Ármúli þagnar

  Framan af þessari öld voru Ármúli 5, 7 og 9 heitasta svæði landsins.  Þar var fjörið.  Í Ármúla 5 (sama húsi og Múlakaffi) var Classic Rock Sportbar.  Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtistaður landsins.  Hundruð manna góndu á boltaleiki á stórum tjöldum.  Tugir pílukastara kepptu í leik.  Danshljómsveitir spiluðu um helgar.  Þess á milli voru hljómleikar með allt frá hörðustu metal-böndum til settlegri dæma.  Málverkasýningar og fleira áhugavert slæddist með.  Inn á milli voru róleg kvöld.  Þá spjallaði fólk saman við undirleik ljúfra blústóna.  Það var alltaf notalegt að kíkja í Classic Rock Sportbar.

  Í næsta húsi,  á annarri hæð í Ármúla 7 var rekinn hverfisbar sem gekk undir ýmsum nöfnum:  Jensen,  Wall Street,  Pentagon (Pentó, Rússneska kafbátaskýlið),  Elvis (Costello),  Bar 108,  Chrystal...  Hverfispöbb með karókí og allskonar.  Mikið fjör.  Mikið gaman.  

  Á neðri hæðinni var Vitabarinn með sveittan Gleym-mér-ei hamborgara og bjór.  Síðan breyttist staðurinn í Joe´s Diner og loks í ljómandi góðan filippseyskan stað, Filipino.

  Í sama húsi en húsnúmeri 9 var Broadway (Breiðvangur).  Stærsti skemmtistaður Evrópu.  Þar var allt að gerast:  Stórsýningar í nafni Queen, Abba og allskonar.  Hljómleikar með Yardbirds, the Byrds, Slade, Marianne Faithful og dansleikir með Geirmundi.  

  Þó að enn sé sama öld þá er hún önnur.  Classic Rock Sportbar hefur breyst í asískan veislusal.  Ég kíkti þangað inn.  Salurinn stóri hefur verið stúkaður niður í margar minni einingar.  Enginn viðskiptavinur sjáanlegur.   Aðeins ungur þjónn í móttöku.  Hann kunni ekki ensku né íslensku.  Við ræddum saman í góða stund án þess að skilja hvorn annan.  Hann sýndi mér bjórdælu.  Það gerði lítið fyrir mig.  Ég hef oft áður séð bjórdælu.  Ég svaraði honum með hendingum úr "Fjallgöngu" Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót upp í mót) og "Þorraþræl" Kristjáns Fjallaskálds (Nú er frost á fróni).

  Ég rölti yfir í næsta hús.  Allt lokað.  Filipino horfinn.  Gott ef löggan lokaði ekki Chrystal fyrir meintan nektardans eða vændi eða hvorutveggja.  Broadway hefur breyst í sjúkrahús,  Klínik.  Allt hljótt.  Ármúli hefur þagnað;  þessi hluti hans.

classic rock sportbarármúli nr 5broadway

         

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Betra væri ef þetta hefði verið 101!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 18.11.2017 kl. 17:09

2 Smámynd: Jens Guð

Segðu!

Jens Guð, 20.11.2017 kl. 08:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband