Frábær uppástunga um jólagjafir

ingójúl

  Fyrir tæpum mánuði sagði ég á þessum vettvangi frá veikindum ungs listamanns.  Sá heitir Ingólfur Júlíusson.  Hann er best þekktur sem gítarleikari pönksveitarinnar Q4U annars vegar og hins vegar sem ljósmyndari,  margverðlaunaður út um allan heim.  Þarna fyrir tæpum mánuði greindist Ingó með bráðahvítblæði. 

  Hann var þegar settur í viðeigandi meðferð.  Heildar meðferðin tekur um sex mánuði.  Henni lýkur á mergskiptum úti í Svíþjóð.

  Í fyrsta kafla meðferðar sýna á milli 70 og 80% sjúklinga jákvæða svörun.  Því miður er ekki svo í tilfelli Ingós.  Þessi kafli meðferðarinnar hefur engum árangri skilað.

  Á fésbók Heiðu B. Heiðars sá ég góða uppástungu um jólagjafir.  Hún er sú að fólk fari inn á heimasíðu Ingós og kaupi þar ljósmyndir til jólagjafa.  Flottari ljósmyndir eru vandfundnar.  Um leið er fjárhagur Ingós styrktur, en Ingó er að mestu tekjulaus eftir að hafa verið kippt þetta óvænt út af vinnumarkaði. 

  Þetta er slóðin á heimasíðuna:  http://ingomedia.net/

  Ég vil bæta annarri uppástungu við.  Hún er sú að í stað þess að senda jólakort verði samsvarandi upphæð lögð inn á styrktarreikning Ingós.  Svo látið þið vita af þessari ákvörðun á fésbók.  Ég fullvissa ykkur um að allir vinir ykkar verða sáttari við að kostnaði við að kaupa og senda þeim jólakort í ár sé betur varið til styrktar Ingólfi.  Þið munið strax sjá það á "lækunum" við tilkynninguna.

  Nánari upplýsingar um aðstæður Ingólfs og styrktarreikning hans má lesa með því að smella á þennan hlekk:  http://www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1265005/ 

image


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæll jens. Þetta finnst mér góð uppástunga.

Ég hef staðið mig illa í að gefa jólagjafir og senda jólakort, í nokkuð mörg ár.

En þegar ég sá þennan samfélagsábyrga og hjartahlýja pistil þinn, þá skildi ég að þessi listamaður hefur það svo margfalt verra en ég, að ég ætla að styrkja hann með fáeinum krónum. Ég er ekki fjárhagslega rík, og ekki á topp-tíu vinsældarlista bankanna, en bankarnir hafa ekki tekið öll fjárráð af mér ennþá. Það er best að nota tækifærið til að gera góðverk, áður en þeir ganga svo langt.

Margt smátt gerir eitt stórt.

Þá getur blessaður maðurinn kannski komist í dýrar og vandaðar meðferðir, sem ekki standa almennum skattborgurum þessa lands til boða. Fólk í þessu samfélagi þarf að geta lifað, þótt það sé ekki á ríkisspenanum, þegar það verður svo veikt að það getur ekki unnið fyrir sér og sínum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.11.2012 kl. 20:06

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég get gefið honum einlæga bæn kannski rangt að upplýsa,svo margir trúlausir.

Helga Kristjánsdóttir, 18.11.2012 kl. 02:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð hugmynd Jens, ég hef þetta í huga.  En málið er að ég gef öllum mínum barnabörnum ævintýrabók í jólagjöf, sögu þar sem þau eru sjálf aðalpersónurnar.  Síðan eru flest börnin mín í útlöndum og þau fá frekar harðfisk og nammi, en svo sannarlega held ég þessu opnu.  Takk fyrir þetta góða innlegg.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 16:39

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Verulega góð hugmynd hjá þér, held ég deili þessari færslu hjá þér inn hjá mínum facebook vinum.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.11.2012 kl. 16:40

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Helga. Ekki efast ég um mátt bænarinnar, og sá máttur er vanmetinn af mörgum, vegna pólitískra trúarbragða-áhrifa.

Það er víst ekki í tísku að trúa á ósýnileg öfl. Og samt trúa allir á ósýnilegan mátt fjarskipta-tækja? Kannski einhverjir hafi fiktað of mikið í stjórnmála-sönnunargögnum vísindanna? Hver veit?

Það er því miður nauðsynlegt að hafa einhverja skiptimynt fyrir góða heilbrigðisþjónustu, bæði þá hefðbundnu og óhefðbundnu. En máttur bænarinnar er sem betur fer ókeypis og ekta. 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.11.2012 kl. 17:52

6 Smámynd: Jens Guð

  Anna Sigríður,  mér skilst að Ingólfur fái alveg góða meðferð bæði hérlendis og eins þegar mergskiptin fara fram í Svíþjóð.  Vandamálið er að tekjuinnkoma heimilisins hrundi um leið og Ingólfi var kippt á þennan hátt út af vinnumarkaði og það í meira en hálft ár.  Ég geng út frá því sem vísu að maðurinn fari ekki út á vinnumarkað strax að loknum mergskiptum.  

  Hann á tvær ungar dætur og það er dýrt að reka heimili,  eins og við vitum.  Þó að konan hans vinni í búð þá standa hennar tekjur ekki undir útgjöldum.  Þar fyrir utan þarf að borga húsaleigu fyrir nú tekjulausa vinnustofu hans og afborganir af tækjabúnaði hans og svo framvegis án þess að ég ætli að tíunda það allt saman frekar.

  Eins og þú nefnir þá skiptir ekki svo miklu máli að háar upphæðir séu settar inn á styrktarreikninginn heldur er það samtakamáttur fjöldans sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið.  

  500 krónur eða 1000 kall verður þokkaleg upphæð þegar margir leggjast á eitt.  Ég held að mér sé óhætt að upplýsa að söfnunin gangi það vel að í það minnsta þessi mánuður og sá næsti séu sloppnir fyrir horn.  

Jens Guð, 18.11.2012 kl. 19:46

7 Smámynd: Jens Guð

  Helga,  góð hugsun í hvaða formi sem er vel þegin. 

Jens Guð, 18.11.2012 kl. 19:47

8 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  ég geri mér alveg grein fyrir því að hugmyndin um ljósmyndagjöf hentar ekki öllum.  Það er góður siður að gefa barnabörnum íslenskar ævintýrabækur,  harðfisk og nammi.  Mundu bara að ef harðfiskurinn er sendur til Bandaríkjanna getur verið ástæða til að skrá hann á fylgibréf sem kattafóður.  Þá lendir hann ekki í því að vera gerður upptækur í tollinum. 

Jens Guð, 18.11.2012 kl. 19:51

9 Smámynd: Jens Guð

  Ásdís,  bestu þakkir fyrir að deila erindinu á fésbók.  Þú mættir jafnvel líka koma erindinu á framfæri á blogginu þínu. 

Jens Guð, 18.11.2012 kl. 19:53

10 Smámynd: Jens Guð

  Anna Sigríður (#5),  góð hugsun er af hinu góða á hvaða hátt sem er.

Jens Guð, 18.11.2012 kl. 19:55

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Haha takk fyrir ráðleggingarnar, nei börnin mín búa í Noregi og Austurríki, og þar fer þetta greitt í gegn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2012 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.