Vönduð og metnaðarfull plata

 - Titill:  Oddaflug

 - Flytjandi:  Kalli Tomm

 - Einkunn:  ****

  Lengst af var Karl Tómasson þekktur sem trommuleikari Gildrunnar.  Fyrir fjórum árum eða svo hóf hann farsælan sólóferil;  sendi frá sér plötuna Örlagagaldur.  Þar kom hann fram sem hörkugóður söngvari og prýðilegt söngvaskáld.  Örlagagaldur varð ein söluhæsta plata þess árs.   Nokkuð óvænt vegna þess að ekkert einstakst lag af henni varð stórsmellur.  Þess í stað var það platan í heild sem hlaut svona vænar viðtökur.

  Oddaflug er önnur sólóplata Kalla.  Eðlilega sver hún sig í ætt við Örlagagaldur.  Tónlistin er í humátt að norrænum vísnasöng í bland við rokkaða spretti.  Þetta fléttast skarpast saman í opnulaginu,  Kyrrþeyrinn andar.  Fyrri hlutinn er ljúfur og áferðarfagur óður til náttúrunnar.  Um miðbik skellur óvænt á kröftugur rokkkafli.  Í niðurlagi taka rólegheitin aftur við.  Útkoman er hið ágætasta prog. 

  Þrátt fyrir rafmagnaða rokktakta er heildarsvipur plötunnar lágstemmdur,  yfirvegaður og hátíðlegur.  Sjö lög af tíu eru frumsamin.  Þar af eitt samið með Tryggva Hubner og annað með Guðmundi Jónssyni.  Hann á að auki annað lag og texta.  Tvö eru eftir Jóhann Helgason. 

  Textarnir hafa innihald og geta staðið sjálfstæðir sem ljóð.  Fjórir eru ortir af Bjarka Bjarnasyni - einn ásamt Guðmundi Jónssyni.  Hjördís Kvaran Einarsdóttir er höfundur tveggja.  Jón úr Vör,  Jón Óskar og Líney Ólafsdóttir eiga sinn textann hvert.  Margir þeirra bera sameiginlegan trega og söknuð,  kasta fram spurningum um óvissa framtíð en boða þó von og trú á ástina.  

  Jóhann Helgason, Íris Hólm og Ingibjörg Hólm Einarsdóttir syngja á móti Kalla í sitthverju laginu.  Þau eru einnig í bakröddum ásamt Kalla sjálfum og fleirum.

  Gítarleikur er í höndum Kalla, Tryggva Hubner,  Guðmundar Jónssonar,  Þráins Árna Baldvinssonar og Sigurgeirs Sigmundssonar.  Hljómborðsleik afgreiða Kjartan Valdimarsson, Jón Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon.  Bassa plokka Jóhann Ásmundsson,  Jón Ólafsson og Þórður Högnason.  Ásmundur Jóhannsson trommar og Sigurður Flosason blær í sax.  Þetta er skothelt lið.

  Umslagshönnun Péturs Baldvinssonar setur punktinn yfir i-ið;  glæsilegt listaverk.

  Vert er að taka fram að platan er frekar seintekin.  Þó hún hljómi vel við fyrstu spilun þá þarf hún að rúlla í gegn nokkrum sinnum áður en fegurð tónlistarinnar skilar sér í fullum skrúða.

oddaflug


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Kalli Tomm er flottur. Báðar hans plötur eru hinar áheyrilegustu og elja hans og dugnaður við eigin útgáfu á sinni tónlist, er aðdáunarverð. Undarlegt þó, hve sjaldan hann heyrist spilaður á öldum ljósvakans, en eins og allir, sem berjast einir og án útgáfurisa og tengsla inn "klíkuna" þekkja, er ekki sama hver maðurinn er. Þessa síðustu afurð Kalla Tomm ættu sem flestir að verða sér út um. Það verður enginn svikinn af því. Til hamingju Kalli, með fantagóða plötu!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 14.1.2019 kl. 01:55

2 Smámynd: Jens Guð

Halldór Egill,  ég tek undir hvert þitt orð.

Jens Guð, 14.1.2019 kl. 02:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.