Færsluflokkur: Ferðalög

Sýslumaður flytur lík á herðum sér

  Á vegi mínum í dag varð eintak af Morgunblaðinu frá því fyrr í vikunni.  Frétt vakti athygli mína.  Ég mátti ekki vera að því að lesa fréttina.  En sá að hún snérist um leyfi sýslumannsins á Siglufirði til að flytja lík á herðum sér.  Af því að ég gaf mér ekki tíma til að lesa fréttina þá veit ég ekki hvort að hann fékk leyfi til að flytja lík á herðunum.  Fyrirsögnin var:  "Leyfi til líkflutnings á herðum sýslumanns á Siglufirði". 

  Ég vona að hann hafi fengið þetta leyfi fyrst að það er honum kappsmál.  

-----------------------------------

  Svo gott sem allt fólk talar í nútíð er það mælir.  Nema nánast bara ein manneskja.  Hún segist tala í fortíð.  Það er aðdáunarverð kúnst sem fæstir leika eftir (nema örfáir eftir að hafa snætt görótta sveppi).  Orðrétt hélt hún þessu fram sem skrifað er við myndina.   

vigdis-or_rett_1228816.jpg

  Þar fyrir utan:  Flestum nægir að líta til baka án þess að vera líta til baka.  

  Þessi spakmælta kona er sú hin sama og snéri nafnorðinu auðlind lipurlega upp í hæsta stigs lýsingarorð.  Sagði Ísland vera auðlindasta land í heimi.

  Þar áður hélt hún því fram að Róm hafi ekki verið byggð á einni nóttu.   Sem er áreiðanlega rétt.  Það er óhagkvæmt að byggja borg í myrkri nætur.  

  Fyrir daga rafmagns hefði verið hagkvæmara að byggja Róm að degi til.    

   


Smásaga af fjárfesti

okeypis.jpg

  Ding-dong,  gellur dyrabjallan.  Húsfrúin gengur til dyra.  Útifyrir stendur hvíthærður maður með sakleysislegan hvolpasvip.  Hann býður góðan dag og kynnir sig sem Hrapp Úlfsson,  fjárfesti og auðmann. 

  - Ég átti leið hér hjá og fann ilm af signum fiski.  Ég fékk vatn í munninn.  Ef þú ert að elda nóg þá þigg ég örlítinn bita.
   Frúin kallar á bóndann.  Spyr hvort að þau séu ekki með nóg af mat.  Hér sé kominn gestur.
  Sem betur fer er nóg af mat því gesturinn tekur hraustlega til matar síns.  Hann segist græða á demantakaupum frá Færeyjum.  Hann kaupi þaðan einnig kol,  silfur og Nígeríubréf. 
  Um það leyti sem matartíma lýkur sprettur Hrappur á fætur.  Hann segir að svona góðum gestgjöfum verði að launa vel.  Hann vill leyfa þeim að græða með sér.  Hann komi aftur á morgun og útskýri dæmið.
  Daginn eftir mætir Hrappur í hádegismat.  Líka næstu daga.  Hann er kominn í fast hádegisfæði til um leið og hann útskýrir hægt og bítandi fyrir hjónunum hvernig þau geti með hans hjálp orðið auðmenn.  Í leiðinni stingur hann upp á hvað þau eigi að hafa í matinn daginn eftir.  Í mánaðanna rás þróast hádegisverðurinn í fjölrétta hlaðborð með forréttum,  stórsteikum með rauðvínssósum og desertum.  Hrappur mælir með vínum sem passa réttunum og vindlum til að púa eftir matinn.  Þetta er maður sem veit um hvað hann talar.
  Hrappur býður hjónunum að láta sig fá 14 milljónir kr. og hann láti þau fá 100 milljónir eftir nokkrar vikur. 
  Hjónin eiga ekki 14 milljónir.
  - Ekki vandamálið,  segir Hrappur glaður í bragði.  Það eru bankar út um allt.  Bara rölta í einn þeirra og fá 14 millur gegn veði í húsinu.
  Hjónin fagna þessu heillaráði.  Að ósk Hrapps afhenda þau honum milljónirnar í seðlum. 
  -  Stílaðu kvittunina á nafn okkar beggja,  biður frúin um.  Við erum orðin það fullorðin að annað okkar getur hrokkið upp af hvenær sem er.
  Nei,  Hrappur upplýsir að í þessu dæmi séu engar kvittanir.  Allt sé á svörtu vegna gjaldeyrishafta.  Þegar hann borgi þeim 100 millur þá sé heldur engin kvittun skrifuð.  Peningurinn fari óskiptur í þeirra vasa svart og sykurlaust.  
  Þetta eru góðar fréttir.  Hjónin faðma Hrapp og lofa að minnast hans í kvöldbænum sínum.
  Nokkrum dögum síðar er dóttir hjónanna í heimsókn þegar Hrappur mætir til hádegisverðar.  Að fyrirmælum Hrapps hafa hjónin hvorki sagt henni né öðrum frá gróðabrallinu.  Það er leyndarmál.  Enda ekki alveg löglegt.  Eða eins og Hrappur útskýrði það:  "Meira á gráu svæði.  Ef einhver græðir þá græða allir þegar upp er staðið.  Það er ekki eins og þið hendið 100 milljónum út um gluggann.  Þið kaupið nýjan bíl.  Þá græðir bílasalinn.  Þið kaupið ný húsgögn.  Þá græðir húsgagnaverslunin.  Það græða allir."
  Dóttir hjónanna undrast að sjá Hrapp í heimsókn.  
  - Hvað ert þú að gera hér?  Margdæmdur svindlari.
  - Ekki margdæmdur,  leiðrétti Hrappur.  Bara einstaka sinnum.  Ég hef aldrei setið í fangelsi.  Þetta var misskilningur.
  - Þú náðir að semja um náðun á þeirri forsendu að þér myndi líða illa í fangelsi og börn þín yrðu óróleg,  heldur dóttirin áfram.
  Hrappi leiðist þessi umræða.  Hann setur punkt fyrir aftan hana með því koma til móts við dótturina:
  - Ég skal vera alveg hreinskilinn með það að stundum mátti standa öðruvísi að málum.  Ég lærði af þeim mistökum sem voru gerð og er betri maður fyrir vikið.  Það gera allir mistök einhvern tíma á ævinni.  Það á ekki að velta mönnum upp úr tjöru og fiðri það sem eftir er.
  Hjónin taka undir þessi orð.  Öll vopn eru slegin úr hendi dótturinnar.  Hún kveður en varar foreldra sína um leið við að láta Hrapp plata sig.  Foreldrarnir glotta inni í sér.  Það kemur annað hljóð í strokkinn þegar dóttirin erfir 100 milljónir.
 
  Að nokkrum vikum liðnum gætir óþolinmæði hjá hjónunum.  
  - Hvenær koma 100 milljónirnar
  - Þær eru alveg að detta inn,  fullyrðir Hrappur.  Reyndar verða þetta fleiri en 100 millur.  Mér reiknast til að þetta verði nær 120 millum.  Vonandi getið þið gert eitthvað skemmtilegt fyrir þessar 20 viðbótarmillur.  Kannski skroppið í heimsreisu á lúxussnekkju. 
  Gömlu hjónin fagna,  faðma Hrapp og skammast sín fyrir að hafa rekið á eftir 100 millunum..
  
  Daginn eftir kemur Hrappur með nánari upplýsingar á stöðunni.  Hjónin þurfa að láta hann fá 30 millur til að koma peningnum til Íslands.  Viku síðar afhendi hann þeim tösku með 150 millum í seðlum.  
  Hjónin eiga ekki 30 millur.
  - Ekki málið,  segir Hrappur glaðbeittur.  Þið seljið kofann á 50 millur.  Endurgreiðið 14 millu lánið með smávægilegum vöxtum.  Látið mig fá 30 millur.  5 - 6 millur standa út af sem þið getið gert eitthvað skemmtilegt við.  Viku síðar sitjið þið uppi með 150 millur í tösku.
  Þetta er gott ráð.  Hjónin fagna með því að opna kampavínsflösku og faðma Hrapp.  
  
  Tíminn líður.  Mánuðir verða ár.  Engar milljónir skila sér.  Eftir að húsið var selt  fóru hjónin á vergang.  Þau ráða ekki við uppsprengdan leigumarkaðinn.  Þeim til happs varð að Hrappur fann á haugunum bílhræ sem alveg er hægt að sofa í.  Bílhræið seldi hann þeim á gangverði.  Reyndar rúmlega það vegna þess að hjónin sleppa við að borga tryggingar af bílnum.  Hann er óskráður.  Þau sleppa líka við að borga bifreiðagjald.  Bíllinn er ógangfær.  Þar með sparast heilmikill bensínkostnaður.  Til að hafa í sig og á sækja hjónin úthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands.  Hrappur mætir ætíð stundvíslega í hádegismat.  Hádegisverðurinn er ekki sama veislumáltíð og áður.   
  Skyr og brauðsneiðar eru ráðandi.  Það er engin eldunaraðstaða í bílhræinu.  En það eru gleðidagar inn á milli.  Í eitt skipti rétti Hrappur gömlu hjónunum umslag með 50 þúsund krónum og sagði að meira væri á leiðinni.  Jafnvel strax á næsta ári.  Þau föðmuðu hann í bak og fyrir.  Þeim munaði virkilega mikið um þennan 50 þús. kall.  Um kvöldið báðu þau guð um að blessa Hrapp.  Hann bjargaði því að loks gátu þau leyst út meðölin sín.  Meðölin voru fljót að slá á gigtina,  kvíðaköstin,  hjartsláttartruflanir og bakverkina.  Það var dæmalaust happ að eiga Hrapp að,  þennan öðling.   
_keypis_kaffi_a_a_eins_125_kr.jpg      
---------------------------------------------------------
Fleiri smásögur og leikrit: 
 - Ofbeldi
- Hvalkjöt
    
  - Bílasaga
 - Barátta góðs og ills
- Skóbúð
- Rómantísk helgarferð
- Álfar
.
- Bóndi og hestur
.
.
 - Gömul hjón
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1098829/
.
 - Hnefaleikakeppni aldarinnar:
.
 - Peysuklúbburinn
.
 - Vinalegur náungi:
.
 - Gamall einbúi
.
- Saga af systrum
.
 - Jólasaga
.
- Á rjúpnaveiðum:
.
- Ólétta nunnan:
.
- Gullfiskur:
.
- Flugvélamódel:
.
- Miðaldra maður:
.
- Leyndarmál stráks:
.
- Matarboð í sveitinni:

Lulla frænka og bíllinn hennar í vonsku veðri

  Lulla frænka, föðursystir mín, átti það til að vera óþarflega neikvæð út í hlutina.  Þegar sá gállinn var á henni miklaði hún það neikvæða fyrir sér.
  Einu sinni sem oftar var verið að útskrifa Lullu af geðdeild.  Í þetta skipti dvaldi hún stutt á deildinni í kjölfar þess að hafa tekið inn of stóran skammt af pillum.
  Fullorðin frænka okkar bauð Lullu að búa heima hjá sér á meðan hún væri að ná áttum.  Frænkan bjó í stóru húsi.  Börnin flutt að heiman og nóg pláss.  Hún bauð Lullu að hafa risið út af fyrir sig.  Þar voru tvö kvistherbergi og sér baðherbergi. 
  Komin inn til frænku okkar hringdi Lulla í mig.  Erindið var að hana vantaði bílinn sinn.  Hann stóð á Skólavörðuholti.  Lulla vildi hafa hann nær sér þó að hún væri of slöpp til að aka á næstunni.
  Ég spurði Lullu hvort að ekki færi vel um hana hjá frænkunni.  Nei,  Lulla sagðist vera nánast í spennitreyju þarna í risinu.  Það væri svo þröngt að hún gæti varla snúið sér við öðruvísi en að rekast í allt.
  Þetta kom mér á óvart.  Þarna höfðu börnin á heimilinu alist upp og að því er manni skildist við góðan kost.  Ég leyndi ekki undrun minni:  "Nú?  Eru þetta ekki alveg tvö herbergi sem þú hefur til umráða og baðherbergi?"
  Það hnussaði í Lullu:  "Ég get ekki kallað þetta herbergi.  Þetta eru skápar.  Þú sérð það þegar þú sækir bíllyklana til mín."
  Ég sótti bíllyklana og við blöstu rúmgóð herbergi.  Hvort um sig 10 - 12 fm. "Þetta eru engir skápar,"  sagði ég.  "Þetta eru virkilega fín herbergi."
  Lulla gaf sig ekki:  "Ég þakka guði fyrir að vera ekki hærri í loftinu en þetta.  Stærri manneskja yrði að skríða eftir gólfinu til að athafna sig í þessum skápum."  Lulla benti á hallandi kvistloftið þar sem lægst var til lofts, ranghvolfdi augunum og hristi hneyksluð höfuðið.  Stærsti hluti herbergjanna var með fullri lofthæð.  Lulla var rösklega meðalmanneskja á hæð.  Það var vel rúmt um hana þarna og miklu stærri manneskja hefði ekki þurft að kvarta undan þrengslum. 
  Þegar ég sótti bílinn hennar kom ég að honum með báðar framdyr opnar.  Næstum því upp á gátt eða rúmlega að hálfu.  Þannig hafði bíllinn staðið í marga daga.  Kannski hálfan mánuð eða eitthvað.  Það var furða að hvorki börn né útigangsmenn hefðu lagt bílinn undir sig.  Sennilega bjargaði langvarandi frostharka og kuldatíð því að fáir áttu gönguleið um holtið.  Aðeins hafði fennt framan á bílinn.  Það var dálítill snjór innan í honum.  Ekki samt meiri en svo að lítið mál var að moka honum út með höndunum. 
  Er ég skilaði bílnum og lyklunum til Lullu spurði ég hana út í opnu dyrnar.  Lulla horfði stórum augum á mig undrandi yfir skilningsleysi mínu:  "Ég vil ekki að hurðirnar frjósi fastarEf það gerist þá kemst ég ekki inn í bílinn."   
---------------------------------
Hér er hægt að rekja sig áfram í gegnum fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1351524/
---------------------------------
Yoko Ono þykir - eins og öðrum - söngkonuna Adele skorta flest til að koma söngvum sómasamlega til skila.  Yoko tók sig til á dögunum og hélt sýnikennslu fyrir Adele um það hvernig á að gera þetta.  Spennandi verður að vita hvort að kennslan komst nógu vel til skila þannig að Adele sendi frá sér frambærilega sungið lag í framtíðinni. 
 

   

mbl.is Fundu mannlausan bíl í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlegar ljósmyndir af Íslandi

  Bandaríska lífstíls- og menningarnetsíðan Airows spannar allt frá listum og bílum til ferðalaga og margt þar á milli.  Í nýlegri færslu er ljósmyndasyrpa sem ber yfirskriftina "20 ótrúlegar ljósmyndir sem vekja þér löngun til að sækja Ísland heim".  Þó að ég sé búsettur á Íslandi þá blossaði upp í mér löngun til að sækja Ísland heim er ég leit þessar myndir augum.  Algjört dúndur. 

isl_11.pngisl_12.pngísl 13ísl 14ísl 15ísl 16ísl 17ísl 18ísl 19ísl 20  ísl 4ísl 3ísl 2ísl 6ísl 7ísl 8ísl 9ísl 10ísl 5ísl 1


Blindraflug í bókstaflegri merkingu

blindrahundur.jpg

  Þessi saga er ekki léttúðlegt rangsannindagrín.  Í áætlunarflugi frá borginni Seattle í Washington í Bandaríkjum Norður-Ameríku til borgarinnar San Francisco í Kaliforníu í sama landi þurfti óvænt að millilenda í höfuðborg Kaliforníu,  Sacramentó.  Í hátalarakerfi flugvélarinnar var farþegum tilkynnt um 50 mín. stopp.  Þeim var boðið og ráðlagt að nota tækifærið og teygja úr fótunum inni í flugstöðinni.  Flugstjórinn gekk frá borði á eftir farþegunum.  Aðeins ein blind eldri kona sat áfram í flugvélinni ásamt blindrahundinum sínum.

  Flugstjórinn þekkti konuna.  Hann hvatti hana til að fara inn í flugstöðina og teygja úr sér.  Nei,  sú blinda vildi bara halda kyrru fyrir í flugvélinni.  Hinsvegar taldi hún að blindrahundurinn hefði gott af því að fá að rölta um.  Hún bað flugmanninn um að viðra hann fyrir sig.  Sem var sjálfsagt mál af hans hálfu.

  Þegar flugstjórinn kom inn í farþegasal flugstöðvarinnar leiddur af auðkenndum blindrahundinum greip um sig múgæsingur meðal farþega.  Eflaust hafði sitt að segja að flugstjórinn var með sín dökku flugstjóragleraugu sem eru svipuð þeim er margir blindir nota.

  Farþegar þyrptust að miðasölunni og létu breyta flugmiðanum sínum í annað flug.  Margir létu sér það ekki nægja heldur keyptu nýjan flugmiða hjá öðru flugfélagi. 

------------------------------

  Hljótt hefur farið að hljómsveitin Of Monsters and Men gaf á dögunum Barnaspítala Hringsins 110 milljónir króna.  Eina spurningin sem uppátækið hefur vakið er hvers vegna þetta fólk getur ekki fengið sér vinnu eins og annað fólk.  

 


Mannað geimfar lenti á sólinni

geimfar_til_solarinnar_1226490.jpg

   Í gærmorgun var sautján ára drengur,  Hung Il Gong,  á leið heim til sín - eftir nætursvall - í Norður-Kóreu.  Að venju slagaði hann framhjá geimferðarstofnun landsins.  Við honum blasti nett geimflaug og dyrnar voru ekki alveg lokaðar.  Forvitni vaknaði,  Hung Il Gong skreið inn í flaugina og litaðist um.  Hann sá að allir takkar,  handföng,  mælar og annað var vel merkt og auðskiljanlegt.  

  Hung þótti ekki ástæða til að bíða með neitt.  Hann ræsti flaugina,  skaut henni á loft og setti stefnuna á sólina.  

  Svo heppilega vildi til að ferðalagið var eftir sólsetur og fyrir sólarupprás.  Hung ferðaðist þess vegna í myrkri þangað til hann kom að sólinni.  Þá stýrði hann flauginni lipurlega að bakhlið sólarinnar,  sem er ekki eins heit og framhliðin,  og lenti þar.

  Frásögn af lendingunni á sólinni var aðalfréttin í n-kóreska sjónvarpinu.  Þar sagði meðal annars að Norður-Kórea hafi skotið öllum þjóðum heims ref fyrir rass með geimferðinni til sólarinnar.  Hvatt var til þess að Hung Il Gong yrði fagnað sem hetju við heimkomuna.  Ferðin til sólarinnar væri stærsta afrek í sögu mannkyns frá upphafi. 

  Hung Il Gong er náfrændi Kim Jong-un,  leiðtoga þjóðarinnar.  Hung fyllti alla vasa af sjóðheitu sólargrjóti sem hann ætlar að færa Kim frænda að gjöf.  N-kóreskir fjölmiðlar þreytast ekki á að halda því fram að Kim Jong-un sé kynþokkafyllsti maður í heimi.  Jafnframt hamra n-kóreskir fjölmiðlar á því að Kim Jong-un hafi fundið upp herraklippingu sem farið hefur sigurför um heiminn.  Þess á milli rifja þeir upp að faðir Kim Jong-un hafi fundið upp hamborgarann.  

  Kim Jong-un hefur tekið upp sið föður síns að drekka sig blindfullan af koníaki á kvöldin.  Enda engin ástæða til annars.  Kim Jong-un hefur þó ekki apað upp sið pabbans að sitja allsnakinn við drykkjuna.  Kim Jong-un er svo kynþokkafullur að hann þarf ekki klæðaleysi til að flagga því. 

kim_jung-il_1226510.jpg  

  Hung ráðleggur næstu sólarförum að hafa sólgleraugu með.  Það er dáldið bjart á sólinni. 

kim-jong_un.jpg  

   


Berrassaður á hverfisbar

  Fyrir nokkrum árum var rekinn hverfispöbb á efri hæð í Ármúla 5 (fyrir ofan Vitaborgarann,  við hliðina á Broadway).  Pöbbinn var kenndur við rússneska kafbátaskýlið,  Pentagon.  Nafnið Pentagon þýðir fimmhyrnd bygging.  Mörgum þótti nafngiftin á pöbbanum sérkennileg vegna þess að hann var í ferhyrndri byggingu.  Núna heitir staðurinn Crystal. 

  Svo bar til eitt kvöldið að fjölmenni var inni á staðnum.  Virðulegur eldri maður klæddur í vandaðan jakka og með hálsbindi sat sem fastast úti í horni.  Þegar hann vantaði nýtt bjórglas kallaði hann á þjón og lét færa sér á borðið.  Að nokkrum bjórglösum liðnum þurfti maðurinn að bregða sér á klósettið.  Þá blasti við að hann var berlæraður.  Aðeins í hvítum nærbuxum með rauðum doppum.  En í sokkum og stífbónuðum spariskóm.  

  Þetta vakti kátínu annarra gesta, undrun og forvitni.  Siggi Lee reið á vaðið og spurði manninn hverju klæðaleysið sætti.  Sá berlæraði andvarpaði,  stundi þungt og svaraði hægt,  dapur á svip:

  "Æ,  ég lenti í vandræðum með leigubílinn sem skutlaði mér hingað.  Ég var orðinn peningalaus.  Leigubílstjórinn varð snælduvitlaus og tók buxurnar mínar í pant."     

buxnalaus.jpg


mbl.is Berrassaður maður í Hafnarstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmyndarumsögn

  - Titill:  The Secret Life of Walter Mitty

  - Leikstjóri:  Ben Stiller

  - Leikarar:  Ben Stiller,  Ólafur Darri,  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson

  - Einkunn: *** (af 5)

  Þessi bandaríska - allt að því stórmynd - ku vera endurgerð á eldri bandarískri mynd.  Um þá mynd veit ég fátt.  Engu að síður er ég sannfærður um að Ísland og Íslendingar leiki ekki jafn stórt hlutverk í frumgerðinni.  Jafnvel ekkert hlutverk.  Það væri búið að fréttast.

  Myndin segir frá uppburðarlitlum lúða sem vinnur í framköllunardeild ljósmynda hjá tímaritinu Life.  Hann er skotinn í samstarfskonu sinni.  Kjarkleysi kemur í veg fyrir að hann gangi lengra en láta sig dreyma dagdrauma um þau tvö.  Hann dettur óspart í dagdrauma um margt fleira.  Í dagdraumum er hann kjarkmikil ofurhetja,  andstæðan við það sem hann er í raunveruleikanum.  Andstæðurnar eru það skarpar að áhorfandinn á auðvelt með að greina dagdraumana frá raunveruleikanum.

  Örlögin haga því þannig að óvænt er mannræfillinn hrifinn úr sínu örugga umhverfi í framköllunardeildinni og þeytist í viðburðarríkar ferðir til Grænlands, Íslands og Himalayafjalla.  Allar senur þessara ferðalaga eru víst teknar á Íslandi.  Það er trúlegt hvað varðar Ísland.  Líka Himalayafjöll.  En assgoti tekst vel til með senurnar sem eiga að gerast á Grænlandi.  Ég hef þrívegis komið til Grænlands og flakkað dálítið um.  Þetta er alveg eins og Grænland.

  Senurnar á Íslandi og þær sem eiga að gerast á Grænlandi eru skemmtilegastar.  Ekki aðeins vegna þess hversu fallegt og mikilfenglegt landslagið er og hversu gaman er að sjá íslenska leikara fara á kostum.  Jú, jú,  það vegur þungt.  Það er virkilega gaman að sjá Ísland skarta sínu fegursta,  íslenska náttúru minna hraustlega á sig og það er góð skemmtun að sjá íslenska leikara "brillera" í útlendri mynd sem hundruð milljóna manna um allan heim ýmist hafa séð,  eru að sjá þessa dagana eða eiga eftir að sjá. Í þessum senum nær myndin hæstu hæðum í gríni.  Hvert vel heppnaða spaugilega atvikið rekur annað.  Ólafur Darri á stjörnuleik.  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson standa sig sömuleiðis með prýði.  

  Myndin skiptir mjúklega um gír þegar Íslandi sleppir.  Síðasti fjórðungur myndarinnar er fyrst og fremst drama.  Samt ekki leiðinlegt.  Það er verið að hnýta saman lausa enda til að ljúka sögunni með fyrirsjáanlegum "happy end".  Harmrænar myndir eða bara harmrænar senur hafa ekki verið hátt skrifaðar hjá mér.  Svo rakst ég á niðurstöður viðamikillar vísindalegrar rannsóknar Notre Dame háskólans á Indlandi.  Rannsóknin leiddi í ljós að fólk verði betri manneskjur við að horfa á dramatískar kvikmyndir.  Umburðarlyndi og samkennd með öðrum vex.  Fólk á auðveldara með að setja sig í spor þeirra sem eiga um sárt að binda.           

  Ben Stiller er góður leikari.  Það staðfestir hann ítrekað í trúverðugum senum,  hvort sem er í hlutverki lúðans eða hetjunnar í dagdraumunum.  Og líka þegar lúðinn hefur öðlast sjálfstraust eftir ævintýrin á Íslandi.  Sean Penn kemur einnig sterkur til leiks í stuttri senu.  Töffaraáran er nánast áþreifanleg.  

  Ég mæli með því að fólk upplifi myndina í kvikmyndahúsi fremur en bíði eftir henni í sjónvarpi eða á DVD.  Einkum vegna landslagssenanna.  Það er áhrifaríkt þegar tónlist Of Monster and Men kemur til sögunnar er leikur berst til Íslands.  Þegar upp er staðið er myndin öflug auglýsing fyrir Ísland.  Kannski ein sú mesta fram til þessa ef frá eru taldar heimsvinsældir Bjarkar,  Sigur Rósar og Of Monster and Men.  

 


Íslensk tónlist í Barselona

  Þetta er framhald á síðustu tveimur færslum.

  Einu verslanir sem ég sniðgeng ekki á ferðum erlendis eru plötubúðir.  Það er samt ekki jafn gaman og á árum áður að kíkja í plötubúðir í útlöndum.  Sú tíð er nánast liðin að maður rekist á eitthvað óvænt og spennandi í þessum búðum.  Í dag selja þær eiginlega bara plötur allra vinsælustu flytjenda.  Lítið þekktir flytjendur sinna sínum markaði í gegnum netið.  

  Á vegi mínum í Barselona urðu þrjár plötubúðir.  Allar á sama blettinum við Katalóniutorg.  Í aðeins nokkurra metra fjarlægð hver frá annarri.  Það er alltaf forvitnileg að sjá hvaða íslenskar plötur fást í útlendum plötubúðum.  Í Barselona reyndust það vera:

Björk (margar plötur.  Allar sólóplötur og einhverjar remix og smáskífur að auki)

Sigur Rós (margar plötur)

Emilíana Torríni  (nýja platan,  Tookah)

Ólöf Arnalds  (nýja platan,  Sudden Elevation)

Múm (margar plötur)

  Þetta þýðir að viðkomandi flytjendur njóti töluverðra vinsælda í Barselona.  Við vitum svo sem að Björk, Sigur Rós og Emilíana Torríni eru vinsæl víða um heim.  Ólöf Arnalds er stærra nafn á heimsmarkaði en margur heldur.  Til að mynda er hún töluvert nafn í Skotlandi og einnig þekkt í Englandi.  Það kom mér á óvart að rekast á plöturnar með Múm í Barselona.  

  


Tapas á Spáni og Íslandi

  Þetta er framhald á bloggfærslunni frá í gær. 

 barselonatapas.jpg

 

  Eitt af því sem gerir utanlandsferðir skemmtilegar er að kynnast framandi matarmenningu.  Að vísu er það ekki alveg jafn spennandi eftir að hérlendis spruttu upp kínverskir veitingastaðir,  tælenskir,  víetnamskir,  ítalskir,  tyrkneskir,  bandarískir...  Samt.  Í útlandi má alltaf finna eitthvað nýtt og framandi að narta í.

  Í Barselona er af nógu að taka í þeim efnum.  Þar á meðal eru það smáréttir sem kallast tapas.  Upphaflega var tapas brauðsneið eða parmaskinkusneið lögð ofan á vínglas á milli sopa.  Hlutverk tapas var að koma í veg fyrir að fluga kæmist í vínið.  Enginn vill eiga það á samviskunni að fluga verði ölvuð og rati ekki heim til sín.

  Þegar annað vínglas var pantað lét barþjónninn nýja skinkusneið eða brauðsneið fylgja því.  Eða þá að á barnum lá frammi brauð og skinka.  Gestir máttu fá sér eins og þeir vildu.  Bæði til að hylja vínglasið og einnig til að maula sem snarl.  Brauðið og skinkan eru sölt og skerpa á vínþorsta viðskiptavina.  Það varð góður bisness að halda snarlinu að gestum.  Þróunin varð sú að bæta söltu áleggi eða salati ofan á brauðbitana.  Það er enginn endir á nýjum útfærslum af tapas.  Í dag eru barir og krár á Spáni undirlagðar tapas.  Viðskiptavinurinn getur valið úr mörgum tugum smárétta.

  Nafnið tapas vísar til upprunans;  sem tappi eða lok.  Spænska orðið tapa þýðir hylja.  Mér skilst að víðast á Spáni sé tapas ókeypis snarl með víninu.  Í Barselona er hver smáréttur seldur á 200 - 300 ísl. kr.  Það er líka hægt að fá bitastæðari smárétti á hærra verði.  Spánverjar skilgreina tapas alfarið sem snarl á milli mála.  Þeir líta ekki á tapas sem máltíð.  Það geri ég hinsvegar.  Það er góð og fjölbreytt máltíð að fá sér 3 - 4 smárétti með bjórnum.  Á sumum börum er hægt að kaupa á tilboðsverði 6 - 7 valda smárétti saman á 1000 - 1200 ísl. kr.  Þá er blandað saman dýrum og ódýrum réttum.  Þetta er of stór skammtur fyrir máltíð.  En ágætur pakki fyrir þá sem sitja lengi að drykkju.  

barselona_tapas.jpg    Verðlag á veitingum á Spáni er nokkuð áþekkt verðlagi á Íslandi.  Ef íslensku bankaræningjarnir hefðu ekki slátrað íslensku krónunni 2008 værum við í dag að tala um verðlag á Spáni helmingi lægra en á Íslandi. 

barcelona_tapas-food.jpgbarcelona_tapas-place.jpg  Það er önnur saga.  Hérlendis eru veitingastaðir sem kenna sig við tapas.  Það skrítna er að þeir eru rándýrir.  Einn réttur kannski á 2000 - 3000 kall.  Nokkrir smáréttir saman á 7000 kall eða eitthvað.  

  Ég gagnrýni þetta ekki.  Þvert á móti dáist ég að þessum stöðum fyrir að komast upp með svona háa verðlagningu.  Þetta er bisness eins og margt annað.  Það er ekkert nema gaman að til sé hellingur af fólki sem hefur efni á að halda íslenskum tapas-stöðum á floti.  

 

  Meira á morgun. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband