Kynslóðabil forsetaframbjóðenda

  Þegar allt er saman talið voru nöfn um það bil fimmtíu einstaklinga orðuð við framboð til embættis forseta Íslands í komandi kosningum í sumar.  Þetta er álíka fjöldi og sækir um þegar auglýst er eftir starfsmönnum í sendlastarf hjá Dominos pizzum og Subway.  Munurinn er sá að þeir sem sækjast eftir embætti forseta lýðveldisins þurfa að framvísa undirskrift fleiri meðmælenda.  Það er þröskuldur sem reynist mörgum erfiður ljár í þúfu.

  Alveg eins og ég spáði fyrir um eru frambjóðendur til forsetaembættis rétt undir tug þegar til alvörunnar var komið.  Eftirsjá er af sumum sem sprungu á limminu á lokaspretti.  

  Áðan sýndi Sjónvarpið (RÚV) áhugaverða heimildarmynd um forsetakosningarnar 1980.  Þá var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands. Hún atti kappi við þrjá miðaldra karlmenn.  Alla hina vænstu menn og góðan kost.  Að undanskildu því að þeir höfðu hlálega forpokuð viðhorf til embættisins.  Þeir sáu alla vankanta á því að einstæð móðir gæti verið forseti. Forseti yrði að vera karlmaður;  vel giftur konu sem yrði í hlutverki gestgjafa.  Myndi bjóða gestum forsetans upp á kaffisopa og skera handa þeim sneið af randalínu.

  Þessi viðhorf karlpunganna voru komin fram yfir síðustu dagsetningu þegar landsmenn gengu í kjörklefann.  Unga kynslóðin gaf frat í úrelt karlrembuviðhorfin og tryggði Vigdísi glæsilegan sigur. Forsetaferill hennar var farsæll og til fyrirmyndar í flesta staði.  Meðal annars keypti hún eintak af bók sem ég skrifaði 1983,  Poppbókina.  Bókin er reyndar svo vond að ég afneita henni í dag.  En samt.  Flott hjá forseta að kaupa hana í fárviðri pönkbylgjunnar.

  Vigdísi þekki ég ekki persónulega. Þó hef ég skrautskrifað ýmis plögg fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í Háskólanum. En það er afgreitt af öðrum starfsmönnum.  Hinsvegar var ég staddur á Pósthúsi á Eiðistorgi fyrir nokkrum árum.  Sem sveitastrákur frá útjaðri Hóla í Hjaltadal í Skagafirði hef ég aldrei lært biðraðamenningu.  Ég tók ekkert eftir öðrum viðskiptavinum Pósthússins. Tróðst bara framfyrir eins og ég væri Palli einn í heiminum. Bar upp erindi við afgreiðsludömuna.  Þá heyrist í konu sem ég hafði troðist fram fyrir:  "Mikið er gaman að heyra skagfirskan framburð."  Ég leit við. Þetta var Vigdís.

  Hún er vissulega tungumálafræðingur.  Gegnir einhverju slíku embætti eða titli hjá Sameinuðu þjóðunum.  En mikið rosalega er hún næm.  Þó að ég sé fæddur í Skagafirði og alinn þar upp til unglingsára þá hélt ég að hálfrar aldar dvöl í Reykjavík væri búin að þurrka út skagfirskan framburð. Og hver er munur á honum eða húsvískum framburði?  Eða vopnfirskum?

  Vigdís er frábær!  Hún var glæsilegur fulltrúi ungu kynslóðarinnar,  nýrra og ferskra tíma,  frjálslyndis og framtíðarinnar.  

  


mbl.is Maggi Texas er bara mannlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ef bera á saman frambjóðendur dagsins í dag, við Vigdísi, verður orðfall. Vigdís var og er enn, glæsileg.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 22.5.2016 kl. 04:34

2 Smámynd: Jens Guð

Hún var og er Íslands sómi sverð og skj0ldur.

Jens Guð, 22.5.2016 kl. 20:18

3 identicon

Vigdís er fyrirmynd Guðna.

Hefðir um hlýðni forseta gagnvart þinginu er nauðsynlegt.

Ekki síst ef á að taka í gagnið nýja stjórnarskrá sem afnemur fullveldið ...

L. (IP-tala skráð) 26.5.2016 kl. 01:55

4 identicon

Einu sinni sagði Vigga að án EES samnings þá gætu íslendingar ekki menntað sig.

Engin íslendingur getur hinsvegar menntað sig í evrópu nema eiga efnaða foreldra eða þá hreinlega vinna sig inn á kerfið í því landi sem á við. Það getur hinsvegar orðið flókið ...

ÞAð virðast vera ansi áttavilltir einstaklingar sem bera sverðið og skjöldinn, að minnsta kosti berrassaðir og umkomulausir  ...

L. (IP-tala skráð) 26.5.2016 kl. 02:07

5 Smámynd: Jens Guð

L.,  ungir Íslendingar mennta sig í Danmörku.  Þar mennta þeir sig á námslaunum.  Þetta kemur vel út.  Danska samfélagið hefur mikinn ávinning af þessu.  Hámenntaða fólkið sest að í Danmörku til frambúðar.  

Jens Guð, 27.5.2016 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.