Færsluflokkur: Matur og drykkur
24.4.2016 | 20:01
Matvöruverslun án afgreiðslufólks
Í Amsterdam er margt að sjá. Hægt er að læra af sumu. Til að mynda eru síldarflök seld í vögnum samskonar pylsuvögnum. Kosturinn við síldarvagna er að þar þarf ekki pott til að hita mat í né rafmagn. Síldarflakið er þverskorið í hæfilega munnbita. Það er ýmist afgreitt lagt á bréf eða í pylsubrauði. Sósur, laukur, súrsaðar gúrkur og eitthvað fleira er hægt að sulla á. Þetta er eðlilega vinsælt. Síld er holl. Pylsan ekki.
Í Amsterdam rakst ég inn í matvöruverslun án sjáanlegrar afgreiðslumanneskju. Ekkert annað starfsfólk sást heldur. Þó má ætla að einhverjir vinni á lager og við eftirlit. Viðskiptavinir afgreiða sig sjálfir. Skanna vörurnar inn og borga með korti.
Klárlega er töluverður launasparnaður við þetta fyrirkomulag. Spurning hvernig svona verslun er varin gegn þjófnaði. Það hljóta að vera öflugar þjófavarnir við útganginn. Ef þetta gefst vel þá er næsta víst að þetta breiðist út um allan heim. Hver verður fyrstur til að innleiða þetta á Íslandi? Ekki Kaupfélag Skagfirðinga.
Í S-Kóreu er annar háttur hafður á. Þar er matvöruverslun ósköp hefðbundin á að líta. Þegar betur er að gáð þá eru engar vörur í hillum. Þess í stað eru myndir af vörunum. Viðskiptavinurinn ýtir á myndir af þeim vörum sem hann vill kaupa. Samstundis smalast vörurnar saman inni á lager. Síðan koma þær á færibandi í poka eða pokum fram á afgreiðsluborðið. Þarna er rýrnun vegna þjófnaðar 0%. Hér er ljósmynd úr þannig búð:
Matur og drykkur | Breytt 25.4.2016 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2016 | 13:25
Nakið starfsfólk og viðskiptavinir í London
Innan skamms býðst Íslendingum í London að snæða kviknaktir á veitingastað. Annarra þjóða kvikindum líka. En einkum höfðar þetta til Íslendinga. Grunar mig. Starfsfólk staðarins verður einnig klæðalaust. Samt ekki starfsfólk í eldhúsi. Það er fyrst og fremst til að forðast slys með sjóðheitan mat. Líka af hreinlætisástæðum. Gestir sjá hvort sem er ekki inn í eldhúsið. Þeir upplifa aðeins nekt hvert sem litið er.
Gestir fá ekki að hafa með sér neina hluti. Hvorki farsíma, úr né skartgripi.
Hugmyndafræðin á bak við veitingastaðinn er sú sama og með nektarnýlendur og nektarhjólreiðar: Frelsi. Jafnframt að vera í snertingu við náttúruna. Allar innréttingar og áhöld eru sem náttúrulegust. Ekkert plast, engir málmhlutir. Ekkert rafmagn. Borð verða aðgreind með bambustjöldum. Svigrúm til að góna mikið á ókunnuga á næstu borðum er þannig takmarkað. Þetta er ekki staður fyrir perra. Hinsvegar er staðurinn upplagður fyrir vinnufélaga til að styrkja móralinn og hrista hópinn saman.
Staðurinn verður opnaður eftir rúman mánuð. Þegar er byrjað að taka við borðpöntunum. Þrátt fyrir töluverða gagnrýni og efasemdir liggja fyrir bókanir 16 þúsund gesta. Aðallega Íslendinga - giska ég á. Þó getur verið að þetta sé blandaður hópur. Óljóst er hvort að 365 miðlar eigi hlut í veitingastaðnum. Kannski bara í öllum hinum veitingastöðum í hverfinu.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2016 | 13:37
Fróðleiksmolar sem gott er að vita
- Hrá gulrót er lifandi þegar þú borðar hana. Hún sýnir mælanleg óttaviðbrögð þegar þú bítur í hana. Hún er skelfingu lostin.
- Víða í Afríku borðar fólk með bestu lyst köku sem kallast kunga. Meðal hráefna í henni eru mýflugur. Hellingur af þeim.
- Í að minnsta kosti 2000 ár var kakó aðeins þekkt til drykkjar. Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld sem menn föttuðu að hægt væri að gera súkkulaðistykki úr kakói. Við það tóku margir gleði sína.
- Vinsældir súkkulaðis bárust nýverið til Kína. Þar breiðast þær hratt út. Þetta veldur innan örfárra ára kakóskorti í heiminum. Þá hækkar verð á súkkulaði svo bratt að einungis auðmenn með falda peninga í skattaskjóli hafa efni á því. Ráð er að hamstra súkkulaði þegar í stað og geyma til mögru áranna.
- Ef sniglum er gefið geðlyfið Prozak þá tapa þeir hæfileikanum til að framleiða límkennt slím. Það er betra að leyfa þeim að vera geðveikum.
- Stinningarlyfið Viagra var upphaflega notað gegn brjóstsviða. Fljótlega urðu sjúklingar varir við einkennilega hliðarverkun.
- Allir þurfa svefn. Án hans þyrfti fólk ekki heimili. Fjölskyldur myndu flosna upp. Fyrirbærið lögheimili væri ekki til. Þá væru stjórnmálamenn ekki skráðir til heimilis á eyðibýli norður í landi. Lengsti skrásetti samfleytti vökutími einnar manneskju er tæpir 19 sólarhringar. Ekki er mælt með svo löngum vökutíma. Án svefns lætur margt undan á örfáum dögum. Fólk fer að sjá ofsjónir og geðraskanir mæta á svæðið.
- Rannsóknir hafa leitt í ljós að fólk yfir meðalgreind gengur ver að vakna á morgnana en öðrum. Er morgunsvæfara. Undantekning er gáfað fólk með geðveilu. Fólk sem sefur reglulega í örfáa klukkutíma á sólarhring (4 - 5 klukkutíma) er í andlegu ójafnvægi.
- Fuglinn næturgali kann og man yfir 200 mismunandi laglínur sem hann tístir til að heilla gagnstæða kynið. Reyndar ekkert merkilegar laglínu. Raggi Bjarna kann álíka mörg lög. Miklu betri lög.
Matur og drykkur | Breytt 31.1.2017 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2016 | 21:59
Óþolandi forsjárhyggja
Það er alltaf gaman að rölta um Fríhöfnina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Sandgerði. Andrúmsloftið þar er sérstakt (spes). Þetta er öðruvísi en að væflast um 10-11 eða Pennann.
Fýlupokar hafa verið að fetta fingur út í Fríhöfnina. Saka hana um að vera í samkeppni við aðrar íslenskar verslanir. Þetta er della. Í dag er Fríhöfnin fyrst og fremst að þjónusta hálfa aðra milljón útlenda ferðamenn. Eða eitthvað svoleiðis. Fríhöfnin í Sandgerði er aðallega í samkeppni við útlendar Fríhafnir. Vonandi stendur hún sig sem allra best í þeirri samkeppni. Ekki viljum við tapa þeim viðskiptum til útlanda. Okkur bráðvantar útlendan gjaldeyri.
Hitt er annað mál að það er ekki allt sem sýnist með Fríhöfnina í Sandgerði. Þar má kaupa eins mikið af M&M og hugurinn girnist. Það má kaupa eins mörg stykki af Toblerone og hugurinn girnist. Það má kaupa allskonar í því magni sem hugurinn girnist. Alveg eins og má í 10-11 og Pennanum. Ekkert við það að athuga. Við búum í frjálsu landi án skömmtunarseðla. Ísland er lýðræðisríki þar sem almenningur velur sér forseta á fjögurra ára fresti. Aftur og aftur.
Víkur þá aftur sögu að Fríhöfninni. Þar má kaupa eiginlega allskonar vörur í ótakmörkuðu magni. Nema áfenga drykki. Það er út í hött. Hvað er svona frábrugðið við bjór í samanburði við súkkulaði að hann er skammtaður en súkkulaði ekki? Hvorutveggja er lögleg vara. Bjórinn inniheldur B-vítamín og súkkulaði er steinefnaríkt. Af hverju þurfa stjórnmálamenn að taka sér það vald að skammta ofan í fólk hvað það má kaupa? Hvað kemur alþingismanni við hvort að mig langar í 3 bjórdósir eða 25 þegar ég á leið um flugstöð í Sandgerði? Eða ef mig langar bara í 5 bjórdósir en verð að kaupa lágmark 6.
![]() |
Meira af bjór og léttvíni í tollinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 27.1.2017 kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.4.2016 | 23:36
Meira um mat í Amsterdam
Starfsmenn veitingastaða í Amsterdam eru næstum því óþægilega ágengir. Eða þannig. Þegar stansað er fyrir framan veitingastað til að lesa matseðil úti í glugga eða á auglýsingatrönu sprettur skyndilega upp þjónn eða annar starfsmaður staðarins. Hann reynir hvað hann getur til að lokka mann til viðskipta. Fer yfir "tilboð dagsins" og þylur upp fleiri kosti. Ef maður er tvístígandi færist hann í aukana. Lofar desert sem kaupauka. Ef það dugir ekki lofar hann einnig ókeypis drykk með matnum. Þetta er barátta um brauðið. Eða öllu heldur þjórfé. Þegar margir veitingastaðir eru staðsettir hlið við hlið munar um harkið. Bera sig eftir björginni. Túristar fylla götur miðbæjarins.
Bob Marley er í hávegum í Amsterdam. Myndir af honum skreyta allskonar kaffihús og verslanir. Í sumum kaffihúsum eru hass og marijúana til sölu. Það höfðar ekki til mín. Ég hef á árum áður prófað þannig jurtir í þrígang. Víman heillar mig ekki. Ég held mig við bjórinn. Enda inniheldur hann B-vítamín.
Víða í Amsterdam eru sölubásar með franskar kartöflur. Bara franskar kartöflur og majonesklessu. I einhverjum tilfellum er hægt að velja um fleiri sósur. Ég skipti mér ekki af því. Alveg áhugalaus um franskar kartöflur. Við þessa bása eru langar biðraðir. Þetta fyrirbæri er þvílíkt vinsælt. Á sumum stöðum eru svona básar hlið við hlið. Á öðrum stöðum er stutt á milli þeirra. Allstaðar er löng biðröð fyrir framan þá. Samt gengur afgreiðslan mjög hratt fyrir sig. Ég horfði upp á starfsmenn moka þeim frönsku í kramarhús eins og í akkorði. Eldsnöggir.
Þetta er auðsjáanlega góður bisness. Húsnæðið er álíka stórt og pylsuvagn. Kartöflurnar afhentar út á stétt miklu hraðar en pylsur.
Svo eru það sjálfsalar með heitum skyndibita. Þeir eru rosalega vinsælir. Þeir eru eins og hefðbundnir sjálfsalar. Réttirnir sjást í hólfi: Hamborgarar, pylsur, kjúklingabitar og allskonar djúpsteiktir réttir. 200 - 300 kall eða svo er settur í sjálfsalann og hólf opnast. Einfalt og notalegt.
Matur og drykkur | Breytt 17.4.2016 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.4.2016 | 20:31
Matur í Amsterdam
Ég hef áður skýrt undanbragðalaust frá því að ég skrapp til Amsterdam um páskana. Sennilega var um áratugur síðan ég heimsótti þá ágætu borg síðast. Þetta var þess vegna dáldið eins og fersk heimsókn.
Við innritun á gistiheimili tilkynnti afgreiðsludaman mér að ættingi minn væri gestur þarna. Ég varð eitt spurningamerki. Daman fletti upp í tölvunni og sagði: "Hún er hérna, Sabrína Guðmundsson. Þetta er nákvæmlega sama ættarnafnið, stafsett með ð og allt."
Ég þakkaði fyrir upplýsingarnar. En veit ekkert meira um Sabrínu.
Í einni plötubúð sem ég heimsótti spurði afgreiðslumaðurinn fljótlega: "Íslendingur?". Ég játti. Hann sagði: "Ef maður hefur heyrt í sjónvarpinu viðtal við Björk og Sigur Rós þá er íslenski enskuframburðurinn auðþekkjanlegur." Hann sagðist hafa komið til Íslands og sannreynt þetta.
Athygli vekur að fjöldi veitingastað býður upp á nákvæmlega sömu rétti: Lambakótelettur, svínarif, grillaðar kjúklingabringur, rib eye steik og eitthvað svoleiðis. Sama meðlæti: Kál, tómatsneiðar, agúrkusneiðar, franskar, tómatsósa og majónes. Á auglýsingatrönum og úti í gluggum veitingastaðanna eru sömu ljósmyndir af þessum réttum. Samt eru staðirnir ýmist kenndir við Argentínu, Ítalíu, Istanbúl, Tæland eða eitthvað annað. Enginn munur er á þessum réttum hvort heldur sem veitingastaðurinn er fínn háklassa eða skyndibitastaður. Verðið er 10 - 11 evrur (um 1400 - 1500 íslenskar kr.).
Biðja þarf sérstaklega um bakaða kartöflu. Alltaf fylgja með tómatsósan og majonesið. Þegar bita er stungið ofan í þær báðar er útkoman kokteilsósa.
Mér dettur í hug að einn og sami birginn afgreiði alla þessa staði. Fremur en að þeir séu allir í eigu sama aðila. Þetta er skrítið. Ekki síst vegna þess að víða liggja þessir staðir saman hlið við hlið.
Fyrri blogg um Amsterdam-heimsóknina má lesa með því að smella á þessa hlekki:
http://http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/2169441//blog/jensgud/entry/2169441/
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/2170260/
http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/2170473/
Matur og drykkur | Breytt 16.4.2016 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2016 | 11:16
Það er flugmaðurinn sem talar
Þegar skroppið var til Amsterdam á dögunum þá flaug ég með flugfélaginu Wow. Það geri ég alltaf þegar því er við komið. Fyrstu árin voru flugfreyjur Wow uppistandarar. Þær reittu af sér vel heppnaða brandara við öll tækifæri sem gafst. Eðlilega gekk það ekki til lengdar. Það er ekki hægt að semja endalausa brandara um björgunarbúnað flugvélarinnar, útgönguleiðir og svo framvegis. Því síður er boðlegt að endurtaka sömu brandarana oft þar sem fjöldi farþega ferðast aftur og aftur með Wow.
Ennþá er létt yfir áhöfn Wow þó að brandarar séu aflagðir. Ein athugasemd flugmannsins kitlaði hláturtaugar farþega á leið frá Amsterdam. Hún kom svo óvænt í lok þurrar upptalningarþulu. Þið kannist við talanda flugmanns í hátalarakerfi. Röddin er lágvær, blæbrigðalaus og mónótónísk: "Það er flugmaðurinn sem talar. Við fljúgum í 30 þúsund feta hæð... Innan skamms verður boðið upp á söluvarning. Upplýsingar um hann er að finna í bæklingi í sætisvasanum fyrir framan ykkur. Í boði eru heitir og kaldir réttir, drykkir og úrval af sælgæti. Mér finnst Nóa kropp best!"
![]() |
Verið er að skoða töskur mannsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 15.4.2016 kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2016 | 05:26
Heimsfrægur í útlöndum
Þetta er allt einn stór misskilningur. Samfélagsmiðlarnir loga. Í fljótu bragði virðist þetta vera flest á einn veg: Menn túlka atburði gærdagsins sem svo að forsætisráðherra þjóðarinnar, hinn rammíslenski og þjóðholli Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi lagt land undir fót og flúið með skottið á milli lappanna undan meinleysislegum spurningum forvitinna drengja. Einungis vegna þess að hann var kominn í einhverskonar ógöngur; rak í vörðurnar með taugarnar þandar og þurfti ferskt útiloft til að ná jafnvægi á ný.
Samkvæmt mínum heimildum er ástæðan önnur. Sveitastrákinn af eyðibýli á Norðurlandi langaði skyndilega í súkkulaðitertu. Þegar mallakúturinn kallar á djöflatertu þá þolir það enga bið. Þetta vita allir sem hafa ástríðu fyrir súkkulaðitertu. Við erum að tala um bráðatilfelli.
Bestu fréttirnar eru þær að núna er súkkulaðistrákurinn orðinn frægasti Íslendingurinn í útlöndum. Það er meira fjallað um hann í heimspressunni í dag en Björk. Miklu meiri. Hann er á forsíðu stórblaðanna í sex heimsálfum. Öllum nema Suðurskautslandinu.
http://panamapapers.sueddeutsche.de/articles/56fec0cda1bb8d3c3495adfc/
http://www.svtplay.se/video/7373606/agenda/agenda-3-apr-21-15
![]() |
Lögregla kölluð að heimili Sigmundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
3.4.2016 | 06:50
Páskar í Amsterdam
Ég fagnaði frjósemishátíð vorsins fyrir austan haf. Hún er kennd við vorgyðjuna Easter. Í þjóðsögum gyðinga er frjósemishátíðin kölluð páskar. Þá snæða þeir nýfætt páskalamb.
Leið mín lá til Amsterdam í Hollandi. Sennilega er áratugur eða svo frá síðustu dvöl minni þar. Margt hefur breyst. Til að mynda eru allar geisladiskabúðir horfnar nema tvær. Það er rýrt í borg sem telur hátt í milljón íbúa (og annað eins þegar allt stór-Amsterdamsvæðið er saman talið). Til viðbótar tekur Amsterdam árlega við mörgum milljónum ferðamanna.
Önnur geisladiskabúðin er hluti af stærri verslun, Media Markt. Henni má líkja við Elkó hvað vöruúrval varðar. Hin er stór og mikil plötubúð. Hún heitir Concerto. Þar er gríðarmikið og gott úrval af geisladiskum af öllu tagi. Heill salur lagður undir djass og klassík. Annar salur lagður undir þjóðlagatónlist og blús. Þriðji salurinn lagður undir vinylplötur. Þannig mætti áfram telja.
Í Concerto er einnig að finna fjölda tónlistarbóka og -tímarita. Þessi búð er gullnáma fyrir músíkdellufólk.
Þrátt fyrir fáar geisladiskabúðir í Amsterdam þá eru margar búðir sem selja aðeins vinylplötur. Ekkert annað. Kannski er það tímanna tákn.
Til samanburðar við Ísland er framboð á páskaeggjum í Amsterdam snautlegt. Aðeins ein stærð. Hún jafngildir stærð 3 eða svo. Svo er að vísu líka hægt að fá pínulítil páskaegg á stærð við brjóstsykursmola.
Meira fer fyrir súkkulaðikanínum. Þær fá betra hillupláss en eggin og eru glenntar framan í viðskiptavini matvöruverslana. Enda breytti vorgyðjan Easter á sínum tíma uppáhaldsfuglinum sínum í kanínu. Kanínan gladdi svo börn á öllum aldri með því að gefa þeim páskaegg.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2016 | 21:33
Ölgerð á dauðalista sýndi Færeyingum fádæma hroka
Það fer ekki öllum vel að fara með völd. Eitt ljótasta dæmi þess var framkoma forstjóra Ölgerðarinnar, Andra Þórs Guðmundssonar, í garð bestu og traustustu vina Íslendinga, Færeyinga. Fyrir nokkrum árum sendi hann færeyskum bjórframleiðanda, Föroya Bjór, fádæma hrokafullt bréf. Krafðist þess með ruddalegum hótunum að Föroya Bjór hætti að merkja gullbjór sinn sem gullbjór. Þetta ósvífna erindi var svo yfirgengilegt að það þjónaði engum tilgangi öðrum en kitla stórmennskubrjálæði/minnimáttarkennd forstjóra fyrirtækis á dauðalista. Hann fann þörf til að sparka í minnimáttar og réðst á garðinn þar sem hann var lægstur.
Viðbrögð Íslendinga við ógeðslegri og yfirgengilegri framkomu Ölgerðarinnar við færeyska vini voru til fyrirmyndar. Þeir skiptu snarlega innkaupum frá Gull-gutli Ölgerðarinnar yfir til bragðgóða Föroya Bjór Gullsins. Svo rækilega að síðarnefndi bjórinn flaug upp sölulista vínbúðanna. Áður fékkst hann aðeins í örfáum vínbúðum. Salan jókst um 1200%. Nú er hann í öllum vínbúðum. Eða svo gott sem. Enda mun betri en Ölgerðarsullið. Margir hættir að kaupa allar aðrar vörur Ölgerðarinnar.
Það fráleita í hrokafullu frekjukasti forstjóra Ölgerðarinnar var að Föroya Gull hefur verið miklu lengur á markaði en Ölgerðar-gutlið. Þar fyrir utan er Gull alþjóðleg lýsing á tilteknum bjórflokki. Alveg eins og pilsner eða stout bjór. Já, eða "diet" á öðrum vörum. Það var engin innistæða fyrir heimskulegri yfirgangskröfu Ölgerðarinnar. Hún gerði ekki annað en opinbera illt innræti og hroka forstjórans.
Höfum þetta í huga við helgarinnkaup á bjór og öðrum drykkjum. Ekki kaupa neitt frá Ölgerðinni. Kaupið þess í stað hágæða Föroya Gull.
Ég tek fram að ég tengist ekki Föroya bjór á neinn hátt. Hinsvegar er brýnt að halda þessu til haga þegar Ölgerðin fer á markað. Hugsanlegir væntanlegir kaupendur þurfa að vita þetta. Fyrirtækið er í vondri stöðu með forstjóra sem kann ekki mannasiði.
![]() |
Vissu af dauðalistanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 11.3.2016 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)