Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Einföld aðferð til að verjast leigubílasvindli í útlöndum

  Víða um heim er varasamt að taka leigubíl.  Einkum er það varasamt fyrir útlendinga.  Ennþá varasamara er það þegar útlendingurinn er staddur við flugvöll.  Svo ekki sé talað um það þegar hann starir ruglaður í allar áttir;  er auðsjánlega ringlaður og með magabólgur.  

  Allir leigubílstjórar með sjálfsbjargarviðleitni gera viðkomandi umsvifalaust að fórnarlambi.  Þeir svindla á honum.  Þeir aka krókaleiðir og stilla mælinn á hæsta taxta.  Reyna að lenda á rauðu ljósi og í umferðarteppu.  

  Þegar seint og síðar meir áfangastað er náð þá er túrinn farinn að slaga í 30 þúsundkall.  

  Til er auðveld aðferð til að verjast óheiðarlegum leigubílstjórum og komast hratt,  örugglega og stystu leið á áfangastað.  Hún felst í því að taka á flugvellinum bíl með GSP tæki á leigu.  Svokallaðan bílaleigubíl.  Þá getur þú að auki ráðið því á hvaða útvarpsstöð er stillt í bílnum.  Það skiptir máli. 


mbl.is Varar við leigubílum við Oslóar-flugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst þetta allt um fégræðgi?

 

  Í umræðunni um kjaraviðræður,  verkföll,  launakröfur,  skattabreytingar,  styttingu vinnuvikunnar,  hækkað matarverð,  magabólgur og djöflatertur hafa lægstu laun borið á góma.  Sumum hefur orðið tíðrætt um að ástæða sé til að hækka lægstu laun.  Jafnvel um einhverja þúsundkalla á næstu þremur árum.  

  Aðrir hafa brugðist hinir verstu við.  Þeirra viðhorf er það að hærri laun greidd ómenntuðum skófluskríl muni gera útaf við menntun í landinu.  Þá verði keppikefli allra að tilheyra hópi ómenntaða skrílsins. Það verði eftirsóknarverðasta takmark lífsins.

  Kannski er kenningin rétt.  Kannski sýnir enginn námi áhuga nema til þess að fá hærra kaup en ómenntaði skríllinn.  

  Þetta þarf að rannsaka.  Einkum vegna þess að margir eru svo vitlausir að þeir rjúka í annað nám en það sem skilar þeim síðar meir hæstu tekjum.  Einhverjir eru meira að segja svo vitlausir að þeir leggja á sig nám sem nýtist þeim lítið sem ekkert á vinnumarkaði.  Hvað þá að það skili þeim feitum launatékka.

  Getur verið að Kári Stefánsson hafi hangið í skólum áratugum saman einungis vegna þeirrar vissu að á endanum myndi hann fá góð laun?  Kannski hafði hann aldrei áhuga á taugalífræði og erfðarannsóknum.  Hvað veit ég.

  Þegar ég ungur settist á skólabekk í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þá hafði ég ekki hugmynd um að vera rekinn áfram af löngun í hærri laun en þau sem ég fékk ómenntaður í Álverinu í Straumsvík.  Svo gekk það ekki einu sinni eftir.  Í heimsku minni hélt ég að skólagangan í MHÍ réðist af löngun til að læra skrautskrift,  olíumálun,  vatnslitun,  ljósmyndun,  myndskreytingu,  auglýsingateikningu og eitthvað svoleiðis bull. Nú veit ég betur.

 Fólki er ekki sjálfrátt.  Að minnsta kosti sumu fólki.  Það veit ekki af hverju það stundar nám í einhverju.  Það heldur að námið snúist um að fræðast um eitthvað sem viðkomandi hefur gríðarlegan huga á.  En svo í raun snýst þetta um fégræðgi:  Að komast á annan launataxta en ómenntaði skríllinn.

       


mbl.is „Háskólahugtakið útþynnt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er PIN-númerum stolið og hve auðvelt er að verjast því. Ekki gefa vonda kallinum peningana þína!

  Mikill áróður er rekinn fyrir því að fólk leggi PIN-ið á minnið.  Allflestir nota greiðslukort í stað reiðufés.  Það er til að hagnaður bankanna sé viðunandi.  Þeir fá prósentur af hverri kortafærslu.  

  Gallinn við kortin og PIN-ið er hversu auðvelt er að stela númerinu og misnota.  Vondi kallinn gerir það.  Hann kaupir sér hitamyndavél í næstu Apple-búð;  festir hana á bakhlið iPhones síns.  Svo tekur hann mynd af takkaborði PIN-tækisins án þess að nokkur taki eftir.  Hitamyndavélin sýnir á hvaða tölustafi var ýtt af næsta kúnna á undan og í hvaða röð.

  Með sömu aðferð er hægt að komast yfir leyninúmer við inngöngudyr,  öryggishólfa og allskonar.

  Góðu fréttirnar eru að auðvelt er að verjast þessu.  Það er gert með því að villa um fyrir vonda kallinum.  Til að mynda með því að styðja á fleiri takka en þá sem hýsa leyninúmerið. Hamast á þeim hverjum á fætur öðrum.  Þá fær hitamyndavélin rangar upplýsingar.  


Hverjir eiga Bónus?

  Ég er ekki með það á hreinu hver eða hverjir eiga Bónus í dag. Eða Haga sem á Bónus.  Er það ekki að uppistöðu til lífeyrissjóðir lægst launaða fólks landsins?  Hverjir fara með stjórn Haga?  Er það ekki fólk með 5 - 6 milljón króna mánaðarlaun?  Plús fríðindi af öllu tagi.

  Lægst launaða fólkið borgar hæstu launin.  Það er metnaður.  Eða hvað veit ég?  Á mér ekki að vera sama?  Ekki vinn ég þarna.    

b


mbl.is Loka þyrfti öllum verslunum Bónuss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frakkar stelpur

  Ég sat í rólegheitum í kyrrstæðum bíl og las Stundina.  Ég átti mér einskis ills von.  Skyndilega var bankað kröftuglega á bílrúðuna. Mér krossbrá.  Úti fyrir stóð unglingsstúlka.  Ég renndi bílrúðunni niður.  Hún heilsaði ekki né kynnti sig heldur bar umsvifalaust upp erindið:  "Viltu gefa mér 300 kall?"

  Ég:  "Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að gefa þér 300 kall?"

  Hún:  "Af því að mig langar í smávegis nammi í nammibarnum í 10-11."

  Þetta þótti mér vera sanngjörn og góð rök fyrir því að gefa henni 300 kall.  Svo heppilega vildi til að ég var með 300 kall í vasanum (reyndar aðeins meira.  En lét ekki á því bera).  Annars hefði ég þurft að fara í 10-11 - sem var þarna rétt hjá - og biðja kassastrákinn um að skipta fyrir mig seðli.  

  Þegar ég horfði ringlaður á eftir stelpunni storma hröðum skrefum í 10-11 mundi ég skyndilega eftir því að það var ekki nammidagur.  En það var of seint að bregðast við því. Hún slapp í nammið á virkum degi.  


mbl.is Vafðar inn í teppi á vespu um nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á misjöfnu þrífast börnin best

 

  Mörgum myndi bregða í brún ef þeir vissu hvernig hreinlætismálum er háttað í eldhúsi sumra veitingahúsa.  Kona er vann sem unglingur á pizza-stað er bólusett gegn pizzum til frambúðar.  Lúkur pizza-gerðarfólks voru ekki alltaf hreinar í upphafi vinnudags.  En urðu hægt og bítandi tandurhreinar eftir að hafa hnoðað nokkur pizza-deig.  Það þótti sport að þeyta deiginu með snúningi hátt á loft þannig að í smástund festist það við óhreint loft eldhússins.

  Breski sjónvarpskokkurinn Ramsey Gordon hefur sýnt okkur inn í eldhús margra bandarískra veitingastaða.  Þar er iðulega pottur brotinn hvað varðar hreinlæti.  Á einum stað var kjúklingaréttur afgreiddur á tréprjóni.  Viðskiptavinir nöguðu kjötið af prjónunum.  Þeir voru notaðir aftur handa næstu viðskiptavinum.  Jafnvel með kjötleifum frá fyrri viðskiptavinum.  

  Konu sem vann á Hressingarskálanum á síðustu öld var brugðið er hún uppgötvaði að þeyttur rjómi var margnýttur.  Með tertusneið og heitu súkkulaði fylgdi skál með þeyttum rjóma. Fæstir átu allan rjómann.  Leifarnar voru seldar næsta kúnna.  Vandræðalegt atvik kom upp þegar kúnni drap í sígarettustubbi í rjómanum.  Hann gerði það svo snyrtilega að það sást ekki.  Næsti kúnni hrökk í kút er hann mokaði sígarettustubbi út á tertusneiðina sína.  

  Fyrir nokkru las ég í bandarísku dagblaði viðtal við starfsfólk veitingastaða.  Umræðan snérist um þjórfé.  Fleiri en einn upplýsti að nískum fastakúnnum væri refsað með því að skyrpa í matinn þeirra.

  Eftir tilkomu internetsins hafa ófá myndbönd birst af starfsmönnum veitingastaða hreykja sér sóðaskap.  Meðal annars með því að troða frönskum kartöflum upp í nefið á sér áður en þær eru bornar fram handa kúnnanum.  

  Stóra skeiðarmálið á Akureyri skilur eftir eina áleitna spurningu.  Sleikt skeið er ekki stóra málið.  Það er að segja ef hún var snyrtilega sleikt.  Þá er hún næstum því hrein.  Spurningin snýr að fullyrðingu eiganda veitingastaðarins um að diskar með sósu slettri á þá úr sleiktri skeið hafi aldrei farið út úr eldhúsinu.

  Staðurinn var undirmannaður.  Fjögurra manna starfslið sat uppi með vinnu átta manna.  Það er dáldið skrítið að undir þeim kringumstæðum hafi vinna verið lögð í að útbúa fjölda veisludiska sem aldrei fóru út úr eldhúsinu. 

  Til varnar einu og öðru í veitingum á matsölustöðum er ráð að skola þeim niður með góðu hvítvíni.  Ennþá betra er að taka eitt eða tvö vodka-skot með.  Eða þrjú.  Þau eru sótthreinsandi.  Og gera máltíðina skemmtilega þegar upp er staðið.  

    


mbl.is Yfirmaður kokksins sem sleikti skeiðina miður sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul McCartney á flesta peninga

  Margir höfðu gríðarlega miklar áhyggjur af lausafjárstöðu breska tónlistarmannsins Pauls McCartneys fyrir örfáum árum.  Þá stóð hann í illvígum skilnaði við einfætta konu,  Heather Mills.  Hún er barnsmóðir hans og stóð ekki höllum fæti í kröfum sínum til bankabókar heimilisins.  Leikar fóru þannig að Heather náði að skrapa bankabókina.  Í kjölfarið keypti hún gervifót frá Össuri.  Búin að smella honum undir fór hún að dansa.  Það gustaði af henni og fætinum frá Össuri.  

  Paul var svo illa haldinn eftir skilnaðinn að hann lifði á grasi í langan tíma þaðan í frá.  

  Nú hefur bankabók Pauls braggast á ný.  Hún geymir 730 milljónir sterlingspunda (sinnum 208 krónur = 152 milljarðar).  Það gerir kauða að ríkasta tónlistarmanni Bretlands.  Íslendingar hafa löngum spreytt sig á að syngja í sjónvarpsþáttum söngva eftir Paul.  Það færir honum feitar höfundarréttargreiðslur.  

  Söngleikjahöfundurinn Andrew Loyd-Webber er í 2. sæti.  Hann á ekki nema 650 milljón pund,  ræfils tuskan.

  Í 3ja sæti er írska hljómsveitin U2.  Hún er rekin eins og fyrirtæki.  Fjármál liðsmanna eru sameiginleg.  Sjóðurinn telur 431 milljón punda.  

  Elton John er í fjórða sæti.  Hann á 270 milljónir.  Söngvari The Rolling Stones,  Mick Jagger, á 225 milljónir punda.  Það setur hann í fimmta sætið.  Félagi hans,  gítarleikarinn Keith Richards,  er með svipaða innkomu en eyðslusamari.  Þess vegna á hann ekki nema 210 milljónir undir koddanum.  

  Í sjöunda sætinu er írski margverðlaunaði flautuleikarinn Michael Flatley.  Hans helsta tekjulind er fyrir dansútsetningar.  Frægastur er Riverdansinn.  Einnig sá hann um dansa í Lord of the Rings og allskonar.  Hann á 195 milljónir punda.

  Ringo Starr og Sting eiga sitthvorar 180 milljónir punda.  Fyrrum bassaleikari Pink Floyd,  Roger Waters,  vermir 10. sætið með 160 milljón pund.   

Af hverju geta þessir menn ekki fengið sér vinnu eins og annað fólk? 


mbl.is Len Blatvatnik ríkasti maður Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgleðjumst vegna rausnalegra launahækkana

   Eðlilega hafa ríflegar nýsamþykktar launahækkanir stjórnenda HB Granda vakið athygli.  Þó eru það ekki nema 33% hækkanir. Minni athygli hafa vakið 75% launahækkanir stjórnarmanna VÍS.  Þegar betur er að gáð er ekki um háar launagreiðslur að ræða.  Menn eru að fá þetta 200 til 350 þúsund kall fyrir að sitja mánaðarlegan stjórnarfund.  Hann getur teygst alveg yfir í á annan klukkutíma.  Á móti vegur að gott kaffibrauð er á borðum.  Engu að síður eru stjórnarfundir leiðinlegir.  Ef laun stjórnamanna væru lægri myndi enginn fást til að taka sæti í stjórn svona fyrirtækja. Þeir myndu allir sem einn flytja til útlanda.  Útlend fyrirtæki myndu togast á um þá ef stjórnarlaun þeirra á Íslandi væru skorin við nögl.

 Þar fyrir utan fá stjórnarmenn ýmissa annarra íslenskra fyrirtækja alveg upp í 1,2 milljónir í mánaðarlaun fyrir fundinn.  

 Þetta er fagnaðarefni.  Þetta staðfestir að fyrirtækin eru vel rekin.  Þau hafa efni á þessu. Þau búa við gott atlæti.  Ennþá betra er að eigendur þessara sömu fyrirtækja eru að greiða sér þessa dagana allt upp í nokkra milljarða í arð.  Það er reisn yfir því.

  Ómenntaði skófluskríllinn nýtur góðs af.  Hann er ofdekraður.  Hver sem þiggja vill fær 3,5% launahækkun á næstu dögum.  Liðið þarf ekkert að gera annað en samþykkja það.  Nýverið fengu allir starfsmenn HB Granda íspinna að gjöf frá fyrirtækinu.         

íspinni

  


mbl.is Stjórn VÍS fékk 75% hækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týndir feluleikstjórar

  Í gær átti ég erindi í sænsku húsgagnaverslunina Ikea í Grðabæ.  Þar var allt í rugli og upplausn.  Að mér skilst hafði verið auglýstur feluleikur fyrir  börn í búðinni.  Búðin er hönnuð sem völundarhús að hætti gatnakerfis Kópavogs.  Þar er alla daga fólk úr nágrannasveitafélögum illa áttað.  Það hefur týnt sér til langs tíma og finnur sig ekki fyrr en seint eða aldrei.  Þetta er líka ástæðan fyrir íbúafjölgun í Kópabogi.  Fólk ætlar að keyra í gegnum Kópavog á leið til Garðabæjar eða Hafnarfjarðar.  Áður en hendi er veifað er það orðið íbúar í Kópavogi og ratar ekki út.

  Ikea hafði ráðið tvo hámenntaða og þjálfaða útlenda feluleikstjóra til leiks.  Þeir fundust hvergi þegar feluleikurinn átti að hefjast.  Þeir eru ekki ennþá fundnir.  Óstaðfestur orðrómur er um að þeir hafi hugsanlega villst til Akureyrar.  Heyrst hefur af tveimur umkomulausum strandaglópum í reiðuleysi á KEA hótelinu.  Í KEA.  

  Það er lán í óláni að hinir týndu séu þrautþjálfaðir í feluleiknum "Týndur - fundinn".  Næsta víst er að þeir væru miklu týndari ef þetta hefðu verið amatörar.    

  


mbl.is Feluleiksstjórar IKEA ófundnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmæti urðuð með reisn

  Íslendingar eru framarlega í hópi ríkustu þjóða heims.  Á næstu dögum fara Íslendingar á þvílíkt flug að hinar ríku þjóðirnar verða skildar eftir á brúsapalli.  Þökk sé stöðugleikaskattinum.  Eftir örfáa daga heyra gjaldeyrishöft fortíðinni til.  Verða um leið aðhlátursefni eins og mannanafnalöggan,  bjórbannið,  sjónvarpslausir fimmtudagar,  einkasala Mjólkurbúða á mjólk,  einkasala Osta- og smjörsölunnar á ostum og banni á bingóspili á frjósmishátíð Freyju.  

  Íslenska auðmannasamfélagið hendir á haugana á næstu dögum stólum að marg milljóna króna virði.  Stólarnir fara á sama ruslahaug og gríðarlega mikið magn af úrvalsgóðum matvælum sem nálgast síðasta söludag (löngu áður en kemur að síðasta neysludegi).  Á sama ruslahaug fer reglulega mikið magn af innlendri framleiðslu á grasi,  sömu vöru og seld er á kaffihúsum í Hollandi og seld er í lækningaskini í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  

  Íslenska auðmannaþjóðfélagið þarf hvergi að horfa í sparnað.  Bruðl á öllum sviðum hentar betur lífstíl auðmannaþjóðfélags.  Svo að enginn freistist til að hirða milljóna króna stóla Reykjavíkurborgar er við hæfi að mölbrjóta þá í smæstu einingar um leið og þeir eru urðaðir engum til góða.  

  Á undanförnum mánuðum hefur straumur erlendra ferðamanna til Íslands margfaldast.  Á þessu ári eru líkur á að hátt í hálf önnur milljón ferðamanna komi með alla vasa úttroðna af peningum.  Þeir fylla veitingastaði landsins, hótel, leigða bíla, þyrlur og rútur.  Þeir fylla gjaldeyrishirslur Seðlabankans svo út úr flæðir.  

  Til að fagna þessari nýju gjöfulustu auðlind landsins hefur verið lagt fram frumvarp um nýjan nefskatt á Íslendinga í formi reisupassa.  Það er reisn yfir því.     


mbl.is Stóla á að borgin fargi stólunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband