Alþjóðlegi Clash dagurinn

  5. febrúar 2013 brá bandaríska útvarpsstöðin KEXP á leik;  Hún spilaði einungis lög með bresku hljómsveitinni the Clash þann daginn.  Þetta varð the Clash dagurinn.  Dagskráin vakti mikla athygli og gríðarmikla hrifningu hlustenda.  Hlustun á þessa vinsælu útvarpsstöð margfaldaðist.  Fyrr en varði endurtóku aðrar útvarpsstöðvar leikinn.  5. febrúar varð formlegi Clash dagurinn.  Í fyrra og í ár er hann reyndar 7. febrúar.  Það hefur eitthvað með það að gera að hann beri ekki upp á frídag.  Meðal annars vegna þess að 15 ríki og stórborgir halda í dag Clash daginn hátíðlegan sem frídag.  

  Bandaríska Seattle-borg var fyrst til að gera Clash daginn að opinberum hátíðisdegi.  Svo bættist við Washington ríki sem hýsir Seattle-borg. Einnig Washington DC ríki.  Toronto-borg í Kanada er komin með í leikinn.

  Á annað hundrað útvarpsstöðvar víða um heim halda Clash-daginn hátíðlegan; spila einungis the Clash lög.  Þær eru ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig í Póllandi, Argentínu,  Kanada,  Írlandi,  Spáni og Japan. 

  Fyrir nokkrum árum hitti ég poppskríbent frá Seattle.  Hann sagði mér að ímynd útlensks rokks þar á borg sé fyrst og fremst Bítlarnir og the Clash.

   The Clash var önnur tveggja hljómsveita sem leiddi bresku (og alþjóðlegu) pönkbyltinguna 1976/77 (hin var Sex Pistols)  Hún varð eina breska pönksveitin sem náði ofurvinsældum í Amiríku.  Ekki síst í Bandarkjum Norður-Ameríku - þrátt fyrir að útgáfufyrirtæki hennar, CBS,  hafi þráskallast við að selja jómfrúarplötu hennar þar.  Enn í dag á fyrsta plata the Clash met í sölu á plötu í póstkröfu til Bandaríkjanna:  Hátt í hálfa milljón eintaka.  CBS hélt áfram að bregða fæti fyrir the Clash fram á síðasta dag.  Til að mynda gaf CBS út á smáskífu lagið "Remote control" - gegn áköfum mótmælum liðsmanna the Clash sem skilgreindu lagið sem lélegasta uppfyllingarlag jómfrúarplötunnar.  Síðar harðneitaði móðurfyrirtæki CBS í Bretlandi að gefa út lagið "Bankrobber".  Eftir illvígar deilur náðist lending um að útibú CBS í Þýskalandi gæfi lagið út án afskipta breska móðurfyrirtækisins (sem sá ekki einu sinni um heildsöludreifingu á því í Bretlandi).  Ljóst er að the Clash hefði orðið mun stærra nafn á ferlinum ef hljómsveitin hefði notið myndarlegs stuðnings CBS í stað ítrekaðra leiðinda í bland við afskiptaleysi.       

  Að Bítlunum frátöldum hefur engin hljómsveit þróað sína tónlist jafn hratt og í allar áttir frá fyrstu plötum og the Clash. Eftir að hljómsveitin brotlenti illa um miðjan níunda áratuginn og leystist upp hefur vegur hennar vaxið jafnt og þétt.  Til að mynda kraumaði lagið "Should I Stay or Should I Go" á vinsældalistum til margra ára uns það náði 1. sæti breska vinsældalistans 1991. Stærsta tónlistartímarit heims,  bandaríska Rolling Stone, útnefndi "London Calling" sem bestu plötu níunda áratugarins.  Í Bandaríkjunum varð the Clash risa "statium" band.  Spilaði fyrir allt að 140.000 manns á stökum hljómleikum.     

  Vinsældir the Clash eru ofurmiklar í spænskumælandi löndum.  Þar gera ótal hljómsveitir út á lög the Clash.  Ýmsir fleiri hafa gert það gott út á tónlist hljómsveitarinnar.  Til að mynda er margverðlaunað lag M.I.A. "Paper Planes" í kvikmyndinni "Slumdog Millionar" byggt á lagi the Clash "Straight to Hell".  Aðrir hafa gert það gott út á the Clash lagið "Guns of Brixton".  Lengi mætti áfram telja.  

               


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Mikið myndi það gleðja mig að fá einn Trump frían dag!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 7.2.2018 kl. 20:38

2 identicon

Það fyndna er að The Clash sem oft eru sagðir hafa leitt breski punkbylgjuna sendu aðeins eina punkplötu frá sér, þé fyrstu.  The Clash þróuðust ofur hratt frá punkinu og urðu fljótt leiðandi hljómsveit í breska nýbylgjurokkinu. Platan London Calling er meistaraverk, en þrefalda platan Sandinista ! er líka frábær að einum þriðja hluta. Trommuleikarinn Topper Headon var minn uppáhalds hljóðfæraleikari í the Clash. Hann var vel skólaður í jazz og soul tónlist og hafði klárlega mikil áhrif á tónlistarþróun og þær tónlistarstefnur sem The Class fóru út í  s.s. raggea og funk. Hinn frábæri bandaríski trommuleikari Stewart Copeland gerði raunar það sama fyrir nýbylgjurokk tríóð The Police.

Stefán (IP-tala skráð) 8.2.2018 kl. 21:11

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  það verður nokkurra ára bið í að ósk þín rætist!

Jens Guð, 9.2.2018 kl. 01:27

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  Topper Headon var/er mikill snillingur.  Hann samdi "Rock the Casbah" og spilar í laginu á öll hljóðfæri (trommur, bassa og hljómborð) nema gítar.  Þetta varð annað tveggja vinsælastu laga the Clash í Bandaríkjunum og það sívinsælasta.  Liðsmönnum the Clash til ama þá gerði bandaríski herinn það að einkennislagi innrásarinnar í Írak.  Jafnframt voru sprengjurnar sem notaðar voru í innrásinni merktar flennistórri áletrun "Rock the Casbah" til aðgreiningar frá öðrum sprengjum í vopnabúri hersins..

Jens Guð, 9.2.2018 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband