest.
------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1360372/
Ferðalög | Breytt 8.3.2014 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.3.2014 | 22:01
Ökuníðingur á göngugötu
Það varð uppi fótur og fit þegar bláum fólksbíl var ekið glannalega eftir göngugötunni Strikinu í Kaupmannahöfn. Göngugatan er jafnan troðfull af gangandi vegfarendum kvölds og morgna og um miðjan dag. Það var kraftaverki næst að enginn lenti alvarlega fyrir bílnum. Bíllinn rakst þó utan í einhverja án eiginlegra slysa. Til bjargar varð að vegfarendur flúðu á harðaspretti æpandi í allar áttir og vöruðu þannig aðra vegfarendur við. Þeir forðuðu sér með því að skutla sér eins og til sunds úr vegi frá bílnum sem var á töluverðri ferð.
Einhverjir hringdu á lögregluna. Hún var fljót að finna ökuníðinginn. Bíllinn var nefnilega kyrfilega merktur skemmtistaðnum Skarv í Kaupmannahöfn. Sá skemmtistaður er einskonar færeyskt félagsheimili, rekið af Færeyingum, sótt af Færeyingum og býður iðulega upp á "lifandi" færeyska tónlist. Grænlendingar sækja einnig staðinn í nokkrum mæli. Lögreglan gómaði ökuníðinginn þegar hann var um það bil að renna í hlað við Skarv. Það fylgir sögunni að frá bílnum hafi tónlist U2 hljómað "á fullu blasti".
Samkvæmt Föroyjaportalinum undrast bílstjórinn lætin í dönsku lögreglunni út af þessu. Honum þykir "skide danskurinn" hafa farið offari án tilefnis. GPS staðsetningatæki bílsins vísaði honum inn á göngugötuna. Þaulvanur því að aka vandræðalaust eftir göngugötunni í Þórshöfn í Færeyjum til að komast í Café Natur þótti honum ekkert athugavert við að bruna eftir göngugötu í Kaupmannahöfn. "Ég get ekki gert að því hvaða leið GPS tækið valdi þegar ég keyrði eftir Strikinu til að komast í Skarv," segir ökumaðurinn.
Ljósmyndin er samsett.
-------------------------
Tvö færeysk lög krauma nú undir vinsældalista Rásar 2. Það eru Far Away með Eivöru og Freaks með Lailu av Reini. Flott lög og full ástæða til að styðja þau til frama á vinsældalista Rásar 2: http://www.ruv.is/topp30
l
Ferðalög | Breytt 7.3.2014 kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2014 | 00:15
Ódýrasta heimsreisan II
Í fyrradag benti ég ykkur á leið til að komast í heimsreisu fyrir aðeins brot af því sem hefðbundin aðferð kostar í beinhörðum pengingum. Uppskriftina má sjá með því að smella á eftirfarandi slóð: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1360942/ . Ferðin hófst í Evrópu. Drífum okkur þá til Ástralíu. Til þess þarf að komast yfir mauk sem heitir Vegemite. Ég veit ekki hvort að það fæst hérlendis. Ef ekki er áreiðanlega hægt að kaupa eina krukku fyrir lítinn pening í gegnum einhverja póstverslun. Vegemite má til að mynda finna á fésbók. Vegemite er smurt á ristað brauð. Með því er drukkið te og hlustað á AC/DC á meðan. Þar með ertu í Ástralíu.
Næst er það Ameríka. Byrjum á Grænlandi. Þar er það dökkt brauð úr rúgi. Heldur ljósara en íslenska rúgbrauðið. Á það er sett smjör og salami sneiðar. Á aðra brauðsneið er settur smurostur. Þessar vörur eru innfluttar frá Danmörku. Algengt er að mjólkurglas sé drukkið með og fylgt eftir með frekar bragðdaufu kaffi. Meðfram hljómar hljómsveitin Inneruulat.
Frá Grænlandi liggur leið til Kanada. Tökum einföldu útgáfuna (sleppum djúpsteiktu hálfmánunum sem súrkáli, kartöflum, ávöxtum og kjöti. Þeir eru hvort sem er bara til spari). Einfalda hversdagsútgáfan samanstendur af eggjahræru, litlum pylsum (sausage), ristuðu franskbrauði, beikoni og djúpsteiktum kartöflukökum sem kallast hash brown. Þær eru lagaðar úr stöppuðum soðnum kartöflum og formaðar í litlar kökur.
Til gamans má geta að lengi vel var í Keflavík (eða Njarðvík) veitingastaður í húsi Skeljungs þar sem nú er verslunarmiðstöð Hagkaups, Bónus og fleiri verslana. Þar var borðið upp á hash browns með mat. Á tímabili var ég með nokkur skrautskriftarnámskeið í Keflavík. Á leið minni til kennslu snæddi ég á þessum veitingastað. Bað alltaf um hasskökur með matnum (og átti við hash browns). Einn daginn sagði konan sem rak staðinn eitthvað á þessa leið: "Þetta er alveg ferlegt að þú kallir hash browns hasskökur. Ég var að afgreiða fólk hér og varð á í hugsunarleysi að spyrja hvort það vildi franskar eða hasskökur með matnum. Þegar fólkið varð undarlegt á svipinn áttaði ég mig á því hvað það hljómaði illa að kalla hash browns hasskökur."
Þetta var útúrdúr. En með kanadískum morgunverði er af nógu að taka í kanadískri músík.
Frá Kanada er stutt til Bandaríkjanna. Einkennandi þar eru svokallaðar bandarískar pönnukökur. Þær eru það sem við köllum lummur. Litlar, þykkar og sætar pönnusteiktar lummur. Ofan á þær nýsteiktar er sett stórt smjörstykki sem bráðnar yfir þær. Síðan er sýrópi hellt yfir í svo miklu magni að það flýtur yfir lummurnar og út á diskinn. Á allra síðustu árum er vinsælt að hafa súkkulaðibita í lummunum.
.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.3.2014 | 21:39
Sparnaðarráð: Ódýr heimsreisa
Fátt er skemmtilegra en að leggja land undir fót. Skreppa til útlanda og viðra sig yfir framandi morgunverði. Það er það skemmtilegasta þegar ferðast er frá einu landi til annars. Hefðbundinn þjóðlegur morgunverður lýsir svo vel persónusérkennum hverrar þjóðar og sögu. Eini gallinn við utanlandsferðir, sérstaklega heimsreisur, er að þær eru dýrar. Ég veit um ráð gegn þeim útgjaldalið. Mér er ljúft að deila því með ykkur.
Byrjum á því að fara til Skotlands. Það þarf ekkert að kaupa flugmiða eða neitt. Ekkert fara út á flugvöll. Aðeins bara að skjótast út í matvöruverslun. Kaupa þar egg, gróft brauð, smjör, bakaðar baunir, beikon, litlar grófar pylsur (sausage), ósúrt slátur, tómat og English Breakfast te. Komin heim í eldhús eru brauðsneiðar ristaðar. Allt hitt er steikt á pönnu nema bökuðu baunirnar. Te er lagað. Áður en morgunverðurinn er snæddur er upplagt að skella sekkjapíputónlist undir nálina. Svo er bara að anda vel að sér lyktinni af skoska morgunverðinum. Þá ertu komin til Skotlands.
Frá Skotlandi er haldið til Portúgals. Sami háttur er hafður á. Nema að einungis þarf að kaupa croissant brauð, flúrsykur, venjulegt kaffi og mjólk. Heima í eldhúsi er hellt upp á kaffi og flúrsykri stráð yfir brauðið. Kaffið er drukkið með mjólk. Dansmúsík frá Madeira smellpassar í bakgrunni.
Frá Portúgal er haldið til Ítalíu. Þar er einnig croissant brauð með flúrsykri málið. Nema að nú þarf að sprauta smávegis af súkkulaði yfir. Bara smá. Kaffið verður að vera cappuccino. Pavarotti skal hljóma undir.
Sérðu hvað það er einfalt og auðvelt að fara í heimsreisu með þessari aðferð? Í Frakklandi er einnig croissant brauð. Það er í fjölbreyttri útfærslu. Eitt brauðið er með rúsínum. Annað með súkkulaðibitum. Það þriðja með möndlukurli. Mestu munar um að músíkin er frábrugðin.
Þegar til Þýskalands er komið er gróft brauð komið á diskinn í stað croissant. Með því eru borðaðar þykkar sneiðar af osti og fjölbreyttum pylsum. Þessu er skolað niður með sterku kaffi.
Áður en rokið er til annarra heimsálfa lýk ég fyrsta hluta heimsreisunnar í Tyrklandi. Morgunverðurinn samanstendur af ólívum, ýmsum gerðum af ostum (bæði hörðum og smurosti), þurrkuðum tómötum eða tómat-paste, grófu brauði og smjöri, ferskum tómötum, gúrkum, bananabitum, ferskjubitum, berjasultu og hunangi með rjómaslettu. Með þessu er sötrað te.
Meira á morgun.
-------------------
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Ferðalög | Breytt 4.3.2014 kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2014 | 22:37
Lulla frænka og stöðumælar
Lulla frænka tók lítið mark á umferðarreglum. Fyrir bragðið var hún stundum án ökuréttinda. Það breytti engu hjá henni. Hún keyrði eftir sem áður. Frændi minn var lögregluþjónn til skamms tíma. Á Lögreglustöðinni við Hverfisgötu fann hann heila möppu smekkfulla af umferðarsektum af öllu tagi á Lullu. Allar ógreiddar.
Þetta var löngu fyrir daga tölvunnar. Sektir voru handskrifaðar og innheimta í molum. Umferðalagabrot voru ekki neitt meiriháttar mál. Áreiðanlega var eitthvað umburðarlyndi gagnvart því að Lulla var andlega vanheil og eignalaus að frátalinni bíldruslunni, dældaðri á öllum hliðum.
Þegar Lullu var bent á að varasamt væri að keyra án ökuréttinda svaraði hún: "Það getur enginn ætlast til þess að ég labbi út í búð, eins slæm og ég er til fótanna. Ég þarf auðvitað að kaupa sígarettur eins og allir aðrir."
Og: "Það skilja nú allir að ég þurfi að keyra niður í SÍBS til að endurnýja happdrættismiðann minn. Ekki endurnýjar miðinn sig sjálfur."
Lulla bjó í Reykjavík alveg frá unglingsárum. Hún þekkti Reykjavík eins og lófann á sér. Samt fór hún iðulega einkennilegar leiðir án nokkurra vandræða að komast á réttan stað. Um tíma bjó ég á Kleppsvegi við hliðina á Laugárásbíói. Lulla kom í heimsókn síðdegis á sunnudegi. Um kvöldmatarleytið hugði hún að heimferð. Okkur hjónakornum datt í hug að skreppa í Gamla bíó og fá að sitja í hjá Lullu þangað (hún var með ökuréttindi þann daginn). Lulla bjó á Skúlagötu, skammt frá bíóinu. Leiðin frá Kleppsvegi meðfram sjónum og niður á Skúlagötu var einföld, þægileg og fljótfarin.
Lulla fór ekki þá leið. Hún brunaði austur að Elliðaám. Í undrun minni sagði ég að Gamla bíó væri á Hverfisgötu. Lulla svaraði: "Heldurðu að ég viti ekki hvar Gamla bíó er? Ég veit hvar allir staðir eru í Reykjavík. Þess vegna get ég alltaf ekið stystu leið hvert sem er. Ég keyri aldrei krókaleiðir."
Síðan brunaði hún vestur að Tjörninni, ók Lækjargötuna og skilaði okkur af sér við hornið á Gamla bíói. Þessi leið var að minnsta kosti tvöfalt lengri en hefði hún ekið vestur Kleppsveginn.
Bróðir minn var unglingur og farþegi í bíl hjá Lullu niður Skólavörðustíg. Eins og ekkert væri sjálfsagðra þá ók hún eftir gangstéttinni. Komst reyndar ekki langt því að stöðumælar voru fyrir. Lulla ók tvo niður. Það var ekki þrautalaust. Þeir voru vel skorðaðir í gangstéttina og bíll Lullu í hægagangi. Lögregluþjónn kom aðvífandi og skrifaði skýrslu á staðnum. Lulla hellti sér yfir hann með skömmum og formælingum. "Hvað á það eiginlega að þýða að planta stöðumælum niður þvert fyrir umferðina? Þetta eru stórhættulegir stöðumælar? Þú skalt ekki láta hvarfla að þér að ég fari ekki lengra með þetta!"
Til að byrja með reyndi lögreglumaðurinn að benda Lullu á að gangstéttin væri fyrir gangandi vegfarendur en ekki bíla. Það var eins og að skvetta vatni á gæs. Lulla herti á reiðilestrinum. Lögreglumaðurinn lenti í vörn, muldraði eitthvað, flýtti sér að ljúka skýrslugerð og forðaði sér. Lulla kallaði á eftir honum að hann ætti að skammast sín og allt hans hyski.
Lullu tókst að bakka bílnum af stöðumælinum, komast út á götuna og halda áfram för niður Skólavörðustíginn. En hún var hvergi hætt að hneykslast á þessum fíflagangi að setja stöðumæla þar sem fólk þurfi að keyra.
-----------------------------------------
Fleiri sögur af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353811/
Ferðalög | Breytt 23.2.2014 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2014 | 23:32
Sýslumaður flytur lík á herðum sér
Á vegi mínum í dag varð eintak af Morgunblaðinu frá því fyrr í vikunni. Frétt vakti athygli mína. Ég mátti ekki vera að því að lesa fréttina. En sá að hún snérist um leyfi sýslumannsins á Siglufirði til að flytja lík á herðum sér. Af því að ég gaf mér ekki tíma til að lesa fréttina þá veit ég ekki hvort að hann fékk leyfi til að flytja lík á herðunum. Fyrirsögnin var: "Leyfi til líkflutnings á herðum sýslumanns á Siglufirði".
Ég vona að hann hafi fengið þetta leyfi fyrst að það er honum kappsmál.
-----------------------------------
Svo gott sem allt fólk talar í nútíð er það mælir. Nema nánast bara ein manneskja. Hún segist tala í fortíð. Það er aðdáunarverð kúnst sem fæstir leika eftir (nema örfáir eftir að hafa snætt görótta sveppi). Orðrétt hélt hún þessu fram sem skrifað er við myndina.
Þar fyrir utan: Flestum nægir að líta til baka án þess að vera að líta til baka.
Þessi spakmælta kona er sú hin sama og snéri nafnorðinu auðlind lipurlega upp í hæsta stigs lýsingarorð. Sagði Ísland vera auðlindasta land í heimi.
Þar áður hélt hún því fram að Róm hafi ekki verið byggð á einni nóttu. Sem er áreiðanlega rétt. Það er óhagkvæmt að byggja borg í myrkri nætur.
Fyrir daga rafmagns hefði verið hagkvæmara að byggja Róm að degi til.
Ferðalög | Breytt 21.2.2014 kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2014 | 23:50
Smásaga af fjárfesti
Ding-dong, gellur dyrabjallan. Húsfrúin gengur til dyra. Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip. Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson, fjárfesti og auðmann.
Ferðalög | Breytt 23.1.2015 kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.2.2014 | 00:08
Lulla frænka og bíllinn hennar í vonsku veðri
![]() |
Fundu mannlausan bíl í gangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2014 | 22:57
Stórkostlegar ljósmyndir af Íslandi
Bandaríska lífstíls- og menningarnetsíðan Airows spannar allt frá listum og bílum til ferðalaga og margt þar á milli. Í nýlegri færslu er ljósmyndasyrpa sem ber yfirskriftina "20 ótrúlegar ljósmyndir sem vekja þér löngun til að sækja Ísland heim". Þó að ég sé búsettur á Íslandi þá blossaði upp í mér löngun til að sækja Ísland heim er ég leit þessar myndir augum. Algjört dúndur.
Ferðalög | Breytt 3.2.2014 kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
1.2.2014 | 22:25
Blindraflug í bókstaflegri merkingu
Þessi saga er ekki léttúðlegt rangsannindagrín. Í áætlunarflugi frá borginni Seattle í Washington í Bandaríkjum Norður-Ameríku til borgarinnar San Francisco í Kaliforníu í sama landi þurfti óvænt að millilenda í höfuðborg Kaliforníu, Sacramentó. Í hátalarakerfi flugvélarinnar var farþegum tilkynnt um 50 mín. stopp. Þeim var boðið og ráðlagt að nota tækifærið og teygja úr fótunum inni í flugstöðinni. Flugstjórinn gekk frá borði á eftir farþegunum. Aðeins ein blind eldri kona sat áfram í flugvélinni ásamt blindrahundinum sínum.
Flugstjórinn þekkti konuna. Hann hvatti hana til að fara inn í flugstöðina og teygja úr sér. Nei, sú blinda vildi bara halda kyrru fyrir í flugvélinni. Hinsvegar taldi hún að blindrahundurinn hefði gott af því að fá að rölta um. Hún bað flugmanninn um að viðra hann fyrir sig. Sem var sjálfsagt mál af hans hálfu.
Þegar flugstjórinn kom inn í farþegasal flugstöðvarinnar leiddur af auðkenndum blindrahundinum greip um sig múgæsingur meðal farþega. Eflaust hafði sitt að segja að flugstjórinn var með sín dökku flugstjóragleraugu sem eru svipuð þeim er margir blindir nota.
Farþegar þyrptust að miðasölunni og létu breyta flugmiðanum sínum í annað flug. Margir létu sér það ekki nægja heldur keyptu nýjan flugmiða hjá öðru flugfélagi.
------------------------------
Hljótt hefur farið að hljómsveitin Of Monsters and Men gaf á dögunum Barnaspítala Hringsins 110 milljónir króna. Eina spurningin sem uppátækið hefur vakið er hvers vegna þetta fólk getur ekki fengið sér vinnu eins og annað fólk.
Ferðalög | Breytt 6.2.2014 kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)