Tónlist örvar og eflir

  Fátt er hollara en tónlist. Hún er hollari en möndlur og döðlur.  Þetta hefur verið rannsakað í Suður-Kaliforníu Háskóla í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Rannsóknin hófst 2012.  Fylgst var með hópi barna sem þá voru 6 og 7 ára gömul.  Þriðjungur þeirra var settur í tónlistarnám.  Annar þriðjungur var látinn stunda tuðruspark.  Afgangurinn hafði ekkert sérstakt fyrir stafni.  

  Rannsakendur fylgdust með rafvirkni heilans,  framkvæmdu hegðunarpróf og fylgdust með breytingum á heilalínuritum.  Það var eins og við manninn mælt:  Tónlistarfólkið þroskaðist mun hraðar og betur en hinir.  Lesskilningur þeirra tók gríðarmiklum framförum,  sem og málþroski,  tónheyrn og tjáningargeta.  

  Þetta er ástæðan fyrir því að tónlistarfólk er betur gefið og betur gert á flestum sviðum en gengur og gerist.  Þetta er jafnframt ástæða fyrir því að skólayfirvöld eiga að huga að tónlistarkennslu barna strax í 1.bekk.  Eða strax í leikskóla.  Hún er þjóðhagslega hagkvæm.

     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband