Drottning sveitasöngvanna hellir sér í rokkið

  Dolly Parton er stærsta nafn kántrý-kvenna.  Hún hefur sungið og samið fjölda sívinsælla laga.  Nægir að nefna "Jolene",  "9 to 5" og "I will always love you".  Síðast nefnda lagið er þekktara í flutningi Whitney Houston.  Fyrir bragðið vita ekki allir að höfundurinn er Dolly.

  Á dögunum fagnaði hún 77 ára fæðingardegi.  Að því tilefni datt henni í hug að söðla óvænt um og hella sér í rokkið.  Ekki seinna vænna.  Hún ætlar að vanda sig við umskiptin.  Gæta þess að verða ekki að athlægi eins og Pat Boone.  Sá sætabrauðskall reyndi um árið að endurheimta fyrri vinsældir með því að skella sér í þungarokk.  Útkoman varð hamfarapopp.

  Rokkplata Dollyar verður ekkert þungarokk.  Hún verður léttara rokk í bland við kraftballöður.  Þetta verða lög á borð við "Satisfaction" (Rolling Stones),  "Purple Rain" (Prince),  "Stairway to heaven" (Led Zeppelin) og "Free Bird" (Lynyrd Skynyrd). 

  Dolly dreifir ábyrgð yfir á gestasöngvara.  Þeir eru:  Paul McCartney, John Fogerty (Creedence Clearwater Revival),  Steven Tyler (Aerosmith),  Pink,  Steve Perry (Journey),  Stevie Nicks (Fleetwood Mac), Cher og Brandi Carlili. 

  Vinnuheiti plötunnar er "Rock star". 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dolly Parton hefur verið að skjóta svona lögum inn á plötur sínar undanfarna áratugi, t.d. Help bítlanna 1979, Stairway To Heaven 2002 og lög frá The Animals, Bon Jovi og Reo Speedwagon. Mér sýnist rokk lagaval hennar núna og eins valið á gestasöngvurum lofa góðu. Það vantar bara klónuðu kindina Dolly til að jarma með, en hún var skírð í höfuðið á söngkonunni og er fallin frá.

Stefán (IP-tala skráð) 29.1.2023 kl. 12:52

2 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir fróðleikinn.

Jens Guð, 29.1.2023 kl. 13:37

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Dolly má nú eiga það að hún er brjóstgóð kona!!

Sigurður I B Guðmundsson, 29.1.2023 kl. 17:48

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  heldur betur!

Jens Guð, 29.1.2023 kl. 18:08

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hún Dollý Parton stimplaði sig heldur betur inn sem drottning countrysins þegar hún söng með Emmilou Harris og Lindu Ronstadt og gaf svo út tvær plötur með þeim.  Sú þriðja var í bígerð þegar Linda Ronstadt greindist með Parkinson sjúkdóminn og þá var platan blásin af.......

Jóhann Elíasson, 29.1.2023 kl. 18:59

6 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  tríó Dolly,  Emmu og Lindu var magnað og vel heppnað.  https://youtu.be/TC-d2AkPqcE

Jens Guð, 29.1.2023 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.