Veitingahússumsögn

pizzurhlaðborð 

  -  Staður:  Hrói höttur,  Hringbraut

  -  Réttur:  Hádegishlaðborð

  -  Verð:  1590 kr.

  -  Einkunn:  *** (af 5)

  Á netsíðu Hróa hattar stendur að hádegishlaðborð kosti 1390 kr.  Hið rétta er að það kostar 1590 kr.  Að minnsta kosti á staðnum við Hringbraut.  Hrói höttur er víðar.  Meðal annars í Hafnarfirði,  Mosfellsbæ og á Selfossi.  

  Af heitum réttum á hlaðborðinu má nefna fiskibollur í karrýsósu,  grillaðar svínasneiðar með bbq-sósu,  lambakjöt og kjúklingaréttur.  Ýmsar útgáfur af pizzum eru á hlaðborðinu og brauðstangir.  Svo og kaldur djúpsteiktur fiskur.

  Af meðlæti má nefna grænar baunir,  rauðkál,  maísbaunir og allskonar salöt.  Ekki má gleyma heitu piparsósunni.  Né heldur þremur köldum sósum auk kokteilsósu.  Þegar mig bar að garði um klukkan 13.00 voru engar skeiðar í köldu sósunum.  Þær virtust vera ósnertar þrátt fyrir að obbinn af hádegisgestum væri kominn og farinn.  

  Karrýsósan á fiskibollunum var af skornum skammti.  Það þurfti að kafa neðst í skálina til að ná einhverju af henni.  Bæði sósan og bollurnar brögðuðust vel.  Lambakjötið var aftur á móti of þurrt.  Kjúklingaréttinum svipaði til asískra rétta:  Smáir kjötbitar en þeim mun meira af lauki og grænmeti.

  Hlaðborð er heppilegast að afgreiða með því að taka sér í fyrstu umferð sitt lítið af hverju.  Það er gaman að smakka marga ólíka rétti.  Svo er sótt viðbót af því sem best reynist. 

  Grilluðu svínasneiðarnar voru bestar.  Það hefði mátt hafa örfáar þeirra skornar í tvennt.  Heil sneið er of stór skammtur með smakki af öðrum réttum.

  Stærsti ókosturinn við hlaðborðið er að einungis er boðið upp á franskar kartöflur.  Það er til of mikils mælst að biðja um grillaðar kartöflur með svínasneiðinni.  En frönsku kartöflurnar draga hlaðborðið ansi langt niður - þegar ekki er kostur á öðrum kartöflum.

  Súpa (og kaffi að ég held) fylgir með í pakkanum.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er af sem áður var að vesturbæingar voru með silfur ef ekki gullskeiðar í kjaftinum allt frá fæðingu. Nú er þetta mestmegnis pakk og þarf að fara á Hróa hött og stela pjáturskeiðum úr köldum sósum til að hafa eitthvað milli tannanna sem minnir á forna frægð og meiri auð. Heimur versnandi fer - eða hvað?

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 23:25

2 Smámynd: Jens Guð

  Heill og sæll, Guðmundur.  Heimur versnandi fer.  Hvað varð um signa fiskinn?

Jens Guð, 27.7.2012 kl. 00:13

3 identicon

Það er allt búið signa fiskinn, þetta étur ekki svoddan mat. Og við þurfum að líða fyrir það. Ég, þú og að ég trúi, Tobbi frændi!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 00:27

4 identicon

Þarna á að standa: "búið með signa fiskinn". Ég leiðrétti þetta áður en Eiður - sem aldrei kemur frá sér óbrjálaðri setningu - Guðnason kemst í það.

Guðmundur (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 00:33

5 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur minn kæri,  stundum fer ég á Sægreifann og fæ mér siginn fisk.  Þangað fer ég líka stundum og fæ mér skötu.  Það er ekki öll nótt úti enn.  En vertu viss:  Guðnason kemst í þetta.  Og Tobbi frændi þinn líka,  sveitungi minn sem lék sér í fótbolta við mig sem krakki og unglingur í útjaðri Hóla í Hjaltadal.  Frábær náungi!  Þú ert vel ættaður,  minn kæri vinur!

Jens Guð, 27.7.2012 kl. 00:39

6 identicon

Jens, þú skrifar að verða á vefsíðu sé ekki rétt , þú skrifar líka að þér líki ekki að bara sé boðið franskar kartöflur með réttum, þú skrifar að ekki séu skeiðar í köldum sósum, þú skrifar að ekki sé nóg af karrýsósu og skrif þín benda til þess að þú hafuir ekki verið alveg sáttur !!!

En , þú gefur þessu samt einhverja stjörnu ???

Samkvæmt þínum skrifum ætti ekki að gera annað en vara fólk við því að láta ekki plata sig á þessum veitingastað !!!

Einfalt, ekki fer ég inn á þennan stað !

Eitt er gott við þetta allt saman, þessi staður er í veturbæ Reykjavíkur og sýnir manni að kr-ingar láta bjóða sér ýmislegt sem aðrir gera ekki !

JR (IP-tala skráð) 27.7.2012 kl. 01:04

7 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ég fer aldrei á Hróa Hött enda eru pitsur að mínu mati miklu frekar lélegt og slakt bakkelsi en staðgóður matur.  

Ýmislegt er sjálfsagt hægt að gagnrýna Eið Guðnason fyrir Guðmundur (#3), en ekki fyrir slaka eða illa meðferð móðurmálsins.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.7.2012 kl. 09:05

8 Smámynd: Jens Guð

  JR,  það er rétt að ég var ekki alhamingjusamur með hlaðborðið.  Ef svo hefði verið værum við að tala um 5 stjörnur í stað 3ja.

Jens Guð, 27.7.2012 kl. 16:36

9 Smámynd: Jens Guð

  Axel Jóhann,  ég er sammála þér með pizzurnar.  Enda snerti ég þær ekki ef annað er í boði. 

Jens Guð, 27.7.2012 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband