Bítlarnir sameinast

  Allir eftirlifandi Bítlarnir (The Beatles) hafa sameinast í baráttu fyrir hertum skotvopnalögum.  Þetta eru Paul McCartney,  Ringo Starr og, já,  Yoko Ono.  Íslandsvinurinn Yoko (með annan fótinn á Íslandi) er ekkja bítilsins Johns Lennons.  Hann var skotinn til bana af geðveikum aðdáanda 1980.  Nítján árum síðar reyndi annar geðveikur aðdáandi að myrða bítilinn George Harrison sofandi í rúmi sínu um nótt.  Honum til lífs varð að árásarvopnið var hnífur en ekki byssa.  Þrátt fyrir stungusár í lungu og hjarta tókst George að yfirbuga árásarmanninn og halda honum þangað til lögreglan tók hann í sína vörslu.  Þökk sé gömlum slagsmálatöktum frá unglingsárum Bítlanna í Liverpool.    

  Áskorun eftirlifandi Bítlanna er beint til bandarískra þingmanna.  Þingmennirnir ku njóta rausnarlegra fjárstyrkja (mútur) frá skotvopnaframleiðendum.  Bítlarnir vilja að skorður verði settar á skotvopnasölu til geðveikra og félagsmanna í hryðjuverkasamtökum á borð við Isis og Al-Kaida.  Þetta er snúið.  Skotvopnasala er arðvænlegur bisness.  Þessir eru góðir viðskiptavinir skotvopnaframleiðenda og skotvopnasala.  

  Þegar Ringo skrifaði undir áskorunina lét hann þess getið að hann væri reyndar hættur að gefa eiginhandaráritanir.  En nauðsyn brýtur lög.  

  Paul og Yoko notuðu tilefnið jafnframt til að senda bandarískum þingmönnum erindi vegna laga um greiðslur til höfunda tónlistar í stafrænu formi og plötuútgefenda.  Þeim þykir halla á höfunda.   


mbl.is Skotárás í Þýskalandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég styð alltaf eftirlifandi bítla í öllu sem þeir gera og segja - Eins styð ég líka verðandi forseta Íslands, Guðna Th.

Stefán (IP-tala skráð) 24.6.2016 kl. 10:32

2 Smámynd: Jens Guð

Til hamingju með forsetann!

Jens Guð, 26.6.2016 kl. 17:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.