Dauði tónlistariðnaðarins

  Með reglulegu millibili koma fram á sjónarsvið fyrirbæri sem slátra tónlistariðnaðinum - ef mark er takandi á þeim sem hæst grætur hverju sinni yfir örlögum sínum á dánarbeði tónlistariðnaðarins.  Nýjasti morðingi tónlistariðnaðarins er niðurhalið á netinu og mp3.  Í lok síðustu aldar var það skrifanlegi geisladiskurinn.  Þar áður náði bandaríski tónlistariðnaðurinn að banna DAT-snælduna.  Japanskur snælduframleiðandi,  Sony,  gerði sér þá lítið fyrir, keypti bandaríska plöturisann CBS og aflétti banninu í krafti þess.  Um svipað leyti úreltis DAT-snældan vegna innkomu geisladisksins.

  Músíksjónvarpsstöðin MTV og tónlistarmyndbönd voru um tíma sökuð um að ganga af tónlistariðnaðinum dauðum.  "Myndbönd drápu útvarpsstjörnuna" (Video Killed the Radio Star),  sungu The Buggles og þóttu spámannslega vaxnir.  

  Á áttunda áratugnum urðu svokölluð kassettutæki þokkalega góð, ódýr og almenningseign.  Tónlistariðnaðurinn fylltist örvæntingu.  Hann sameinaðist í rosalega öflugri herferð gegn kassettunni.  Höfðað var til samvisku kassettutækjaeigenda.  Á plötuumslög og í plötuauglýsingum var birt teikning af kassettu yfir x-laga nöglum.  Uppstillingin var stæling á einkennistákni sjóræningja.  Með fylgdi texti þar sem fullyrt var að tónlist afrituð yfir á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.   

  Orðheppnu pönkararnir í Dead Kennedys tóku skemmtilegan snúning á þessu.  Þegar þeir sendu frá sér plötuna "In God We Trust, Inc." var hún einnig gefin út á kassettu.  Kassettan var merkt þessum boðskap um að upptaka á kassettu í heimahúsi væri að slátra tónlistariðnaðinum.  Fyrir neðan þann texta bættu Dead Kennedys-liðar við:  "Við höfum þessa hlið kassettunnar óátekna svo þú getir lagt hönd á plóg" (við að slátra tónlistariðnaðinum).

  Á annarri plötu sungu Dead Kennedys gegn MTV í laginu "MTV Get Off the Air".  Til samræmis við það að MTV skiptir litlu máli í dag hafa núverandi liðsmenn Dead Kennedys breytt textanum í "Mp3 Get Off the Air".  

dead-kennedys-tape.jpg    

  Heildarsaga Dead Kenndys er jafn geggjuð og grátköst tónlistariðnaðarins og skallapoppara yfir stöðugri slátrun á sér.  Framan af var hljómsveitin mjög kjaftfor í bland við hárbeittan húmor.  Söngvarinn,  Jello Biafra,  var og er mjög fyndinn og beitir kaldhæðni af list.  Lagaheitin segja sitt:  "Too Drunk to Fuck",  "Stealing People´s Mail",  "Kill the Poor",  "Anarchy for Sale",  "California Uber Alles"...    

  Þegar fréttatímar voru uppfullir af sögum af Pol Pot og félögum í Kambódíu að þrælka og strádrepa íbúa landsins söng Jello um "Holiday in Cambodia".  Nafnið Dead Kennedys er baneitrað.  Íslenskur frændi minn skrapp til New York (eða hvort það var Boston?) á upphafsárum Dead Kennedys.  Þá var hljómsveitin þekkt í Evrópu en tilheyrði neðanjarðarpönksenu í Bandaríkjunum.  Í plötubúð spurði frændi eftir plötum með Dead Kennedys.  Það snöggfauk í afgreiðslumanninn.  Hann reiddi hnefa til höggs og spurði hvað þetta grín um dauða Kennedya ætti að þýða.  Það tók afgreiðslumanninn góðan tíma að ná andlegu jafnvægi á ný á meðan frændi upplýsti hann um þessa hljómsveit.

  Eins og algengt er áttuðu þöngulhausar sig ekki á kaldhæðni Jellos.  Nasistar og aðrir rasistar hylltu Dead Kennedys og fjölmenntu á alla þeirra hljómleika.  Á síðustu plötunni heitir eitt lagið "Nazi Punks Fuck Off".  Það breytti engu.  Ku Klux Klanarnir tóku því sem virðingarvotti í sinn garð.  Jello var nóg boðið og leysti hljómsveitina upp.  Hann snéri sér að uppistandi og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur.  Hann hefur sent frá sér fjölda uppistandsplatna.  Hann var með vel heppnað uppistand á Íslandi fyrir nokkrum árum.

  Jafnframt hefur Jello sungið inn á plötur með ýmsum hljómsveitum (þar á meðal Lard og No Means No) og gert kántrý-plötu með Mojo Nixon.  Eftir að Jello leysti DK upp óx viðskiptavild hljómsveitarinnar bratt.  Allskonar hljómsveitir fóru að kráka (cover song) lög DK.  Auglýsendur,  kvikmyndaframleiðendur,  sjónvarpsþáttaframleiðendur og ýmsir aðrir vildu fá að nota lög DK.  Jello stóð fastur gegn því.  Hann vildi varðveita ímynd DK sem hljómsveitar í uppreisn,  með málstað pönksins að leiðarljósi. Jello stóð einnig gegn því að lög DK væru gefin út á safnplötum.  

  Hljóðfæraleikararnir í DK fóru í mál við Jello.  Þeir sökuðu hann um að hafa af þeim háar fjárupphæðir með því að taka ekki fagnandi allri notkun á DK-lögum á öllum vígstöðvum.  Þeir unnu málið.  Síðan hafa þeir selt lög DK út og suður.  Sömuleiðis endurreistur þeir hljómsveitina með öðrum söngvara og túra þvers og kruss.  

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.