Færsluflokkur: Spaugilegt
1.3.2022 | 07:53
Hlálegur misskilningur
Miðaldra íslensk kona var búsett erlendis. Einn góðan veðurdag ákvað hún að fljúga til Íslands til að heimsækja vini og ættingja. Það hafði hún vanrækt í alltof langan tíma. Aldraður faðir hennar skutlaðist út á flugvöll til að sækja hana. Hún var varla fyrr komin í gegnum toll og heilsa honum er hún áttaði sig á klaufaskap.
"Bölvað vesen," kallaði hún upp yfir sig. "Ég gleymdi tollinum!"
"Hvað var það?" spurði pabbinn.
"Sígarettur og Jack Daniels," upplýsti hún.
"Ég næ í það," svaraði hann, snérist á hæl og stormaði valdmannslegur á móti straumi komufarþega og framhjá tollvörðum. Hann var áberandi, næstum tveir metrar á hæð, íklæddur stífpressuðum jakkafötum, með bindi og gyllta bindisnælu.
Nokkru síðar stikaði hann sömu leið til baka. Í annarri hendi hélt hann á sígarettukartoni. Í hinni bar hann Jack Daniels.
Er feðginin héldu af stað til Reykjavíkur sagði konan: "Ég skipti gjaldeyri á morgun og borga þér tollinn."
"Borga mér?" spurði öldungurinn alveg ringlaður.
Í ljós kom misskilningur. Hann hélt að dóttir sín hefði keypt tollvarninginn en gleymt að taka hann með sér. Gamli var svo viss um þetta að hann borgaði ekkert.
Spaugilegt | Breytt 9.4.2022 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.2.2022 | 06:04
Bráðskemmtileg svör barna
Eftirfarandi svör barna við spurningum eru sögð vera úr raunverulegum prófum. Kannski er það ekki sannleikanum samkvæmt. Og þó. Börn koma oft á óvart með skapandi hugsun. Þau sjá hlutina fyrir sér frá fleiri sjónarhornum en kassalaga hugsun fullorðna fólksins.
- Hvar var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð?
- Neðst á blaðsíðunni
- Hver er megin ástæða fyrir hjónaskilnuðum?
- Hjónaband
- Hvað getur þú aldrei borðað í morgunmat?
- Hádegismat og kvöldmat
- Hvað hefur sömu lögun og hálft epli?
- Hinn helmingurinn
- Hvað gerist ef þú hendir rauðum steini í bláahaf?
- Hann blotnar
- Hvernig getur manneskja vakað samfleytt í 8 daga?
- Með því að sofa á nóttunni
- Hvernig er hægt að lyfta fíl með einni hendi?
- Þú finnur ekki fíl með eina hönd
29.1.2022 | 00:41
Töfrar úðans
Ég var að selja snyrtivörur, alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til. Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig. Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray. Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum. Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott. Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.
Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa. Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka. Með jafn góðum árangri. Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.
Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig. Hann vantaði fleiri úðabrúsa. Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn. Allt annað líf. Hann svæfi eins og kornabarn. Að auki væru draumfarir ljúfari.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.1.2022 | 00:06
Spaugilegar sjálfur
Fyrir daga myndsímanna voru ljósmyndir dýrt sport. Kaupa þurfti filmur og spandera í framköllun. Þess vegna vönduðu menn sig við verkefnið.
Í dag kostar ekkert að smella mynd af hverju sem er. Ungt fólk er duglegt að taka myndir af sjálfum sér og birta á samfélagsmiðlum. Í hamaganginum er ekki alltaf aðgætt hvað er í bakgrunni. Enda skjárinn lítill. Þegar ljósmyndarinn uppgötvar slysið er vinahópurinn búinn að gera myndirnar ódauðlegar á netinu. Hér eru nokkur sýnishorn:
- Strákur kvartar undan því að kærastan sé alltaf að laumast til að mynda hann. Í bílrúðunni fyrir aftan sést að stráksi tók myndina sjálfur.
- Einn montar sig af kúluvöðva. Í spegli fyrir aftan sést að hann er að "feika".
- Kauði smellir á mynd af ömmu og og glæsilegu hátíðarveisluborði hennar. Hann áttar sig ekki á að í spegli sést hvar hann stendur á brókinni einni fata.
- Stúlka heimsækir aldraðan afa. Það er fallegt af henni. Hún notar tækifærið og tekur sjálfu á meðan kallinn dottar.
- Önnur dama telur sig vera óhulta í mynd á bak við sturtuhengi. Ef vel er að gáð sést efst á myndinni í gægjudóna. Þetta sést betur ef smellt er á myndina.
- Enn ein er upptekin af sjálfu á meðan barn hennar berst fyrir lífi sínu í baðkari.
- Pabbi tekur mynd af feðgunum. Snati sleppur inn á sem staðgengill hárbrúsks.
- Myndarlegur gutti tekur sjálfu. Ekkert athugavert við það. Nema ef vel er rýnt í bakgrunninn. Þar speglast í rúðu að töffarinn er buxnalaus.
Spaugilegt | Breytt 8.1.2022 kl. 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.12.2021 | 01:07
Sprenghlægilegar ljósmyndir af glæpamönnum
Fá ljósmyndaalbúm eru spaugilegri en þau sem hýsa myndir af bandarískum glæpamönnum. Eflaust eru glæpamenn annarra þjóða líka broslegir. Lögregluþjónar þeirra eru bara ekki eins ljósmyndaglaðir. Síst af öllu íslenskir. Hér eru nokkur skemmtileg dæmi:
25.11.2021 | 01:19
KSÍ í vanda
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.10.2021 | 06:38
Ofbeldi upphafið
Ég horfi stundum á sjónvarp. Í Sjónvarpi Símans hafa árum saman verið endursýndir bandarískir grínþættir sem kallast The king of Queens. Sömu þættirnir sýndir aftur og aftur. Það er í góðu lagi. Ein aðalstjarnan í þáttunum er virkilega vel heppnuð og fyndin. Þar er um að ræða geðillan og kjaftforan náunga sem kallast Arthur. Leikarinn heitir Jerry Stiller. Hann ku vera faðir íslandsvinarins Bens Stillers.
Arthur býr heima hjá dóttur sinni og tengdasyni. Eins og algengt er í svona gamanþáttum þá er konan fögur, grönn og gáfuð. Kall hennar er feitur, undirförull og heimskur. Allt er þetta með ágætum ef frá er talið að ofbeldi er fegrað sem brandarar. Hjónin eiga til að hrinda hvort öðru; konan snýr upp á geirvörtur kauða og kýlir hann með hnefa í bringuna. Þetta er ekki til eftirbreytni og ber að fordæma.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 07:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.10.2021 | 19:15
Smásaga um mann sem týndi sjálfum sér
- Af hverju kemur þú svona seint heim? spurði konan ásakandi um leið og Raggi gekk inn um útidyrnar.
- Ég týndi mér, svaraði hann skömmustulega.
- Hvað meinar þú?
- Ég var að ganga niður Bankastræti þegar ég tók eftir því að ég var kominn fram úr mér. Ég reyndi að halda í við mig en það voru alltof margir ferðamenn sem flæktust fyrir. Að lokum missti ég sjónir af mér.
- Hvaða kjaftæði er þetta?
- Ég sver. Ég varð að ganga hús úr húsi í Austurstræti í leit að mér. Þetta var rosalega seinlegt. Sum húsin eru á meira en einni hæð. Ég var sannfærður um að ég væri þarna einhversstaðar. Ég var kominn alveg að Ingólfstorgi þegar ég fann mig á austurlenskum veitingastað. Ég lét mig heyra það óþvegið og dreif mig heim.
- Veistu, ég trúi þér. Mamma kom áðan í heimsókn og spurði hvar þú værir. Ég sagði henni að þú hefðir áreiðanlega týnt þér í miðbænum.
- Hvernig datt þér það í hug?
- Það var ekkert erfitt að giska á þetta. Þetta hefur endurtekið sig á hverju kvöldi í tólf ár.
Spaugilegt | Breytt 17.10.2021 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.8.2021 | 03:31
Líkamsóvirðing
Sjónvarp Símans er skemmtilegt. Þar eru endursýndir þættir árum saman þangað til öruggt er að áhorfandinn kunni þá utanað. Þannig er haldið þétt utan um hlutina.
Ein áhugaverðasta þáttaserían heitir Love island. Hún sýnir mannlegt eðli ungs fólks. Þættirnir ganga út á það að breskum ungmennum er holað niður í afskekkt hótel á Spáni. Þar býr það í vellystingum. Eina kvöðin er að para sig. Sem er létt verk og löðurmannlegt.
Ýmsu er bryddað upp á til að freista. Við það skapast drama, ótryggð, afbrýðisemi og allskonar breskleiki. Til að skerpa á hefur þátttakandi möguleika á að eignast 20 milljón kall eða álíka.
Strákarnir í hópnum eru hugguleg húðflúruð líkamsræktartröll. Þeir tala um stelpur á máli boltaleikja. Þeir tala um að skora. Koss er fyrsta höfn, kynlíf önnur höfn og eitthvað svoleiðis. Öllum þreifingum er fagnað sem sigri.
Strákarnir eru íklæddir boxer sundskýlum. Stelpurnar eru íklæddar efnislitlu bikini. Þær farða sig svo ríflega að þær eru nánast óþekkjanlegar hver frá annarri. Sítt slétt hár niður á bak er litað ljóst. Allar eru með gerviaugnhár. Allt í góðu með það. Nema að þær eru með þrútnar botox-varir. Það er ekki flott. Ég fordæmi það sem vonda fyrirmynd ungra kvenna. Mér að meinalausu mega konur á elliheimilum þrykkja í ýktar botox-varir. Það er svo sem ekki margt annað um að vera á elliheimilum. Ef frá er talin harmónikkumúsík.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.8.2021 | 06:15
Dónalega fólkið
Örlög beggja voru ráðin þegar prúði unglingurinn í Liverpool á Englandi, Paul McCartney, kynnti sig fyrir bæjarvillingnum, John Lennon. Eftir það heimsóttu þeir hvorn annan á hverjum degi. Ýmist til að syngja og spila saman uppáhaldslög eða semja sína eigin söngva eða hlusta á nýjar rokkplötur.
Þegar John gekk til og frá heimili Pauls fór hann framhjá hópi fólks sem stóð úti í garði. Í hvert einasta skipti í öllum veðrum. Hann kastaði ætíð á það kveðju. Fólkið var svo dónalegt að endurgjalda hana aldrei.
John sagði Paul frá þessu dónalega fólki. Hann varð forvitinn. Stormaði með John að fólkinu. Kom þá í ljós að þetta var garðskreyting sem sýndi fæðingu Jesúbarnsins. Fólkið var Jósef smiður, María mey og vitfirringarnir þrír frá Austurlöndum.
Misskilningurinn lá í því að John var afar sjóndapur. Mun sjóndaprari en hann gerði sér sjálfur grein fyrir. Hann var í afneitun. Hélt að allir aðrir hefðu samskonar sjón. Hann sá allt í þoku en hafði engan áhuga á gleraugum. Ekki fyrr en mörgum árum síðar.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)