17.12.2009 | 19:35
Útdráttur úr skemmtilegri og fróðlegri bók - annar hluti
Í gær birti ég - með leyfi útgefanda - útdrátt úr bókinni Niðri á sextugu. Það vakti mikla ánægju. Enda sagan hressileg og gamansöm. Þess vegna er ekki um annað að ræða en halda áfram þar sem frá var horfið. Hér kemur annar hluti. Góða skemmtun!
Pillsburys Best
Ein af mergjuðustu Austragreinum Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum á sinni tíð bar yfirskriftina Pillsburys Best. Kona ein, sem var á framboðslista Alþýðuflokksins við borgarstjórnarkosningar í Reykjavík, hafði ekki annað til saka unnið en að sigra í bökunarsamkeppni sem umboðsmaður Pillsburys Best hveitis hélt um þær mundir. Ritstjórinn ýjaði að því að slík manneskja, sem Pillsbury hafði heiðrað með hrærivél og hveitipoka í verðlaun, myndi sóma sér vel í borgarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn. Nú leyfðist þetta ekki nokkrum manni og mundi vera kölluð argasta karlremba sem það var náttúrlega.
Því er þessi inngangur hafður að vorið 1973 þegar Tryggvi Guðmundsson lögfræðingur kom í bjargið var hann með nýja hvippu sem amma hans, Bjargey Pétursdóttir fyrrum húsfreyja í Hælavík, hafði saumað um veturinn handa drengnum. Hvippan var skjannahvít, gerð úr hveitipoka frá Pillsburys Best. Í fyrstu ferð datt Tryggvi á afturendann í brekkunni undir fíringavírnum og braut flestöll eggin í hvippunni. En hvippan var pottþétt og hélt öllu gumsinu að fyglingnum.
Tryggvi varð allreiður, stóð upp, leysti af sér hvippuna og lét hana falla utan af sér með öllu saman. Hvippan lá þarna í brekkunni síðast þegar menn vitu til. Upp frá því klæddist Tryggvi nethvippunni og ekki voru höfð fleiri orð um hvippuna Pillsburys Best.
Kjöldregnar gallabuxur
Í annan tíma voru þeir félagar að koma úr bjargferð og bar fatnaður þeirra ljóst vitni um það, allur grútdrullugur og illa lyktandi. Á heimstíminu tekur Tryggvi eftir því að Kjartan er að bjástra við að setja festingar í strenginn á gallabuxum sínum og bindur síðan í snæri. Lokaði buxnaklaufinni vandlega og henti síðan buxunum fyrir borð. Dró þær svo nokkra hríð á eftir bátnum og þegar honum fannst nóg dregið innbyrti hann fatið.
En með því að eggjalögur, fugladrit og annar almennur skítur úr bjarginu er sterk blanda vildu buxurnar ekki hreinkast. Kjartan hugsaði sig lengi um en fór síðan niður í lúkar og hafði þá fest handsápu á stagið svona hálfum metra framan við buxurnar. Var nú kastað aftur og buxurnar kjöldregnar inn allt Ísafjarðardjúp og inn undir höfn á Ísafirði. Voru þær þá orðnar tandurhreinar því handsápan hafði myndað löður sem gekk gegnum flíkina. Sáu menn nú fyrir sér að lítið yrði að gera fyrir þvottavélar á flotanum þar sem ný aðferð hafði verið fundin upp til að vaska gallana. Kjartan Sigmundsson var nefnilega frjór og hugmyndaríkur og hafði gaman af hvers kyns tilraunum.
Kjartan hvað hættast kominn
Gamlir sjóarar, sem hafa marga ölduna stigið, gera flestir lítið úr lífsháska sínum og muna ekki mikið eftir brotsjóum fyrri ára þegar öllu nema mönnum skolaði útbyrðis. Kjartan Sigmundsson gerir ekki heldur mikið úr lífsháskum sínum í Hælavíkurbjargi og Hornbjargi, enda þótt ýmsir hefðu talið hann í stöðugum háska þarna í björgunum. Þó er eitt atvik sem honum er ofarlega í sinni þótt liðin séu rúmlega sextíu ár frá atburðum og er lítillega getið hér að framan. Hann var þá við störf suður við Faxaflóa, en römm er föðurtúnataugin og í sumarleyfi sínu 1945 fór hann vestur að Hornbjargsvita, þar sem foreldrar hans bjuggu, ásamt frænda sínum Kjartani Guðmundssyni sem var fæddur og uppalinn á Búðum í Hlöðuvík. Þarna dvöldust þeir frændurnir í góðu yfirlæti í nokkra daga og nutu veðurblíðunnar á Ströndum. Einn daginn fóru þeir út í Stórubrekkuhillu í Hornbjargi að snara fugl. Til þess var notuð fuglastöng sem var með lykkju á endanum. Þetta var létt bambusstöng, en báðar hendur þurfti á stöngina þegar fuglinn var snaraður og lykkjan herti að höfði hans.
Kjartan sest nú á þúfu framarlega í brekkunni og dingla fætur fram af. Fer svo að bera sig til við að snara fugl. Fara verður afar varlega svo fuglinn styggist ekki því þá flýgur ekki bara fyrirhugaður fugl heldur líka allt næsta nágrenni og færa verður sig á annan stað. Með mikilli stillingu hafði Kjartani tekist að koma snörunni niður yfir hálsinn á foglinum, en í sama vetfangi og hann ætlar að kippa í stöngina og herða að hálsi fuglsins losnar þúfan sem hann situr á. Sleppir náttúrlega stönginni um leið og hún stingst fram af hengifluginu með fuglinn fastan í snörunni. Var nú líkt á komið með Kjartani Sigmundssyni og Þorgeiri Hávarssyni í Hornbjargi forðum nema Kjartani tókst að grípa í jurt af grasaættinni en Þorgeir hélt dauðahaldi í graðhvannarnjóla sem er ögn ofar settur í flórunni en grasið. Báðar urtirnar gerðu þó sitt gagn við að bjarga mannslífum og gat Kjartan híft sig upp á grastónni. Þormóður Kolbrúnarskáld barg hins vegar Þorgeiri fóstbróður sínum upp á bjargbrúnina án þess þó hann bæði um hjálp sem ekki var samboðið virðingu hans og hetjuskap. Varð samvera þeirra fóstbræðra ekki söm eftir lífgjöfina.
Allt gerðist með svo miklum flýti í dæmi Kjartans að hann segist ekki einu sinni hafa haft tíma til að verða hræddur, hvað þá að eitthvað flygi gegnum huga hans. Nafna hans Guðmundssyni brá aftur á móti illilega enda gat hann ekkert að gert annað en að horfa á atburðarásina og vona það besta. Ekki sannaðist þarna hið fornkveðna að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Hælavíkurfólkið hefur einatt verið dálítið dómhart hvert um annað og erfitt að fá álit þess á því sjálfu svona manna í millum. En hvernig bjargmaður var Kjartan Sigmundsson? Að því er Arnór Stígsson spurður þá orðinn áttatíu og átta ára gamall.
,,Hann var þrælflinkur í bjargi en talinn svolítið djarfur; maður heyrði þær sögur af honum. Hann hlaut líka að vera flinkur úr því hann lenti aldrei í neinu slysi öll þessi ár sem hann var í bjargi.
Svo bar það við eitt sinn að fara þurfti yfir hættustað mikinn í Hvolfinu. Ofurhugar gefa sig jafnan fram til slíkra verka og var Hallgrímur, sem jafnan er kallaður Lalli, strax fús fararinnar. Þarna voru skörð í þræðingana og mjórra á einum stað en öðrum. ,,Þurfti allt að því að nota miðflóttaaflið þegar maður hljóp, segir Hallgrímur, ,,og auðvelt að klúðra því; þá var það búið. Gamli maðurinn kvað þá upp úr með það að Lalli færi ekki. Hann hafði lokið stúdentsprófi og fyrsta ári í læknisfræði og sagðist Kjartan ekki vilja missa þarna heilt ár í læknisfræði niður í fjöru. Sagnamenn úr Hornbjargi orðuðu þetta öðruvísi; Kjartan hefði sagt að Lalli væri orðinn of dýr og gildir einu um orðalagið, meiningin var sú sama. Kjartan Sigmundsson bar virðingu fyrir menntun, en hennar hafði hann ekki sjálfur notið formlega.
Fæðingarstofnun, kirkja og kálfsmagi
Einangrað sveitabýli var altæk stofnun þar sem húsbændur skipuðu fyrir verkum og frjálsræði svokallað á nútímavísu var lítið. Enda datt engum í hug að vera með eitthvert múður eða skella hurðum og fara út í fússi. Hvert átti svo sem að halda? Hver hafði sitt hlutverk og vissi að hverju hann gekk og ekkert meira um það. Öll fjölskyldan bar ábyrgð á því að hún skrimti áfram og nóg væri að borða. Eiginlega voru margar stofnanir í einni í Hælavík. Ein var fæðingardeild þar sem hagleiksmaðurinn Sigurður var ljósmóðir og fæðingarlæknir þegar ekki náðist til ljósmóður. Einnig var hann héraðsdýralæknir staðarins. Hann rak líka tæknifyrirtækið í plássinu og endaði með því að láta Bæjarána knýja rennibekk sinn sem hann smíðaði nýtt hús yfir uppi með ánni. Hælavíkurbærinn breyttist stundum í kirkju og á heimili Kjartans tók Sigmundur faðir hans að sér hlutverk prestsins, en móðir hans var kirkjukórinn. Hælavík var ekki síst barnaskóli þar sem börnin lærðu að lesa og draga til stafs. Aðalkennari Kjartans var Sigmundur faðir hans og þá urðu börn síst ólæsari með bandprjónsaðferðinni en þau urðu síðar með útlendum formúlum. Á bænum var líka rekin matvælavinnsla í tengslum við landbúnað og eggjatekju með langa hefð í að súrsa egg og salta fugl svo eitthvað sé nefnt. Fiðurgerð vortímann þegar allur fugl var plokkaður og fiðrið söluvara. Smér strokkað og skyr hleypt með maganum úr kálfinum, og slíkt skyr engu líkt í veröldinni. Úrvinnsla sláturafurða upp á líf og dauða á haustin í stóru iðnaðareldhúsi með pott á hlóðum undir berum himni. Þvottahús var rekið og keppur aðalverkfærið og skolunarprógrammið í bæjarlæknum endalaust. Ullarverksmiðjan Framtíðin var við Frakkastíg í Reykjavík og önnur norður á Gleráreyrum á Akureyri. Hefðu eins getað verið í Ástralíu. Því þurfti að starfrækja ullarverksmiðju í Hælavík og vélar framleiddar á staðnum sem voru forláta rokkar Sigurðar skipasmiðs. Búsáhaldadeildin var líka undir forstöðu Sigurðar. Það var langt til Þórðar úra á Ísafirði og því var úrsmíðavinnustofa rekin í Hælavík og úrmakarinn sjálflærður á bænum. Hvorki kola- né olíuskip lagðist inn á Hælavíkina með orkugjafa. Það þurfti bara að líta í kringum sig. Atlantshafið sendi þeim rekann alla leið frá Síberíu og ármilljónirnar höfðu framleitt mó úr jurtaleifum sem bara þurfti að stinga og þurrka. Orkulindirnar voru á staðnum og bóndinn eigin orkumálaráðherra.
Gjaldeyrir Hælavíkur var í lömbum sem send voru til slátrunar og innleggs á Ísafjörð á haustin, eitthvað fékkst fyrir svartfuglsegg og fiður og svo náttúrlega komu einhverjir aurar inn fyrir rokka og aðra smíð Sigurðar skipasmiðs. Annað var það nú ekki.
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Lífstíll, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:36 | Facebook
Athugasemdir
Mikið svakaleg er þetta gríðarlega leiðinleg og niðurdrepandi lesning! Þetta er hreinn viðbjóður!
Siggi Lee Lewis, 17.12.2009 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.