Lulla frænka var skyggn

  Lulla föðursystir mín sá eitt og annað sem aðrir sáu ekki.  Í afmælisveislu heima hjá frænku minni í móðurætt,  sátu gestir og heimilisfólk í góðu yfirlæti í rúmgóðri stofu.  Skyndilega fékk Lulla hláturskast.  Hún hló og hló og kom ekki upp orði vegna hláturs.  Hún sleppti ekki augum af einum kvengestinum.  Allir horfðu í forundran á Lullu. 
  Þegar Lulla mátti loks mæla seint og síðar meir stundi hún upp:  "Sáuð þið ekki Spánverjann?"
  - Nei,  hvaða Spánverja?  
  - Spánverjann sem sat á öxlinni á Hrönn.
  - Ha?  Sat Spánverji á öxlinni á Hrönn.
  - Já,  pínulítill og sprenghlægilegur Spánverji.  Ekki nema 20 cm á hæð. 
  - Af hverju Spánverji?
  - Ég þekki alltaf Spánverja þegar ég sé þá.
 
  Í annað skipti var Lulla að keyra frá Laugarvatni.  Á þeim tíma var malarvegurinn einbreiður.  Þegar bílar mættust þurftu báðir að hægja á ferð og beygja varlega eins langt út í kant og mögulegt var.  Þegar hleypa þurfti frammúr var einnig ekið varlega út í kant og jafnvel staðnæmst til að auðvelda frammúraksturinn.
  Við þessar aðstæður ók Lulla í rólegheitum.  Hún ók reyndar alltaf mjög hægt.  Það var nótt og fáir bílar á ferli.  Rútubíll ók Lullu uppi.  Bílstjóranum virtist liggja á.  Hann blikkaði stöðugt framljósum og lagðist á flautuna.  "Lét eins og fáviti,"  sagði Lulla.  Hún lét sér hvergi bregða.  Hún ók á óbreyttum hraða á miðjum vegi.  
  Eftir langan spotta tókst rútubílstjóranum á gatnamótum að troðast fram fyrir Lullu.  Þar stöðvaði hann rútuna,  hljóp út á veg,  reif upp hurðina hjá Lullu og gargaði hamslaus af frekju:  "Hvur djöfullinn gengur að þér?  Hvað á það að þýða að blokkera veginn og hleypa mér ekki frammúr?"
  Lulla svaraði:  "Það kemur ekki til greina að ég glanni út í kant með fullan bíl af gömlu fólki."
  Þegar Lulla sagði frá þessu fylgdi með að það hefði verið eins og rútubílstjóranum væri gefið á kjaftinn.  Hann steinþagnaði og starði manndrápsaugum á Lullu í dálitla stund.  "Ég hélt að hann ætlaði að ráðast á mig.  Hann var sturlaður og hættulegur," sagði Lulla.  Síðan hljóp hann til baka upp í rútuna sína og ók á ólöglegum hraða í burtu.
  Lulla taldi upp gamla fólkið sem var í bílnum hjá henni.  Það hafði allt fallið frá áratugum áður.  Lulla sagði við mig:  "Kristján afi þinn sat fyrir miðju í aftursætinu og spilaði á takkaharmónikku.  Þetta var svo gaman.  Ég söng með og söng alveg eins og ítölsk óperusöngkona."    
 
-----------------------
   
  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1353811/
 


mbl.is Aldrei sátt við að vera skyggn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa frásögn, skemmtilegt að fá að fylgjast með Lullu frænku.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2014 kl. 13:22

2 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Hahahaha, alveg óborganleg hún frænka þín :) :)

Sigfús Sigurþórsson., 16.2.2014 kl. 20:04

3 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  gaman að heyra. 

Jens Guð, 16.2.2014 kl. 21:24

4 Smámynd: Jens Guð

  Sigfús,  svo sannarlega!

Jens Guð, 16.2.2014 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband