Áríðandi! Ekki missa af!

  Það er orðið alltof langt síðan færeyska álfadísin,  Eivör,  hefur haldið hljómleika á Íslandi.  Ennþá lengra er síðan hún hefur haldið hljómleika á litlum stað þar sem hún er í nálægð við áheyrendur.  Nú ber heldur betur til tíðinda:  Næstkomandi föstudag (12.  júlí) verður Eivör með hljómleika á Gamla Gauknum.  

  Eins og allir vita sem hafa verið á hljómleikum hjá Eivöru þá er það miklu áhrifaríkari og stórkostlegri upplifun en að hlusta á plötur með henni eða lög í útvarpi.  Samt eru plöturnar hennar ljómandi góðar en ólíkar hver annarri.  Á hljómleikum nær Eivör að framkalla töfra.  Hún dáleiðir áheyrendur.  Þeir sitja opinmynntir umvafðir fegurð tónlistarinnar;  frábærum söng og túlkun Eivarar.  Stór þáttur í magnaðri stemmningunni ræðst af sterkum sviðsþokka Eivarar,  útgeislun og spjalli hennar á milli laga og kynningum á lögunum.

  Ekki missa af þessum hljómleikum!  Miðasala er hafin á www.gamligaukurinn.is .  Það er algjörlega óvíst hvenær Eivör heldur næst hljómleika á Íslandi.  Vinsældir hennar út um heim vaxa jafnt og þétt með tilheyrandi spurn eftir hljómleikum.  Sem dæmi þá hafði nýjasta plata hljómsveitar hennar,  Vamp,  selst í 130 þúsund eintökum í Noregi síðast þegar ég vissi (í fyrra).   Þá fékk Eivör afhenta þrefalda platínuplötu fyrir söluna.  Næsta víst er að platan sé í dag til á nálægt 200 þúsund norskum heimilum.  Hún var nefnilega enn í 1. sæti norska sölulistans þegar Eivör fékk þreföldu platínuplötuna.

  Á undan Eivöru á Gauknum stígur á stokk önnur flott færeysk söngkona,  Dorthea Dam.  Hún átti eitt mest spilaða lag í færeysku útvarpi í fyrra.  Það heitir Candy og hefur eitthvað verið spilað í íslensku útvarpi.  Fleiri lög með Dortheu hafa fengið góða spilun í færeysku útvarpi.

  Eftir að Dorthea og Eivör hafa heillað salinn upp úr skónum svífa á svið stuðboltinn Sigurður Ingimars og hljómsveit.  Sigurður var sigurvegari í Íslensku trúbadorkeppninni og á færeyska konu.  

  Daginn eftir,  laugardaginn 13. júlí,  er Eivör með hljómleika á Græna hattinum á Akureyri.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.