Vond þjónusta vínbúðanna kallar á nýjar leiðir

  Íslenskar vínbúðir veita afleita þjónustu.  Fæstar eru opnaðar fyrr en klukkan 11.00.  Sumar ekki fyrr en klukkan 16.00 eða 17.00.  Síðan er þeim flestum lokað klukkan 18.00.  Margar eru lokaðar á laugardögum.  Og allar eru þær eru þær harðlæstar á sunnudögum.  Einmitt þegar einna mest þörf er fyrir því að þær séu opnar.

 Að auki eru brögð að því að sumar vínbúðir hafi ekki bjórkæli.

 Einna verst er að vínbúðir bjóða ekki upp á heimsendingu á neinu áfengi.  Hvorki bjór,  léttvíni,  sterku víni né landabruggi.  Fáir þurfa þó meira á heimsendingu að halda en neytendur áfengra drykkja.  Margir eiga ekki heimangengt vegna ölvunar,  veikinda,  öldrunar,  þreytu og skilningsleysis (og óliðlegheita) maka.

  Afleit þjónusta vínbúðanna hrópar á nýjar leiðir.  Mestu munar um að fyrirhugað frumvarp um afnám einkaréttar ÁTVR á áfengissölu.  Það frumvarp er gott og tímabært,  svo vægt sé til orða tekið.  En gengur full skammt að mörgu leyti.  En er áríðandi skref í rétta átt.

  Næsta skref er að bjóða upp á heimsendingu á áfengum drykkjum.  Hún er að vísu til staðar og nýtur mikilla vinsælda.  Gallinn er sá að úrvalið er aðeins landi og eiturlyf.  Aðallega hass,  amfetamín og E-pillur.    

 

                


mbl.is Fólk fái áfengið heim að dyrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Það er auðvitað augljóst að hlutverk ÁTVR er að vera ákveðin hindrun þegar einhver fær þá flugu í höfuðið að fá sér í glas. Það verður þó að viðurkennast að þetta hlutverk ÁTVR hefur verið að verða dálítið þokukennt í seinni tíð. Einmitt þess vegna er ekki augljóst að það sé endilega jákvætt fyrir áfengisneytendur að einokun ríkisins á sölu löglegra fíkniefna verði aflétt. Seinustu nokkur árin hefur ÁTVR nefnilega tekist að bæta ímynd sína töluvert, með því til dæmis að taka upp þá þjónustulund sem kom til sögunnar með nýja Vínbúðarnafninu. Það vantar bara herslumuninn á að þetta verði alvöru þjónustuaðili með lögleg fíkniefni.

Theódór Gunnarsson, 20.9.2014 kl. 22:43

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Japaninn gerir þetta rétt.

Hjá þeim er bjór, viský og hvað annað sem þér dettur í hug að drekka... eða þannig, úrvalið er frekar slappt, en samt: bjór & viský - þetta er selt allan sólarhringinn í Family Mart, Lawsons og svipuðum keðjusjoppum - sem eru svona eins og 10-11 hér á landi.

Á sama stað er venjulega hægt að kaupa kaffi í áldósum (heitt eða kalt) og þurrkaðan kolkrabba.

Ásgrímur Hartmannsson, 20.9.2014 kl. 23:54

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég þekki hvernig þjónastan er í matvælaverslunum hér. Hún er engin. Það er líka takmörkað framboð, vegna þess að þessar verslanir eru einungis með það vinsælasta. Þetta er svipað eins og með tónlistina. Það eru verslanir sem eru með allt sem í boði er en matvöluverslanir og aðrar verslanir sem eru ekki sér eru með takmarkað magn af tónlist sem ekki er fullnægjandi fyrir þá sem gera einhverjar kröfur um gæði.

Jósef Smári Ásmundsson, 21.9.2014 kl. 12:35

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er alveg ljóst í mínum huga að vöruúrval úti á landi minnkar ef farið verður að selja vín í matvöruverslunum. Þar verða bara á boðstólum það sem mest selst af. Og það er ekki endilega það sem ég vil drekka. Þess vegna segi ég nei.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.9.2014 kl. 14:03

5 identicon

Það vantar líka lúgu átvr, sem að væri opið allan sólarhringinn.

Er ekki lúgu apótek í kópavogi?

Grrr (IP-tala skráð) 21.9.2014 kl. 19:58

6 Smámynd: Jens Guð

Theódór, það er margt til í þessu hjá þér. ÁTVR hefur (afar) hægt og bítandi verið að bæta þjónustustigið. Það er ekkert rosalega langt síðan viðskiptavinurinn fékk ekki að skoða úrvalið. Maður þurfti að vita hvað átti að kaupa og tilkynna afgreiðslumanni það. Hann hvarf frá í smá stund og kom síðan með Brennivínið, Tindavodkann og Kláravínið.

Jens Guð, 21.9.2014 kl. 23:41

7 Smámynd: Jens Guð

Ásgrímur, Japanir eru greinilega til fyrirmyndar.

Jens Guð, 21.9.2014 kl. 23:42

8 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári, fátæklegra og einhæfara úrval í plötubúðum er að verða útbreitt vandamál. Í flestum þeirra í dag er aðeins að finna plötur með allra þekktustu flytjendum + plöturnar með lögunum sem tróna efst á vinsældalistum í það og það skiptið.

Jens Guð, 21.9.2014 kl. 23:53

9 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil, á sínum tíma þegar ríkiseinokun á sölu útvarpstækja var aflétt settu margir sig upp á móti því með þeim rökum að úrvalið yrði minna. Jafnvel að það yrði alvarlegur skortur á útvarpstækjum.

Þegar á reyndi varð þetta þveröfugt. Úrval á útvarpstækjum margfaldaðist og sölustöðum fjölgaði gríðarlega.

Sama var uppi þegar aflétta átti einokun af sölu á mjólk. Margir börðust gegn þeirri þróun með þeim rökum að hætta yrði á rosalegum mjólkurskorti; afar fáir myndu fást til að selja mjólk vegna óyfirstíganlegs kostnaðar við kæli sem tæki alltof mikið rými. Þar fyrir utan myndi úrval minnka svo mjög að einungis örfáar allra stærstu verslanir landsins myndu selja mjólk en einungis eldgamla mjólk sem myndi súrna skömmu eftir að fernan væri opnuð.

Reyndin varð önnur og þveröfug.

Eins var þetta þegar leggja átti af einokun á sölu osta og smjörs. Fólk óttaðist að úrval myndi hrynja. Það yrði hörgull á osti. Matvöruverslanir myndu í allra besta falli selja einungis vinsælustu tegundina.

Raunveruleikinn varð annar. Þvert á móti þá jókst úrval svo um munaði.

Jens Guð, 22.9.2014 kl. 00:19

10 Smámynd: Jens Guð

Grrr, jú, það er lúguapótek í Kópavogi. Þar má sjá langa bíðaröð fyrir utan allan daginn og fram að miðnætti. Þetta er algjör lúxus fyrir fólk sem er slæmt til gangs og þarf einmitt meðal við því. Einnig er þetta gríðarlega góður kostur fyrir kulsækna í vondu veðri. Þá sitja þeir bara inni í hlýjum bíl og láta fara vel um sig. Jafnvel undir teppi.

Af sömu ástæðum bráðvantar bílavínbúð. Svo sannarlega.

Jens Guð, 22.9.2014 kl. 00:23

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jens minn það er ekki sama víntegundir og útvörp. Ekki úti á landi, þar sem ríkir fákeppni. Samkaup og Bónus eru örugglega ekki að sitja uppi með einhver vín sem færri kaupa. Þeir munu einblína á það sem selst mest. Þá verðum við hin skikkuð til að kaupa eitthvað sem við viljum ekki, er það réttlátt? Úrvalið í ríkinu á Ísafirði, er ágætt þó minnkaði það fyrir nokkrum árum, þegar einhver enn ólögin tóku gildi. En það er líka hægt að panta flösku af einhverju og það kostar ekkert.

Ég vil geta valið þau vín sem mér finnst best að drekka, en ekki eitthvað sem bónus eða Samkaup ákveða að sé mest seldu vínin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2014 kl. 11:38

12 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil, ég treysti mér ekki til að ábyrgjast að úrval á áfengum drykkjum úti landi verði jafn gott eftir að sala verði gefin frjáls. Eflaust verður það mismunandi eftir stöðum. Þó hlýtur það að verða þannig að verslanir leggi sig fram um að hafa á boðstólum þær tegundir sem viðskiptavinir spyrja eftir.

Iðulega rekst ég erlendis á góðan bjór sem fæst ekki í ÁTVR. Í einhverjum tilfellum frétti ég af því að ÁTVR hafi ekki viljað taka viðkomandi bjór í sölu. Í öðrum tilfellum er bjórinn aðeins seldur í Heiðrúnu uppi á Höfða. Frjálsari sala mun losa um allar svona girðingar.

Samkaup eða Bónus: Þessar búðir hljóta að vilja selja það áfengi sem viðskiptavinurinn spyr um. Í dag er það þannig að viðskiptavinurinn ræður litlu um úrvalið. Árlega stendur ÁTVR til boða tugir bjórtegunda (og eflaust annarra drykkja). Ég kann ekki hlutfallið. En stór hluti vinsælla útlendra bjóra fær ekki inn í sölukerfi vínbúðanna.

Jens Guð, 23.9.2014 kl. 00:02

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að eigendur þessara verslana séu ekki að hugsa um að hafa á boðstólum það sem fólkið vill endilegal, heldur hvað selst mest. Og vera þá með fáar vörur. Ég vil hafa mitt úrval í ríkinu, þá mega kaupmenn selja bjór og léttvín fyrir mér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.9.2014 kl. 16:22

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fyrir utan að þetta fækkar störfum úti á landi og er nú nóg samt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.9.2014 kl. 16:23

15 Smámynd: Jens Guð

Ásthildur Cesil, það má alveg vera að þú hafir rétt fyrir þér. Frumvarpið virðist hafa nægilegan stuðning á Alþingi til að ná í gegn. Það verður spennandi að fylgjast með framvindunni.

Eina áfengið sem ég drekk er bjór. En þeim mun meira af honum. Ég hugsa dæmið bara út frá bjórnum mínum. Þegar ég er erlendis þykir mér lúxus að geta hvenær sólarhrings sem er skroppið í sjoppuna í næsta eða þarnæsta húsi og keypt bjór. Þá vill hugurinn reika til Íslands. Flestir þurfa að aka langar leiðir til að finna vínbúð. Oft eru menn í kapphlaupi við klukkuna þegar líður að lokunartíma vínbúðanna.

Margur lendir í neyð á sunnudegi. Það skellur kannski á sjóðheitur sólskinsdagur sem gargar á grill úti í garði. Gesti ber að garði og allt stefnir í frábæra stemmningu. Þangað til menn átta sig á að ískaldan bjórinn vantar og vínbúðir harðlæstar. Stemmningin lamast. Ó, hvað væri þá gott að geta skotist út í næstu búð eftir nokkrum bjórkippum.

Jens Guð, 23.9.2014 kl. 21:32

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm skil það vel, en þetta er svo sem í lagi á stærri stöðum en ekki í þeim smærri. Við munum aldrei verða samkeppnisfær um úrval úti á landi, nema að áfengisbúðirnar haldi sínu og síðan verði bjór og léttvín selt annarsstaðar. Annars gengur dæmið ekki upp.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.9.2014 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband