Færsluflokkur: Spaugilegt

Aðeins í Japan

  Í Japan er margt öðruvísi en við eigum að venjast.  Til að mynda hvetja þarlend yfirvöld ungt fólk til að neyta meira áfengis.  Það er til að örva hagkerfið.  Fá meiri veltuhraða.  Ástæðan fyrir því að vöruflokkurinn áfengi er notaður í þetta er sú að ölvaðir unglingar eyða meiri peningum í skemmtanir,  leigubíla,  snyrtivörur,  fín föt og allskonar óþarfa.  Líka á þetta að hækka fæðingartíðni. 

  Í Japan fæst áfengi í allskonar umbúðum.  Þar á meðal litlum fernum sem líta út eins og ávaxtasafafernur með sogröri og allt.

  Japanir eru einnig í hollustu.  Eða þannig.  Kóladrykkir eru ekki hollir út af fyrir sig.  En ef þeir innihalda hvítlauk og eru með hvítlauksbragði?

  Annað dæmi um hollustu í Japan eru rafmagnsprjónar.  Matprjónar.  Þeir gefa frá sér vægt rafstuð af og til.  Það er sársaukalaust en framkallar salt bragð af matnum.  Salt er óhollt.

  Mörg japönsk hótel, mótel og gistiheimili bjóða upp á ódýra svefnaðstöðu.  Ekki er um eiginlegt herbergi að ræða.  Þetta er meira eins og þröngur skápur sem skriðið er inn í án þess að geta staðið upp.

  Japanir elska karaókí.  Það er eiginlega þjóðarsport.  Vinnufélagar fara iðulega á skemmtistaði til að syngja í karaókí.  Þá er reglan að hver og einn taki lag óháð sönghæfileikum.  Mörgum þykir líka gaman að syngja heima eða út af fyrir sig á vinnustað.  Til að það trufli engan brúka söngfuglarnir hljóðhelda hljóðnema.  Með heyrnartæki í eyra heyra þeir þó í sjálfum sér. 

  Eitt af því sem víðast þykir lýti en í Japan þykir flott eru skakkar tennur.  Sérstaklega ef um er að ræða tvöfaldar tennur.  Þar sem ein tönn stendur fyrir framan aðra.  Þetta þykir svo flott að efnað fólk fær sér aukatennur hjá tajapan hvítlaukurnnlæknum.

 

japan fernurjapan hóteljapan aukatennurjapan karaokijapan prjónar

japan hvítlaukur


Furðufluga

  Ég var að stússa í borðtölvunni minni.  Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins.  Ég hélt að hún færi strax.  Það gerðist ekki.  Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð.  Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður.  Þetta truflaði mig.  Ég sló hana utanundir.  Hún hentist eitthvað í burtu.

  Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins.  Ég endurtók leikinn með sama árangri.  Hún lét sér ekki segjast.  Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.

  Háttalag hennar veldur mér umhugsun.  Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt.  Í hennar huga hafi við,  ég og hún,  verið að leika okkur.

 


Magnaðar myndir

  Fátt er skemmtilegra að skoða en sláandi flottar ljósmyndir.  Einkum ljósmyndir sem hafa orðið til þegar óvart er smellt af á réttu augnabliki og útkoman verður spaugileg.  Tekið skal fram að ekkert hefur verið átt við meðfylgjandi ljósmyndir.  Ekkert "fótóshopp" eða neitt slíkt. 

  Myndirnar stækka og verða áhrifameiri ef smellt er á þær.

magnaðar myndir 1magnaðar myndir 2magnaðar myndir 3magnaðar myndir 4magnaðar myndir 5magnaðar myndir 6magnaðar myndir 7magnaðar myndir 8magnaðar myndir 9magnaðar myndir 10magnaðar myndir 11


Buxnalaus

  Fyrir nokkrum árum bjó ég í Ármúla 5.  Það var góð staðsetning.  Múlakaffi á neðstu hæð og hverfispöbbinn í Ármúla 7.  Hann hét því einkennilega nafni Wall Street.  Skýringin var sú að í götunni voru mörg fjármálafyrirtæki.  Fyrir daga bankahrunsins,  vel að merkja.  Áður hét staðurinn Jensen.  Síðar var hann kenndur við rússneska kafbátaskýlið Pentagon.  Það var ennþá undarlegra nafn.

  Þetta var vinalegur staður.  Ekki síst vegna frábærra eigenda og starfsfólks.  En líka vegna þess að staðurinn var lítill og flestir þekktust.  Ekki endilega í fyrsta skipti sem þeir mættu á barinn.  Hinsvegar sátu allir við borð hjá öllum og voru fljótir að kynnast. 

  Eitt kvöldið brá svo við að inn gekk ókunnugur maður.  Það var sláttur á honum. Hann var flottari en flestir;  klæddur glæsilegum jakka,  hvítri skyrtu með gullslegnum ermahnöppum,  rauðu hálsbindi og gylltri bindisnælu.  Hann var í dýrum gljáburstuðum spariskóm.  

  Undrun vakti að hann var á brókinni,  skjannahvítri og því áberandi.  Hann bað eigandann um krít.  Hann gæti sett giftingarhring í pant.  Sem var samþykkt en athugasemd gerð við buxnaleysið.  Útskýringin var þessi:  Honum hafði sinnast við eiginkonu sína.  Hún sparkaði honum út.  Þá tók hann leigubíl í Ármúlann.  Á leiðarenda uppgötvaðist að hann var án peninga og korts.  Úr varð að leigubílstjórinn tók buxur hans í pant.  

buxnalaus       


Bindindismótið í Galtalæk

  Til nokkurra ára vann ég við Bindindismótið í Galtalæk um verslunarmannahelgina.  Þetta var á árunum í kringum 1990.  Þessi mót voru fjölmenn.  Gestir voru tíu til tólf þúsund.  Álíka fjöldi og í Vestmannaeyjum.  Stundum fjölmennari. 

  Sérstaða Bindindismótsins var að þar fór allt friðsamlega fram.  Aldrei neitt vesen.  Aldrei nauðganir eða aðrar líkamsárásir.  Aldrei þjófnaðir eða illdeilur. 

  Uppistaðan af gestum var fjölskyldufólk.  Þarna voru börn og unglingar í öruggu umhverfi. 

  Öll neysla áfengis var bönnuð á svæðinu.  Ég vann sem vörður í hliðinu inn á svæðið.  Allir bílar voru stöðvaðir.  Ökumönnum og farþegum var boðið að geyma fyrir þá áfengi fram yfir mót.  Að öðrum kosti yrði leitað í bílnum og áfengi hellt niður ef það finnist.

  Einhverra hluta vegna reyndu sumir að smygla áfengi inn á svæðið.  Því var skipt út fyrir rúðupiss,  sprautað inn í appelsínur,  falið inn í varadekki...  Á skömmum tíma lærðist hverjir reyndu smygl.  Margir litlir taktar einkenndu þá.  Til að mynda að gjóa augum snöggt í átt að smyglinu,  hika smá áður en neitað var o.s.frv.   

  Fyrir margt löngu hitti ég mann sem sagðist hafa sem unglingur fundið pottþétta leið til að smygla áfengi inn á mótið.  Hann mætti á svæðið nokkrum dögum áður og gróf áfengið ofan í árbakka á svæðinu.  Þegar hann svo mætti á mótið sá hann sér til skelfingar að búið var að hlaða margra metra háum bálkesti ofan á felustaðinn.  Í honum var ekki kveikt fyrr en á sunnudagskvöldinu.  

bindismót  


Furðulegar upplifanir á veitingastöðum

  Hvers vegna borðar fólk á veitingastöðum?  Ein ástæðan getur verið að það sé svangt.  Mallakúturinn gargi á næringu.  Önnur ástæða getur verið að upplifa eitthvað öðruvísi.  Eitthvað framandi og meira spennandi en við eldhúsborðið heima.  Þó að pepperóni-sneiðar séu hversdaglegar má hressa þær við með því að þræða þær á skrítna grind.  

  Forréttur þarf ekki að vera matarmikill.  En hann getur orðið ævintýralegur sé honum stillt upp eins og hnöttum himins. 

  Nokkru skiptir hvernig þjónninn ber matinn fram.  Til dæmis með því að skottast með hann á stórri snjóskóflu. 

  Sumt fólk er með klósettblæti.  Það fær "kikk" út úr því að borða súkkulaðidesert upp úr klósetti. 

  Annað fólk er með skóblæti.  Þá er upplagt að snæða djúpsteiktan ost úr skó. 

  Hvernig geta beikonsneiðar sýnt á sér nýja hlið?  Til dæmis með því að vera hengdar upp á snúru.

  Smjörklípa er óspennandi.  Nema henni sé klesst á lófastóran stein. 

  Það er eins og maturinn sé lifandi þegar hann er staðsettur ofan á fiskabúri.

  Með því að smella á mynd stækkar hún.

veitingar aveitingar bveitingar cveitingar dveitingar eveitingar fveitingar gveitingar h

 

 


Geggjuð rúm

  Allflest rúm eru hvert öðru lík.  Þau eru íburðarlitlar ljósar ferkantaðar dýnur ofan á grind.  Þessi einfalda útfærsla hefur gefist vel í gegnum tíðina.  En eins og með svo margt annað þá sjá einhverjir ástæðu til að gera þetta öðruvísi.

  Hvað með líkamslaga dýnu?  Eða vera vel varinn í jarðskjálfta í svo háu rúmi að stíga þarf upp tröppur til að komast í það og klöngrast ofan í það umlukið traustum veggjum.

  Svo er það hreiðrið. Í það þarf marga púða til að herma eftir ungum og eggjum. 

  Bókaástríða er plássfrek.  En hún getur sparað kaup á rúmi.

  Sjómenn komnir á aldur geta upplifað góða tíma í bátsrúmi.

  Að sofa í líkkistu er varla þægilegt.  Samt er vel bókað í gistihús sem býður upp á Dracúla-þema.   

  Kóngafólki hættir stundum við að fara hamförum í prjáli.  Það fylgir stöðu þess. 

  Í Suðurríkjunum í USA taka margir ástfóstri við pallbílinn sinn.  Svo mjög að þeir breyta honum í rúm. 

  Vatnsrúm eru allavega. 

  Þegar barn hefur horft á kvikmyndina Jaws er freistandi að hræða það með því að hátta það í hákarlsrúm. 

   Smellið á mynd til að hún verði skýrari og stærri.

rúm arúm brúm crúm erúm hrúm irúm jrúm krúm lrúm m

  


Hrakfarir

  Sumir eru heppnir.  Þeir eru lukkunnar pamfílar.  Aðrir eru óheppnir.  Þeir eru hrakfallabálkar.  Flestir eru sitt lítið af hvoru. 

  Nokkra þekki ég sem eru eins og áskrifendur að óhöppum.  Til að mynda drengurinn sem brá sér á skemmtistað.  Þar var stappað af fólki.  Allir sátu við borð hjá öllum óháð því hvort þeir þekktust áður. 

  Drengurinn kom auga á gullfallega stúlku.  Hún þáði dans.  Hann var í þykkum ódansvænum leðurjakka, fór því úr honum og setti á stólbak.  Hann bað borðfélaga að gefa honum auga.  Stúlkan setti tösku sína á jakkann.

  Er skötuhjúin snéru af dansgólfinu til að kasta mæðunni kom babb í bátinn.  Borðfélagarnir voru á bak og burt.  Sömuleiðis jakkinn og veskið.  Hvorutveggja geymdi kort, skilríki og peninga.  Sem betur fer var drengurinn með lyklakippu sína festa við beltið.  Hann bauðst til að skutla dömunni heim.  

  Daginn eftir ætlaði hann að kíkja á sandspyrnu.  Hann bauð dömunni með. 

  Á leiðinni varð bíllinn bensínlaus.  Stúlkan settist undir stýr á meðan hann ýtti bílnum.  Það gekk hægt og erfiðlega.  Alltof langt í næstu bensínstöð.  Að lokum gafst hann upp,  hringdi í föður sinn, bað hann um að kaupa dráttartaug og draga bílinn að bensínstöð.

  Allt tók þetta langan tíma og stutt eftir af sandspyrnunni.  Allir héldu því bara heim til sín.  Til að bæta fyrir klúðrið bauð kauði stelpunni út að borða næsta kvöld.  Veitingastaðurinn var í göngufæri frá heimili hennar.  Þau ákváðu að hittast klukkan sex á staðnum.

  Drengurinn lagði sig fyrir kvöldmat.  Er hann vaknaði gleymdi hann matarboðinu og fór í tölvuleik.  Hann lifði sig inn í leikinn.  Seint og síðar meir kíkti hann á símann sinn.  Þá sá hann sms og "missed call" frá stelpunni.  Hún var pirruð er hann hringdi í hana.  Sagðist hafa setið eins og illa gerður hlutur í heilan klukkutíma á veitingastaðnum.  

  Til að gera gott úr þessu bauð hann henni í bíó.  Kvöldið var ungt.  Með semingi féllst hún á þetta.  

  Drengsi stríddi við bólur í andliti.  Hann faldi þær daglega með húðlitum farða.  Bíómyndin var hryllings-spennumynd.  Í taugaveiklun fiktaði hann ósjálfrátt við bólurnar án þess að taka eftir því.  Hann klæjaði líka smávegis í þær.  Það var svo heitt í salnum.  Hann nuddaði farðann af bólunum,  reif ofan af sumum þeirra.  Blóð sem vætlaði úr þeim dreifði hann um húðina.  

  Er ljós kviknuðu í hléi rak stelpan upp óp.  Hún horfði með hryllingi á blóðrisa andlitið.  Skipaði honum reiðilega að þvo ndlitið.  Þegar hann snéri aftur var hún farin.  Síðan hafa þau ekki verið í neinu samandi og hún eyddi honum af vinalista á Facebook.            

   


Brosleg fjölbreyttni á flugvöllum

  Mannfólkið er (næstum því) eins misjafnt og það er margt.  Það sést oft á skemmtilegan hátt á flugvöllum.  Þar birtist fjölbreytt mannlíf í öllum hornum.  Ekki síst þegar kemur að því að hvílast vel og lengi fyrir langt flug;  nýta tímann sem best.  Þá kemur sér vel að hafa hengirúm í farangrinum. 

  Háaldraðir flugfarþegar gera sér ekki alltaf grein fyrir því hver staða þeirra er á rennibeltinu.  Þeir taka sér plássið sem þarf og hafa ekki hugmynd um að þeir séu að stífla beltið.  Palli er einn í heiminum.

  Mörgum flugfarþegum reynist kúnst að hafa ung börn með í för.  Börn sem eru á ókunnugum slóðum og langar til að fara út um allt.

  Önnur börn leyfa sér að sofna á ferðatöskunni.  Enn önnur dunda sér við að líma miða á sofandi pabba.  Gott á hann.  Það er óábyrgt að halda sér ekki vakandi þegar ferðast er með ung börn.  

  Út um glugga á flugstöðvum má stundum sjá vonda meðferð á flugvélum.  Svona eins og þegar rennihurð slær flugvél niður.  

  Árlega kemst upp um flugfarþega sem tíma ekki að borga fargjald heldur lauma sér í tösku og borga yfirvigt fyrir miklu lægri upphæð.

  Að venju eru myndirnar skýrari og skilmerkilegri ef smellt er á þær.    

 

flugvellir 1flugvellir 2flugvellir 3flugvellir 4flugvellir 5flugvellir 6flugvellir 7flugvellir 8flugvellir 9


Ofsahræðsla

  Um síðustu helgi keypti erlendur ferðamaður í Færeyjum sér nesti og nýja gönguskó.  Tilefnið var að hann hugðist rölta upp fjallshlíð nyrst í Norðureyjum.  Fjallið heitir Borgarinn og er á Kalsey.  Það nýtur vinsælda meðal útivistarfólks.  Útsýni er stórfenglegt og hlíðin ekki brött en lögð þægilegum göngustíg.  Enda var leiðin greið upp hana.  

  Er karlinn hugðist hreykja sér í miðri hlíð brá svo við að hann var gripinn ofsahræðslu.  Þegar hann horfði niður hlíðina sundlaði hann af lofthræðslu.  Í taugaveiklun tók hann að góla tryllingslega og baða út höndum ótt og títt.  Nærstaddir skildu ekki hvað hann kallaði af því að hann gólaði á útlensku.  Svo fór þó að einn maður áttaði sig á vandamálinu.  Hann greip fjallgöngugarpinn föstum tökum og rölti með hann niður á jafnsléttu.  Þar jafnaði hann sig hægt og bítandi,  Náði úr sér skjálftanum að mestu og fékk aftur lit í kinnar.

  Til að hlífa samborgurum mannsins við háði og spotti er þjóðernið ekki gefið upp.   

Borgarin Kalsoy


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.