Skattabreyting hefur þveröfug áhrif

  Fyrir tveimur árum var virðisaukaskattur á bækur hækkaður;  úr snautlegum 7% upp í virðuleg 11%.  Bók sem áður kostaði 4999 kr. kostar nú 5199 kr.  Skattahækkunin var liður í átaki til að efla bóklestur.  Ekki síst bóklestur ungs fólks.  Þetta átti að vera kröftug vítamínssprauta inn í íslenskar bókmenntir.  Bóksala myndi glæðast sem aldrei fyrr.  

  Talið var fullvíst að fólki þætti óþægilegt að borga ræfilslegt verð fyrir veglega bók.  Fólk hafi metnað til að greiða með reisn ríflega fyrir hana.  Einkum vegna þess að bókin hefur verið ein vinsælasta gjafavara á Íslandi til áratuga.  Gefandi vill láta spyrjast út að hann borgi smáaura fyrir bókagjöf.  

  Einhver skekkja er í dæminu.  Í fyrra hrundi bóksala um 11%.  Í ár er samdrátturinn að nálgast 8%.  Áköfustu talsmenn skattahækkunarinnar kenna komu Costco um.  Þeim er bent á að einungis röskir 2 mánuðir séu síðan það ágæta kaupfélag var opnað í Garðahreppi.  Því er svarað með þjósti að væntanleg koma Costco hafi farið að spyrjast út í fyrra.  Einmitt um svipað leyti og bóksalan tók þessa rokna dýfu sem hvergi sér fyrir enda á.  Að minnsta kosti ekki á meðan Costco varir.

  Er þetta ekki svipaður samdráttur og hjá íslenskum tómatræktendum, jarðaberjasölum og klósettpappírsframleiðendum? spyrja þeir drjúgir og bæta við:  Þetta er allt á sömu bókina lært.  Helst allt í hendur.

  Ég þekki manneskju sem var vön að kaupa árlega um 10 bækur til jólagjafa.  Aðrar 10 til afmælisgjafa.  Líka 5 handa sjálfri sér.  Pakkinn kostaði um 125 þúsund kall.  Eftir skattahækkunina kostar sami pakki 130 þúsund.  Eldri borgara munar um 5000 kr.  Ríkissjóði munar einnig um skattpeninginn sem hann tapar á lestrarátakinu.  Samdrátturinn er mun meiri en skattahækkunin.  Tap ríkissjóðs á því er næstum fimmfalt.  Í stað þess að skila stórauknum tekjum - eins og ætlað var, vel að merkja.

  Ráðamenn - gapandi af undrun - hafa tilkynnt að sett verði saman (hálauna elítu)nefnd.  Hennar hlutverk verður að komast að því hvers vegna lestrarátakið mistókst svona hrapalega.  Það þarf marga fundi, mikið kaffi og gott meðlæti til að finna orsökina.   

         


mbl.is Algert hrun í bóksölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

hvurslags er þetta maður- fólk les FASBÓK   ! það talar ekki- les ekki - sefur ekki- nema skoða FEISIÐ  !!!

Erla Magna Alexandersdóttir, 17.8.2017 kl. 19:40

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Skattmenn Íslands í gegnum árin klikka ekki!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 17.8.2017 kl. 20:28

3 identicon

Nú skil ég af hverju Forlagið er alltaf að auglýsa eftir sölumönnum.

Stefán (IP-tala skráð) 17.8.2017 kl. 22:11

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Jens. Bækur sem skrifaðar eru af allra manns-sorpsins ólíku hliðum og ólíkum viskupennum eru einu mögulegu brýrnar, sem geta fleytt okkur manneskjunum ólíku og andans ríku á milli misskilnings/fáfræði/fordómanna annars óbrúuðu sundanna strendur.

Tölvurnar eru ekki, og geta ekki orðið þær nauðsynlegu, óafmáanlegu og varanlega áþreifanlegu fræðslubrýr milli ólíkra fræðslu/skálda-penna-ritara, sem skinn/pappírsbækurnar hafa verið, eru enn, og munu áfram verða.

Þetta er mín skoðun og sýn um nútímans vanmetnu bókanna skáldskapar/sannsögulegu/fræðslunnar ólíku varðveislunnar málin.

Ég er kannski bara of gamaldags. Annað eins hefur hent gamla, gallaða og mannlega að vera of gamaldags í "nútímanum" ó-tímamælanlega :)

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.8.2017 kl. 23:44

5 Smámynd: Jens Guð

Erla Magna,  vissulega les fólk Facebook.  Eða skoðar að minnsta kosti myndirnar og spilar myndböndin.  Fólk les líka blogg-síður, Fréttablaðið og auglýsingabæklinga frá Rúmfatalagernum.  En þetta flokkast ekki til bókmennta.  Íslendingasögurnar eru ekki lesnar á þessum vettvangi.  Né heldur Harry Potter.

Jens Guð, 18.8.2017 kl. 10:12

6 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  aldrei!

Jens Guð, 18.8.2017 kl. 10:14

7 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  það er þó gott að sölumenn fái vinnu.  Á sama tíma eru ruðningsáhrif samdráttarins þau meðal annars að prentiðnaðurinn tapar verkefnum.  Einnig myndskreytingarmenn.

Jens Guð, 18.8.2017 kl. 10:17

8 Smámynd: Jens Guð

Anna Sigríður,  ævinlega bestu þakkir fyrir þínar skemmtilegu vangaveltur.

Jens Guð, 18.8.2017 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband