Önnur plata fyrrverandi borgarstjóra

 

  Það er skammt stórra högga á milli.  Haustið 2016 spratt fram á völl nýr en fullskapaður tónlistarmaður á sjötugsaldri.  Þar var kominn heimilislæknirinn,  fjallgöngugarpurinn,  umhverfisverndarkappinn og besti borgarstjóri Reykjavíkur,  Ólafur F.  Magnússon,  með hljómplötuna "Ég elska lífið".  Bættust þá við á hann titlarnir lagahöfundur, ljóðskáld og söngvari.

  Í lok liðins árs hristi Ólafur fram úr erminni aðra plötu.  Sú heitir "Vinátta" eftir opnulaginu.  Ljóðið er heilræðisvísa; eins og fleiri á plötunni.  Önnur yrkisefni eru m.a. Tyrkjaránið sem svo er kallað (Við Ræningjatanga) og þjóðhátíðarljóð Vestmannaeyja 1932 (Heimaey).  Höfundur þess síðarnefnda er Magnús Jónsson, langafi Ólafs.  Aðrir textar eru eftir ÓLaf.  Hann er sömuleiðis höfundur allra laga.  Meðhöfundur tveggja er Vilhjálmur Guðjónsson.  Sá snillingur sér jafnframt um útsetningar og hljóðfæraleik.  Í tveimur lögum í samvinnu við Gunnar Þórðarson.  Gunni afgreiðir einn útsetningu og kassagítarplokk í laginu "Við Ræningjatanga".

  "Vinátta" er jafnbetri/heilsteyptari plata en "Ég elska lífið".  Er "Ég elska lífið" þó ljómandi góð.  Þar syngur Ólafur aðeins helming laga.  Á nýju plötunni syngur hann öll lög nema eitt.  Í lokalaginu, "Lítið vögguljóð",  syngur Guðlaug Dröfn Ólafsdóttur á móti honum.  Hún hefur afar fagra, hljómþýða og agaða söngrödd sem fellur einstaklega vel að söngrödd Ólafs.  Hann er prýðilegur dægurlagasöngvari.  Syngur af einlægni og innlifun með notalegri söngrödd.

  Lög hans eru söngræn, snotur og hlýleg.  Ljóðin eru haganlega ort og innihaldsrík með stuðlum og höfuðstöfum.  Standa keik hvort heldur sem er án eða með tónlistinni.           

  Tónlistin ber þess merki að Ólafur lifir og hrærist í klassískri tónlist.  Útsetningar eru hátíðlegar,  lágstemmdar og sálmakenndar.  Eitt lagið heitir meira að segja "Skírnarsálmur".  Annað er barokk (Þú landið kæra vernda vilt).  Hið þriðja er nettur vals (Ísafold).  Þannig má áfram telja.

  Eitt lag sker sig frá öðrum hvað varðar útsetningu, flutning og áferð.  Það er "Bláhvíti fáninn".  Þar syngur óperusöngvarinn Elmar Gilbertsson um gamla íslenska fánann.  Hann er rosalega góður og þróttmikill söngvari.  Þenur sig kröftuglega.  Kannski þekktastur fyrir hlutverk Daða í óperunni um Ragnheiði Brynjólfsdóttur.   "Bláhvíti fáninn" er sterkur og hástemmdur ættjarðaróður sem leysir "Öxar við ána" af með glæsibrag.  

  Ég óska Ólafi til hamingju með virkilega góða plötu,  "Vináttu". Hún fæst í verslun 12 Tóna á Skólavörðustíg. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Villi Guðjóns hefur hingað til verið einna frægastur fyrir vinnu á plötum kúreka frá Skagaströnd. Leið Villa getur því ekki annað en legið upp við það að aðstoða þennan fyrrum borgarstjóra, sem á ekkert nema gott skilið fyrir einlagni sína. Og nærvera meistara Gunna Þórðar setur vissan gæðastimpil á verkið.  

Stefán (IP-tala skráð) 5.2.2018 kl. 07:23

2 Smámynd: Jens Guð

Já,  Villi útsetti og spilaði inn á plötur með Hallbirni.  Öllu merkara í ferilsskrá hans er þó að hafa sett saman þungarokkshljómsveitina Frostmark! 

Jens Guð, 7.2.2018 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband