9.9.2014 | 23:44
Færeyskir hljómleikar - frítt inn
Íslenskur almenningur elskar Færeyinga of færeyska tónlist. Íslendingar tengja sig strax við Færeyinga sem bræður og systur við fyrstu kynni. Færeyingar hafa enda ætíð verið snöggir að rétta Íslendingum hjálparhönd á erfiðum tímum. Þannig söfnuðu Færeyingar háum fjárupphæðum til þeirra sem áttu um sárt að binda vegna snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri. Einnig björguðu Færeyingar Íslendingum þegar allt var að stöðvast vegna gjaldeyrisskorts í kjölfar bankahrunsins. Engir vildu lána gjaldþrota Íslandi gjaldeyri. Hvorki Bandaríkin, Norðurlönd eða Rússar þrátt fyrir að Íslendingar kæmu grátbiðjandi á hnjánum.
Þrátt fyrir kærleiksrík samskipti við Færeyinga hafa íslenskir embættismenn nú hver á fætur öðrum tekið upp á því að sýna Færeyingum fádæma hroka. Fyrst var það Isavia sem dró í meira en heilt ár að svara formlegu erindi færeyska flugfélagsins Atlantic Airwaves um lendingarleyfi á Reykjavíkurflugvelli. Atlantic Airwaves hafði árum saman flogið til og frá Reykjavíkurflugvelli. Svo keypti flugfélagið stærri flugvél (144 farþega í stað innan við 100 farþega). Þá var eðlilegt að óska eftir leyfi fyrir lendingu stærri flugvélarinnar. Beiðni þar um hefði átt að taka einn dag eða í hæsta lagi nokkra daga. Ekkert svar barst hinsvegar fyrr en rösku ári síðar. Í millitíðinni varð færeyska flugvélin að lenda í Keflavík með tilheyrandi ferðakostnaði og óhagræðingu fyrir flugfarþega. Sem var samt ekki málið heldur þessi ókurteisi að svara erindinu svona seint. En samt ekki illa. Erindinu var vel tekið og færeyska flugfélagið Atlantic Airways má lenda á Reykjavíkurflugvelli.
Næst gerist það að forstjóri Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson, Andri Þór, skrifar forstjóra Föroyar Bjór afar ósvífið, frekjulegt og dónalegt bréf. Hótar því að ef að Föroya Bjór Gull verði ekki umsvifalaust tekinn af markaði þá muni hann setja Föroya Bjór út af markaði með aðstoð dómsstóla.
Krafan er kolgeggjuð og heldur ekki vatni. Föroya Bjór Gull hefur verið á markaði í hálfan fjórða áratug. Egils Gull kom ekki á markað fyrr en næstum áratug síðar. Fyrir þremur árum skráði hrokagikkurinn hjá Ölgerðinni hinsvegar Egils Gull sem vörumerki. Sú skráning hefur enga þyngd vegna hefðaréttar og að bjór merktur Gulli hefur langa sögu í skandinavískri skilgreiningu á bjór. Löng hefð er fyrir Carlsberg Gulli, Tuborg Gulli o.s.frv. Það er ekki hægt að öðlast einkarétt á bjór merktum Gulli fremur en bjór merktum Pilsner, Stout eða Lite.
Það spaugileg við aulalega framgöngu Andra Þórs er að sala á Föroya Bjor á Íslandi óx um 1200%. Áður var færeyski bjórinn aðeins í 5 vínbúðum á Íslandi. Í dag er salan svo góð að hann er í öllum vínbúðum. Forstjóri Ölgerðarinnar er aðhlátursefni hvar sem tveir eða fleiri koma saman og drekka Föroya Bjór Gull.
Svo var það þessi rembingur íslenskra embættismanna gagnvart vélarbiluðum færeyskum togara, Nærabergi. Framkvæmdarstjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, Ásgrímur Ásgrímsson, uppbelgdist í embættishroka og meinaði áhöfn færeyska skipsins að taka vistir á Íslandi. Meinaði áhöfn landgöngu. Meinaði skipsverjum eldneytiskaup. Það ríkti neyðarástand um borð. Íslendingar sem ofbauð báru hamborgara og gosdrykki til skipsverja. Þetta var niðurlægjandi fyrir alla sem að málinu komu. Sjávarútvegsráðherra hafði ekki rögg á sér til að leysa vandamálið fyrr en mörgum dögum síðar þegar færeyskur kollegi hans hafði samband símleiðis.
Sunnudaginn 14. september heldur færeyska söngkonan Dorthea Dam hljómleika í Tjarnarbíói. Hún er frábær söngkona, frábær túlkandi og frábær söngvahöfundur. Eiginmaður hennar, William Silverthorn, er frábær söngvahöfundur eins og heyra má í meðfylgjandi myndböndum. Hann semur söngva sína á ensku en Dorthea flytur sína dagskrá jöfnum höndum á færeysku. Hljómleikarnir hefjast klukkan 21.00.
Aðgangur er ókeypis.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Útvarp | Breytt 10.9.2014 kl. 18:17 | Facebook
Athugasemdir
Ég er hættur að kaupa bjór og gos frá Ölgerðinni vegna hrokafullrar og ósvífinnar framgöngu forstjórans gagnvart færeyingum, okkar traustustu og líklega einu vinum í dag. Nú verður það bara færeyskur bjór !
Stefán (IP-tala skráð) 10.9.2014 kl. 08:13
Stefán, gott hjá þér.
Jens Guð, 11.9.2014 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.