8.4.2014 | 02:23
Ný og öflug aðferð til að endurheimta æskuljóma andlitsins
Í aldanna rás hefur flestum þótt í aðra röndina gott að eldast. Hvert einast ár færir okkur haug af meiri þekkingu á mörgum sviðum. Það er endalaust hægt að læra eitthvað nýtt í landafræði. Víða um heim er elsta kynslóðin í mestu metum. Öldungar eru þeir sem kunna og vita. Viska þeirra er í hávegum. Viska er sambland af gáfum og hæfileikanum til að kunna að nota þær. Öldungar gefa unga fávísa fólkinu ráð, vel þegna gullmola.
Á sjötta áratug síðustu aldar varð til á vesturlöndum unglingamenning. Áður skiptist fólk í börn og fullorðna. Unglingamenningin varð til í gegnum bandarískar kvikmyndir með Marlon Brando og síðar fleirum og enn frekar í gegnum rokkið (Presley, Chuck Berry, Jerry Lee Lewis, Little Richard).
Hratt og bítandi þróaðist unglingamenning yfir í æskudýrkun. Orðið æskudýrkun er villandi. Það vísar til barnsaldurs en á frekar við um að eldra fólk sæki í að halda í unglingslegt útlit. Ellilífeyrisþegar vilja líta út eins og miðaldra. Miðaldra vilja líta út eins eins og aðeins yngri.
Á síðustu 20 - 30 árum hefur orðið til stór iðnaður í kringum það að hægja á eða snúa við öldrunareinkennum í andliti eldra fólks. Svokallaðar fegrunaraðgerðir eða yngingaraðgerðir tröllríða skemmtiiðnaðinum í Bandaríkjunum og teygir anga sína víða. Stóra vandamálið er að margir sem hella sér út í svoleiðis dæmi kunna sér ekki hóf. Ríku kvikmynda- og poppstjörnurnar eru umkringdar já-fólki sem klappar fyrir hverri "fegrunaraðgerð" og bendir aldrei á að aðgerðin geri viðkomandi ekkert nema kjánalega/n.
Frægasta "fegrunar" klúðrið er Mikjáll Jackson. Hann var huggulegur blökkudrengur sem lét breyta sér með "lýtalækningum" í afskræmda hvíta konu sem átti að líkjast ítalskri leikkonu, Sófíu Lóren.
Mikjáll Jackson lét nánast endurhanna andlit sitt. Breitt nefið var fjarlægt og annað örmjótt sett í staðinn. Umhverfis augun var húðflúruð svört lína og augnpokar fjarlægðir til að augun yrðu stór. Varir voru litaðar rauðar (ekki með annarri aðferð en daglegri varalitun). Toppurinn var þegar hann mætti á lýtalæknistofuna með ljósmynda af leikaranum Kirk Douglas og bað um að fá sett á sig samskonar Pétursspor (hökuskarð).
Mikjáll lét framkvæma svo margar breytingar á andliti sínu að andlitsbein morknuðu. Hann þurfti á stöðugum viðgerðum að halda. Til að mynda voru brjósk og bein í nefinu orðin óvirk. Hætt að ná tengingu við önnur brjósk og bein.
Annað frægt dæmi er svokölluð Kattakona. Hún var um tíma gift lýtalækni. Þau fóru hamförum í breyta andliti hennar í humátt að andliti kattar.
Leikkonan Daryl Hanna þótti falleg. Hún var gift tónlistarmanninum Jackson Brown. Hann lamdi hana. Óþokki. Eftir skilnað þeirra fór hún í andlitsstrekkingu og eitthvað svoleiðis. Er nánast óþekkjanleg síðan.
Víkur þá sögu að splunkunýrri yngingaraðferð. Hingað til hefur svokallað botox leikið stóra hlutverkið í baráttu við Elli kerlingu. Botoxi er sprautað inn í húðina. Það lamar andlitsvöðva og viðkomandi verður eins og sviplaust vélmenni. Nú er komin á markað önnur og miklu betri aðferð. Hún kallast Frotox. Andlitið er snöggfryst í 20 mínútur. Við það strekkist á húðinni og allar hrukkur hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ólíkt Botox þarf ekki að sprauta með nál neinu í húðina. Frystingin er svo öflug að andlitið er hrukkulaust í 4 mánuði. Aðgerðin gengur eldsnöggt fyrir sig. Viðskiptavinurinn finnur aðeins þægilegan þrýsting á andlitið. Ekkert sárt eða óþægilegt.
Ég veit ekki hvort að þetta sé í boði hérlendis. Í Bretlandi og í Bandaríkjunum kostar svona frysting aðeins um 75 þúsund kall.
Ég veit reyndar ekki af hverju einhver vill losna við virðulegan svip eldra fólks og líta þess í stað út eins og einhver unglingsgalgopi. En Frotox er byltingarkennd nýjung í boði fyrir skrítið fólk með æskudýrkun.
Meginflokkur: Spaugilegt | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Lífstíll, Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:35 | Facebook
Athugasemdir
Ísos Kristos!
Tobbi (IP-tala skráð) 8.4.2014 kl. 21:10
Tobbi, þetta verður tískuæði.
Jens Guð, 9.4.2014 kl. 00:18
Til gamans má geta að kallinn á neðstu myndinni var söngvari í drepleiðinlegri hljómsveit á níunda áratugnum, Dead or Alive. Hún naut töluverðra vinsælda eins og margar aðrar drepleiðinlegar hljómsveitir á þessum árum. En var svo sem ekkert ömurlegri en Duran Duran eða Wham! og hvað þær hétu allar þessar hörmungar.
Jens Guð, 9.4.2014 kl. 00:22
http://www.youtube.com/watch?v=PGNiXGX2nLU
Jens Guð, 9.4.2014 kl. 00:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.