Færsluflokkur: Ferðalög

Mannað geimfar lenti á sólinni

geimfar_til_solarinnar_1226490.jpg

   Í gærmorgun var sautján ára drengur,  Hung Il Gong,  á leið heim til sín - eftir nætursvall - í Norður-Kóreu.  Að venju slagaði hann framhjá geimferðarstofnun landsins.  Við honum blasti nett geimflaug og dyrnar voru ekki alveg lokaðar.  Forvitni vaknaði,  Hung Il Gong skreið inn í flaugina og litaðist um.  Hann sá að allir takkar,  handföng,  mælar og annað var vel merkt og auðskiljanlegt.  

  Hung þótti ekki ástæða til að bíða með neitt.  Hann ræsti flaugina,  skaut henni á loft og setti stefnuna á sólina.  

  Svo heppilega vildi til að ferðalagið var eftir sólsetur og fyrir sólarupprás.  Hung ferðaðist þess vegna í myrkri þangað til hann kom að sólinni.  Þá stýrði hann flauginni lipurlega að bakhlið sólarinnar,  sem er ekki eins heit og framhliðin,  og lenti þar.

  Frásögn af lendingunni á sólinni var aðalfréttin í n-kóreska sjónvarpinu.  Þar sagði meðal annars að Norður-Kórea hafi skotið öllum þjóðum heims ref fyrir rass með geimferðinni til sólarinnar.  Hvatt var til þess að Hung Il Gong yrði fagnað sem hetju við heimkomuna.  Ferðin til sólarinnar væri stærsta afrek í sögu mannkyns frá upphafi. 

  Hung Il Gong er náfrændi Kim Jong-un,  leiðtoga þjóðarinnar.  Hung fyllti alla vasa af sjóðheitu sólargrjóti sem hann ætlar að færa Kim frænda að gjöf.  N-kóreskir fjölmiðlar þreytast ekki á að halda því fram að Kim Jong-un sé kynþokkafyllsti maður í heimi.  Jafnframt hamra n-kóreskir fjölmiðlar á því að Kim Jong-un hafi fundið upp herraklippingu sem farið hefur sigurför um heiminn.  Þess á milli rifja þeir upp að faðir Kim Jong-un hafi fundið upp hamborgarann.  

  Kim Jong-un hefur tekið upp sið föður síns að drekka sig blindfullan af koníaki á kvöldin.  Enda engin ástæða til annars.  Kim Jong-un hefur þó ekki apað upp sið pabbans að sitja allsnakinn við drykkjuna.  Kim Jong-un er svo kynþokkafullur að hann þarf ekki klæðaleysi til að flagga því. 

kim_jung-il_1226510.jpg  

  Hung ráðleggur næstu sólarförum að hafa sólgleraugu með.  Það er dáldið bjart á sólinni. 

kim-jong_un.jpg  

   


Berrassaður á hverfisbar

  Fyrir nokkrum árum var rekinn hverfispöbb á efri hæð í Ármúla 5 (fyrir ofan Vitaborgarann,  við hliðina á Broadway).  Pöbbinn var kenndur við rússneska kafbátaskýlið,  Pentagon.  Nafnið Pentagon þýðir fimmhyrnd bygging.  Mörgum þótti nafngiftin á pöbbanum sérkennileg vegna þess að hann var í ferhyrndri byggingu.  Núna heitir staðurinn Crystal. 

  Svo bar til eitt kvöldið að fjölmenni var inni á staðnum.  Virðulegur eldri maður klæddur í vandaðan jakka og með hálsbindi sat sem fastast úti í horni.  Þegar hann vantaði nýtt bjórglas kallaði hann á þjón og lét færa sér á borðið.  Að nokkrum bjórglösum liðnum þurfti maðurinn að bregða sér á klósettið.  Þá blasti við að hann var berlæraður.  Aðeins í hvítum nærbuxum með rauðum doppum.  En í sokkum og stífbónuðum spariskóm.  

  Þetta vakti kátínu annarra gesta, undrun og forvitni.  Siggi Lee reið á vaðið og spurði manninn hverju klæðaleysið sætti.  Sá berlæraði andvarpaði,  stundi þungt og svaraði hægt,  dapur á svip:

  "Æ,  ég lenti í vandræðum með leigubílinn sem skutlaði mér hingað.  Ég var orðinn peningalaus.  Leigubílstjórinn varð snælduvitlaus og tók buxurnar mínar í pant."     

buxnalaus.jpg


mbl.is Berrassaður maður í Hafnarstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

  - Titill:  The Secret Life of Walter Mitty

  - Leikstjóri:  Ben Stiller

  - Leikarar:  Ben Stiller,  Ólafur Darri,  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson

  - Einkunn: *** (af 5)

  Þessi bandaríska - allt að því stórmynd - ku vera endurgerð á eldri bandarískri mynd.  Um þá mynd veit ég fátt.  Engu að síður er ég sannfærður um að Ísland og Íslendingar leiki ekki jafn stórt hlutverk í frumgerðinni.  Jafnvel ekkert hlutverk.  Það væri búið að fréttast.

  Myndin segir frá uppburðarlitlum lúða sem vinnur í framköllunardeild ljósmynda hjá tímaritinu Life.  Hann er skotinn í samstarfskonu sinni.  Kjarkleysi kemur í veg fyrir að hann gangi lengra en láta sig dreyma dagdrauma um þau tvö.  Hann dettur óspart í dagdrauma um margt fleira.  Í dagdraumum er hann kjarkmikil ofurhetja,  andstæðan við það sem hann er í raunveruleikanum.  Andstæðurnar eru það skarpar að áhorfandinn á auðvelt með að greina dagdraumana frá raunveruleikanum.

  Örlögin haga því þannig að óvænt er mannræfillinn hrifinn úr sínu örugga umhverfi í framköllunardeildinni og þeytist í viðburðarríkar ferðir til Grænlands, Íslands og Himalayafjalla.  Allar senur þessara ferðalaga eru víst teknar á Íslandi.  Það er trúlegt hvað varðar Ísland.  Líka Himalayafjöll.  En assgoti tekst vel til með senurnar sem eiga að gerast á Grænlandi.  Ég hef þrívegis komið til Grænlands og flakkað dálítið um.  Þetta er alveg eins og Grænland.

  Senurnar á Íslandi og þær sem eiga að gerast á Grænlandi eru skemmtilegastar.  Ekki aðeins vegna þess hversu fallegt og mikilfenglegt landslagið er og hversu gaman er að sjá íslenska leikara fara á kostum.  Jú, jú,  það vegur þungt.  Það er virkilega gaman að sjá Ísland skarta sínu fegursta,  íslenska náttúru minna hraustlega á sig og það er góð skemmtun að sjá íslenska leikara "brillera" í útlendri mynd sem hundruð milljóna manna um allan heim ýmist hafa séð,  eru að sjá þessa dagana eða eiga eftir að sjá. Í þessum senum nær myndin hæstu hæðum í gríni.  Hvert vel heppnaða spaugilega atvikið rekur annað.  Ólafur Darri á stjörnuleik.  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson standa sig sömuleiðis með prýði.  

  Myndin skiptir mjúklega um gír þegar Íslandi sleppir.  Síðasti fjórðungur myndarinnar er fyrst og fremst drama.  Samt ekki leiðinlegt.  Það er verið að hnýta saman lausa enda til að ljúka sögunni með fyrirsjáanlegum "happy end".  Harmrænar myndir eða bara harmrænar senur hafa ekki verið hátt skrifaðar hjá mér.  Svo rakst ég á niðurstöður viðamikillar vísindalegrar rannsóknar Notre Dame háskólans á Indlandi.  Rannsóknin leiddi í ljós að fólk verði betri manneskjur við að horfa á dramatískar kvikmyndir.  Umburðarlyndi og samkennd með öðrum vex.  Fólk á auðveldara með að setja sig í spor þeirra sem eiga um sárt að binda.           

  Ben Stiller er góður leikari.  Það staðfestir hann ítrekað í trúverðugum senum,  hvort sem er í hlutverki lúðans eða hetjunnar í dagdraumunum.  Og líka þegar lúðinn hefur öðlast sjálfstraust eftir ævintýrin á Íslandi.  Sean Penn kemur einnig sterkur til leiks í stuttri senu.  Töffaraáran er nánast áþreifanleg.  

  Ég mæli með því að fólk upplifi myndina í kvikmyndahúsi fremur en bíði eftir henni í sjónvarpi eða á DVD.  Einkum vegna landslagssenanna.  Það er áhrifaríkt þegar tónlist Of Monster and Men kemur til sögunnar er leikur berst til Íslands.  Þegar upp er staðið er myndin öflug auglýsing fyrir Ísland.  Kannski ein sú mesta fram til þessa ef frá eru taldar heimsvinsældir Bjarkar,  Sigur Rósar og Of Monster and Men.  

 


Íslensk tónlist í Barselona

  Þetta er framhald á síðustu tveimur færslum.

  Einu verslanir sem ég sniðgeng ekki á ferðum erlendis eru plötubúðir.  Það er samt ekki jafn gaman og á árum áður að kíkja í plötubúðir í útlöndum.  Sú tíð er nánast liðin að maður rekist á eitthvað óvænt og spennandi í þessum búðum.  Í dag selja þær eiginlega bara plötur allra vinsælustu flytjenda.  Lítið þekktir flytjendur sinna sínum markaði í gegnum netið.  

  Á vegi mínum í Barselona urðu þrjár plötubúðir.  Allar á sama blettinum við Katalóniutorg.  Í aðeins nokkurra metra fjarlægð hver frá annarri.  Það er alltaf forvitnileg að sjá hvaða íslenskar plötur fást í útlendum plötubúðum.  Í Barselona reyndust það vera:

Björk (margar plötur.  Allar sólóplötur og einhverjar remix og smáskífur að auki)

Sigur Rós (margar plötur)

Emilíana Torríni  (nýja platan,  Tookah)

Ólöf Arnalds  (nýja platan,  Sudden Elevation)

Múm (margar plötur)

  Þetta þýðir að viðkomandi flytjendur njóti töluverðra vinsælda í Barselona.  Við vitum svo sem að Björk, Sigur Rós og Emilíana Torríni eru vinsæl víða um heim.  Ólöf Arnalds er stærra nafn á heimsmarkaði en margur heldur.  Til að mynda er hún töluvert nafn í Skotlandi og einnig þekkt í Englandi.  Það kom mér á óvart að rekast á plöturnar með Múm í Barselona.  

  


Tapas á Spáni og Íslandi

  Þetta er framhald á bloggfærslunni frá í gær. 

 barselonatapas.jpg

 

  Eitt af því sem gerir utanlandsferðir skemmtilegar er að kynnast framandi matarmenningu.  Að vísu er það ekki alveg jafn spennandi eftir að hérlendis spruttu upp kínverskir veitingastaðir,  tælenskir,  víetnamskir,  ítalskir,  tyrkneskir,  bandarískir...  Samt.  Í útlandi má alltaf finna eitthvað nýtt og framandi að narta í.

  Í Barselona er af nógu að taka í þeim efnum.  Þar á meðal eru það smáréttir sem kallast tapas.  Upphaflega var tapas brauðsneið eða parmaskinkusneið lögð ofan á vínglas á milli sopa.  Hlutverk tapas var að koma í veg fyrir að fluga kæmist í vínið.  Enginn vill eiga það á samviskunni að fluga verði ölvuð og rati ekki heim til sín.

  Þegar annað vínglas var pantað lét barþjónninn nýja skinkusneið eða brauðsneið fylgja því.  Eða þá að á barnum lá frammi brauð og skinka.  Gestir máttu fá sér eins og þeir vildu.  Bæði til að hylja vínglasið og einnig til að maula sem snarl.  Brauðið og skinkan eru sölt og skerpa á vínþorsta viðskiptavina.  Það varð góður bisness að halda snarlinu að gestum.  Þróunin varð sú að bæta söltu áleggi eða salati ofan á brauðbitana.  Það er enginn endir á nýjum útfærslum af tapas.  Í dag eru barir og krár á Spáni undirlagðar tapas.  Viðskiptavinurinn getur valið úr mörgum tugum smárétta.

  Nafnið tapas vísar til upprunans;  sem tappi eða lok.  Spænska orðið tapa þýðir hylja.  Mér skilst að víðast á Spáni sé tapas ókeypis snarl með víninu.  Í Barselona er hver smáréttur seldur á 200 - 300 ísl. kr.  Það er líka hægt að fá bitastæðari smárétti á hærra verði.  Spánverjar skilgreina tapas alfarið sem snarl á milli mála.  Þeir líta ekki á tapas sem máltíð.  Það geri ég hinsvegar.  Það er góð og fjölbreytt máltíð að fá sér 3 - 4 smárétti með bjórnum.  Á sumum börum er hægt að kaupa á tilboðsverði 6 - 7 valda smárétti saman á 1000 - 1200 ísl. kr.  Þá er blandað saman dýrum og ódýrum réttum.  Þetta er of stór skammtur fyrir máltíð.  En ágætur pakki fyrir þá sem sitja lengi að drykkju.  

barselona_tapas.jpg    Verðlag á veitingum á Spáni er nokkuð áþekkt verðlagi á Íslandi.  Ef íslensku bankaræningjarnir hefðu ekki slátrað íslensku krónunni 2008 værum við í dag að tala um verðlag á Spáni helmingi lægra en á Íslandi. 

barcelona_tapas-food.jpgbarcelona_tapas-place.jpg  Það er önnur saga.  Hérlendis eru veitingastaðir sem kenna sig við tapas.  Það skrítna er að þeir eru rándýrir.  Einn réttur kannski á 2000 - 3000 kall.  Nokkrir smáréttir saman á 7000 kall eða eitthvað.  

  Ég gagnrýni þetta ekki.  Þvert á móti dáist ég að þessum stöðum fyrir að komast upp með svona háa verðlagningu.  Þetta er bisness eins og margt annað.  Það er ekkert nema gaman að til sé hellingur af fólki sem hefur efni á að halda íslenskum tapas-stöðum á floti.  

 

  Meira á morgun. 


Vasaþjófar og fjör í Barselona

 

barcelona_plaza-de-catalunya.jpg

  Ég fagnaði sólrisu,  sólstöðuhátíðinni og áramótum með því að taka snúning á London,  Barselona og Kaupmannahöfn.  Þetta var fyrsta heimsókn mín til Spánar.  Þess vegna staldraði ég lengst við þar.

  Jólin eru stærsta árleg hátíð heiðinna manna.  Það er gaman að fleiri en við í Ásatrúarfélaginu fagni þessari hátíð ljóss og friðar.  Hérlendis halda eiginlega allir upp á jólin - nema örfáir kristnir bókstafstrúarmenn á borð við Votta Jehova. 
.
  Barselona-búar gera ekki eins mikið úr jólunum og við hér á Norðurhjara.  Kannski hefur það eitthvað að gera með að jól í glampandi sól eru ekki eins jólaleg og jól í snjó og myrkri.     
  Eina verslunargötu sá ég með jólaskreytingu.  Yfir hana var strengt ljósaskraut sem svipaði til mynsturs snjókorna.
casa_gracia_-_eldhus.jpg casa_gracia_-_setustofa_1.jpgcasa gracia - herb
  Ég var heppinn með gistiheimili,  Casa Gracia.  Vel staðsett og allt þar frábært.  Í einni af þremur setustofum var risastórt jólatré skreytt í bak og fyrir.  Bakgarðurinn var sömuleiðis skreyttur marglitum ljósaperum allt í kring.
.
  Á jóladagskvöldi var boðið upp á veglega jólaveislu.  Ekki veit ég hvernig jólahald er inni á spænskum heimilum.  Hitt veit ég að hvergi sá í jólaljós né aðrar jólaskreytingar úti í gluggum.  Og engan sá ég jólasvein.  Aftur á móti voru verslanir og veitingastaðir lokaðir dag eftir dag.  Meira að segja matvöruverslanir sem auglýsa opið 24/7 stóðu ekki við sitt.  Ég hrósa happi að hafa 0% löngun til að rápa í verslanir - aðrar en plötubúðir.  
. 
  Í utanlandsferðum hef ég ætíð lítið útvarpstæki með í för.  Á það hlusta ég daginn út og inn.  Aldrei heyrðist jólalag í spænsku útvarpsstöðvunum.  Flest kvöld var boðið upp á lifandi músík á gistiheimilinu.  Þetta var allt frá syngjandi stelpu sem spilaði Ibiza-techno á skemmtara til 3ja manna sálarpoppsveitar.  Þess á milli voru það syngjandi flamingo-dúettar með kassagítar og bongo.  Enginn spilaði jólalag. 
.
  Mest hlustaði ég á útvarpsstöðina Rokk FM.  Þar eru spiluð klassísk engilsaxnesk rokklög í bland við örfá spænsk rokklög.  Lagavalið er fátæklegt.  Ég fékk fljótlega þreytu gagnvart sumum lögum sem voru síspiluð.  Lagavalið er ótrúlega einhæft.  Nokkur lög með Chuck Berry eru eina músíkin frá sjötta áratugnum.  Eitt lag heyrði ég með Presley.  Það var frá sjöunda áratugnum.  Eins og megnið af öðrum lögum:  Bítlum, Kinks,  Stóns,  Doors, Janis Joplin,  Animals,  Hendrix...  Einnig slatti frá upphafsárum þungarokksins (´69 - ´72):  Black Sabbath,  Led Zeppelin,  Deep Purple...
  Pönkdeildin var bundin við The Clash:  London Calling og Should I Stay or Should I Go.  Síðar nefnda lagið er spilað oft á dag.  

  Með slæðast lög frá upphafi tíunda áratugarins:  Guns N´ Roses,  Nirvana og Rage Against the Machine.  
  Ég undraðist hvað sömu lög eru spiluð oft með stuttu millibili.  Vegna margra frídaga er hugsanlegt að um hafi verið að ræða endurspilanir á sömu útvarpsþáttum.  Ég kann ekki spænsku.  Þess vegna gat ég ekki áttað mig á því hvort að eldri útvarpsþættir voru endurspilaðir (ekki lærði ég utan að röðina á lögunum sem voru spiluð).   
.
   Á gistiheimilinu og víðar var ég varaður við vasaþjófnaði.  Barselona er kölluð höfuðborg vasaþjófnaðar í Evrópu.  Ítrekað var í mín eyru fullyrt að vasaþjófarnir í Barselona séu allt saman fagmenn fram í fingurgóma (í bókstaflegri merkingu).  Þeirra vinnubrögð séu háþróuð óverjandi töfrabrögð.  Ég spurði:  Fyrst að fagmennirnir eru í Barselona hvar eru þá amatörarnir?  Ég ætla að halda mig þar í næstu Spánarheimsókn.  Eru æfingabúðir fyrir amatöra einhversstaðar úti á landi?  Fá þeir ekki að koma til Barselona fyrr en þeir eru orðnir fagmenn?
  Fátt varð um svör.  Ég upplifði mig alveg öruggan í Barselona.  Engu var stolið frá mér.  Ég gekk um götur á öllum tímum sólarhrings og mætti aðallega öðrum túristum.  Ekkert vesen.  Helsti vettvangur vasaþjófa er þar sem troðningur er.  Þar sem fólk kemst ekki hjá því að rekast í hvert annað.  Til að mynda þegar troðist er inn í eða út úr lestum eða strætisvögnum.  Galdurinn er að forðast þær aðstæður.   
 
  Efsta myndin er af Katalóníutorginu.  Þar hélt ég mig töluvert og í nágrenni þess.  Aðrar myndir sýna eldhúsið á gistiheimilinu,  setustofu og svefnaðstöðu.
     
  Meira á morgun.       

Lulla frænka í umferðinni

  Lulla frænka var tíður gestur á tilteknu bílaverkstæði.  Aðallega var gert við smádældir sem einkenndu iðulega bílinn hennar.  Hún rauk ekki með bílinn á verkstæði þó að ein og ein dæld og rispa bættist við.  Það var ekki fyrr en ljós brotnuðu líka eða stuðari losnaði eða eitthvað slíkt bættist við.

  Á meðan gert var við bílinn sat Lulla inni í honum og fylgdist með.  Hún skráði af nákvæmni í bók hvenær vinna við bílinn hófst og hvenær henni lauk.  Í hvert sinn sem viðgerðarmaður brá sér frá í kaffi,  mat,  síma (þetta var fyrir daga farsíma) eða annað þá tók Lulla tímann og skráði niður.  Með þessu afstýrði Lulla því að vera rukkuð um of.  Hún taldi sig merkja einbeittan vilja verkstæðisins til ofrukkunar.  Það réð hún meðal annars af því hvað starfsmenn þar lögðu hart að henni að koma út úr bílnum;  bíða frekar á kaffistofunni hjá þeim eða þá að þeir buðust til að skutla henni heim.   Lulla lét ekki plata sig.  Þó að viðgerð tæki 2 eða 3 daga þá var hún mætt í bílinn sinn á slaginu klukkan 8 að morgni og stóð vaktina til klukkan 18.00.     

  Afturendinn á bíl Lullu varð helst fyrir hnjaski.  Ég uppgötvaði einn daginn hvernig á því stóð.  Þannig var að Lulla bjó í bakhúsi við Laugaveg.  Að húsinu lá nokkurra metra löng innkeyrsla.  Við húsið lagði Lulla bíl sínum.  Pláss var ekki nægilegt til að snúa bílnum þarna.  Það þurfti að bakka til baka og út á Laugaveg þegar ekið var frá húsinu.  

  Svo vildi það til að ég var farþegi hjá Lullu er hún ók að heiman.  Hún leit ekki aftur fyrir sig né í spegla á meðan hún bakkaði út á Laugaveginn.  Þess í stað horfði hún aðeins fram fyrir sig og reykti af ákafa.  Hún bakkaði bílnum löturhægt á bíl sem ók niður Laugaveginn.  Hvorugur bíllinn varð fyrir eiginlegum skaða.  En það voru skrifaðar tjónaskýrslur.  Að því loknu nefndi ég við Lullu að hún þyrfti að gá aftur fyrir sig áður en hún bakki út á Laugaveginn.  Hún yrði að ganga úr skugga um að enginn bíll sé fyrir á Laugaveginum.  

  Lulla svaraði í rólegheitum:  "Nei,  ég hef prófað það.  Þá þarf maður að bíða svo lengi.

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1332896/


Forvitnilegir fróðleiksmolar um þakkargjörðardaginn

  Öldum saman út um allan heim hafa bændur fagnað uppskerulokum með veisluhöldum.   Á mínum uppvaxtarárum í Skagafirði var veislan kölluð töðugjöld.  Ég hef grun um að töðugjöld hafi lagst af eftir að heyskapur vélvæddist gróflega.  
  Önnur íslensk uppskeruhátíð,  slægjur,  lagðist af um þarsíðustu aldamót.  Við af slægjum tók almennt skemmtanahald sem kallast haustfagnaður.  Með því að smella á eftirfarandi slóð má lesa um elstu heimild um slægjurhttp://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1331030/
.
sara pálína og uppskeruhátíðin
.
  Í Norður-Ameríku fögnuðu frumbyggjar, indíánar,  haustuppskerunni með kalkúnaveislu löngu áður en þeir kynntust evrópskum nýbúum.   
  Á 17. öld flúði hópur breskra pjúritana undan trúarofsóknum til Norður-Ameríku.  Indíánar kenndu þeim að rækta korn og koma því í hlöðu fyrir veturinn.  Indíánarnir kenndu þeim matreiðslu.  Þar á meðal að matreiða kalkúna.       
  Um haustið héldu indíánarnir og ensku pjúritanarnir sameiginlega uppskeruhátíð.  Pjúritanarnir þekktu til hliðstæðrar uppskeruhátíðar meðal mótmælendatrúar á Englandi.  Fyrstu árin sem indíánar og pjúritanar héldu sameiginlega uppskeruhátíð var veislan einfaldlega kölluð uppskeruhátíð.  Löngu síðar var farið að kalla hana þakkargjörðardag.   
.
  Þakkargjörðardagur hafði þá verið haldinn hátíðlegur árlega í Kanada frá því á 16. öld.  Þar var ekki um uppskeruhátíð að ræða heldur fögnuð enskra sæfara yfir því að hafa náð landi í Kanada eftir miklar hrakningar á sjó.   
  Franskir nýbúar í Kanada héldu hinsvegar uppskeruhátíð. 
.
  Á 19. öld varð uppskeruhátíðin,  þakkargjörðardagurinn,  opinber frídagur í Kanada og Bandaríkjunum.  Í Kanada er hann annan mánudag í október.  Í Bandaríkjunum er hann síðasta fimmtudag í nóvember. 
  Víða um heim er uppskeruhátíðin kennd við þakkargjörð. 
  Í Þýskalandi er uppskeruhátíðin kölluð emtedankfest (þakkargjörðarhátíð).  Hluti af hátíðarhöldunum er bjórhátíðin Oktoberfest.
  Í Grenada er þakkargjörðardagurinn 25. október opinber frídagur.  Uppruni hans er að minnsta kosti jafn gamall og uppskeruhátíðirnar í Kanada og Bandaríkjunum.
  Í Japan heitir dagurinn verkalýðs-þakkargjörðardagurinn.  Hann er opinber frídagur 23. nóv.
  Í Líberíu er þakkargjörðardagurinn fyrsta fimmtudag í nóvember.
  Þannig mætti áfram telja.
.
  Íslenskar verslanir og veitingastaðir hafa valið bandaríska þakkargjörðardaginn sem fyrirmynd.  Bæði dagsetninguna, kalkúnann og meðlætið.  Það sem vantar inn í íslensku útgáfuna er að í Kanada og Bandaríkjunum er þakkargjörðarhelgin samverustund stórfjölskyldunnar.  Safnast er saman heima hjá ættarhöfðingjum fjölskyldunnar (nema um annað sé samið).  Hefðin er svo sterk að þeir yngri ferðast um langan veg til að sameinast stórfjölskyldunni. 
 
  Annar bandarískur siður, tengdur þakkargjörðarhelginni,  er svarti föstudagurinn.  Hann er að ryðja sér til rúms hérlendis.  Hann er daginn eftir þakkargjörðardaginn.  Þá byrja jólainnkaup með látum.  Verslanir bjóða upp á verulegan afslátt.  Lengst af voru verslanir opnaðar snemma á föstudeginum.  Á allra síðustu árum hefur opnunartíminn færst sífellt framar.  Undanfarin ár hefur verið miðnæturopnun aðfaranætur föstudags.  Í ár þjófstörtuðu verslanir að kvöldi þakkargjörðardags.  
 
  Trix verslananna er að bjóða aðeins örfá eintök af hinum ýmsu vörum á veglegu afsláttarverði.  Þetta skilar sér í því að múgurinn safnast saman fyrir framan verslanirnar mörgum klukkutímum fyrir opnun.  Þegar opnað er verður allt brjálað.  Fólk slæst,  stingur hvert annað með hnífum.  kýlir,  brýtur bein og er æst.  Öryggisverðir standa í ströngu.  Það hentar Íslendingum vel að troðast út af lækkuðu verði á minnislykli úr 980 kr. í 890 kr.         
 



mbl.is Kalkúnninn sprakk í loft upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Lulla frænka fór til útlanda

  Lulla frænka hélt að hún væri altalandi á dönsku og ensku.  Það var misskilningur.  Að vísu kunni hún nokkur orð í þessum tungumálum.  En hún var ekki með réttan skilning á þeim öllum.  Til að mynda hélt hún að "spiser du dansk?" þýddi "talar þú dönsku?" (í stað "borðar þú dönsku?").  Þetta kom ekki að sök.  Útlendingar urðu lítið sem ekkert á vegi Lullu frænku.  Þangað til eitt árið að hún fór í utanlandsreisu með skipi.  Það var til Englands og Hollands. 

  Í Hollandi keypti Lulla helling af litlum styttum af vindmillum.  Þær fengu ættingjar í jólagjöf næstu ár.  Fallegar og vel þegnar litlar skrautstyttur.  Í Englandi keypti Lulla fátt.  Ástæðan var tungumálaörðugleikar.  Lulla sagði þannig frá:

  "Það kom mér á óvart hvað Englendingar eru lélegir í ensku.  Það var ekki hægt að ræða við þá.  Þeir skilja ekki ensku.  Ég reyndi að versla af þeim.  Það gekk ekki neitt.  Hollendingar eru skárri í ensku.  Samt eru þeir líka óttalega lélegir í ensku.  En mér tókst að versla af þeim með því að tala hægt og benda á hluti."

----------------------

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1330749/


Fegurstu fossar í heimi

  Netsíðan mobilelikez.com hefur tekið saman og birt myndir og lista yfir fegurstu fossa heims.  Það er gaman að sjá myndir af þessum fallegu fossum.  Listinn er jafnframt áhugaverður.  Ekki síst fyrir okkur sem búum á þessu landi tilkomumikilla fossa, elds og ísa.  Fegursti foss heims að mati mobilelikez.com er Suðurlandsfoss á Nýja-Sjálandi.  

new-zealand-sutherland-1_1222320.jpg

  Hann virðist ekki vera neitt merkilegur þessi Suðurlandsfoss.  Það vantar nefnilega eitthvað á myndina sem sýnir stærð fossins.  Hann er næstum hálfur kílómetri að lengd og fellur í þrennu lagi.  Efsti hlutinn er 229 m,  miðbunan er 248 m og neðsta gusan er 103 m.  

  Fossinn er sagður fegurstur séður úr lofti.  Einkum séður úr þyrlu í frosti.

  Næst fegursti fossinn er Dettifoss í Jökulsárgljúfri á Íslandi.  Til samanburðar við þann ný-sjálenska er Dettifoss ekki nema 45 m hár (innan við 1/10).  

 dettifoss-2.jpg

  Á móti vegur að Dettifoss er 100 m breiður og straumharður. 

  Ljósmyndin sem mobilelikez.com birtir og ég endurbirti hér er ekki af Dettifossi heldur Goðafossi.

  Númer 3 er Gullfoss í Haukadal á Íslandi.  

gullfoss-iceland.jpg

 Fegurð Gullfoss er sögð liggja í því hvernig vatnið ferðast niður fossinn í þremur þrepum.

  Númer 4 er foss sem kallast Kaieteur og er í Guyana.  

 guana.jpg

  Hæð hans er 229 m.

  Númer 5 er Yosemite í Kaliforníu.  Könunum hefur ekki tekist að finna út hæð hans í metrum talið.  Þeir átta sig ekki á því hvernig metrakerfið virkar.  Þess í stað hafa þeir mælt hæðina í fetum.  Hún er 2425 fet.   Þau geta samsvarað 739 m. 

n-amerika.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.