"Það hefur vel tekist til hér að flestu leyti þó ég geti kannski ekki metið fyllilega hversu sanna mynd þetta gefur af þjóðlegri tónlist þessara landa þar sem hún er mér frekar framandi. En platan stendur sem góð plata og henni er ef til vill frekar ætlað að sameina nútíð og fortíð því sumt af tónlistinni er kannski frekar samið í þjóðlegum anda, byggt á gömlum stemmum og ljóðum."
Svo segir Bubbi um vest-norrænu plötuna World Music from the Cold Seas. Hann skrifar reglulega yfirvegaða og vandaða plötugagnrýni af góðri þekkingu og sanngirni. Hann greinir lögin á plötunni meðal annars með þessum orðum:
"Það er vel við hæfi að Grænlenskur trommudans opni plötuna, en þeir sem kannast við dönsk/grænlensku myndina "Lysets hjerte" ættu að þekkja það. Síðan er mættur Færeyingurinn Kristian Blak sem er dálitið allt í öllu í tónlistarlífi landa sinna og tengist 3/4 hlutum færeyska efnisins hér og gott ef hann á ekki plötuútgáfuna Tutl sem gefur plötuna út. Hið fallega instrumental lag hans um öndina með langa stélið er byggt á tónlist frá Austur Grænlandi, en ég vissi fyrst ekki hvaðan á mig stóð veðrið er trommudansarinn Anda hóf upp raust sína í hlutverki andarinnar undir lok lagsins. Við Anda Kuitse erum nú orðnir vinir.
Kristian Blak mætir síðan aftur með Yggdrasil og Eivöru Páls í The Eagle, hvar jassfílingurinn kitlar hlustirnar. Enn kemur Blak við sögu í Trana Trýta sem er úr instrumental svítu hans, Shalder Geo og byggt á færeyskum sálmi. Hér svífur nettur Þursaandi yfir vötnum... einhver óræð jassrokk/progg stemmning. Innlegg Kristian Blak er með því besta á plötunni, en víkingarokk sveitin Týr lokar hinum Færeyska kafla... og plötunni með Orminum langa, hinum aldna Færeyska hringdansi sem margir hlustendur rásar 2 ættu að kannast við...þökk sé Guðna Má Henningssyni.
Tónlist Samanna er mjög flott hér og það lag sem greip mig fyrst á plötunni var heillandi samruni Samíska yóksins (yoik) hjá Ingu Juuso og kontrabassa Steinars Raknes í Taxi driver og flott hvernig hin forna samíska sönghefð blandast jassinum. Elin Kaven er dulúðug í Aibbas jaska og þar blandast nútíma poppmúsík við heimstónlist, jass og Samíska músík. Hún minnir dálítið á Samísku söngkonuna Mari Boine sem er sú eina af samísku tónlistarfólki sem ég þekki eitthvað til og hefur sent frá sér frábæra tónlist og gott ef hún hefur ekki sungið með Peter Gabriel. Hana er þó ekki að finna hér, en Johan Andesr Bær og Sámi Luondu, Collerisku eru hér og skila sínu óaðfinnanlega.
Grænlendingarnir heilluðu mig minnst en eru þó ágætir. Hin draumkennda ballaða Qinnut með Samma Samma Jaffa Jaffa er full löng fyrir minn smekk en hún slagar í 9 mínútur. Hljómsveitin Sume eru frumkvöðlar í Grænlensku rokki og sendu frá sér fyrstu rokkplötu þarlendra 1973. Ég reikna með að lag þeirra Upernaaq sé frá 8. áratugnum en mér finnst það galli að ártöl eru ekki við lögin. Lagið dregur dám af Bandarísku 70´s kántrí rokki og skemmtileg munnharpa gegnumgangandi, en ekki er þetta sérlega Grænlenskt. Óhætt er að segja að framlag Grænlendinganna brjóti upp stemninguna hér og ekki síður The Drum með Nanu Disco, þar sem heyra má hraða danstónlist hvar aðal takturinn er byggður á gömlum trommudansi. Lagið byrjar á aðvörun á ensku en síðan heyri ég ekki betur en sungið sé á frönsku... nema Grænlenska og Franska séu farin að hljóma svona líkt.
Fjöllistamaðurinn Tryggvi Hansen er hér með góða útgáfu af Ólafi Liljurós/Riddararós, sem ég veit aldrei hvort er Færeyskt eða Íslenskt þjóðlag. Að vísu á ég frekar erfitt með að skilja textann er líður á lagið, en það eru kannski bara eyrun á mér. Auk þess er galli í disknum í þessu eina lagi sem lýsir sér þannig að lagið hoppar til á tveimur stöðum, og það er bagalegt. Lagið Vélsög, eða á maður frekar að segja stef Margrétar Örnólfsdóttur úr kvikmynd Þráins Bertelssonar Einkalíf passar alveg inn í stemmninguna, en gaman væri að vita hver hin klassísk lærða söngkona er sem a-ar í laginu.
Hinn Dansk/Íslenski Klakki með Nínu Björk Elíasson í fararbroddi á svo Fæðing máfsins við texta eftir Sjón og hef ég hug á að kynna mér frekar þá sveit eins og margt annað hér. Þá er tilgangi svona útgáfu sannarlega náð... vekja forvitni."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.