Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Svínað á Lullu frænku

  Mín góða og skemmtilega frænka úr Skagafirðinum,  Lulla, var ekki alveg eins og fólk er flest.  Oft var erfitt að átta sig á því hvernig hún hugsaði.  Viðbrögð hennar við mörgu voru óvænt.  Samt jafnan tekin af yfirvegun og rólegheitum.  Henni gat þó mislíkað eitt og annað og lá þá ekki á skoðun sinni.

  Hún flutti ung til Reykjavíkur.  Þar dvaldi hún af og til á geðdeild Borgarspítala og á Kleppi í bland við verndaða vinnustaði.  Henni var alla tíð afar hlýtt til Skagafjarðar og Skagfirðinga.

  Aksturslag hennar var sérstætt.  Sem betur fer fór hún hægt yfir.  1. og 2. gír voru látnir duga.  Aðrir bílstjórar áttu erfitt með að aka í takt við hana.  

  Á áttunda áratugnum var mágur minn farþegi hjá henni.  Þá tróðst annar bíll glannalega fram úr henni.  Lulla var ósátt og sagði:  "Þessi er hættulegur í umferðinni.  Hann svínar á manni."

  Mágur minn benti henni á að bílnúmerið væri K.  Þetta væri skagfirskur ökuníðingur.  Lulla svaraði sallaróleg:  "Já, sástu hvað hann tók fimlega framúr?  Skagfirðingar eru liprir bílstjórar!"

Fleiri sögur af Lullu frænku:  HÉR

 


Fjölmiðlar ljúga gróflega

  Íslenskir fjölmiðlar hafa hamrað á því dögum og vikum saman að coronaveiran - Covid 19 - sé komin til allra Norðurlandanna.  Framan af var reyndar hengt við fréttina að Ísland væri undanskilið.  Svo kom veiran til Íslands. 

  Stóra lygin í þessum fréttaflutningi er að veiran hefur ekki borist til Færeyja (í þessum skrifuðu orðum).  Hafa Færeyingar þó hvergi dregið af sér að spígspora um Tenerife og Ítalíu.

  Ólíklegt er að Færeyingar sleppi við veiruna til frambúðar.  Samt.  Færeyingar eru heilsubesta þjóð í Evrópu (og kannski í heiminum?).  Líka hamingjusamasta þjóð Evrópu (og kannski heims?).  Atvinnuþátttaka Færeyinga er sú mesta í Evrópu.  Bæði meðal karla og kvenna.  85,4 Færeyinga, 15 ára og eldri,  vinna sér til gagns og gamans.  Að auki eru Færeyingar frjósamasta þjóð Evrópu.  Þannig mætti áfram telja.  

  Annað en þó þessu skylt.  Samkvæmt óstaðfestum fréttum greindist maður í N-Kóreu með veiruna.  Hann var skotinn með það sama. 

 


Hvaða Bítlar voru nánastir?

 

  Svarið við spurningunni er ekki augljóst í fljótu bragði.  Bítlarnir voru allir afar nánir lengst af.  Þeir voru bestu vinir hvers annars.  Hnífur gekk ekki á milli þeirra.  Þeir heldu hópinn í frítímum;  héngu saman öllum tímum.  Á hljómleikaferðum - eftir að þeir slógu í gegn - fengu þeir sitthvert hótelherbergið en söfnuðust alltaf saman í eitthvert eitt herbergið.  Þar var mikið grínast og mikið hlegið. 

  1957 hélt þáverandi hljómsveit Johns Lennons,  The Quarrymen,  hljómleika í Liverpool.  Hann var 16 ára.  Paul McCartney var nýorðinn 15 ára.  Hann heilsaði upp á John og spilaði fyrir hann nokkur lög.  John hreifst af og bauð honum í hljómsveitina.

  Þeir smullu saman;  urðu samloka.  Hófu þegar að semja saman lög og texta.  Þeir vörðu öllum tímum saman.  Ýmist við að semja eða til að hlusta á plötur.  Þeir voru mestu aðdáendur og fyrirmynd hvors annars.   Áreiðanlega taldi Paul þá vera nánasta.  Sennilega John líka.

  Áður en Paul gekk í The Quarrymen var besti vinur hans George Harrison.  Hann var ári yngri og í sama skóla.  Paul suðaði í John um að fá George í hljómsveitina.  Lengi vel án árangurs.  George fékk þó að djamma af og til með.  Þeir John kynntust,  urðu miklir mátar og hann var fullráðinn í hljómsveitina vorið 1958.

  Innkoma Pauls og George kallaði á mannabreytingar.  1962 gekk Ringo Starr í hljómsveitina.  Þá hét hún The Beatles. 

  Ringo yfirgaf vinsælustu þáverandi hljómsveit Liverpool er hann gekk til liðs við Bítlana.  Þetta var áður en þeir urðu þekktir og vinsælir.  Ringó elskaði að umgangast þá og þeir elskuðu glaðværð hans, húmor og trommuleik.

  Af Bítlunum áttu John og Paul mest saman að sælda.  Þeir sömdu og sungu söngvana,  útsettu tónlistina og réðu ferðinni.  Paul er stjórnsamur, ofvirkur og óþolinmóður.  Það pirraði George og Ringo er á leið og stjórnsemi Pauls óx.  Hann vildi semja gítarsóló George og átti til að spila sjálfur á trommurnar.  1968 gekk Ringo á fund Johns og tilkynnti uppsögn.  Hann upplifði sig utanveltu.  Það tók John tvær vikur að dekstra hann aftur í bandið.  

  Vinátta getur birst í örfínum smáatriðum.  Á myndum standa Bítlarnir jafnan þétt saman.  Iðulega snertast þeir með höndunum.  Þeir eru svo miklir og nánir vinir að þeir gefa hver öðrum ekki persónulegt rými.  Persónulega rýmið nær aðeins yfir hljómsveitina í heild.  Algengast er að John og George séu hlið við hlið.  Svo sem undantekningar þar á.  En við bætist að þegar Bítlarnir ferðuðust þá sátu John og George alltaf saman,  hvort sem var í flugvél, lest eða bíl.  Er Bítlarnir gistu í 2ja manna hótelherbergjum þá deildu John og George alltaf saman herbergi.  Eftir að Bítlarnir hættu voru John og George í mestum samskiptum.  Meðal annars spilaði George á plötu Lennons Imagine.  Hann lýsti yfir löngun til að þeir John myndu stofna nýja hljómsveit og svo framvegis.

bítlarnir please please mebítlarnir hey judeBítlarnir Rubber soulBítlarnir Ticket to rideBítlarnir helpmeet-the-beatlesbeatles for saleBítlarnir VIbeatles-1962-1966-red-albumBítlar - japanBítlarnir Clus Terfuckthe-beatles. ABítlarnir BBítlarnir cBítlarnir d


Skammir

  Ég var staddur í matvöruverslun.  Þar var kona að skamma ungan dreng,  á að giska fimm eða sex ára.  Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu.  Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn:  "Þú hlustar aldrei á mig!"

  Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega:  "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"

barn

 


Dularfullt í Ikea

  Ég átti erindi í Ikea.  Eða réttara sagt gerði ég mér upp erindi þangað.  Ég átti leið um Hafnarfjörð og fékk þá snilldar hugmynd í kollinn að koma við í Ikea og kíkja á veitingastaðinn á annarri hæð.  Ég tek fram og undirstrika að ég hef engin tengsl við Ikea.  Kann hinsvegar vel við verð og vöruúrval fyrirtækisins.

  Eftir að hafa keypt veitingar settist ég sæll og glaður niður við borð.  Á næsta borði var diskur með ósnertum hangiskanka,  meðlæti og óopnaðri Sprite-flösku.  Enginn sat við borðið.  

  Fyrst datt mér í hug að eigandi máltíðarinnar væri að sækja sér bréfaþurrku eða eitthvað annað.  En ekkert bólaði á honum.  Ekki þær 20 mínútur sem ég dvaldi á staðnum.  Þetta er skrýtið.  Ég velti fyrir mér möguleikum:  Hvort að viðkomandi hafi verið geimvera sem var geisluð upp áður en máltíðin var snædd.  Eða hvort að minnisglöp (Alzheimer) hafi komið við sögu.  Þriðji möguleikinn er að útlendur ferðamaður hafi keypt matinn.  Tilgangurinn hafi ekki verið að borða hann heldur taka ljósmynd af honum til að pósta á Fésbók;  sýna vinum og vandamönnum hvernig séríslensk máltíð lítur út.  Hlutverk gosdrykksins hafi þá verið það eitt að sýna stærðarhlutföll. Eða hvað?

skanki    


Smásaga um kærustupar

  Unga kærustuparið gat ekki verið ástfangnara og hamingjusamara.  Það var nýflutt inn í litla leiguíbúð.  Sambúðin var ævintýri upp á hvern dag.  Í innkaupaferð í matvöruverslun rákust þau á gamla skólasystur konunnar.  Þær þekktust samt aldrei mikið.  Skólasystirin fagnaði þó samfundinum eins og þær hafi alla tíð verið æskuvinkonur.  Knúsaði konuna í bak og fyrir.  Spurði frétta og sagði frá sjálfri sér.  Hún flutti til Frakklands en var þarna stödd á Íslandi í örfáa daga.  Vandamálið var að hún hafði ekki áttað sig á hvað gistimarkaðurinn á Íslandi er verðbólginn.   Kostnaðurinn var að slátra fjárhag hennar.   

  "Er smuga að ég fái að gista hjá ykkur í örfáa daga?" spurði hún.  "Þess vegna í svefnpoka á eldhúsgólfinu eða eitthvað?   Það myndi gjörsamlega bjarga fjárhagnum." 

  Unga parið var tvístígandi.  Konan spurði kærastann hvort hann myndi sætta sig við að hún gisti í stofusófanum í nokkra daga.  Hann sagði að það muni ekki "bögga" sig.  Eflaust yrði gaman fyrir þær dömurnar að rifja upp gamla skóladaga.

  Nokkrum dögum síðar fékk kærastan slæmt kvef.  Hún hóstaði heilu og hálfu næturnar.  Kallinn missti svefn og varð eins og uppvakningur í vinnunni.  Á þriðja degi sagði hann við kærustuna:  "Ég get ekki verið svefnlaus í marga daga til viðbótar.  Ég neyðist til að biðja þig um að sofa í stofunni þangað til kvefið er gengið yfir."

  Hún hafði fullan skilning á því.  Vandamálið var hinsvegar að stofusófinn var eiginlega of lítill fyrir skólasysturnar að deila honum.  Um morguninn tilkynnir skólasystirin að hóstinn hafi haldið fyrir henni vöku.  "Ég verð að fá að sofa í svefnherberginu,"  sagði hún.  "Hjónarúmið er alveg nógu breitt til að deila því með kærastanum þínum án vandræða."

  Þetta var samþykkt.  Hóstinn varð þrálátur.  Um síðir hjaðnaði hann.  Kærastan vildi eðlilega endurheimta sitt pláss í hjónarúminu.  Skólasystirin hafnaði því.  Sagðist vera ólétt.  Barnið væri getið í þessu rúmi.  Foreldrarnir væru sammála um að ala það upp í sameiningu sem par.    

  Kærustunni var brugðið við að vera óvænt x-kærasta (fyrrverandi).  Hún lét þó ekki á neinu bera.  Sagði:  "Ég styð það." 

  Skólasystirin varð hægt og bítandi stjórnsöm.  Hún fór að gefa x-inu fyrirmæli:  Það þurfi að strjúka af gólfunum;  nú þurfi að þurrka af.  X-ið sá um eldamennsku eins og áður.  Um helgar fékk hún fyrirmæli um bakstur:  Pönnukökur, vöfflur, ástarpunga og svo framvegis.

  Ef gest bar að garði fékk hún fyrirmæli:  "Skottastu út í búð eftir gosi og kökum."  

  Þegar barnið fæddist fékk hún nóg að gera:  Bleyjuskipti,  böðun,  út að ganga með barnavagninn.  Allan tímann vann hún sem kassadama í matvöruverslun.  Fjármál heimilisins voru sameiginleg.  Heimilisfaðirinn var með ágætar tekjur sem starfsmaður í álverinu í Straumsvik.  Skólasystirin vann aldrei úti.  Eiginlega ekki inni heldur ef frá er talið að hún var dugleg við að vakta sjónvarpið.   Hún fékk einn daginn hugmynd um að heimilið vantaði meiri innkomu.  Þá skráði hún x-ið í útburð á dagblöðum á morgnana.  Benti á að það væri holl og góð hreyfing sem bónus ofan á launin.  Sem er alveg rétt.  

          


Veitingaumsögn

 - Veitingastaður:  PHO Vietnam Restaurant,  Suðurlandsbraut 6,  Reykjavík

 - Réttir:  Grísakótelettur og lambakótelettur

 - Verð:  1890 - 3990 kr.

 - Einkunn: **** (af 5)

  Móðir mín á erfitt með gang eftir að hún fékk heilablóðfall.  Vinstri hluti líkamans lamaðist.  Öllum til undrunar - ekki síst læknum - hefur henni tekist að endurheimta dálítinn mátt í vinstri fót.  Nægilegan til að notast við göngugrind.  Henni tekst jafnvel að staulast afar hægt um án grindarinnar. 

  Þetta er formáli að því hvers vegna ég fór með hana á PHO Vietnam Restaurant.  Hún er búsett á Akureyri en brá sér í dagsferð til borgarinnar.  Henni þykir gaman að kynnast framandi mat.  Ég ók með hana eftir Suðurlandsbraut og skimaði eftir spennandi veitingastað með auðveldu aðgengi fyrir fatlaða.  Vietnam Restaurant virtist vera heppilegt dæmi.  Ég ók upp á gangstétt og alveg að útidyrahurðinni.  Þar hjálpaði ég mömmu út úr bílnum og sagði henni að ég yrði eldsnöggur að finna bílastæði. 

  Mamma var ekki fyrr komin út úr bílnum en ungur brosmildur þjónn staðarins spratt út á hlað, studdi hana inn og kom henni í sæti.  Aðdáunarverð þjónusta.  Þetta var á háannatíma á staðnum;  í hádegi.

  PHO Vietnam Restaurant er fínn og veislulegur staður. 

  Ég fékk mér grillaðar grísakótelettur.  Mamma pantaði sér grillaðar lambakótelettur.  Meðlæti voru hvít hrísgrjón,  ferskt salat og afar mild súrsæt sósa í sérskál.  Á borðum var sterk chili-sósa í flösku.  Við forðumst hana eins og heitan eld.  Þóttumst ekki sjá hana.  

  Réttirnir litu alveg eins út.  Þess vegna er undrunarefni að minn réttur kostaði 1890 kr. en lambakóteletturnar 3990 kr.  Vissulega er lambakjöt eilítið dýrara hráefni.  Samt.  Verðmunurinn er ekki svona mikill.

  Kóteletturnar litu ekki út eins og hefðbundnar kótelettur.  Engin fituarða var á þeim.  Fyrir bragðið voru þær dálítið þurrar.  Vegna þessa grunar mig að þær hafi verið foreldaðar.  Sem er í góðu lagi.  Ég var hinn ánægðasti með þær.  Mömmu þóttu sínar aðeins of þurrar.  Að auki fannst henni þær skorta íslenska lambakjötsbragðið;  taldi fullvíst að um víetnamskt lamb væri að ræða.  Ég hef efasemdir um að veitingastaður á Íslandi sé að flytja til Íslands lambakjöt yfir hálfan hnöttinn.  Nema það sé skýringin á verðmuninum.

  Kóteletturnar,  þrjár á mann,  voru matarmiklar.  Hvorugu okkar tókst að klára af disknum. 

  Að máltíð lokinni sagði ég mömmu að hinkra við á meðan ég sækti bílinn.  Er ég lagði aftur upp á stétt sá ég hvar brosandi þjónn studdi mömmu út.  Annar en sá sem studdi hana inn.  Til fyrirmyndar.

víetnamskar kóteletturPHO Vietnam Restaurantborð á VRyfirlit VR


Nýtt og öðruvísi súkkulaði

  Fátt er hollara og bragðbetra en súkkulaði.  Einkum svokallað suðusúkkulaði.  Fyrirferðarlítill orkubiti í fjallgöngur.  Jafnvel líka í eftirleit.  Verra er að á allra síðustu árum hafa verið blikur á lofti.  Kínverjar eru hægt og bítandi að uppgötva súkkulaði.  Þeir eru fimmti hluti jarðarbúa.  Þegar þeir uppgötva klósettpappír og eldhúsrúllur getum við kvatt regnskógana.

  Óttinn við að Kínverjar klári súkkulaðibirgðir heimsins byggist á smá misskilningi.  Ég ræddi þetta í gær við helsta súkkulaðifræðing Íslands.  Heimsendaspáin gengur út á óbreytta ræktun kakóbaunarinnar.  Hið rétta er að framboð á nýjum ræktarlöndum heldur í við vaxandi eftirspurn.  

  Ennþá skemmtilegra:  Tekist hefur að hanna frá grunni og rækta splunkunýja kakóbaun.  Súkkulaði unnið úr henni hefur ekkert með uppskrift á öðru súkkulaði að gera.  Þetta er alveg nýtt og sjálfstætt súkkulaði,  kallað Rúbin.  Bragðið er súkkulaðibragð en samt mjög "spes".  Til að skynja muninn er ráð að halda fyrir nefið á meðan súkkulaðinu er stungið upp í munn.  Síðan er beðið eftir því að súkkulaðið bráðni á tungunni.  Upplagt að ráða krossgátu eða Soduku á meðan.  Að því loknu er andað með nefinu á ný.  Heillandi og nýstárlegt bragð nýja súkkulaðisins kemur skemmtilega á óvart. 

  Tekið skal fram að ég sé ekki um auglýsingar fyrir Nóa, Síríus, Freyju,  Góu né neina aðra sælgætisframleiðslu.  Engin leynd er yfir því að ég vann í Freyju sumarið 1977.  1980-og-eitthvað hannaði ég einhverjar sælgætisumbúðir fyrir Freyju.  Kannski eru  umbúðirnar um rauðar lakkrísmöndlur enn í umferð?  Síðan hef ég ekki átt nein samskipti við Freyju.  Þar fyrir utan er ekkert sælgæti framleitt í Færeyjum.  Á dögunum hófst þar í fyrsta skipti í sögunni framleiðsla á ís.

chocolate

 

    


Minningarorð um Kristínu Guðmundsdóttur

  Í dag er til moldar borin ástkær skólasystir,  Kristín Guðmundsdóttir í Grindavík.  Við vorum samferða í Héraðsskólanum á Laugarvatni á fyrri hluta áttunda áratugarins.

  Allir strákarnir í skólanum nema einn voru skotnir í Stínu.  Ekki aðeins vegna þess að hún var gullfalleg.  Líka vegna hennar geislandi persónuleika.  Hún var glaðvær,  jákvæð, hlý og afskaplega skemmtileg.

  Nemendum á Laugarvatni var mismunað gróflega eftir kynjum.  Drengjaheimavistir og stúlknaheimavistir.  Stranglega var bannað að flakka þar á milli.  Slík ósvífni kostaði brottrekstur úr skólanum.

  Stína bjó á heimavist sem hét Hlíð.  Nauðsyn braut lög.  Reglur viku fyrir ljúfum eftirmiðdögum um helgar.  Fátt var skemmtilegra en að heimsækja Stínu og vinkonur hennar síðdegis um helgar.  Bara að spjalla saman,  vel að merkja.  Ekkert annað.   Það var góð skemmtun.  Þarna varð til sterk lífstíðarvinátta.

  Fyrir nokkrum árum tókum við skólasystkini frá Laugarvatni upp á því að hittast af og til.  Meiriháttar gaman.  Skugga bar á síðasta endurfund er Stína var fjarri vegna baráttu við krabbamein.  Hennar er nú sárt saknað.  Ein skemmtilegasta og indælasta manneskja sem ég hef kynnst.  Ég er þakklátur fyrir frábær kynni.

 

KristínLaugarvatn


Afi gestrisinn

  V-íslensk frænka mín í Kanada,  Deb Ísfeld,  hefur boðað komu sína til Íslands.  Hún tilheyrir ekki rótgrónu íslensku Ísfeldsættinni.  Langafi hennar,  Guðjón Ísfeld,  tók upp Ísfeldsnafnið er hann flutti vestur um haf í byrjun síðustu aldar.  Margir gerðu það.

  Guðjón var bóndi á Hrafnhóli í Hjaltadal.  Þá bjó Stefán afi minn á Nautabúi í Hjaltadal.  Kindurnar hans fenntu í kaf og drápust.  Við það snöggreiddist afi og hafði vistaskipti við Guðjón frænda sinn. 

  Þegar ég var krakki á Hrafnhóli á sjöunda áratugnum kom Gísli sonur Guðjóns í heimsókn.  Afi var upprifinn af heimsókninni.  Gísli talaði íslensku með enskuívafi.  Er Gísli sat við eldhúsborðið heima tók afi eftir því að kaffibollinn hans tæmdist.  Afi brá við snöggt og sótti kaffikönnuna.  Hún stóð á eldavélarhellu hinumegin í eldhúsinu.

  Afi átti erfitt um gang vegna brjóskeyðingar í mjöðmum.  Utan húss studdist hann við tvo stafi.  Innan húss studdist hann við borð,  bekki og stóla.  Hann fór því hægt yfir með kaffikönnuna.  Í þann mund er hann byrjaði að hella í bolla Gísla spurði pabbi að einhverju.  Gísli svarði snöggt:  "No, no, no!".  Afi hélt að hann ætti við kaffið og væri að segja:  "Nóg, nóg, nóg!".  Afi tautaði:  "Þú ræður því."  Hann brölti með kaffikönnuna til baka.  Gísli horfði í forundran til skiptis á eftir afa og í rétt botnfullan kaffibollann. 

kaffi 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.