Klúður í kosningabaráttu

gingrich_og_the_heavy.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Í útlöndum - ekki öllum,  en sumum - er til siðs aðstjórnmálamenn velji sér einkennislag í kosningabaráttu.  Iðulega er þetta þekkt og grípandi lag.  Nafn lagsins og texti í viðlagi er jafnan eitthvað sem innifelur æskileg skilaboð.  Einkennislagið er spilað í upphafi og endi framboðsfunda,  í sjónvarps- og útvarpsauglýsingur og hvar sem því er viðkomið.

  Af hverju fá frambjóðendurnir ekki vinsæla poppara til að semja fyrir sig sérstakt kosningalag?  Jú,  það eru til dæmi um slíkt.  Kosturinn við hina leiðina er að hún gefur útvarpsstöðvum,  plötusnúðum og fleirum möguleika á að spila gamla vinsæla lagið án þess að það sé skilgreint sem eiginlegur kosningaáróður.  

  Einhverra hluta vegna hafa íslenskir stjórnmálamenn gert lítið af þessu.  Ég man þó eftir því að Alþýðuflokkurinn gerði út á lagið  18 rauðar rósir.  Í því tilfelli var það krákað (cover song) af Stuðmanninum Jakobi Magnússyni og Stebbi Hilmars söng.  Einnig krákaði Ingibjörg Sólrún lagið  Borg mín borg  ásamt Ríó tríói.  Egill Ólafsson (og kannski fleiri?) söng eitt sinn frumsamið lag eftir Árna Sigfússon,  þáverandi frambjóðanda í Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.  Framsóknarflokkurinn var í einhverri kosningabaráttunni með frumsamið lag eftir bróðir Magnúsar Kjartanssonar (man ekki nafn mannsins).  Við erum best,  söng Besti flokkurinn,  slagara úr smiðju Tinu Turner.

  Margrét Thatcher gerði á sínum tíma út á lag Johns Lennons,  Imagine.  Yoko brást við með því að gefa lagið til Amnesty International - í með - til að lagið væri ekki notað af stjórnmálamönnum.

  Bandarískir stjórnmálamenn eru duglegir við að velja sér einkennislag í kosningabaráttunni.  Einkennislag Bills Clintons var  Don´t Stop Me Now  með Fleetwood Mac.   Ronald Reagan sótti sitt einkennislag til Brúsa frænda,  Born in the USA.  Brúsi gaf leyfi til þess með því skilyrði að Reagan myndi hlusta á plötu hans,  Nebraska,  þar sem sungið er um hlutskipti bandarísks verkafólks.  

  Einhverra hluta vegna hafa ótrúlega margir bandarískir stjórnmálamenn lent í tómu klúðri við val á einkennislagi.  Þeir - eða starfsmenn þeirra - hafa ekki gengið nægilega vel frá formlegu leyfi fyrir notkun lagsins.  Plötuútgefandinn hefur kannski gefið grænt ljós en höfundur og flytjandi lagsins verið ósáttur þegar á reynir.  Einkum hefur þetta komið frambjóðendum rebbanna í koll.  En demókratar hafa líka lent í klúðri.

  Núna síðast er forsetaframbjóðandi rebba,   Gingrich,  í klúðri.  Einkennislag hans er  How You Like Me Now  með bresku hljómsveitinni The Heavy.  Hljómsveitin er afar ósátt og krefst þess að Gingrich hætti þegar í stað að nota þetta lag.  

  Áður voru Tom Petty og Katrína and The Waves búin að stöðva notkun annars frambjóðanda rebba,  Michele Bachman, á sitthvoru laginu með þeim.  Gott ef hún datt ekki út úr forvalinu í kjölfar leiðinda vegna þessa (og einhvers fleira).

  Tom Petty stoppaði á sínum tíma stoppað notkun Brúsks (Bush yngri) á öðru lagi eftir sig,  I Won´t Back Down.  Það er kannski skiljanlegt að svona klúður komi upp þegar bandarískir stjórnmálamenn nota bresk popplög með leyfi frá bandarískum plötuútgefanda þeirra.  Það er klaufalegra þegar rebbar nota lög eftir yfirlýstan frjálslyndan,  eins og Toms Pettys.   Tom Petty er mun stærra nafn í Bandaríkjunum en við verðum vör við hér á Íslandi.  Hann er svo sem ekki mjög pólitískur en vill ekkert púkka upp á republikana.

  2008 stoppaði hljómsveitin Heart notkun Söru Pálínu á laginu  Barracuda.  Sama ár lenti John McCain í klúðri.  Jackson Browne fékk dómstóla til að stöðva notkun hans á laginu  Running On Empty.  Sjaldnast þarf þó dómstóla til.  John Mellemcamp dugði að krefjast þess án atbeina dómstóla að stöðva notkun Johns McCains á tveimur lögum eftir sig.  Til gamans má geta að lengst af kallaði John Mellemcamp sig John Cougar Mellemcamp.  Liðsmenn Sykurmolanna upplýstu hann um að millinafnið Cougar hljómar illa á íslensku í íslenskum framburði.  Mellemcamp var svo brugðið að hann "droppaði" millinafninu með það sama.

  Það er nánast þumalputtaregla að bandarískir stjórnmálamenn sem lenda í klúðri með einkennislag tapa slagnum.  Þeir heltast úr lestinni og verða ekki forsetar.

  Gaman væri að velta fyrir sér hvaða þekkt íslensk lög íslenskir stjórnmálamenn geta tekið upp sem sitt einkennislag.  Ósmekklegar tillögur:  Silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig  með Megasi fyrir Jóhönnu.  Þrjú hjól undir bílnum  með Ómari Ragnarssyni fyrir Steingrím J.  Eða  Taxman  með Bítlunum?  Er til eitthvað vafningslag fyrir Bjarna Ben?  Eða bara  Money,  Money,  Money  með Abba?  Sveitaball  með Ómari Ragnarssyni fyrir Sigmund Davíð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Einnig krákaði Ingibjörg Sólrún lagið Borg mín borg ásamt Ríó tríói."

Hvar er hægt að finna þá snilld/(væntanlega)hörmung?

Grrr (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 18:46

2 Smámynd: Jens Guð

  Grrr,  ég bar mig ekki eftir að eignast þetta á plötu með ISG.  Mig minnir að það hafi verið gefið út á smáskífu.  Kannski slæddist það einnig inn á einhverja safnplötu.  Ég mæli frekar með þessu lagi í flutningi Bjarkar og KK eða Hauks Morthens. 

Jens Guð, 31.1.2012 kl. 19:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.