Bónus blekkir neytendur gróflega

konfekt

  Netmiðill Atla Fannars Bjarkasonar, Nútíminn,  vekur í dag athygli á því að í verslunum Bónus sé nú fyrir jól á boðstólum Bónus-konfekt í kílóa öskjum.  Svo einkennilega vill til að umbúðirnar eru stæling á kílóa öskjum af konfekti frá Nóa  (http://nutiminn.is/bonus-konfekt-likist-noa-konfekti-neytendastofa-kannar-malid/ ).  Ekki aðeins er framhlið umbúða stæling heldur líka er lögun (stans) kassans sá sami.    

  Á vesturlöndum er neytendavernd víðast í þokkalegu horfi.  Ódýrar eftirlíkingar af hágæðavörum eru ólöglegar.  Þegar gengið er svo langt með eftirlíkinguna að hún er skreytt vörumerki fyrirmyndarinnar þá er hún ekki tollafgreidd heldur fargað.  Jafnframt er innflytjandinn sektaður.

  Í öðrum tilfellum kemur til kasta Neytendastofu eða systurstofnana hennar að taka snöfurlega á eftirlíkingadæmum.  Oft í kjölfar þess að Neytendasamtök eða systursamtök hafa skoðað málið og fellt sinn úrskurð.

 Hérlendis hafa Neytendasamtökin staðið sig með prýði í svona eftirlíkingamálum.  Það sama verður ekki sagt um Neytendastofu.  Nægir í því sambandi að benda á að til fjölda ára hefur heildsalan Eggert Kristjánsson ehf fengið átölulaust að selja ódýrt hvítt ginseng í umbúðum sem eru stæling á umbúðum Rauðs Eðal Ginsengs.  Og það þrátt fyrir ítrekaðar kærur og ábendingar um vörusvik og augljósar blekkingar varðandi innihaldslýsingar,  vöruumbúðir og margt fleira.

 Vörusvik hafa þann eina tilgang að svindla á neytandanum.  Blekkja hann til að kaupa lakari vöru.  

  Hver er ávinningur seljandans af því að blekkja viðskiptavini til að kaupa lakari vöru?  Hann er fjárhagslegur gróði.  Lakari varan er miklu ódýrari í framleiðslu (ódýr og léleg hráefni notuð í stað dýrra hágæða hráefna). Það stundar enginn svona svindl nema verðmunur sé mikill.  Þess vegna getur svindlarinn jafnan verðlagt svikavöruna aðeins lægra verði en fyrirmyndina.  Viðskiptavinurinn er þess vegna ginnkeyptari út á það eitt.  Hann telur sig hafa komið auga á hagstæðara verð á vörunni.  

  Fyrirtæki sem framleiða og selja ódýrar eftirlíkingar afhjúpa eðli sitt og viðhorf gagnvart viðskiptavininum.  Viðskiptavinurinn er ekki annað en tækifæri til að svindla á.  Í lok dags er salan gerð upp og hlegið að viðskiptavininum alla leið í bankann.

---------------------------

  Í þessi samhengi má rifja upp að Atli Fannar var söngvari yndislegrar hljómsveitar,  Haltrar hóru:  

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér brá þegar ég sá að þú notar sama bakgrunnslit og uppsetningu á bloggið þitt og Ómar Ragnarsson. Sá að ég hafði villst illilega. Annars minnir mig að kassar Nóa hafi verið hvítir og síðan svartir án myndar gegnum árin meðan Bónus var með svarta með mynd. Hagkaup notar svarta Nóa kassa án myndar í vefverslun sinni, sennilega ekki búnir að fá mynd af nýju útgáfunni. Því er engu líkara en Nói sé að stæla Bónus.

Davíð12 (IP-tala skráð) 5.12.2014 kl. 01:04

2 identicon

Gæti verið að Nói framleiði konfektið fyrir Bónus, og þetta sé einfaldlega samningur á milli fyrirtækjanna.En slíkir framleiðslusamningar eru nú nokkuð algengir hjá Bónus. Þú verður að kanna málið alla leið áður en farið er af stað með gasprið. Hver hannaði umbúirnar og hver framleiðir og svo framvegis.

Bárður (IP-tala skráð) 5.12.2014 kl. 07:53

3 identicon

Nóa-konfekt er alltaf best

Stefán (IP-tala skráð) 5.12.2014 kl. 08:35

4 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Af myndinni að dæma þá virðist þetta vera Lindu konfekt. 

Sigríður Jósefsdóttir, 5.12.2014 kl. 20:03

5 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Hvað sem allri umræðu um eftirlíkingar og framleiðslusamninga viðkemur, þá er Neytendastofa liðónýtt fyrirbæri.

Erlingur Alfreð Jónsson, 5.12.2014 kl. 20:21

6 Smámynd: Jens Guð

  Davíð12,  ég kynnti mér málið áður en ég skrifaði þessa bloggfærslu.  Enda er alvarlegt að saka Bónus um vörusvik.  Að vísu hefði mér dugað að vísa til fréttarinnar á Nútímanum.  En ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig og gekk úr skugga um veigamikil atriði.  Það hefur ekkert með málið að gera hvort að konfektkassar Nóa hafi verið hvítir á árum áður né að einhver hafi selt konfekt í svörtum kassa.  

  Málið er þetta:  Nóa lætur sérhanna fyrir sig tiltekinn kassa utan um kílóa konfekt.  Nóa lætur sérhanna fyrir sig girnilegt útlit á kassann. Orðið "Konfekt" er áberandi en snyrtilega staðsett efst til vinstri á framhlið.  Mynd af konfektmolum er staðsett neðst til vinstri. Bakgrunnur og allur kassinn er svartur.  Svartur litur er einkennislitur Nóa konfekts.

  Áður en Bónus hermdi eftir Nóa konfekti var kassi Bónus konfekts rauður.  Svo skyndilega er hann svartur og algjör eftirlíking af kassa Nóa.  Hver einasta hlið kassans höfð í sömu stærð og Nóa kassans.  Nafnið "Konfekt" staðsett á sama stað.  Mynd af konfektmolum á sama stað niður til vinstri og svo framvegis.  Þarna er um augljósa og hrópandi stælingu og blekkingu að ræða.  Eins og sést á ljósmyndinni efst þá getur ekki einu sinni heimskasta manneskja í mestri afneitunneitað því.         

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 22:48

7 Smámynd: Jens Guð

  Bárður,  vinsamlegast ekki saka mig um gaspur.  Jú,  þú mátt það alveg varðandi annað en þetta.  Ég er menntaður grafískur hönnuður og vann við fagið í næstum tvo áratugi.  Það er augljóst að umbúðir Nóa konfekts eru hannaðar af fagmönnum.  Umbúðir Bónus konfekts eru klambraðar saman af leikmanni (amatör).  Engu að síður leynir sér ekki að verið er að herma eftir.  Á umbúðum Bónus konfekts kemur fram að eftirlíkingin er ekki framleidd af Nóa heldur Góa.  Enda væri það algjört markaðsklúður af Nóa að framleiða lélega eftirlíkingu af sinni eigin hágæðavöru.  Skaði Nóa af slíku væri slysaskot í fótinn.  Sá sem kaupir eftirlíkinguna verður fyrir vonbrigðum þegar hún stenst ekki samanburð við frumgerðina.  Viðskiptavinurinn fælist vonsvikinn frá og kaupir ekki aftur sömu vöru.   

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 23:02

8 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  ég tel að mér óhætt að taka undir með að það sé almennt viðhorf.  

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 23:03

9 Smámynd: Jens Guð

 Sigríður,  nei,  þetta Bónus konfekt er Góa konfekt.  Ég þekki ekki Góa konfekt (borða aldrei konfekt sjálfur).  En samdóma álit þeirra sem ég hef spurt er að Góa konfekt standi langt að baki Nóa konfekti að bragðgæðum.   

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 23:07

10 Smámynd: Jens Guð

  Erlingur Alfreð,  því miður er ég sammála þér.  Ég hef til 7 eða 8 ára fylgst náið með baráttu Rauðs Eðal Ginsengs við svikna eftirlíkingavöru hvíts ginsengs sem kallast Rautt Kóreskt Ginseng.  Neytendastofa hefur í því máli ekki gert annað en klúðra málum og þvælt málum út og suður.  Látið yfir sig ganga lygar og falsanir og verið í því hlutverki að humma allt fram af sér.  Og einkum að gera ekki neitt.  Það er svo þægilegt að vera í góðu embætti og verja vinnutíma í að hanga á Fésbók og spjalla á kaffistofunni fremur en taka á málum.   

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 23:14

11 Smámynd: Jens Guð

 Ég vil bæta því við að í dag átti ég erindi í Bónus í Kringlunni.  Þar er bretti með Nóa konfekti. Á brettinu er stór auglýsing með texta sem segir eitthvað á þessa leið:  "Kauptu Nóa kg kassa og..." ég man ekki hvort að þar er lofað helgarferð til Florida eða eitthvað álíka.  Nema hvað að þarna hvergi í nálægð sést Nóa kg kassi heldur er þarna þétt við Bónus eftirlíkingin.  Ung stelpa merkt Bónus var á hlaupum.  Ég spurði:  "Hvar finn ég Nóa kg kassann?" Hún svaraði:  "Hann er frammi þar sem brauðið er."  Og mikið rétt.  Ég fór fram að anddyri. Þar var Nóa kassinn fjarri auglýsingunni og fjarri Bónus eftirlíkingunni.  

Jens Guð, 5.12.2014 kl. 23:29

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

 Jú, þetta er sláandi líkar umbúðir.

Bónuskonfektið er frá Lindu, að eg tel og allt öðruvísi en Nóakonfektið, samkvæmt mínum smekk.

Annars hef eg orðið var við að einstaka maður telur að það sé það sama en umbúðir öðruvisi.  Það er auðvitað alrangt.  

En svo er það alveg til að sumum finnist Lindukonfekt best þó meirihlutinn, og  líklega mikill meirihluti, sé hrifnastur af Nóa.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.12.2014 kl. 00:13

13 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki,  eftirlíkingin er ekki Lindu heldur Góa.  Vegna þess að mér þykir konfekt ekkert gott þá hef ég ekki samanburðinn. En mér virðist sem flestir séu sammála um að Nóa konfekt sé besta konfektið.  Það breytir þó litlu um punktinn með þessari bloggfærslu: Um að verið sé að blekkja neytandann og svindla á honum.   

Jens Guð, 6.12.2014 kl. 01:01

14 identicon

Kíló kassi Bónus konfekts var svartur og 700 gramma rauður, báðir með mynd af konfekti og rós maðan Nóa 650 gramma fylltir konfektmolar og kíló konfektmolar voru í hvítum kössum án myndar. Svartur litur er ekki einkennislitur Nóa konfekts enda hafa þeir selt konfekt í hvítum kössum síðan á síðustu öld en svartir komu fyrst 2011, og myndin er ný hjá þeim. Vissulega er Bónus að taka hugmynd Nóa með því að snyrta sína hönnun, en það má einnig segja að Nói hafi tekið hugmynd Bónus sem er eldri. Þó svo að útfærslan sé fallegri hjá Nóa og konfektið betra var Bónus á undan með svarta kíló kassa með mynd af konfekti.

Davíð12 (IP-tala skráð) 6.12.2014 kl. 01:48

15 Smámynd: Jens Guð

  Davíð12,  eftir stendur að ljósmyndin efst á bloggfærslu minni af kílóa kössum Nóa og Bónus sýnir glöggt að Bónus er að herma eftir Nóa.  Verið er að blekkja viðskiptavininn.  Um það snýst málið.     

Jens Guð, 7.12.2014 kl. 00:40

16 identicon

Bónus konfektið er víst Lindu konfekt.  Það kemur því máli svo kannski eitthvað við að Góa keypti hamsana af Lindu og þar á meðal konfektmótin og uppskriftina.  En þótt Góa framleiði Lindukonfektið er það samt Lindukonfekt rétt eins og Lindubuffin eru Lindubuff en ekki Góubuff.

Tobbi (IP-tala skráð) 7.12.2014 kl. 19:54

17 Smámynd: Jens Guð

  Tobbi, bestu þakkir fyrir upplýsingarnar.  

Jens Guð, 7.12.2014 kl. 21:00

18 identicon

Það stendur LINDA á sumum molunum, hefur ekkert ykkar lesið á þá? Það er svo annað mál hver framleiðir þetta núna.

Ingibjörg (IP-tala skráð) 12.12.2014 kl. 17:04

19 Smámynd: Jens Guð

  Ingibjörg,  ég kannaði málið og sá að konfektið er skráð Lindu-konfekt.  

Jens Guð, 12.12.2014 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband