Færsluflokkur: Matur og drykkur
29.10.2023 | 14:13
Viðbjóðsmatur
Ég átti erindi í matvöruverslun. Fyrir framan mig í langri röð við afgreiðslukassann var hávaxinn grannur eldri maður. Hann hélt á litlu laxaflaki á frauðplastsbakka. Um hann var vafin glær plastfilma.
Maðurinn sló takt með bakkanum; bankaði honum í læri sér. Við ásláttinn losnaði um plastfilmuna. Að því kom að laxaflakið hrökk út úr bakkanum og veltist um skítugt gólfið og endaði með roðið upp. Úti var snjór og slabb. Fólk bar óhreinan snjó inn með sér. Á blautu gólfinu flaut blanda af ryki, sandi og mold.
Til að tapa ekki stöðu sinni í röðinni stóð gamlinginn áfram á sínum stað en teygði fót að flakinu. Honum tókst að krækja skítugu stígvéli fyrir flakið og draga eftir drullunni til sín. Hann reyndi að strjúka óhreinindin af því. Kjötið var laust í sér. Óhreinindin ýttust ofan í það.
Mér þótti þetta ólystugt og sagði: "Ég skal passa fyrir þig plássið í röðinni á meðan þú sækir annað flak."
Það hnussaði í honum: "Maður hefur látið annað eins ofan í sig án þess að verða meint af. Maginn á togarajaxlinum er eins og grjótmulningsvél. Tekur við öllu án þess að slá feilpúst!"
Maðurinn náði að troða laxinum á bakkann, leggja plastfilmuna yfir og sagði hróðugur: "Ég smjörsteiki kvikindið heima. Bakteríurnar þola ekki hita og drepast!"
1.10.2023 | 14:03
Frábært ráð gegn matasrsóun
Fátt er skemmtilegra en hlusta á útvarp. Enda er eins og útvarpið sé hannað til þess. Ef maður er iðinn við kolann; er duglegur við að hlusta á útvarp þá slæðist að hlustandanum margskonar fróðleikur. Stundum til gagns og gamans. Oft hvorutveggja.
Um helgina voru sagðar útvarpsfréttir af matarsóun. Talin voru upp fjölmörg ráð til að sporna gegn matarsóun. Til að mynda að fara í matvörubúð með innkaupalista og láta ekki glepjast af tilboðum; velja smærri pakkningar. Einnig að sulta mat, frysta hann og borða afganga. Helst að lifa bara á afgöngum - skildist mér.
Kröftugasta ráðið var: Að gera við gömul föt. Ég fatta ekki hvernig það spornar gegn matarsóun. Enda hef ég ekki lært matreiðslu.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.8.2023 | 12:36
Maður sem hatar landsbyggðina
Kunningi minn er um áttrætt. Hann hefur andúð á landsbyggðinni; öllu utan höfuðborgarsvæðisins. Hann er fæddur og uppalinn í miðbæ Reykjavíkur. Foreldrar hans ráku þar litla matvöruverslun. Það var hokur. Ungur byrjaði hann að hjálpa til. Honum þótti það skemmtilegt.
Fjölskyldan tók aldrei sumarfrí. Stráksi stækkaði og tók bílpróf þegar aldurinn leyfði. 1974 var hringvegurinn opnaður. Yfir því ríkti mikill ævintýraljómi. Þá keypti hann ódýran bíl og fékk samþykki foreldranna til að taka stutt frí og aka hringinn.
Hringvegurinn var einbreiður malarvegur, alsettur holum og "þvottabrettum". Ökuþórinn fékk hræðslukast af áhyggjum yfir heilsu bílsins. Auk þess fylltist óþéttur bíllinn af ryki. Ekki bætti úr skák að framboð á gistirými var lítið en rándýrt. Sama var með veitingasölu.
Okkar maður kom hvergi auga á hið rómaða landslag sem hann hafði heyrt af. Fjöll voru hvert öðru líkt og ekki samkeppnishæf við Esjuna. Út um allt mátti sjó óspennandi tún, beljur og annað.
Á leið frá Skagafirði til Akureyrar hvellsprakk dekk undir bílnum. Varadekk og önnur dekk voru í bágu ásigkomulagi. Þetta var um helgi. Ökuþórinn leitaði uppi eigendur dekkjaverkstæða. Enginn var til í að opna verkstæði fyrr en á mánudeginum. Hann sannfærðist um að óliðlegheitin væru vegna þess að hann var utanbæjarmaður.
Til að spara pening svaf hann í rykugum bílnum. Eftir að gert var við dekk hætti hann við við hringferð. Hann brunaði aftur til Reykjavíkur og sór þess eið að fara aldrei aftur út á land. Í kjölfar óx andúðin á "sveitavarginum". Hann liggur ekki á skoðun sinni um að landsbyggðin sé afæta á samfélaginu. Hann snöggreiðist undir fréttum af fyrirhugaðri gangagerð eða öðrum samgönguúrbótum.
Eitt sinn var Hagkaupum synjað um innflutning á hollenskum kartöflum. Kallinn hætti alfarið að borða kartöflur. Þannig mótmælti hann "ofríki bændamafíunnar". Síðan borðar hann bara hrísgrjón, spagettí eða brauð með mat.
Hann hætti líka að borða mjólkurvörur. Smyr sitt brauð með smjörlíki og setur útlent mjólkurduft út á kaffið.
Matur og drykkur | Breytt 14.8.2023 kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
28.5.2023 | 14:27
Rangur misskilningur
Til margra ára var sjoppulúgan á BSÍ umferðamiðstöðinni fastur áfangastaður á djamminu. Þegar skemmtistöðum var lokað á nóttunni var notalegt að renna upp að lúgunni og fá sér kjamma með rófustöppu undir svefninn. Á skemmtistöðunum neytti fólk ekki fastrar fæðu en þeim mun meira af fljótandi vökvum. Oft áfengum.
Á daginn var veitingastaður inni í umferðamiðstöðinni. Þar var boðið upp á gamaldags heimilismat á ágætu verði. Líka hamborgara.
Eitt sinn var ég staddur á veitingastaðnum. Þangað inn kom par, á að giska 17-18 ára. Parið fór skoðunarferð um staðinn. Svo spurði stelpan: "Eigum við að fá okkur hamborgara?" Strákurinn svaraði: "Við skulum frekar fá okkur hamborgara í bílalúgunni."
"Viltu frekar borða út í bíl?" spurði hún undrandi.
"Borgararnir eru miklu betri í lúgunni," fullyrti kauði.
Stelpan bendi honum á að þetta væru sömu borgararnir. Strákur þrætti. Hélt því fram að lúgan væri á allt öðrum stað í húsinu. Hann gekk út af staðnum en ekki stelpan. Eftir nokkra stund kom hann aftur inn og spurði afgreiðslumanninn: "Það eru ekki sömu hamborgarar seldir hér og í lúgunni, er það?"
Afgreiðslumaðurinn útskýrði: "Þetta er sama eldhúsið og sömu hamborgarar."
Pilturinn horfði undrandi og afsakandi á stelpuna og tautaði: "Skrýtið. Mér hefur alltaf þótt borgararnir í lúgunni miklu meira djúsí."
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.5.2023 | 14:07
Dvergur étinn í ógáti
Þetta gerðist í Norður-Taílandi. Dvergur var með skemmtiatriði í sirkuss. Hann sýndi magnaðar listir sínar á trampólíni. Eitt sinn lenti hann skakkt á trampólíninu úr mikilli hæð. Hann þeyttist langt út í vatn. Næsta atriði á dagskrá var að flóðhestur í vatninu átti að kokgleypa melónu sem var kastað til hans úr töluverðri fjarlægð. Við skvampið frá dvergnum ruglaðist flóðhesturinn í ríminu. Hann gleypti dverginn undir dynjandi lófaklappi 2000 áhorfenda. Þeir héldu að þetta væri hápunktur skemmtunarinnar.
23.4.2023 | 13:18
Smásaga um trekant sem endaði með ósköpum
Jonni átti sér draum. Hann var um trekant með tveimur konum. Þegar hann fékk sér í glas impraði hann á draumnum við konu sína. Hún tók því illa.
Árin liðu. Kunninginn færði þetta æ sjaldnar í tal. Börnin uxu úr grasi og fluttu að heiman. Hjónin minnkuðu við sig. Keyptu snotra íbúð í tvíbýlishúsi. Í hinni íbúðinni bjuggu hjón á svipuðum aldri. Góður vinskapur tókst með þeim. Samgangur varð mikill. Hópurinn eldaði saman um helgar, horfði saman á sjónvarp, fór saman í leikhús, á dansleiki og til Tenerife.
Einn daginn veiktist hinn maðurinn. Hann lagðist inn á sjúkrahús. Á laugardagskvöldi grillaði Jonni fyrir þau sem heima sátu. Grillmatnum var skolað niður með rauðvíni. Eftir matinn var skipt yfir í sterkara áfengi. Er leið á kvöldið urðu tök á drykkjunni losaralegri. Fólkið varð blindfullt.
Þegar svefndrungi færðist yfir bankaði gamli draumurinn upp hjá Jonna. Leikar fóru þannig að draumurinn rættist loks. Morguninn eftir vaknaði kappinn illa timbraður. Konurnar var hvergi að sjá. Sunnudagurinn leið án þess að málið skýrðist. Á mánudeginum hringdi frúin loks í mann sinn. Tjáði honum að þær vinkonurnar hefðu uppgötvað nýja hlið á sér. Þær ætluðu að taka saman. Sem þær gerðu. Eftir situr aleinn og niðurbrotinn maður. Hann bölvar því að draumurinn hafi ræst.
Matur og drykkur | Breytt 24.4.2023 kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
2.4.2023 | 13:14
Smásaga um flugferð
Haukur var háaldraður þegar hann flaug í fyrsta skipti með flugvél. Tilhugsunin olli honum kvíða og áhyggjum. Hann áttaði sig á að þetta var flughræðsla á háu stigi. Til að slá á kvíðakastið leitaði hann sér upplýsinga um helstu ástæður fyrir flugslysum. Það gerði illt verra. Jók aðeins kvíðakastið.
Áður en Haukur skjögraði um borð deyfði hann sig með koníaki sem hann þambaði af stút. Það kom niður á veiklulegu göngulagi fúinna fóta. Hann fékk aðstoð við að staulast upp landganginn. Allt gekk vel.
Nokkru eftir flugtak tók hann af sér öryggisbeltið og stóð upp. Hann mjakaði sér hálfhrasandi að útihurð vélarinnar. Í sama mund og hann greip um handfangið stökk flugfreyja fram fyrir hann og kallaði höstuglega: "Hvað heldurðu að þú sért að gera?"
"Ég þarf að skreppa á klósett," útskýrði hann.
"Ef þú opnar dyrnar hrapar flugvélin og ferst!" gargaði flugfreyjan æstum rómi.
Kalli var illa brugðið. Hann snérist eldsnöggt á hæl og stikaði óvenju styrkum fótum inn eftir flugvélinni. Um leið hrópaði hann upp yfir sig í geðshræringu: "Hvur þremillinn! Ég verð að skorða mig aftast í vélinni. Þar er öruggast þegar vélin hrapar!"
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.3.2023 | 12:33
Metnaðarfullar verðhækkanir
Um þessar mundir geisar kapphlaup í verðhækkunum. Daglega verðum við vör við ný og hærri verð. Ríkið fer á undan með góðu fordæmi og hærri álögum. Landinn fjölmennir til Tenerife Allt leggst á eitt og verðbólgan er komin í 2ja stafa tölu. Hún étur upp kjarabætur jafnóðum og þær taka gildi. Laun hálaunaðra hækka á hraða ljóssins. Arðgreiðslur sömuleiðis. Einkum hjá fyrirtækjum sem nutu rausnarlegra styrkja úr ríkissjóði í kjölfar Covid.
Túristar og íslenskur almúgi standa í röðum fyrir framan Bæjarins bestu. Þar borga þeir 650 kall fyrir pulluna. Það er metnaðarfyllra en borga 495 kall fyrir hana í bensínsjoppum.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.11.2022 | 20:51
Snúður og kjulli
Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar. Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni. Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr. Mamma mótmælti. Eða svona. Það var kurr í henni. Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð. Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti; tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur. Ég bakkaði ekki. Sagði að snúður væri mitt uppáhald. Mig langaði ekki í neitt annað.
Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali. Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi. Ég gerði þeim góð skil og var alsæll. Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir. Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.
Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu. Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum. Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat. "Hvar?" spurði ég, Svarið: "KFC".
Matur og drykkur | Breytt 6.11.2022 kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.10.2022 | 09:29
Stysta heimsreisa sögunnar
Miðaldra maður í Ammanford á Englandi átti sér draum um að fara í heimsreisu. Í mörg ár undirbjó hann ferðalagið af kostgæfni. Sparaði hvern aur og kom sér upp þokkalegum fjársjóði. Er nær dró farardegi seldi hann hús sitt, allt innbú og fleira og sagði upp í vinnunni. Hann undirbjó nákvæma ferðaáætlun. Endastöðin átt að vera New York. Þar ætlaði hann að setjast á helgan stein í kjölfar 32.000 kílómetra vel skipulagðrar heimsreisu.
Síðustu daga fyrir brottför varði hann í að kveðja sína nánustu og vini. Á lokakvöldinu sló hann upp kveðjuhófi. Hann datt rækilega í það. Skálaði ítrekað við gesti og gangandi. Hver á fætur öðrum bað um orðið, flutti honum mergjaðar kveðjuræður og óskuðu góðrar ferðar. Sjálfur steig hann ítrekað í pontu og kastaði kveðju á viðstadda. Samkoman stóð fram á nótt og menn voru farnir að bresta í söng.
Morguninn eftir lagði hann af stað í nýjum húsbíl. Tveimur mínútum síðar - eftir að hafa ekið 1 og hálfan km - stöðvaði lögreglan hann. Áfengi í blóði var þrefalt yfir leyfilegum mörkum. Húsbíllinn var kyrrsettur. Ferðalangurinn var sviptur ökuleyfi til hálfs þriðja árs.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)