Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
23.8.2017 | 00:03
Örstutt smásaga um vísitölufjölskylduna
Það er sunnudagskvöld. Fjölskyldan situr inni í stofu. Hver með sinn snjallsíma: Mamma, pabbi, 12 ára sonur og 14 ára dóttir. Enginn hefur sagt orð allan daginn. Skyndilega rýfur mamman þögnina og segir: "Mér finnst eins og ég sé að gleyma einhverju. Ég veit ekki hverju." Hún fær engin viðbrögð. Tveimur klukkutímum síðar endurtekur hún þetta. Dóttirin svarar: "Við höfum ekkert borðað í dag."
Mamman: "Er það?" Sonurinn bætir við: "Við borðuðum ekkert í gær heldur."
Mamman: "Er það rétt? Borðuðum við kannski ekki á föstudaginn? Þið fenguð þó áreiðanlega að borða í skólanum á föstudaginn."
Sonurinn: "Já, ég fékk mat í skólanum á föstudaginn. Síðan hef ég ekkert borðað."
Mamman: "Við höfum gleymt að borða þessa helgi. Við verðum að gera eitthvað í því."
Pabbinn: "Þetta er ekkert mál. Þið krakkarnir fáið mat í skólanum á morgun. Við mamma ykkar fáum okkur heita pylsu með öllu í Costco á morgun. Hún kostar bara 299 krónur þar."
Mamman: "Þetta er í fjórða sinn í þessum mánuði sem við gleymum að borða yfir heila helgi. Við gleymum okkur alltof mikið í snjallsímanum. Við verðum að endurskoða þetta. Þetta gengur ekki svona."
Pabbinn: "Ertu eitthvað verri kona? Við spörum hellings matarkostnað þessar helgar. Nær væri að nota peninginn sem sparast til að kaupa ennþá betri snjallsíma. Við erum hvort sem er ömurlegir kokkar og uppvaskið fer alltaf í eitthvað rugl. Manstu þegar ég skrúbbaði í ógáti með uppþvottasápu óniðursneitt hálft heilkornabrauð? Eða þegar mér skrikaði fótur og ég datt ofan í vaskinn og braut allt leirtauið? Svo var ég allt í einu farinn að þerra diskana með skyrtuhorninu mínu."
Mamman: "Já, þú meinar það. Ég er alveg til í að fá nýjan snjallsíma."
Börnin í kór: "Ég líka!"
.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.8.2017 | 02:17
Lögreglan ringluð
Í Færeyjum læsa fæstir húsum sínum. Skiptir ekki máli hvort að íbúar eru heima eða að heiman. Jafnvel ekki þó að þeir séu langdvölum erlendis. Til dæmis í sumarfríi á Spáni eða í Portúgal.
Engar dyrabjöllur eða hurðabankara er að finna við útidyr í Færeyjum. Gestir ganga óhikað inn í hús án þess að banka. Þeir leita uppi heimafólk. Ef enginn er heima þykir sjálfsagt að gestur kominn langt að kíki í ísskápinn og fái sér hressingu. Það á ekki við um næstu nágranna.
Fyrst þegar við Íslendingar látum reyna á þetta í Færeyjum þá finnst okkur það óþægilega ruddalegt. Svo venst það ljómandi fljótt og vel.
Eitt sinn hitti ég úti í Færeyjum íslenskan myndlistamann. Þetta var hans fyrsta ferð til eyjanna. Ég vildi sýna honum flotta færeyska myndlistasýningu. Þetta var um helgi og utan opnunartíma sýningarinnar. Ekkert mál. Ég fór með kauða heim til mannsins sem rak galleríið. Gekk að venju inn án þess að banka. Landa mínum var brugðið og neitaði að vaða óboðinn inn í hús. Ég fann húsráðanda uppi á efri hæð. Sagði honum frá gestinum sem stóð úti fyrir. Hann spurði: "Og hvað? Á ég að rölta niður og leiða hann hingað upp?"
Hann hló góðlátlega, hristi hausinn og bætti við: "Þessir Íslendingar og þeirra siðir. Þeir kunna að gera einföldustu hluti flókna!" Svo rölti hann eftir gestinum og þóttist verða lafmóður eftir röltið.
Víkur þá sögunni til færeysku lögreglunnar í gær. Venjulega hefur löggan ekkert að gera. Að þessu sinni var hún kölluð út að morgni. Allt var í rugli í heimahúsi. Húsráðendur voru að heiman. Um nóttina mætti hópur fólks heim til þeirra. Það var vinafólk sem kippti sér ekkert upp við fjarveru húsráðenda. Fékk sér bara bjór og beið eftir að þeir skiluðu sér heim.
Undir morgun mætti annar hópur fólks. Þá var farið að ganga á bjórinn. Hópunum varð sundurorða. Nágrannar hringdu á lögregluna og tilkynnti að fólk væri farið að hækka róminn í íbúðinni. Lögreglan mætti á svæðið. Var svo sem ekkert að flýta sér. Hávær orðræða að morgni kallar ekki á bráðaviðbrögð.
Er löggan mætti á svæðið var síðar komni hópurinn horfinn á braut. Lögreglan rannsakar málið. Enn sem komið er hefur hún ekki komist að því um hvað það snýst. Engin lög hafa verið brotin. Enginn hefur kært neinn. Enginn kann skýringu á því hvers vegna hópunum varð sundurorða. Síst af öllu gestirnir sjálfir. Eins og staðan er þá er lögreglan að reyna að átta sig á því hvað var í gangi svo hægt verði að ljúka þessu dularfulla máli. Helst dettur henni í hug að ágreiningur hafi risið um bjór eða pening.
Vinir og fjölskylda | Breytt 17.8.2017 kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2017 | 11:48
Þú getur lengt æviskeiðið um fimm ár
Skemmtileg tilviljun. Ég var að passa yndislegu barnabörnin. Í hamingjuvímunni á eftir rakst ég á grein í tímaritinu Evolution and Human Behaviour. Í henni greinir frá yfirgripsmikilli rannsókn sem var unnin af fimm háskólum í Þýskalandi, Sviss og Ástralíu. Úrtakið var 500 manns á aldrinum frá 70 og upp úr.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddi í ljós að fólk sem passar barnabörn lifir að meðaltali fimm árum lengur en aðrir. Talið er að boðefnið oxytocin hafi eitthvað með þetta að gera. Það er kallað væntumþykju-hormónið. Heilinn framleiðir aukaskammt af því þegar litið er eftir barnabörnunum.
Eins er talið að pössunin þýði mikilvægi þess að gamalt fólk hafi eitthvað fyrir stafni. Finni til ábyrgðar, geri áætlanir, skipuleggi sig og eigi glaðar stundir.
Svona er einfalt og ánægjulegt að lengja lífið um fimm ár. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að virkja vistmenn elliheimila til barnagæslu.
9.6.2017 | 12:44
Nafn óskast
Algengt er að verðandi foreldrar finni nafn á barn sitt löngu áður en það fæðist. Þó hendir einstaka sinnum að ekkert heppilegt nafn finnist. Barnið getur verið orðið töluvert stálpað áður en því er fundið nafn. Núna hefur móðir í Færeyjum auglýst eftir aðstoð við að finna nafn á son sinn. Skilyrðin eru þessi:
- Verður að vera drengjanafn
- Verður að hljóma eins á færeysku og dönsku
- Má ekki vera á lista yfir 50 algengustu drengjanöfn í Færeyjum eða Danmörku
- Stafafjöldi skal vera 3 - 6
- Verður að hljóma vel við nafnið Arek án þess að byrja á A (Arek er nafn eldri bróður hans)
Ef þið hafið góða uppástungu skal koma henni á framfæri í skilaboðakerfinu HÉR
11.5.2017 | 20:50
Íslendingar færa Færeyingum listaverk að gjöf
Í vikunni var listaverkið "Tveir vitar" afhjúpað við hátíðlega athöfn í höfuðborg Færeyja, Þórshöfn. Annika Olsen, borgarstjóri, og Högni Hoydal, þingmaður á færeyska lögþinginu og danska þinginu, fluttu ávörp og Hafnar-lúðrasveitin lék við hvurn sinn fingur.
"Tveir vitar" er gjöf Vestfirðinga til Færeyinga; þakklætisvottur fyrir höfðinglegar peningagjafir færeyskra systra okkar og bræðra til endurreisnar Flateyrar og Súðavíkur í kjölfar mannskæðra snjóflóða 1995.
Bæjarstjóri Ísafjarðar, Gísli Halldór Halldórsson, afhenti listaverkið formlega.
Það er virkilega fagurt og glæsilegt, samsett úr blágrýti og stáli. Höfundurinn er myndlistamaðurinn Jón Sigurpálsson. Hann er einnig kunnur sem bassaleikari djasshljómsveitarinnar Diabolus in Musica.
Á klöppuðum uppreistum steini fyrir framan "Tvo vita" stendur:
TVEIR VITAR
"Þökk sé færeysku þjóðinni fyrir samhug og vinarþel í kjölfar snjóflóðanna í Súðavík og á Flareyri 1995. Frá vinum ykkar á Vestfjörðum."
Færeyingum þykir afskaplega vænt um þessa táknrænu þakkargjöf.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.4.2017 | 10:57
Írsk kjötsúpa
Á borðstofuvegg gistiheimilis sem ég dvaldi á í Belfast hékk innrömmuð uppskrift að írskri kjötsúpu. Eða kannski er nær að kalla hana kjötkássu (stew). Uppskriftin er fyrir sex manns. Hún er skemmtilega einföld og auðveld:
600 ml vatn
600 ml Guinness-bjór
8 saxaðir laukar
8 saxaðar gulrætur
8 niðursneiddar kartöflur
1 kg lambakjöt
Salt, pipar, steinselja og olía
Lambakjötið er skorið í litla bita. Þeir eru brúnaðir í olíu á pönnu. Þessu næst er þeim sturtað ofan í pott ásamt rótargrænmetinu og vökvanum. Mallað undir loki á lágum hita í 8 klukkutíma. Borið fram í djúpum diskum. Kryddinu og steinselju er stráð yfir.
Með uppskriftinni fylgja ekki leiðbeiningar um meðlæti. Mér þykir líklegt að upplagt sé að sötra nokkra Guinness-bjóra á meðan súpan mallar. Einnig að lokinni máltíð. Það skerpir á írsku stemmningunni. Líka lög á borð við "Dirty Old Town".
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.4.2017 | 11:42
Metnaðarlaus aprílgöbb
Á mínum uppvaxtarárum - upp úr miðri síðustu öld - var 1. apríl viðburðparríkur dagur. Fjölmiðlar lögðu mikið í vönduð og trúverðug aprílgöbb. Markmiðið var að láta trúgjarna hlaupa í bókstaflegri merkingu. Inni á heimilum lögðu ungmenni metnað sinn í að láta aðra hlaupa yfir þrjá þröskulda.
Að mörgu leyti var auðveldara að gabba fólk í dreifbýlinu á þessum árum. Dagblöð bárust með pósti mörgum dögum eftir útgáfudag. Þá var fólk ekki lengur á varðbergi.
Í dag er ein helsta frétt í fjölmiðlum 1. apríl að það sé kominn 1. apríl og margir verði gabbaðir. Sama dag eru net- og ljósvakamiðlar snöggir að segja frá aprílgöbbum annarra miðla. Almenningur er þannig stöðugt varaður við allan daginn.
Út af þessu eru fjölmiðlar hættir að leggja mikið í aprílgöbb. Þeir eru hættir að reyna að fá trúgjarna til að hlaupa í bókstaflegri merkingu. Metnaðurinn nær ekki lengra en að ljúga einhverju. Tilganginum er náð ef einhver trúir lygafrétt. Vandamálið er það að í dag eru fjölmiðlar alla daga uppfullir af lygafréttum.
.
![]() |
Aprílgöbb um víða veröld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.2.2017 | 17:47
Tvífarar af sitthvorum kynþætti
Hver kannast ekki við að vera staddur í erlendri borg - eða þorpi - og rekast á kunnuglegt andlit? Ganga að viðkomandi og heilsa með tilþrifum. Við undrunarsvipinn á manneskjunni - og allt að því óttasvip - uppgötvast að þetta er ekki sá eða sú sem þú hélst. Við nánari skoðun er viðkomandi ekki einu sinni af sama kynþætti.
Fræga fólkið á líka svona tvífara. Hér eru nokkur skemmtileg dæmi af George Clooney, Hussein Obama, Nicolas Cage, Schwarzenegger og Rihanna.
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.11.2017 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.2.2017 | 19:27
Af hverju?
Leiðtogi Norður-Kóreu heitir Kim Jong-Un. Hann er klikkaður. Á ekki langt að sækja það. Þetta einkenndi pabba hans og afa. Úr fjarlægð er greining á klikkun hans ekki auðveldlega skilgreind af nákvæmni. Hún einkennist af ofsóknarkennd, vænisýki og einhverju svoleiðis. Vegna þessa nær hann ekki góðum svefni. Eins og gengur. Liggur andvaka flestar nætur. Þjáist líka af þvagsýrugigt. Er leiðandi frumkvöðull í hárgreiðslu sem kallast kústur. Er í fjölmiðlum heimalands skilgreindur kynþokkafyllsti karlmaður heims og vitnað í útlenda "Baggalúts"-síðu því til sönnunnar.
Kim Jong-Un er sakaður um að hafa látið myrða bróðir sinn. Það væri ekki frétt nema vegna þess hvernig að því var staðið. Tvær konur - önnur víetnamísk, hin frá Indónesíu - drápu hann með eitruðum nálum og eiturúða á flugvelli í Malasíu.
Af hverju var hann ekki drepinn í kyrrþey svo lítið bar á? Af hverju að drepa hann í Malasíu? Af hverju að fá til verksins útlendar konur? Af hverju á flugvelli undir vökulum augum eftirlitsmyndavéla? Þessum spurningum verður seint svarað. Vegir Kim Jong-Uns eru órannsakanlegir.
Það ku lengi hafa setið í Kim Jong-Un að bróðir hans fékk í afmælisgjöf á 16. ári ferð í tívolí í Japan. Dagur hefndar hlaut að renna upp. Þar að auki hafði brósi hvatt til þess að í N-Kóreu yrði tekið upp kínverskt markaðskerfi.
Ein tilgátan er sú að morðið eigi að vera skilaboð til allra í Kóreu og allra í heiminum: Enginn sé óhultur og hvergi. Ekki einu sinni nánustu ættingjar Kim Jong-Uns. Hann hefur líka látið drepa háttsettan föðurbróður. Einnig fræga kærustu sem var vinsæl leik- og söngkona. Sú hefur ekki látið það hafa áhrif á feril sinn nema að óverulegu leyti.
![]() |
Myrtur af útsendurum bróður síns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.11.2017 kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)