Færsluflokkur: Ferðalög
21.9.2013 | 23:58
Breskt dagblað hvetur til Íslandsferða
Breska fríblaðið Metro státar sig af því að vera stærsta og útbreiddasta dagblað heims. Ég hef ekki forsendur til að rengja það. Á tímabili var íslenskt fríblað í Danmörku, Nyheds-eitthvað, toppurinn. Á sama tíma íslenskt dagblað gefið út í Boston. Það hét Boston News eða eitthvað álíka. Núna er ekkert íslenskt dagblað gefið út utan Íslands. Satt en ótrúlegt.
Í fimmtudagsblaði Metro er mælt með því að þeir sem eigi eftir að taka út haustfrí velji sér einhvern af eftirtöldum 5 áfangastöðum: Ísland, Kúpu, Ítalíu, Sri Lanka eða Oman. Þunginn í meðmælunum með Íslandi er sá að norðurljósin sem sjást á Íslandi verði sérlega áberandi og fjörug þetta haustið. Vísað er til fullyrðinga geimvísindastofnunar, Nasa, í því sambandi. Heildarkostnaður við 7 nátta ferð til Íslands er aðeins um 170 þúsund kall: Flug, gisting og morgunverður. Góður og ódýr kostur fyrir Breta. Einn af 5 bestu kostum. Til samanburðar kostar ræfilsleg 5 daga ferð til Ítalíu Bretann hátt á þriðja hundrað þúsund. Valið er auðvelt.
Ferðalög | Breytt 22.9.2013 kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2013 | 00:10
Ævintýri í leigubíl
Það er oft gaman að taka leigubíl. Í dag hringdi ég á leigubíl. Ég bý við einstefnuakstursgötu. Þegar mig fór að lengja eftir bílnum rölti ég upp götuna til að leigubíllinn þyrfti ekki að keyra niður einstefnuna. Þar sem ég stóð við enda götunnar sá ég allt í einu að leigubíllinn kom akandi upp götuna á móti einstefnu. Ég settist inn í bílinn og sagði: "Þú kemur brunandi hér upp gegn einstefnu." Bílstjórinn svaraði: "Já, ég kom frá hliðargötu og misreiknaði mig. Ég ætlaði að bakka upp götuna en eitthvað fór úrskeiðis."
Svo tók hann dálítinn krók í vitlausa átt. Það var reiðulaust af minni hálfu. Því næst ók hann að gatnamótum með götuljósum. Þar loguðu rauð ljós. Bílstjórinn lét það ekki trufla sig heldur ók rakleiðis yfir gatnamótin gegn rauðu ljósi. Sem betur fer var umferð hæg og aðrir bílstjórar negldu niður til, náðu þannig að forða árekstri og flautuðu ákaft. Mér varð að orði: "Hvað er þetta? Er allt í rugli með ljósin?" Bílstjórinn var hinn rólegasti og svaraði: "Já, þau bara blikka. Þetta er eitthvað rugl."
Mér varð litið yfir gatnamótin. Þar var pallbíll staddur með vinnumönnum og blikkandi gulu ljósi. Leigubílstjórinn hafði tekið meira mark á þeim ljósum en umferðarljósunum á gatnamótunum. Bílstjórinn bætti við: "Það er allt í rugli í gatnagerð á þessum árstíma. Maður er alveg ringlaður út af þessari dellu. Það væri nær að sinna gatnagerð yfir hásumarið þegar allir eru í sumarfríi og engin umferð."
Eftir þetta gekk allt vel fyrir sig.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2013 | 20:42
Fólk þarf að bera virðingu fyrir sektum
Hvers vegna gefa íslenskir ökumenn ekki stefnuljós? Hvers vegna tala íslenskir ökumenn á ferð í síma? Hvers vegna leggja "heilbrigðir" í stæði merkt fötluðum? Hvers vegna nota hjólreiðamenn ekki öryggishjálm? Svarið er einfalt: Ástæðan er sú að Íslendingar bera enga virðingu fyrir umferðarlögum um þessi atriði né heldur sektum við því að brjóta þessi lög.
Þekkir þú einhvern sem hefur verið sektaður fyrir að gefa ekki stefnuljós? Ekki ég heldur. Og þó. Fyrir 2 eða 3 árum var auglýst átak fyrir notkun stefnuljósa. Þá vikuna notuðu flestir stefnuljós. Einstaka manneskja var föst í gamla farinu og fékk smá sekt. Sektin var svo lág að það var hlegið að henni. Síðan hefur enginn skipt sér frekar af stefnuljósum.
Oft og tíðum birtast fréttir af rannsóknum sem leiða í ljós að ökumaður á ferð sem talar í síma tapar einbeitingu og athygli í umferðinni á meðan. Reyndar sér maður það ósjaldan í umferðinni. Sömu rannsóknir sýna að það er enginn munur á því hvort að ökumaður talar í handfrjálsan búnað eða heldur sjálfur símanum við eyrað. Handfrjáls búnaður er í raun verri vegna þess að hann veitir falskt öryggi.
Það er kjánalegt að halda í lög um handfrjálsan símabúnað. Það ber enginn virðingu fyrir kjánalegum lögum. Ofan á þennan kjánagang þá er refsilaust að ökumaður tali í talstöð.
Við höfum nýlegt dæmi um frjálsíþróttamann sem leggur jafnan jeppa sínum beint á ská í tvö stæði merkt fötluðum. Útskýring hans er sú að hann vilji frekar borga 5000 króna sekt fyrir það en láta "hurða" bílinn á þrengra stæði. Enda sé bíllinn á einkanúmeri.
Hann er ekki einangraður frekjuhundur. Þetta er algeng afstaða jeppagutta. Sektin fyrir að leggja í stæði merkt fötluðum er svo lág að það er hlegið að henni. Þar fyrir utan eru þessi spjátrungar aldrei sektaðir fyrir að leggja í stæði merkt fötluðum. Þeir fá að komast upp með þetta vegna þess að þeim er vorkunn. Frekja þeirra og ótillitssemi ræðst augljóslega af andlegri fötlun.
![]() |
Fékk ekki að borga sektina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 19.9.2013 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.9.2013 | 23:34
Plötuumslög í sínu rétta umhverfi
Þegar rölt er um New York borg ber margt fyrir auga sem kemur kunnuglega fyrir sjónir. New York borg er vettvangur margra kvikmynda, sjónvarpsþátta og tónlistar. Demókratar eru ráðandi. Íbúar eru um 8 milljónir. Daglegir túristar í New York eru jafn margir: 8 milljónir.
New York er suðupottur fjölmenningar í tónlist og ýmsu öðru, með sitt Kínahverfi, litlu Ítalíu, fátækrahverfi svertingja (Harlem) og svo framvegis. New York er heimsálfa ólíkra hverfa, ólíkra menningarsvæða...
Mörg af frægustu plötuumslögum rokksögunnar hafa verið ljósmynduð í NY. Það er þess vegna sem gestkomandi í New York borg kannast við umhverfið.
Plötuumslag bresku mod-hljómsveitarinnar The Who "The Kids are Allright", byggir á ljósmynd í New York.
Umslag plötunnar "Too Long in Exile" með írska söngvaranum Van Morrison.
"After The Gold Rus" með kanadíska tónlistarmanninum Neil Young skartar ljósmynd frá NY.
Umslag plötunnar "Live at Max´s Kansas City" með NY sveitinni Velvet Underground.
Hljómsveitin New York Dolls og umslag samnefndrar plötu.
Ramones, enn ein NY sveitin og umslag plötunnar "Rocket to Russia".
Steely Dan brugðu sér í Central Park garðinn í NY til að sitja fyrir á mynd á umslag plötunnar "Pretzel Logic".
Söngleikjaplatan "West Side Story".
Bob Dylan bjó í NY og þurfti ekki að sækja myndefni langt.
Dylan fór samt til London til að filma myndband við lagið "Subterranean Homesick Blues".
Ferðalög | Breytt 18.9.2013 kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.8.2013 | 21:34
Veitingahússumsögn
- Veitingastaður: Hótel Cabin, Borgartúni 32 í Reykjavík
- Réttur: Salatbar
- Verð: 1490 kr. í hádegi, 1850 kr. á kvöldin
- Einkunn: ***1/2 (af 5)
Eftir fyrstu heimsókn í Hótel Cabin hafði ég hug á að gefa salatbarnum 4 stjörnur. Nú hef ég heimsótt staðinn 8 sinnum með nokkurra daga millibili. Við ítrekaðar heimsóknir fækkaði stjörnunum um hálfa.
Út af fyrir sig er salatbarinn hinn ágætasti. Hann er hefðbundinn og þar með ekkert sérstakur. Það er engin ný, framandi eða spennadi salatblanda. Þetta er allt ósköp "venjulegt". Hægt er að velja um yfir þrjá tugi tegunda grænmetis, ávaxta, núðla, pasta og þess háttar. Þetta er allt frá rúsínum og túnfiski til niðursneiddra eggja, tómata og agúrkna. Úrval af köldum sósum er gott. Ofan á "þakinu" á sjálfu salatborðinu stendur fjöldi flaskna með allskonar olíum. Þær virðast vera frekar til skrauts en brúks. Ég hef hvorki séð mig né aðra gesti skipta sér af olíunum.
Í auglýsingum er sagt að úrval heitra og kaldra rétta sé í boði. Það er ósatt eða í besta falli töluvert villandi. Einungis einn heitur réttur er í boði hvern dag. Sá er jafnan lítilfjörlegur. Í eitt skiptið voru það litlar kjötbollur. Í annað skiptið voru það núðlur með örlitlu af kjöthakki. Í öll hin skiptin hafa það verið of þurrir og óspennandi kjúklingavængir og -leggir.
Daglega er boðið upp á tvær súputegundir og gott nýbakað gróft kornbrauð. Ætíð fleiri en ein tegund. Gestir skera sér sjálfir brauðsneiðar. Súpurnar eru einhæfar. Í öll skiptin nema eitt var um samskonar tæru grænmetissúpuna að ræða. Í undantekningatilfellinu var það lauksúpa. Hún var samt merkt sem grænmetissúpa. Og þannig er það með merkingarnar á súpunum. Þær eru oft rangar. Aðrar súpur geta verið þykk grænmetissúpa eða paprikusúpa. Súpurnar eru ágætar en ekkert "spes".
Drykkir eru innifaldir í verði - að ég held: Gosdrykkir, kaffi og litað sykurvatn með ávaxtakjörnum (djús). Vatnið er alltaf best - ef maður er á bíl. Eðlilega þarf að borga fyrir áfenga drykki.
Staðurinn er hreinn og snyrtilegur í milliklassa. Mjúk leðursæti með háu baki.
Það er gaman að skreppa þarna einstaka sinnum. Einhæfni gerir örar heimsóknir ekki eins spennandi.
Nýjustu 10 veitingaumsagnir:
Grillmarkaðurinn: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1298062
Ferðalög | Breytt 18.8.2013 kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2013 | 22:09
Færeysku fjölskyldudagarnir á Stokkseyri - 2. hluti
Það er erfitt að átta sig á því hvað margir nákvæmlega sóttu hátíðina Færeyska fjölskyldudaga á Stokkseyri um verslunarmannahelgina. Það var ókeypis aðgangur á flesta dagskrárliði, í sýningarsali, á viðburði og annað. Ef miðað er við þá sem smökkuðu á skerpikjöti og þá sem keyptu veitingar í Art Café má ætla að eitthvað á annað þúsund manns hafi sótt Færeyska fjölskyldudaga.
Á tjaldstæðinu voru um 50 bílar þegar mest var. Tvær til fjórar manneskjur í hverjum bíl. Flestir gestirnir dvöldu hinsvegar aðeins yfir daginn og kvöldið. Sumir komu dag eftir dag án þess að gista á Stokkseyri. Þetta var fólk sem dvaldi í sumarbústöðum í nágrenninu eða á heima á Selfossi, Eyrarbakka eða Hveragerði. Kannski einhverjir frá Þorlákshöfn einnig. Jafnvel frá höfuðborgarsvæðinu.
Allt fór vel og friðsamlega fram. Engin slagsmál, engin þjófnaðarmál, engin skemmdarverk. Einungis gleði, fjör og gaman. Fjörið náði hámarki á dansleik á sunnudagskvöldinu. Jógvan Hansen og Vignir Snær kunna svo sannarlega að keyra upp stuðið og ná salnum út á dansgólfið. Ekki var verra að Jógvan á auðvelt með að afgreiða færeysk óskalög sem gestir af færeyskum uppruna þráðu að heyra.
Reyndar þurfti ekki færeyskan uppruna til að beðið væri um færeysk lög. Ég var plötusnúður á Færeyskum fjölskyldudögum. Á hverju kvöldi var ég þrábeðinn af Íslendingum um að spila "Ormin langa" með Tý. Allt frá þrisvar á kvöldi og upp í sjö sinnum!
Það er gömul saga og ný að fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á fjölskylduhátíðum sem fara friðsamlega fram. Þar sem allt gengur eins og í sögu. Orðið tíðindalaust lýsir stöðunni. Fréttamenn sækja í fréttir af líkamsárásum, skemmdarverkum, innbrotum og þess háttar. Þess vegna skiptu fjölmiðlar sér lítið af Færeyskum fjölskyldudögum. Það kom ekki á óvart. Hitt vakti undrun mína: Að sunnlenskir fjölmiðlar þögðu þunnu hljóði um hátíðina á Stokkseyri.
Eftir því sem ég kemst næst var ekkert sagt frá Færeyskum dögum í héraðsfréttablöðunum Dagskránni og Sunnlenska, né heldur í Útvarpi Suðurlands. Að óreyndu hefði mátt ætla að þessir fjölmiðlar legðu sig í líma við að kynna í bak og fyrir svona hátíð á Suðurlandi. Ég þekki ekki nógu vel til þarna um slóðir til að giska á hvort að hrepparígur eða eitthvað annað olli fálæti sunnlenskra fjölmiðla.
Útvarp Saga, Rás 1 og Rás 2 stóðu sig hinsvegar með prýði. Því má halda til hafa. Lítill fugl hvíslaði því að mér að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hafi keypt umfjöllun um aðrar hátíðir á Suðurlandi um verslunarmannahelgina út úr miðlum 365.
Ferðalög | Breytt 13.8.2013 kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2013 | 22:03
Fjörið og góða veðrið um verslunarmannahelgina
Eins og glöggt má lesa um í meðfylgjandi frétt, "Besta veðrið suðvestantil", þá verður besta veðrið á suðvesturhorninu yfir alla verslunarmannahelgina. Góða veðrið skellur á af fullum krafti strax á fimmtudaginn. Það er einmitt þá sem svo skemmtilega vill til að á Stokkseyri hefjast Færeyskir fjölskyldudagar. Þetta er svo heppilegt vegna þess að besta veðrið verður nákvæmlega á Stokkseyri. Gargandi sól, hiti, fjör og gaman.
Í besta veðrinu um verslunarmannahelgina verður eftirfarandi um að vera á Færeysku fjölskyldudögunum. Ég tók þetta af Fésbókarsíðu Færeyskra fjölskyldudaga:
.
Dagana 1.- 5. ágúst næstkomandi verður haldin færeysk stórhátíð á Stokkseyri.
Margt verður í boði frá fimmtudegi til mánudags: Söfn verða opin alla helgina, svo og sýningar, þjónusta og fjölbreytt afþreying. Ýmis tilboð verða í gangi og aðgangur er ókeypis á fjölda viðburða.
Boðið verður upp á skemmtun með fjölbreyttri færeyskri tónlist, kynningu á Færeyjum, sagðar gamlar og nýjar sögur frá Færeyjum, kynning á skerpikjöti og gefið smakk. Þetta er margþætt skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum, segir sögur þaðan og verður með okkur alla helgina, kynnir færeyskan mat og gefur smakk af færeysku skerpikjöti.
Jens Guð sér um fjörið á Draugabarnum á föstudagskvöldið og fram á nótt.
Bee on ice sjá um fjörið á laugardagskvöldið á Draugabarnum og fram á nótt.
Jógvan Hansen og Vignir Snær sjá um að skemmta á sunnudagskvöldið og fram á nótt á Draugabarnum.
Alla helgina verður hægt að fara á kajak og kanna vatnasvæðið í grennd við Stokkseyri. Einnig er boðið upp á námskeið fyrir börn um helgina.
Fjöruborðið er einn af betri veitingastöðum á landinu og þótt víða væri leitað, þar verður hægt að fá mat alla helgina.
Tjaldsvæðið er mjög gott á Stokkseyri og bíður upp á góða þjónustu, þar gildir Útilegukortið.
Skálinn (Shell) bíður upp á fjölbreytta þjónustu: Bensín, olíur, gos, veglegan matseðil, verslun og fleira.
Hægt er að veiða í Hraunsá alla helgina og á bryggjunni.
Fjaran er engu lík við Stokkseyri, margir pollar sem iða af lífi, krabbar, síli, fiskar, skeljar, kuðungar og fleira. Krakkar (og fullorðnir) upplifa eftirminnalegt ævintýri við að kynnast dýralífinu í pollunum.
Góður fótboltavöllur og sparkvöllur er á Stokkseyri.
Fimmtudagur 01.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð
13:00 - 21:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar kynnt og sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
Föstudagur 02.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð.
13:00 - 21:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni: Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23.00 Dansleikur á Draugabarnum Jens Guð spilar færeyska tónlist og fjöruga popptónlist og allt í bland. Aðgangur ókeypis
Laugardagur 03.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum´´.
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10.00 18.00 Art kaffi opnar í Lista og menningarverstöðinni 3.hæð.
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 18:00 Rjómabúið við Stokkseyri opinn fyrir alla. Aðgangur ókeypis
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
14.00 - 17:00 Kajak kennsla fyrir börn. Aðgangur ókeypis
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni. Jens Guð sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14. 00 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Lista og menningarverstöðinni Smakk á Skerpikjöti meðan birgðir endast. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23:00 Dansleikur á Draugabarnum Bee on ice halda uppi stuðinnum, ballið hefst kl 23.00 og stendu fram á nótt. Aðgangur 1000.- kr
Sunnudagur 04.ágúst 2013
10:00 - 20:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum".
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
10.00 - 18.00 Art kaffi opnar í Menningarverstöðinni 3.hæð.
12:00 - 22.00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Rjómabúið við Stokkseyri opinn fyrir alla. Aðgangur ókeypis
13:00 - 18:00 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin.
14.00 - 17:00 Kajak kennsla fyrir börn. Aðgangur ókeypis
14.00 - 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Menningarverstöðinni. Jens Gud sér um kynningu á Færeyjum og segir sögur frá Færeyjum. Aðgangur ókeypis
14. 00 18.00 Art Kaffi 3.hæð í Menningarverstöðinni. Smakk á Skerpikjöti, meðan birgðir endast. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa GUSSA málara verður opin . í Menningarverstöðinni Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Vinnustofa Herborgar Auðunsdóttur Leirkerasmiðs verður opin í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
23:00 Dansleikur á Draugabarnum. Jögvan Hansen og Vignir Snær sjá svo um að halda uppi stuðinu á sunnudagskvöldið og fram á nótt. Aðgangur 2000 kr.
Mánudagur 05.ágúst 2013
09:00 - 21:00 Kajakaferðir. Róbinson Krúsó kannið vatnasvæðið á eigin vegum.
10.00 - 18.00 Þuríðarbúð opin til sýningar. Aðgangur ókeypis
10:00 - 17:00 Sundlaug Stokkseyrar opin.
12:00 - 22:00 Veitingahúsið Við Fjöruborðið opnar. Humar, humarsúpa og lambakjöt.
13:00 - 18:00 Draugasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
13:00 - 20:30 Álfa-, trölla- og norðurljósasetrið. Tilboð ef farið er á bæði söfnin
14:00 - 18:00 Valgerður Þóra opnar vinnustofuna Mósaík í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
14:00 - 18:00 Elfar Guðni opnar vinnustofu sína í Menningarverstöðinni . Aðgangur ókeypis
14:00 - 18.00 Listaverkið Brennið þið vitar sýnt í Menningarverstöðinni. Aðgangur ókeypis
ATH.
Tjaldsvæðið á Stokkseyri er flott og til fyrirmyndar.
Útilegukortið gildir á tjaldsvæðinu Stokkseyri.
Allir hjartanlega velkomnir
Sjá nánar á: www.stokkseyri.is
Upplifið færeyska stemmingu um verslunarmannahelgina.
Nokkur símnúmer sem gott er að vita af:
Neyðarlínan. einn,einn,tveir 112
Lögreglan Selfossi. 480-1010
Fjöruborðið Veitingastaður Humar/Humarsúpa/Lamb. 483-1550.
Kæjaka leiga/kensla. 896-5716.
Skálinn Veitingahús,Verslun,Sjoppa,Bensínst. 483-1485.
Sundlaug Stokkseyrar. 480-3260
Tjaldsvæðið Stokkseyri. 896-2144
Lista og Menningaverstöðinn. 483-1600
Draugasafnið. 483-1202 / 895-0020
Draugabarinn. 483-1202 / 899-0020
Álfa Trölla og Norðurljósasafnið. 483-1600 / 895-0020
Art Kaffi .483-1600 / 842-2610
Icelandic Wonders. ehf 483-1600 / 895-0020
Aurora Experience. ehf 483-1600
![]() |
Besta veðrið suðvestantil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 31.7.2013 kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2013 | 21:38
Nýtt og betra
Það er merkilegt að ekki sé búið að koma fyrir hljóðdeyfi á höggborinn. Það er leiðinda hávaði frá þessu verkfæri. Hvellur og óþægilegur hávaði sem ærir alla nærstadda og í töluvert stórum radíus frá bornum. Það væri strax til bóta ef borinn gæti boðið upp á mismunandi tóna þannig að hægt sé að spila róandi lagstúf með honum. En hljóðdeyfir er betri kostur. Hann er hljóðlátari aðferð.
Tækninni fleygir fram við allt svona. Sú var tíð að hellulagnamenn bröltu um á hnjánum til að leggja gangstéttarhellur eða vegahellur. Það tók heilu dagana að helluleggja örfáa metra. Í dag eru hellur lagðar fljótt og snyrtilega eins og teppi með hellulagningavél. Vélin fer ekki hratt yfir. En hún helluleggur tugi metra á klukkutíma.
Lengi vel var meiriháttar mál að leggja malbikaða vegi. Með ýtum var jarðvegi rutt upp í rétta hæð. Þar sem ekki var nóg um möl voru vörubílar á þeytingi með möl úr malargryfjum. Yfirborðið sléttað út. Heitt malbik lagt ofan á það. Það tók heilu mánuðina að leggja hvern vegaspotta. Fjölmenni þurfti til. Við hvert verkefni var sett upp lítið þorp vegavinnuskúra. Þar sváfu vegavinnuflokkar. Einn skúrinn var mötuneyti. Það varð að fóðra kvikindin.
Núna er farið að leggja malbikaða vegi á annan hátt. Menn fá malbikaða vegi upprúllaða og leggja þá eins og teppi. Rúlla þeim eftir slóðinni. Það þarf aðeins einn mann í verkið. Hann leggur veginn jafn hratt og hann gengur.
Af því að tækninýjungar eru til umræðu má ég til með að nefna nýjan penna sem var að koma á markað. Hann lítur út eins og venjulegir pennar. Munurinn er sá að þegar orð er vitlaust stafsett þá titrar penninn. Víbrar og gefur smá stuð. Hann hættir ekki að víbra fyrr en orðið er rétt stafsett.
![]() |
Ólétt kona stöðvaði vinnu höggbors |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt 15.7.2013 kl. 06:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2013 | 00:18
Fólki sem er fífl hjálpað að fóta sig í tilverunni
Fólk er fífl. Það vita allir. Nema fólkið sjálft. Það þarf leiðbeiningar um hvert skref. Annars fer allt í rugl. Þess vegna er brýn þörf á sem flestum umferðarmerkjum. Fjöldi embættismanna á launaskrá ríkisins vinnur að því hörðum höndum að hanna og koma fyrir sem víðast merkingum til að leiðbeina fólki sem er fífl. Í dag bættust 17 ný umferðarmerki í hóp þeirra tuga umferðarmerkja sem þegar eru út um allt.
Það er gott til þess að vita að ríkisstarfsmenn geri fleira en naga blýanta allan daginn alla daga. Þeir leggja sig líka fram um að leiðbeina kjánum. Einmitt núna þegar sól hefur verið minni í sumar (hún á kannski eftir að stækka) en elstu menn muna hefur innanríkisráðherra boðað að í nálægð við allar ísbúðir landsins verði komið upp skilti sem sýnir gamaldags (klassískan) rjómaís úr vél. Án þessa skiltis er veruleg hætta á að fólk sem er fífl kaupi sér í óvitaskap ís úr frystikistum stórmarkaða. Lítill fugl hvíslaði að mér að þetta væri gert að ósk Sigmundar Davíðs. Hann ku vera sólginn í rjómaís beint úr vél.
Áður en þetta skilti er fest upp sannreyna embættismenn Vegagerðarinnar og Framkvæmdastofnunar samgöngumála að ísinn sé afgreiddur í brauðformi og að það sé rjómabragð af honum.
Eitt af mörgu góðu við að fjölga umferðarskiltum á Íslandi er að það er atvinnuskapandi. Ekki endilega þannig að það fjölgi störfum heldur þannig að embættismenn innanríkisráðuneytisins (og stofnana sem heyra undir það) hafi eitthvað fyrir stafni. Það gerir engum gott að slæpast í vinnunni og hanga á fésbók. Samkvæmt óáreiðanlegum heimildum er ríkur vilji hjá Framkvæmdastofnun samgöngumála að setja í næsta átaki upp skilti sem gefur til kynna hvar megi nálgast rammíslenska pylsu með öllu og hvar sé mögulegt að kaupa kalda mysu.
Gríðarlega mikil stemmning er fyrir því að setja upp við allar götur nálægt vínveitingastöðum skilti sem upplýsir að hætta sé á að þar fari ölvuð manneskja til síns heima (eða út í buskann). Aðgát skal höfð í nærveru drukkinna.
Þetta bráðnauðsynlega skilti sýnir hættu á að nautgripir detti ofan á bíla. Eina vandamálið er að bílstjóri getur á engan hátt komið í veg fyrir það. En þegar nautgripur dettur ofan á bíl getur bílstjórinn verið nokkuð viss um að það var nautgripur sem datt ofan á bílinn (en ekki geimskip eða loftsteinn). Það veitir öryggiskennd að vera ekki í vafa.
Hvar er hægt að fóðra krókódíla með fötluðum?
Sumt fólk er "mannýgt". Það stangar bíla. Erlendis hefur gefist vel að setja upp skilti nálægt bílum með hvatningu um að mannýgir stangi spegla á bílunum frekar en sjálft "boddýið". Þannig má komast hjá því að dælda bílana.
![]() |
17 ný umferðarmerki taka gildi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.6.2013 | 22:37
Það er gaman að sjá fjörulabba
Víða um land, einkum á Vestfjörðum, er skemmtileg skepna á vappi. Hún heitir fjörulabbi. Fjörulabbi heldur sig að mestu í sjónum. Þegar enginn sér til laumast fjörulabbinn í land. Mest ber á því um fengitíma. Þá má sjá fjörulabba hér og þar í fjöru og jafnvel upp í hlíðum. Fjörulabba er alveg sama þó að hann sjáist. Hinsvegar gætir hann þess vandlega að enginn sjái hann koma upp úr sjónum né fara í sjóinn. Þess vegna hefur enginn séð það.
Fjörulabbi er svo gott sem alveg eins og kind að stærð og lögun. Reyndar hafa sjónarvottar komið auga á fjörulabba sem er alveg eins og hundur að stærð og lögun.
Fjörulabbi er ekki feiminn við ljósmyndavél. Þvert á móti sækir hann í að "pósa" fyrir framan myndavél. Besta aðferð til að komast í návígi við fjörulabba er að glenna framan í hann myndavél. Þess eru dæmi að foreldri ætli að taka mynd af börnum sínum á Vestfjörðum þegar fjörulabbi kemur aðvífandi, stuggar við börnunum og stillir sér upp fyrir framan ljósmyndavélina. Frekjan er svo gengdarlaus.
Ferðalög | Breytt 6.6.2013 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)