Færsluflokkur: Matur og drykkur
22.11.2012 | 22:15
Yfirgengileg drykkjuvandamál gamla fólksins
Ég hef lengi reynt að benda á og vara við yfirgengilegu og brjálæðislegu ofdrykkjuvandamáli aldraðra Íslendinga. En talað fyrir daufum eyrum. Og jafnvel augum. Staðreyndin er sú að það má ekki af þessu fólki líta né sleppa af því hendi; þá er það á augabragði búið að drekka frá sér ráð og rænu. Með tilheyrandi látum. Þeim mun eldra sem fólkið er því skæðara er það í drykkjulátunum. Og reyndar allskonar óhollustu og uppátækjum.
Verstir eru gamlingjarnir þegar þeir komast út fyrir landsteinana. Þá losnar um allar hömlur. Þeir haga sér eins og beljur sem er hleypt út að vori: Sletta ærlega úr klaufunum.
Mér er minnistæður einn sem fór til Kanarí. Hann drakk sig blindfullan hvern dag. Það fyrsta sem hann gerði er hann vaknaði á morgnana var að spyrja ferðafélagana hvort hann hafi skemmt sér vel daginn áður. Hann hafði ekki hugmynd um það sjálfur en varð þeim mun glaðari sem sögurnar af drykkjulátunum voru meira krassandi. Hann hvatti ferðafélagana til að ljósmynda uppátækin. Hann langaði til að sjá myndir af sér ælandi eða hálf rænulausum. Þetta var fyrir daga digitalmyndavéla. Kappinn var reyndar ekki kominn á aldur. En byrjaður að æfa sig fyrir elliárin.
Algengt er að gamla fólkið komi tannlaust heim úr drykkjutúrum í útlöndum. Gómarnir renna út úr því í ölvunarsvefni út um allt tún. Eftir hverja hópdrykkjuferð aldraðra Íslendinga til útlanda er nágrenni hótelsins útbíað í tanngómum í reiðuleysi.
Margir stela reiðhjóli. En komast sjaldnast á því lengra en út í næstu laut. Þar sofna þeir ölvunarsvefni.
Það þarf ekki hjólreiðatúr til. Sumir fá sér kríu hvar sem er á milli þess sem þeir rangla blindfullir og stefnulaust um nágrenni hótelsins.
Þegar gamlingjarnir eru í glasi verða þeir ruddalegir og ógnandi í framkomu. Þá forðar yngra fólk sér á hlaupum undan þeim.
Djöfladaður einkennir fulla gamlingja. Þeir reyna stöðugt að koma djöflahornum á ferðafélagana, Satani til dýrðar.
Gamla fólkið skerpir á vímunni með aðstoð sjónauka. Þá verður það glaseygt og þykir það gaman.
Um og upp úr 100 ára aldri má fulla fólkið ekki sjá logandi ljós öðru vísi en kveikja sér umsvifalaust í hassvindli eða hvaða vindli sem er.
Á drykkjuferðalögum í útlöndum rambar margur gamlinginn inn á húðflúrstofur. Kann sér ekki hóf á neinu sviði. Verður sér og sínum til skammar þegar heim er komið. Það er tilhlökkun að vera að detta í þennan aldurshóp. Alltaf fjör. Og nú er byrjað að selja áfengi á elliheimilunum hérlendis. Síðan gengur mikið á þar á bæ.
![]() |
Drukku frá sér ráð og rænu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 24.11.2012 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
19.11.2012 | 22:43
Getur komið sér vel að vita
Margir Íslendingar senda ættingjum sínum og vinum, búsettum erlendis, harðfisk, hangikjöt, kæsta skötu, kæstan hákarl og súrsaða hrútspunga. Aðallega ber á þessu um eða fyrir sólrisuhátíðina, jólin, ár hvert. En líka á Þorra. Vandamálið er að embættismenn á tollpóstsstofu í viðtökulandinu kunna þessu misjafnlega vel eða illa. Þeir telja sig þurfa að vernda þjóð sína gegn þessum hugsanlega stórhættulegu matvælum. Þeir þefa af matnum. Lyktin staðfestir ranglega gruninn um skemmdan og skaðlegan mat. Þá er ekki um annað að ræða en farga óþverranum samkvæmt kúnstarinnar reglum undir eftirliti.
Viðtakandi jólapakkans fær svo loks í hendur heldur rýran kost. Stundum með athugasemdum um að pósthúsið lykti ennþá til mikilla óþæginda fyrir starfsfólk.
Það er til einfalt ráð til að koma hátíðargóðgætinu á áfangastað. Það þarf einungis að merkja matvælin rækilega - og fylgiskjöl með pakkanum - sem kattafóður. Reglur um dýrafóður eru mun rýmri en reglur um matvæli til manneldis.
Þetta skal einnig hafa í huga þegar íslenskur ferðamaður tekur áðurnefnd matvæli með sér í ferðatösku til útlanda.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.11.2012 | 17:19
Íslenskur heilsudrykkur er besti jólabjór í heimi!
Sænska netsíðan Allt om mat er virt og vinsæl. Ekki bara í Svíþjóð heldur víða um heim. Aðallega á Norðurlöndunum. Enda geta allir norðurlandabúar lesið sænsku. Nema Íslendingar (aðrir en þeir sem hafa búið þar).
Það er mark tekið á öllu sem stendur í Allt om mat. Þar á bæ vita menn hvað þeir eru að segja. Þeir segja ekkert nema að vel skoðuðu máli og helst með vandvirknislegum og ítarlegum samanburði.
Nú hefur Allt om mat gert rækilega úttekt á helstu jólabjórum sem í boði eru 2012. Þar trónir á toppnum íslenskur heilsudrykkur, Jólabjór frá Ölvisholti Brugghúsi. Hann fær eftirfarandi umsögn:
Bör ej missas!
Jolabjor, Ölvisholt Brygghus, Island, 6,5 %, 33 cl, 29 kronor
Brun med orange stick. Sötma med tjärtamp. Godisfruktig sötma med tydlig tjärton. Lite lakrits, lite rök, bra. 4 -.
Ég kann ekki sænsku en hef grun um að textinn segi eitthvað á þessa leið:
"Má ekki missa af!
Jólabjór, Ölvisholt Brugghús, Íslandi, 6,5% (styrkleiki), 33 cl, 554 íslenskar krónur. Brúnleitur með appelsínugulum miða. Sætleiki með tjörukeim. Ávaxtasætleiki með skörpum tjörutóni. Smá lakkrís, smá reykur, í góðu lagi. 4-."
Gott væri að fá leiðréttingar á þessa þýðingu. Ég er viss um að hún er tóm vitleysa.
Næstir eru nefndir til sögunnar eftirtaldir bjórar. Þeir fá einkunnina 4 (sem jafngildir 4 stjörnum af 4):
Mysingen Midvinterbrygd, Nynäshamns Ångbryggeri, 6 %, 50 cl, 31,40 kronor
Corsendonk Christmas Ale, Brouwereij Corsendonk, Belgien, 8,1 %, 25 cl, 20,90 kronor
Sigtuna Midvinterblot, Sigtuna Brygghus, 8 %, 33 cl, 22,90 kronor
Anchor Christmas Ale, Anchor Brewing, USA, 5,5 %, 35,5 cl, 25,60 kronor
Midtfyns Jule Stout, Midtfyns Bryghus, 7,6 %, 50 cl, 39,90 kronor
NIce Chouffe, Brasserie dAchouffe, Belgien, 10 %, 75 cl, 56,90 kronor
Liefmans Glühkriek, Duvel Mortgaat, Belgien, 6 %, 75 cl, 57 kronor
Widmer Brothers Brrr Seasonal Ale, Widmer Brothers Brewing, USA, 7,2 %, 35,5 cl, 25,90 kronor
Fullers Old Winter Ale, Fuller, Smith & Turner, Storbritannien, 5,3 %, 50 cl, 22,90 kronor
Síðan eru nefndir bjórar sem teljast vera í meðallagi góðir (þeir fyrst töldu með einkunn 3 - 4. Þeir neðstu með einkunn 2 - 3):
Jämtlands Julöl, Jämtlands bryggeri, 6,5 %, 50 cl, 25,90 kronor
Flying Dog K-9 Cruiser Winter Ale, Flying Dog Brewery, USA, 7,4 %, 35,5 cl, 26,90 kronor
Oppigårds Winter Ale, Oppigårds bryggeri, 5,3 %, 50 cl, 26,50 kronor
Nils Oscar Kalasjulöl, Nils Oscar, 5,2 %, 33 cl, 19,50 kronor
Dugges Easy Christmas, Dugges, 4,2 %, 33 cl, 18,10 kronor
St Eriks Julporter, St Eriks Bryggeri, 5,9 %, 33 cl, 21,90 kronor
Shepherd Neame Christmas Ale, Shepherd Neame, Storbritannien, 7 %, 50 cl, 28,90 kronor
St Peters Winter Ale, St Peters Brewery, Storbritannien, 6,5 %, 50 cl, 26,90 kronor
Ayinger Winter Bock, Brauerei Aying, Tyskland, 6,7 %, 50 cl, 29,90 kronor
Mohawk Blizzard Imperial Porter, Dr Proef Brouwereij, 9,7 %, 33 cl, 29,70 kronor
Sleepy Bulldog Winter Ale, Gotlands bryggeri, 6,2 %, 33 cl, 18,80 kronor
Mohawk Whiteout Stout, Gamla Slottskällans Bryggeri, 9,7 %, 50 cl, 34,90 kronor
Jacobsen Golden Naked Christmas Ale, Carlsberg Danmark, 7,5 %, 75 cl, 55 kronor
Wisby Julbrygd, Gotlands Bryggeri, 6 %, 33 cl,18,90 kronor
Åbro Sigill Julöl, Åbro bryggeri, 6 %, 50 cl, 18 kronor
Falcon Tipp Tapp, Carlsberg Sverige, 4,5 %, 33 cl, 12,90 kronor
Spendrups Julbrygd, Spendrups Bryggeri, 50 cl, 14,90 kronor
Pistonhead Christmas Carol, Brutal Brewing/Spendrups, 5,6 %, 50 cl, 15,90 kronor
Åbro Julöl, Åbro bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 15 kronor
Mariestads Julbrygd, Spendrups, 5,8 %, 50 cl, 16,90 kronor
Nisse Julöl, Gamla Slottskällans bryggeri, 5,3 %, 50 cl, 27,90 kronor
Hibernation Ale, Great Divide Brewing, USA, 8,7 %, 35,5 cl, 29,90 kronor
Samuel Adams Winter Lager, Boston Beer, 5,5 %, 35,5 cl, 17,50 kronor
Þessa jólabjóra má sniðganga. Það er lítið varið í þá. Einkunn 1 - 2:
Sofiero Julöl, Kopparbergs bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 12,90 kronor
Pripps Blå Jul, Carlsberg Sverige, 5 %, 50 cl, 14,90 kronor
Three Hearts Julöl, Krönleins, 5,3 %, 50 cl, 15 kronor
Störtebeker Weinachts-bier, Störtebeker Braumanufaktur, Tyskland, 6,5 %, 50 cl, 21,90 kronor
Grebbestad Julöl, Grebbestad bryggeri, 5,2 %, 50 cl, 20,50 kronor
Falcon Julmumma, Carlsberg Sverige, 5,2 %, 50 cl, 16,90 kronor
Falcon Julöl, Carlsberg Sverige, 5,2 %, 50 cl, 15,90 kronor
Celt Nadolig Rare, The Celt Experience Brewery, Storbritannien, 5 %, 50 cl, 23,70 kronor
Eriksberg Julöl, Carlsberg Sverige, 5,6 %, 50 cl, 16, 40 kronor
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.11.2012 | 22:57
Íslendingar sýna framfarir
Íslendingar eru allir að koma til, hægt og bítandi, á mörgum sviðum. Við erum farnir að taka tillit til annarra í vaxandi mæli - með grófum undantekningum, eins og gengur.
Fyrir 20 - 30 árum kunnum við ekki að aka á götum þar sem tvær eða fleiri akreinar liggja í sömu átt. Það tók okkur, almennt, mörg mörg ár að átta okkur á því að þeir sem kjósa að keyra hægt eigi að halda sig á akrein lengst til hægri. Hinir, sem kjósa meiri hraða en aðrir, halda sig á á akrein lengst til vinstri.
Ennþá er algengt að sjá einstaka ökumann dóla sér löturhægt á vinstri akrein. En þeim fækkar.
Íslendingum gengur hinsvegar illa að heimfæra þessa reglu yfir á rúllustiga og aðra stiga. Við tökum eftir því erlendis að þeir sem eru ekkert að flýta sér standa lengst til hægri í stiganum. Hinir, þessir sem eru að flýta sér, hraða sér eftir vinstri hluta stigans.
Þegar ekið er um borgina kemur fyrir að gangandi vegfarendur standa við gangbraut og bíða eftir að komast yfir. Því fer fjarri að allir ökumenn stöðvi og hleypi viðkomandi yfir götuna. Ég hef vanið mig á að sýna lipurð hvað þetta varðar. Það einkennilega er að börn sýna þakklæti með því að veifa. Fullorðnir gera það aftur á móti fæstir.
Í fyrravor varð starfsfólk í stórmörkuðum vart við að Íslendingar fóru að apa eftir útlendingum: Að setja á færibandið statíf sem aðgreinir innkaup viðskiptavinanna. Áður þurfti afgreiðslufólkið að greina innkaupahrúgur viðskipta vina að með þessu statífi. En nú hafa íslenskir viðskiptavinir lært að gera þetta sjálfir. Það er eiginlega að verða algilt. Fyrir bragðið er hægt að raða þéttar á færibandið (kúnninn losnar þá við að halda á innkaupadóti sínu þangað til færibandið er orðið autt).
Næst þurfa Íslendingar að læra á stefnuljós og hætta að leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Það verður erfitt.
![]() |
Virðingarleysið er algjört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 10.11.2012 kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.11.2012 | 00:01
Íslenskur veitingastaður seldi 1944 rétti sem máltíð
Fyrir fimmtán árum eða svo dvaldi ég á hóteli úti á landi yfir helgi. Mætti þar á föstudegi og var til mánudags. Ég keypti hádegisverð og kvöldverð þessa daga, ásamt því að vera í morgunmat, síðdegiskaffi og bjór á kvöldin. Á sama hóteli dvöldu einnig nokkrir aðkomnir iðnaðarmenn sem voru í tímabundnu verkefni á staðnum.
Fljótlega varð ég var við að skömmu eftir að menn pöntuðu máltíð þá heyrðist frá eldhúsinu örbylgjuofn vera settur í gang. Á þessum tíma átti ég tvo unga syni í Reykjavík. Í ísskáp heimilisins í Reykjavík voru jafnan til staðar einhverjir tilbúnir réttir undir nafninu 1944, auglýstir sem þjóðlegir íslenskir réttir fyrir sjálfstæða Íslendinga. Þetta voru ítalskur Carbonara pasta-réttur, indverskur karrýréttur, tyrkneskur korma kjúklingaréttur, asískur mango kjúklingaréttur, ítalskur lasagna réttur, ungversk gúllassúpa, kínverskur súrsætur réttur, indverskur tikka masala kjúklingaréttur, rússneskur stroganoff réttur, ítalskur Bolonese spaghettí réttur og eitthvað svoleiðis. Það var þægilegt fyrir syni mína að geta gengið að þessum þjóðlegu íslensku réttum þegar strákarnir urðu svangir og foreldrarnir fjarverandi.
Ég var vel að mér um þjóðlegu íslensku 1944 réttina á þessum tíma. Eftir að hafa keypt nokkrar ágætar máltíðir á hótelinu þóttist ég merkja að þær væru nánast alveg eins og 1944 réttirnir. Reyndar að viðbættri slettu af hrásalati, niðurskornum gúrku- og tómatsneiðum. Matseðillinn var eins og upptalning á þjólegu íslensku 1944 réttum fyrir sjálfstæða Íslendinga.
Áður en dvöl minni á hótelinu lauk spurði ég hóteleigandann hvort grunur minn væri réttur: Að máltíðirnar væru að uppistöðu til 1944 skyndiréttir. Eigandanum brá til að byrja með en viðurkenndi að svo væri. Bað mig jafnframt um að hafa hljótt um það. Útskýrði síðan fyrir mér að yfir vetrartíma væri erfitt að liggja með annað hráefni en þessa 1944 rétti. Á þessum tíma fékk hótelið réttina frá SS á um það bil 200 krónur í heildsölu. Máltíðin með gúrkum, tómatsneiðum og hrásalati var seld á 960 kall eða því sem næst (sumir réttir á 920 krónur. Aðrir á 980 krónur).
Tekið skal fram að nokkru síðar var þessi aðferð lögð af á þessu hóteli. Eftir það hefur þar boðið upp á (dýrari) úrvals góðar máltíðir lagaðar á staðnum.
![]() |
70% franskra veitingahúsa ber fram tilbúna rétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.10.2012 | 21:17
Þannig getur þú varist þjófnaði - ódýrt og pottþétt!
Allir hafa lent í vandræðum með nestið sitt. Maður er búinn að vakna fyrir allar aldir til að smyrja sér samloku með (niðursneiddum) agúrkum, osti, eggjum, pepperoni, þurrkuðum tómötum, sinnepi og einhverju smálegu öðru; svo er samlokunni komið snyrtilega fyrir í nestisboxinu. Þar gegnir hún því hlutverki að bíða þolinmóð þangað til garnirnar byrja að gaula. Þá er fátt betra en rífa nestisboxið upp og gæða sér á góðgætinu.
Gallinn er sá að vinnufélagarnir eru iðulega búnir að stela samlokunni og snæða hana þegar hér er komið sögu. Við þessu er til krókur á móti bragði. Hann er sá að mála með svart-grænum tússpenna nokkra bletti á plastpokann utan um samlokuna. Þjófurinn hrekkur í kút þegar hann kemur auga á blettina. Hann heldur að þetta séu myglublettir á brauðinu.
Ávinningurinn er tvíþættur: Annars vegar forðar þetta samlokunni frá því að vera étin af óvönduðum. Hins vegar er þjófnum svo brugðið og miður sín að hann þekkist af kafrjóðu andliti, hryllingssvip og taugaveiklaðri framkomu. Það er líklegt að hann byrji að naga á sér neglurnar. Það er óhollt. Líkaminn losar sig nefnilega við kvikasilfur og allskonar óþverra í gegnum neglurnar. Sá sem nagar þær fær þetta óþvegið upp í sig.
Einelti er vont og ber að fordæma. Einn skólabróðir minn tók aldrei með sér nesti í skólann. Þess í stað réðist hann daglega á skólasystkini og náði af þeim nestinu. Nokkra daga í röð náði hann nesti af strák sem kom alltaf með rúgbrauðssamloku með kæfu. Svo fór að einn daginn er sá nestislausi hafði enn einu sinni náð samlokunni eftir töluverð áflog að hann andvarpaði og spurði frekjulega: "Getur þú ekki beðið mömmu þína um að skipta um álegg? Ég er kominn með hundleiða á þessari helvítis kæfu."
Matur og drykkur | Breytt 23.10.2012 kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.10.2012 | 01:00
Einn góður um Pekka og Ekka
Þennan brandara um finnsku félagana Ekka og Pekka sá ég á fésbókinni. Ég hljó svo dátt við lestur hans að ég verð að leyfa honum að kitla hláturtaugar ykkar líka:
Ekka og Pekka voru úti á vatninu í tuttugu stiga frosti. Ekka spyr: "Hvers vegna ertu ekki með loðhúfuna þína?"
Pekka svarar: "Hefurðu ekki heyrt um stórslysið á Heiðarvatni í fyrravetur?"
- Nei, hvað gerðist?
- Við vorum þarna tveir vinir, Sænski Björn og ég. Báðir með loðhúfurnar.
- Og hvað?
- Sænski Björn bauð upp á snafs og ég heyrði það ekki.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2012 | 20:57
Færeyskt góðgæti
Núna eru færeyskir dagar í Smurbrauðsstofu Sylvíu á Laugavegi 170 (við gatnamótin fyrir ofan Nóatún í Nóatúni). Þeir vara til klukkan sex á morgun (laugardag). Þar er boðið upp á ræstkjötssúpu (rast kjöt). Einnig bakka með fjórum girnilegum smurbrauðssneiðum. Á einni er skerpukjöt (skerpikjöt). Á annarri er færeysk rúllupylsa. Á þeirri þriðju eru niðursneiddir knettir. Á þeirri fjórðu eru niðursneiddar fríkadellur.
Ræst kjöt og skerpukjöt eru hvorutveggja þurrkað lambakjöt. Ræstkjötið er hryggur og frampartur og hangir skemur uppi. Það er á stigi svipuðu því sem við köllum siginn fisk. Skerpukjötið er læri og hangir lengur uppi en er ekki jafn þurrt og harðfiskur. Það bragðast eitthvað í humátt að parmaskinku. Bæði skerpukjötið og ræstkjötið eru bragðsterk og gefa endingargott eftirbragð.
Það er algengt að Íslendingum þyki þetta ekki góður matur þegar það er smakkað í fyrsta skipti. Eftir að hafa smakkað það oftar vex sterk löngun í að komast sem allra fyrst í svona sælgæti oftar. Þetta er svipað og löngunin í kæstan hákarl, kæsta skötu og hangikjöt. Eitthvað sem maður verður að fá sér í það minnsta árlega. Helst miklu oftar.
Ræstkjötssúpunni svipar mjög til íslensku kjötsúpunnar. Þetta er matmikil grænmetissúpa með rófum, gulrótum, lauk, hrísgrjónum og þess háttar. Hlutfall ræstkjötsins er heldur minna en kjötið í íslensku kjötsúpunni. Enda gefur ræstkjötið mun skarpara bragð. Í Færeyjum er algengt að ræstkjötið sé fjarlægt úr súpunni og borðað sér með soðnum kartöflum. Í Smurbrauðsstofu Sylvíu er kjötið í súpunni. 600 krónur fyrir súpuna á Smurbrauðsstofu Sylvíu er gott verð og auðveldar óvönum að smakka. Innifalið í verðinu er ábót ef einhver er rosalega svangur. Ég hef aldrei þurft á því að halda. Súpan er saðsöm og ein besta ræstkjötssúpa sem ég hef fengið. Alveg eðal. 5 stjörnu súpa.
Smurðu heimilisbrauði er ekki ætlað að vera eiginlegur veislumatur sem keppir við alvöru "danskt smurbrauð". Brauðbakkinn gefur góða hugmynd um hefðbundið smurt brauð á færeyskum heimilum. Þó er skerpukjöt meira til spari í Færeyjum en snætt hvunndags.
Færeyska rúllupylsan er keimlík þeirri íslensku. Sú færeyska er mildari og hlutfall kjöts meira á móti fitu. Það er töluvert af lauk í henni og smávegis af púðursykri.
Knettir eru soðnar fiskbollur. Uppistöðu hráefnið í knöttum er þorskur og kindamör. Saman við það er blandað lauki, salti og pipar. Sumir hafa örlítið af sykri með. Færeysku knettirnir eru blessunarlega lausir við hveitibragð íslensku fiskbollanna. Fyrir bragðið (í bókstaflegri merkingu) eru knettirnir eins og ferskari. Að öðru leyti er bragðið líkt.
Fríkadellur eru steiktar fiskbollur. Að öðru leyti eru þær alveg eins og knettir.
Þannig er frá brauðbökkunum í Smurbrauðsstofu Sylvíu gengið að hægt er að grípa þá með sér heim. Það er upplagt að gera. Meðal annars til að gefa öðrum að smakka með sér. Og þess vegna að grípa með sér nokkra bakka til að eiga daginn eftir. Jafnvel marga bakka til að eiga í marga daga. Bakkinn kostar aðeins 1100 kall.
Það er bráðskemmtilegt og bragðgott ævintýri að gera sér og sínum dagamun með því að smakka þessar færeysku kræsingar.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.9.2012 | 21:56
Veitingahússumsögn
- Réttur: Sænskt hlaðborð
- Veitingastaður: Fljótt & Gott, BSÍ
- Verð: 1995 kr.
- Einkunn: ***1/2 (af 5)
Þegar tal berst að sænskum mat koma sænskar kjötbollur upp í hugann. Þær eru ekki veislumatur en ágætar hvunndags. Það á við um fleira á sænska hlaðborðinu á Fljótt & Gott á BSÍ. Þar má finna steiktar smápylsur (korv), niðurskornar pylsur í brúnsósu, beikon, hakkbuff með lauki og þess háttar. Sumt er meira framandi, svo sem innbakaður lax. Hann er ekki það besta á hlaðborðinu.
Þetta og ýmislegt fleira eru aðalréttir. Forréttirnir eru meira veisluborð. Þar má upp telja síldarrétti, lifrakæfu, roastbeef, skinku og svo framvegis. Þeir eru á veislulegum bökkum ásamt grænmeti, ávöxtum og einhverju svoleiðis. Meðlæti með forréttum og aðalréttum er fjölbreytt. Til að mynda bragðgott kartöflugratín og steiktir kartöfluplattar sem kallast raggmunk. Þeir eru steiktir upp úr eggjahræru og snæddir með títuberjasósu. Algjört nammi sem smellpassar með beikoni.
Í eftirrétt er einhverskonar kókoskaka. Ég smakkaði hana ekki en borðfélagar mínir gáfu henni hæstu einkunn.
Þeir, eins og ég, voru ánægðir með sænska hlaðborðið. Það er gaman að smakka sitt lítið af hverju í fyrstu umferð og fá sér síðan meira af því sem best bragðast. Verðið er fínt. Það er vel að þessu staðið. Réttirnir eru merktir bæði með sænskum heitum og íslenskum. Það er til fyrirmyndar. Ég var á báðum áttum með það hvort sanngjarnt væri að gefa hlaðborðinu 4 stjörnur eða 3 og hálfa. Nákvæmasta einkunn er 7,5 (af 10).
Ég mæli með sænska hlaðborðinu á BSÍ. Allir finna sitthvað fyrir sína bragðlauka.
Sænska hlaðborðið er í boði til og með 2. október. Ég á eftir að heimsækja það oftar. Mun oftar. Ég hef þegar sótt það tvívegis. Það segir sína sögu. Ég fagna þessu uppátæki hjá Fljótt & Gott: Að bjóða okkur upp á spennandi sænskt hlaðborð á góðu verði og standa glæsilega að því.
Það myndi skerpa á stemmningunni að spila músík sungna á sænsku. Íslendingar þekkja og kunna vel við svoleiðis músík, allt frá söngvunum um Emil í Kattholti og Línu Langsokk til Sven Ingvars og Black Ingvar. Ég er mest fyrir Entombed - þó að þeir laumist stundum til að syngja á ensku.
Matur og drykkur | Breytt 22.9.2012 kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.9.2012 | 17:42
Ódýr og hraðvirk detox aðferð
Detox nýtur gríðarlega mikilla vinsælda hérlendis og í Póllandi. Detox nær yfir sérstakt mataræði og fleiri aðferðir til að hreinsa líkamann að innan. Hápunkturinn er svokölluð stólpípa. Það er eitthvað klósetttæki sem tekur til í skottinu á fólki. Sumir verða háðir stólpípunni. Verða stólpípufíklar og fara aftur og aftur í detox.
Það er dýrt og umdeilt. Í Asíu er hægt að komast í hræódýra detox meðferð. Þar er fíll staðgengill stólpípunnar. Það þarf ekkert að leggjast inn á stofu eða neitt. Fólk leggst bara á teppi á jörðinni og fílarnir afgreiða dæmið úti í guðs grænni náttúrunni. Til öryggis þarf hraustan mann og annan fíl til að vera viðbúnir að halda viðskiptavininum í skefjum ef fíllinn hnerrar.
![]() |
Samkvæmt BMI-stuðlinum er ég offitusjúklingur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)