Íslendingar verðlaunaðir í Ameríku

  Woody Guthrie (1912-1967) er stundum kallaður faðir bandarísku þjóðlagatónlistarinnar (folk music).  Hann var trúbador,  flakkari, söngvari og söngvaskáld.  Hans hljóðfæri voru kassagítar og munnharpa.  Eftir hann liggja mörg hundruð söngvar.  Mörg lög er gleymd.  Aðeins niðurskrifaðir textar standa eftir.      

  Fjöldi rokkstjarna skilgreinir sig sem lærisveina Woodys og hafa hljóðritað lög hans.  Allt frá Bob Dylan og Bruce Springsteen til U2 og Wilco.  Hann söng um lítilmagnann og baráttu gegn fasisma.  Í seinni heimsstyrjöldinni barðist hann með bandaríska hernum gegn Hitler,  Mussolini og þeirra kónum.  Um það orti hann ófáa söngva.  Á gítarinn var letrað stórum stöfum "Þetta tól drepur fasista".

  Í Oklahoma er myndarlegt Woody Guthrie safn.  Árlega heiðrar það - verðlaunar - einhverja sem starfa í anda Woodys.  Á dögunum var Íslendingum og stöllum þeirra í kvennapönksveitinni Pussy Riot afhentur verðlaunagripurinn 2023 sem er smækkuð eftirgerð af gítar Woodys á stalli.  Pussy Riot einbeitir sér að afhjúpun á fasistatilburðum Putins.  Fyrir það hafa stelpurnar verið fangelsaðar í Rússlandi og sætt harðneskjulegri þrælkun.

pussy-riot-woody-guthrie-award


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er þér og Skafta kennara mínum að þakka Jens að ég fór að hlusta á Woody Guthrie. Árið 1980 var ég í 10 ára bekk í Digranesskóla. Þá kom strákur með Ísbjarnarblús í tíma og í stað þess að nemendurnir væru að fylgjast með kennaranum beindist athyglin að umslaginu og skífunni. Eldri bróðir hans átti plötuna, en hann hafði hnuplað henni til að fá athygli, þetta var eitthvað nýtt og töff. Það vildi þannig til að þetta var í íslenzkutíma og kennarinn var umsjónarkennarinn okkar, Skafti Þ. Halldórsson. Hann var svosem ekkert að fara leynt með að hann væri kommúnisti, en hann var vinsæll af okkur krökkunum því hann talaði við okkur einsog jafningja. Í stað þess að reiðast hélt hann fyrirlestur um popp og þjóðlagatónlist. Hann sagði að Megas hefði kennt Bubba allt sem hann kynni og að Bob Dylan hefði kennt Megasi allt sem hann kynni og að við ættum frekar að hlusta á Bob Dylan og Megas því þeir væru betri skáld en Bubbi. 

Ég fór eftir þessu. Þannig að í stað þess að hlusta á Wham og Duran Duran hlustaði ég á þessa meistara. Það var þó ekki fyrren ég eignaðist Poppbókina þína um fermingu sem ég heyrði minnzt á Woody Guthrie. Í plötubúðinni hans Halldórs Inga Andréssonar á Laugaveginum keypti ég plötur með honum. Um tvítugt eignaðist ég stóran kassa með 5 eða 10 plötum með Woody Guthrie, sem Folkways útgáfan gaf út fyrir löngu, upptökur beint með Alan Lomax frá því um 1940. Elli vinur minn seldi mér þennan grip, sem hann hafði fengið að gjöf frá pabba sínum, sem er Ómar Valdimarsson blaðamaður og fleira, sem skrifaði mikið um popptónlist. Elli vissi að ég var trúbador sem hafði mikinn áhuga á Woody Guthrie og Bob Dylan.

Þarna talar Woody Guthrie á milli laga og segir frá ævi sinni. Þannig kemst maður að því að kommúnismi hans var sveitakommúnisminn sem tíðkaðist líka hér á Íslandi, samúð með fátækum og andúð á valdi og kapítalisma. Woody Guthrie ólst upp við mikla fátækt og erfiðleika, hús brunnu oft þarna, skýstrókar komu og skordýraplágur, og margt annað sem plagaði. Andstaða hans gegn fasisma getur hafa vaknað vegna þess að faðir hans var hluti af Ku Klux Klan, samkvæmt Wikipediu og orðum Guthries sjálfs.

Ég geri greinarmun á sveitakommúnisma og glóbalkommúnisma. Sá síðarnefndi er algengari í nútímanum, en sá fyrrnefndi miklu viðkunnanlegri, og tel ég að sveitakommúnismi sé alveg ágætt fyrirbæri, sem er samúð með fátækum og slíkt.

Það eru engar ýkjur að gítar hans var með þessum límmiða, og hann gerði nokkra svona söngva. Þó samdi hann einnig um Jesú Krist og taldi hann kommúnista og verkalýðsfrömuð. Fór það misjafnlega fyrir brjóstið á fólkið.

En Pussy Riot og fasisminn... þetta er allt orðið flóknara í nútímanum. Evrópusambandið og viðurkennd alþjóðasamtök beita fasískum aðferðum og lúmskum til að stjórna og kúga, en það er þó alveg augljóst að Pútín er nær skilgreiningunni einræðisherra, þótt hann hafi verið kosinn.

Ingólfur Sigurðsson, 11.6.2023 kl. 14:09

2 Smámynd: Jens Guð

Ingólfur,  takk fyrir þessa áhugaverðu frásögn.

Jens Guð, 11.6.2023 kl. 14:51

3 identicon

Bob Dylan hlýtur að teljast mesti aðdáandi Woody Guthrie. Ungur að árum leitaði Dylan gamla mannsins og fann hann á geðveikraspítala. Þangað fór Dylan oft í heimsóknir, færði Woody Raleigh sígarettur og söng og spilaði fyrir hann undir veinum sjúklinga á göngunum. Woody sagði Dylan frá kössum fullum af frumortum textum sem væru í kjallara heima hjá fjölskydu sinni á Coney Island og að Dylan mætti gera hvað sem hann vildi við þá. Dylan fór þangað í heimsókn og spurði soninn Arlo Guthrie, þá ellefu ára gamlan um kassana, en Arlo kannaðist ekki við neina kassa í kjallara. Fjörtíu árum seinna komust þessir textar í hendur Billy Bragg og Wilco sem sömdu lög við þá og gáfu út á þremur plötum. Það var Nora dóttir Woodys sem hafði umsjón með því verkefni. 

Stefán (IP-tala skráð) 11.6.2023 kl. 17:27

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir fróðleiksmolana.  Blessaður kallinn var orðinn illa haldinn af geðklofa.  Um tíma hélt hann að hann væri Jesú.  En það var hrörnunarsjúkdómur sem felldi hann.  Hann var að mestu lamaður síðustu árin.

Jens Guð, 11.6.2023 kl. 17:50

5 Smámynd: Jens Guð

https://youtu.be/lOWfCVQBixs

Jens Guð, 11.6.2023 kl. 18:00

6 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Já, Íslendingar koma víða við þó þeir hafi aldrei búið eða tala íslensku.

Sigurður I B Guðmundsson, 11.6.2023 kl. 19:16

7 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  þetta er dáldið snúið.  Eins og Jón Hreggviðsson spurði:  Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Jens Guð, 11.6.2023 kl. 19:48

8 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Varðandi dánarorsök Woody Guthries þá er hún ekki mjög nákvæm hjá þér Jens, en það er rétt að heilsu hans fór mjög hrakandi eftir seinna stríð. Var hann meðal annars greindur með geðklofa, alkahólisma og fjölmargar aðrar greiningar fékk hann. Eru einnig til frásagnir um að hann hafi barið konuna sína oft. (Hann átti reyndar margar konur, þrjár). Það lærði ég af Megasi, og kom fram í útvarpsþáttunum sem Megas gerði á Rás 2 um Woody Guthrie og fleiri tónlistarmenn um 1989, og Trausti Jónsson veðurfræðingur vann þessa þætti með Megasi.

Megas er mjög fróður um þetta. Ég fékk líka að heyra hjá honum plötur sem voru ófáanlegar annarsstaðar, og fékk að taka það uppá spólur stundum.

Það var Huntingtonsveikin sem dró Woody Guthrie til dauða, taugahrörnunarsjúkdómur sem móðir hans var með. (Hrörnunarsjúkdómur, það er rétt). Móðir hans dó á geðsjúkrahúsi úr Huntingtonsveikinni. Hann hætti að ráða við hreyfingar sínar og tal hans var orðið ógreinilegt þegar Bob Dylan heimsótti hann á spítalann. Bob Dylan sagði að stundum hafi einu viðbrögðin verið bros frá hetjunni Woody þegar Bob söng lögin hans. Woody hefur þá verið með hressasta móti þegar hann sagði honum frá kössunum með textunum og öðrum skrifum. Woody Guthrie skildi líka eftir sig teikningar og skyssur, og eina bók að minnsta kosti í óbundnu máli.

Tvær dætur Woody Guthries dóu einnig úr þessum arfgenga Huntingtonsjúkdómi. Hann átti 8 börn alls.

Woody Guthrie var snillingur. Hann breytti þjóðlagatónlistinni á þann hátt að fólk fór að þora að semja eigin lög eftir að hann byrjaði á því. Fram að því voru sömu þjóðlögin sungin af öllum, lítið breytt, aðeins örfáum orðum breytt og tónfalli. 

Woody Guthrie notaði oftast sömu lagboðana eða tónlist, en bjó til nýja texta. Samt er talið að einhver lög séu eftir hann frá grunni. Hann kenndi Bob Dylan að vera óhræddum við að breyta textum við þjóðlög og kalla sína eign. 

Woody Guthrie gerði líka oft veraldlega texta við sálmalög og þau urðu nær óþekkjanleg í hraðari útsetningu hans. 

Ingólfur Sigurðsson, 11.6.2023 kl. 21:19

9 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Talandi um Bob Dylan og Woodwards Guthrie, hér er gamalt og gott SNL grín: 

https://dai.ly/xmanp5

Wilhelm Emilsson, 11.6.2023 kl. 22:32

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Woody Guthrie auðvitað!

Wilhelm Emilsson, 11.6.2023 kl. 22:33

11 Smámynd: Jens Guð

Ingólfur,  bestu þakkir fyrir þennan viðbótarfróðleik.

Jens Guð, 12.6.2023 kl. 08:36

12 Smámynd: Jens Guð

Wilhelm,  takk fyrir skemmtilegt grín.

Jens Guð, 12.6.2023 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband