Frábær pönkhátíð

fræbbblarnir1

  Ég var að koma af dásamlegri pönkhátíð á Grand Rokk og er að hlusta á Fræbbblana til að endurlifa skemmtunina.  Það er að verða árlegur viðburður að íslenska pönklandsliðið sameinist í að rifja upp það sem hæst bar í bresku og bandarísku pönkbyltingu áranna ´76 - ´79 með glæsilegri pönkveislu.  Fyrir ári gerði ég grein fyrir skemmtilegheitunum í bloggfærslu: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/468980

  Lagavalið í ár var ekki alveg það sama.  Allar helstu perlur pönksins fengu að halda sér en lög sem tilheyrðu pönkstemmningunni án þess að vera dæmigerð pönklög fengu aukið vægi.  Sem er bara gott.  Það fyllti í heildarmyndina og skerpti á fjölbreytileika:  Nýbylgja úr smiðju Elvisar Costellos,  smá soul-fönk frá Ian Dury,   Marauee Moon  frá Television og svo framvegis.  Samtals 46 lög afgreidd á röskum tveimur tímum.

  Borðfélaga mínum þótti reggí-lögin vera spiluð aðeins of hratt.  Það er sjónarmið út af fyrir sig.  En það var sömuleiðis kostur þegar upp er staðið að flutningur var ekki rígbundinn við nákvæma eftirhermuafgreiðslu.  Upprunaleg sérkenni laganna fengu að njóta sín en einnig sjálfstæð túlkun flytjenda.  Þetta var ekki neitt karíókí heldur íslenskir pönkarar að spila uppáhalds pönklögin með sínu nefi.

  Mér taldist til að um 13 manns hafi tekið þátt í matreiðslunni.  Stundum var ekki alveg á hreinu hver átti að spila á bassa eða trommur eða syngja hvaða lag.  Lagalistinn var ekki afgreiddur í nákvæmlega sömu röð og upphaflegt prógramm sagði til um.  Þetta var dálítið spilað eftir hendinni eða stemmningunni.

  Flest laganna voru spiluð af gamalreyndri þekkingu á lögunum.  Þá rann þetta áreynslulaust í gegn.  Spilagleðin var mikil.  Flytjendur skemmtu sér auðheyranlega ekki síður en áhorfendur.  Nokkur lög voru auðheyranlega minna æfð og báru merki smá fums og óöryggis.  Það gerði dæmið bara meira lifandi.

  Flytjendur voru allir í miklu stuði sem smitaði út í sal.  Þéttastur og kraftmestur var flutningurinn á laginu  Get a Grip on Yourself  frá The Stranglers.  Þar voru 3 gítarleikarar og hljómborð til leiks.

  Niðurlag hljómleikanna náði hámarki þegar Árni Daníel öskraði úr sér lungum og lifur í   White Riot  frá The Clash og Óskar úr Taugadeildinni fylgdi því eftir með  God Save the Queen  frá Sex Pistols.  Valli úr Fræbbblunum - íklæddur bol merktum Stiff Little Fingers - bætti um betur með lögum frá The Ramones og  Janie Jones  frá The Clash.

  Troðfullur salurinn fór á ið í dansi og tók hraustlega undir í söng,  áslætti á borð og klappi.  Hljómleikunum lauk á suðupunkti þegar uppistaðan af flytjendum kvöldsins sameinaðist salnum í flutningi á hinu magnaða lagi  If the Kids are United  frá Sham 69. 

  Hljóðblöndun var góð og mun betri en í fyrra.  Gott var að flest lög voru kynnt.  Þó ég þekki flest þau lög sem flutt voru frá A-Ö þá er ég einn af þeim sem þarf tíma til að koma heilastarfseminni í gang til að kveikja á perunni þegar lag er flutt á annan hátt en upprunaleg útgáfa.  Til að mynda þegar Ingunn Magnúsdóttir söng lög sem voru í upprunalegri útgáfu sungin af karlsöngvara.  Þar fyrir utan er hún flott söngkona eins og aðrir söngvarar kvöldsins.  Stuðbolti á sviði og úti á dansgólfi.      

  Valli söngvari Fræbbblanna var greinilega einskonar hljómsveitarstjóri.  Hann hélt utan um dæmið af röggsemi.  Rak menn upp á svið harðri hendi þegar innáskiptingar voru ekki á hreinu og afgreiddi sitt dæmi sem söngvari og gítarleikari með glæsibrag.    

  Ég færi aðstandendum pönkhátíðarinnar mínar bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun.  Allir flytjendur fóru á kostum allt kvöldið.  Þeir toppuðu hvern annan ítrekað.  Ég er strax farinn að hlakka til næstu pönkhátíðar að ári.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  Ekkert Crass og Dead Kenndys?

Sveinn (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 05:03

2 identicon

Já það er gaman af pönk músík en heldurðu að þetta sé eitthvað sem gæti komið aftur, í þá annarri mynd..

Res (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 11:24

3 identicon

Takk fyrir komuna og skemmtilega grein...

Náðum ekki að bæta Dead Kennedys lagi við, nokkur lög sem duttu út á síðustu metrunum, td. "Sound Of The Suburb".. fórnuðum kannski aðeins að fínpússa og æfa öll lög í botn, fannst skemmtilegra að hafa fleiri...

Annars er hugmyndin að fá fleiri hópa næst, taka amk. tvö kvöld, bæta jafnvel við Ska og (hef ekki betri stimpil en) "síðpunk"...

Þetta eru þau lög sem við hlustuðum á - en það var fullt góðum hljómsveitum á sveimi!

Valgarður Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 13:11

4 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Hvaða vitleysa.

Pönkið kemur ekki aftur, pönkið fór aldrei neitt, það dó aldrei, það hefur þróast, vissulega, en pönkið lifir.

Þessir tónleikar voru hrikalega skemmtilegir.

098D0ED1-6128-B45B-FB83-618C56DAF106
1.02.28

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 5.4.2009 kl. 13:11

5 identicon

Franz ferdinand pönk???? Ekki einu sinni í áttina að pönki. Viðbjóðs tónlist

Eiríkur (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 13:25

6 identicon

Crass áttu víst helling af góðum lögum:

Big A Little A, Nagasaki Nightmare, Bloody Revolutions, Reality Asylum og fleiri perlur.

ekki sé minnst á hið óðauðlega Do They Owe Us a Living?(´cos they fawkin´dew!!!) sem var til í alls konar útgáfum.

Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 14:02

7 Smámynd: doddý

.. ég missti af öllu. ætlaði að koma en varð að sinna sjúkum. þetta hefur greinilega verið frábært úr því betur tókst en síðast. mér líst fantavel á að taka ska með. sammála maack, paunk hefur aldrei dáið, það var diskóið sem dó en þurfti að endurlífga með lyfjum og öllum ráðum. kv d

doddý, 5.4.2009 kl. 15:10

8 identicon

Frábær skemmtun og ég kem pottþétt á næsta ári :)

Röggi (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 17:41

9 Smámynd: Jens Guð

  Sveinn,  eins og Helgi bendir á þá var  So What  frá Crass afgreitt.  Og það æðislega flott. 

  Ég var alveg sáttur við að lag frá Dead Kennedys væri ekki í þessu prógrammi.  Sú ágæta hljómsveit kom til leiks í bláenda ársins 1979 með  California Uber Alles.  En sló ekki almennilega í gegn fyrr en ári síðar með  Fresh Fruit for Rotten Vegetables

  Dead Kennedys lenda því eiginlega fyrir utan þann pakka sem verið var að afgreiða á Grand Rokk.  Einnig vegna þess að Dead Kennedys tilheyrðu - að hluta í það minnsta - bandaríska harðkjarnanum (Black Flag,  Minor Treat...) fremur en pönkinu sem einkenndi byltinguna ´76 - ´79.

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 22:18

10 Smámynd: Jens Guð

  Res,  pönkið hefur aldrei farið neitt.  Þvert á móti hefur markaðshlutdeild þess vaxið jafnt og þétt.  Gruggið (grunge) var/er pönkafbrigði (Nirvana,  Pearl Jam,  Soundgarden...) svo og þetta sem kallast "skate" (Green Day,  Offspring,  NOFX...).  Á hinn bóginn verður kannski ekki aftur svona allsherjar uppstokkun eða bylting eins og varð ´76 - ´79.  Það er að segja þegar allt var stokkað upp á nýtt og jafn afgerandi endurnýjun og endurskoðun á því fyrir hvað rokkið stendur.

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 22:29

11 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  það leyndi sér ekki hvað þið skemmtuð ykkur vel.  Það var einmitt lykillinn að því hvað þetta tókst allt vel.  Stuðið á ykkur flytjendum skilaði sér svo vel til áhorfenda.  Flytjendur og áhorfendur runnu saman í eitt allsherjar partý.  Þetta var frábært!

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 22:33

12 Smámynd: Jens Guð

  Valli,  það hljómar svakalega vel að skipta þessu langa prógrammi upp í 2 kvöld.  Og ekki síður að bæta ska dæmi við og síðpönki.  Ég upplifði þessa hljómleika eins og stóra pönkhátíð og 2ja kvölda dagskrá myndi ramma þetta ennþá betur inn sem þá stóru hátíð sem pönkveislan er. 

  Ég var annars mjög spældur yfir hvað fjölmiðlar voru óvirkir í að kynna pönkveisluna.  Bæði fyrir og eftir.  Á næsta ári er ég til í að leggja hönd á plóg við að virkja fjölmiðla til þátttöku.  Látið mig vita í tæka tíð og ég einhendi mér í "plöggið". 

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 22:53

13 Smámynd: Jens Guð

  Einar Loki,  það fór ekki framhjá mér að þú skemmtir þér vel.  Enda eðal pönkari þó ekki sé síður gaman að heyra þig spila blús. 

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 22:56

14 Smámynd: Jens Guð

  Eiríkur,  Franz Ferdinad,  það er nú það.  Ekki mín bjórdós.  Framhjá því verður þó ekki litið að Franz Ferdinant gerir út á fönk-pönkið sem Gang of Four lagði grunn að.  Gang of Four fór frábærlega af stað en rann illilega út af spori.  Eftir stendur að fyrstu 2 plötur Gang of Four eru eðal.

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 23:02

15 Smámynd: Jens Guð

  Halldór,  ég sá að þú skemmtir þér vel á Grand Rokk.  Ég náði þó ekki að kasta kveðju á þig.  En geri það hér.  Crass var mjög merkileg hljómsveit og átti marga hápunkta.  Ég er ekki anarkisti.  Þannig lagað (er í Frjálslynda flokknum).  En bar virðingu fyrir einlægri hugsjón Crassara fyrir anarkisma.  Ég kynntist liðsmönnum Crass lítillega þegar við stóðum að hljómleikunum  Krefjumst framtíðarí Laugardalshöll.  Frábært fólk.  Eftir stendur að Crass skildi eftir sig helling af flottri músík.  Kominn hátt á sextugsaldur er ég fyrir löngu síðan hættur að velta fyrir mér pólitískum skoðunum rokkara.  Flott pönk er bara flott músík. 

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 23:18

16 Smámynd: Jens Guð

  Doddý,  þú mætir bara að ári og skemmtir þér betur en nokkurn tíma áður.  Diskó er viðbjóður djöfulsins. 

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 23:23

17 Smámynd: Jens Guð

  Röggi,  þú misstir af miklu en nærð að upplifa frábæra skemmtun að ári.

Jens Guð, 6.4.2009 kl. 23:26

18 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég tek undir það að megi stækka þetta...

...og jafnvel troða inn protopönki (sbr New York Dolls, Iggy & the Stooges og MC5) til að gera þetta ennþá skemmtilegra! :-)

Og já... ég skemmti mér alveg aspyrnu vel.

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 7.4.2009 kl. 12:25

19 Smámynd: Jens Guð

  Einar Loki,  nú erum við að fara á flug.  Og kannski langt út fyrir dæmið.  Ég veit hvað þú ert áhugasamur um New York Dolls.  Og,  já,  það væri yndislegt að heyra lög með The Stooges og MC5 með í pakkanum.  Utangarðsmenn voru með  Stooges á prógrammi sínu.  Fyrir mörgum árum nefndi ég við Krumma í Mínus að ég teldi mig heyra bergmál frá Utangarðsmönnum í stöku lagi hjá Mínusi.  Krummi benti mér á að það væri ekki bergmál frá Utangarðsmönnum heldur væru þessar tvær hljómsveitir að bergmála Stooges og MC5.

Jens Guð, 8.4.2009 kl. 22:40

20 identicon

Sæll

Hvað ertu gamall

Gretar (IP-tala skráð) 9.4.2009 kl. 03:10

21 Smámynd: Jens Guð

  Gretar,  ég er kominn vel á sextugsaldur og nálgast óðfluga ellilífeyrisaldurinn.

Jens Guð, 9.4.2009 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband