Stórbrotin hrollvekja

 - Titill:  MARTRÖÐ Í MYKINESI - íslenska flugslysið í Færeyjum 1970

 - Höfundar:  Magnús Þór Hafsteinsson og Grækaris Djurhuus Magnussen

 - Útefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Eins og kemur fram í titlinum þá segir bókin frá hræðilegu slysi er íslensk flugvél brotlenti í Færeyjum fyrir hálfri öld.  Hún lenti á lítilli einangraðri og fámennri klettaeyju,  Mykinesi. Um borð voru þrjátíu og fjórir.  Átta létust.  Margir slösuðust illa.  

  Aðstæður voru hrikalegar;  blindaþoka, hávaðarok og grenjandi rigning.  Flak vélarinnar fannst ekki fyrr en mörgum klukkutímum síðar.  Aðstæður við björgunaraðgerðir voru hinar verstu í alla staði.  Að auki höfðu fæstir björgunarmanna reynslu af björgunarstörfum.  Þeir unnu þrekvirki.  Því miður hafa Íslendingar aldrei þakkað þeim af neinum sóma.

  Bókin er afskaplega vel unnin.  Ráðist hefur verið í gríðarmikla heimildarvinnu.  Lýst er tilurð flugfélagsins og öllum aðdraganda flugferðarinnar til Færeyja.  Við fáum að kynnast mörgum sem komu við sögu.  Þar á meðal eru ný viðtöl við suma þeirra. Fjöldi ljósmynda lífgar frásögnina.            

  Forsaga slyssins og eftirmálar gera það sjálft mun áhrifaríkara.  Öllu sem máli skiptir er lýst í smáatriðum.  Þetta er hrollvekja.  Lesandinn er staddur í martröð.  Hann kemst ekki framhjá því að þetta gerðist í raunveruleika.

Martröð í Mykinesi   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég spái því að næsta bók þessa frábæra höfundar muni líka verða stórbrotin hrollvekja og fjalla um drykkfeldan ráðherra sem þurfti að segja af sér eftir að hafa þverbrotið sóttvarnarlög í hópi siðlausra arðræningja. 

Stefán (IP-tala skráð) 24.12.2020 kl. 10:37

2 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  drykkfelldir ráðherrar segja ekki af sér á Íslandi.

Jens Guð, 31.12.2020 kl. 13:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband