Manneskjan er vanþroskuð fram að þrítugu

  Lengi hefur verið skrafað um að unglingur taki ekki út fullan þroska fyrr en átján ára.  Reyndar má hann aka eins og ljón ári fyrr.  Engu að síður fær hann ekki sjálfræði fyrr en átján ára.  Þrátt fyrir það er honum forboðið að kaupa áfengi.

  Samkvæmt tímaritinu Neuron hafa nýjar rannsóknir í Harvard háskóla leitt í ljós að heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en í 30 ára afmælinu.  Þetta getur verið skýring á því hvers vegna margir þráast við að flytja úr foreldrahúsi fyrr en þetta.  Vanþroskinn lýtur að þáttum eins og einbeitingu, athyglisgáfu, ákvarðanatöku, varkárni.  Þetta er ástæðan fyrir því að fyrir þrítugt er maðurinn glanni;  tekur lífshættulegar áhættur.  Finnst hann vera ódauðlegur.  Komist upp með næstum því allt.  

  Þetta er líka ástæðan fyrir því að vandræðagemsar vaxa upp úr glæpahneigð með aldrinum. Hlutfallslega miklu færri yfir þrítugt stunda innbrot, bílaþjófnað og þess háttar.  Ábyrgðarlausustu einstaklingar breytast í ráðvanda og yfirvegaða manneskju á fertugsaldri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála. Mér fannst ég vera orðinn fullorðinn og til í allt þegar ég var tvítugur en þegar ég varð þrítugur þá gerði ég mér grein fyrir að ég var bara krakki þegar ég var tvítugur. Núna er ég að verða 56 og er enn sömu skoðunnar.

Björn J. Guðjohnsen (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 16:24

2 identicon

Svo eru það þeir sem ná stjórnunarstöðum í bönkum hér á landi. Þeir virðast þroskast hratt til baka.

Stefán (IP-tala skráð) 2.3.2017 kl. 17:12

3 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ættli að það fari eftir því hvenær fólk byrjar að vinna hversu fljótt það þroskast?

Ég byrjaði að vinna í frystihúsi þegar ég var 8 ára gamall og skildi mjög fljótlega að Lífið er engin sætabrauðsveizla. 

Náði því mjög fljótt að leggja hart að mér til tvítugs aldurs, give ör take a year or two, í skóla og hafa næstu 50 árin mikið þægilegri og hafa það gott. Það gerði ég.

En bómullar unga fólkið í dag mátti ekki vinna og lærði sama og ekkert um að, það er ekkert jafnræði í lífinu. Og í staðinn fyrir að bómullar kynslóðin fari út að vinna og stofni fjölskyldu, þá hangir bómullar kynslóðin heima á hótel mömmu og rænir peninga frá Pabba Banka. Þvílíkt líf, ef að líf skyldi kalla.

Kem til með að missa góðu þáttanna sem þú Jens Guð og Pétur á Útvarp Sögu hafið verið með annars lagið, ef Góða Gáfaða Fólkinu tekst að koma Útvarp Sögu fyrir kattarnef.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 3.3.2017 kl. 04:51

4 Smámynd: Jens Guð

Björn, ég ætla að flestir geti tekið undir með þér.  Það er að segja við sem erum komnir vel yfir miðjan aldur og lítum til baka.

Jens Guð, 3.3.2017 kl. 17:10

5 Smámynd: Jens Guð

Stefán, það kallast að eldast illa.

Jens Guð, 3.3.2017 kl. 17:12

6 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  þetta er klárlega rétt hjá þér;  að það sé þroskandi fyrir ungmenni að læra á samhengi hlutanna - að verðmæti og lífsgæði verði ekki til af sjálfu sér.  Ég var svo heppinn að fæðast og alast upp á sveitabæ í útjaðri Hóla í Hjaltadal.  Þar tókum við börnin fullan þátt í bústörfum og sáum að hvert verk hafði sinn tilgang.

  Í dag höfum við ótal dæmi af börnum moldríkra poppstjarna, kvikmyndaleikara og fleiri.  Börnum sem hafa aldrei þurft að dýfa hendi í kalt vatn.  Hafa fengið allt upp í hendur fyrirhafnarlaust.  Það eina sem þau þurfa að gera er að finna sér eitthvað til að leika sér með.  Gríðarlega hátt hlutfall þessara barna stríðir við illvígt þunglyndi, eiturlyfjafíkn og allskonar sem veldur ótímabærum dauðsföllum, sjálfsvígum og svo framvegis.

  Takk fyrir hlý orð í garð þáttanna á ÚS. 

Jens Guð, 3.3.2017 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.