Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Stórtíðindi af breskri plötusölu

  Þær eru óvæntar sviptingarnar í plötusölu í Bretlsndi þessa dagana.  Og þó.  Einhverjir voru búnir að spá því að mögulega gæti þessi staða komið upp.  Formlegt heiti breska plötusölulistans er Official Album Chart Top 100.  Hann mælir plötusölu í öllu formi,  hvort heldur sem er vinyl,  geisladiskar, niðurhal eða streymi.

  Þetta eru söluhæstu plöturnar í dag:

1.   Abbey Road með Bítlunum

2.   Wy Me Why Not með Liam Gallagher

3.   Divinlely Uninspired To A Hellish Extent með Levis Capaldi

  Aldrei áður hefur hálfrar aldar gömul plata snúið aftur á vinsældalistann og endurheimt 1. sætið.  Þetta er met.  Á sínum tíma var platan í 13 vikur á listanum.

  Í 28. sæti er Bítlaplatan 1.  Hún hefur verið á listanum í 230 vikur.   Þar af hæst í 1. sæti.

  Í 69. sæti er Bítlaplatan Sgt Peppers Lonely Hearts Club Band.  Hún hefur verið á listanum í 274 vikur.  Þar af hæst í 1. sæti.

  Í 72. sæti er Bítlasafnplatan 1967-1970.  Hún hefur verið í 41 viku á listanum.  Þar af hæst í 4. sæti.

  Í 94. sæti er Bítlaplatan Hvíta albúmið.  Hún hefur verið í 37 vikur á listanum.  Þar af hæst í 1. sæti.

 


Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Héraðið

 - Helstu leikarar:  Sigurður Sigurjónsson,  Arndís Hrönn Egilsdóttir,  Hannes Óli Ágústsson,  Edda Björg Eyjólfsdóttir...

 - Handrit og leikstjórn:  Grímur Hákonarson

 - Einkunn: **** (af 5)

  Þessi áhugaverða kvikmynd átti upphaflega að vera heimildamynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Vegna hræðslu Skagfirðinga við að tjá sig um hið alltumlykjandi skagfirska efnahagssvæði reyndist ógjörningur að fá viðmælendur til að tjá sig fyrir framan myndavél.  Þar fyrir utan eru margir Kaupfélagssinnar af hugsjón.  Telja að ofríki Kaupfélagsins veiti mörgum vinnu og standi gegn því að peningar samfélagsins fari suður.  Kaupfélag Skagfirðinga stendur svo sterkt að lágvöruverslanir á borð við Bónus,  Krónuna og Nettó eiga ekki möguleika á að keppa við KS í Skagafirði  Skagfirðingar vilja fremur versla í dýrustu búð landsins,  Skagfirðingabúð Kaupfélagsins, en að peningur fyrir greiddar vörur fari úr héraðinu.

  Ég er fæddur og uppalinn Skagfirðingur.  Ég votta að margar senur myndarinnar eiga sér fyrirmynd í raunveruleikanum.  Jafnvel flestar.  Sumar samt í hliðstæðu.  Í myndinni er stofnað mjólkursamlag til höfuðs Kaupfélaginu.  Í raunveruleika stofnað pabbi minn og fleiri bændur sláturhús til höfuðs KS. 

  Kvikmyndin fer rólega af stað.  Eftir fæðingu kálfs og dauðsfall vörubílstjóra gerist myndin dramaatísk.  Hún er spennandi, áhrifarík og vekur til umhugsunar.  Flott í flesta staði.

  Arndís Hrönn er sannfærandi í hlutverki reiðu ekkjunnar.  Ég man ekki eftir að hafa séð þessa leikkonu áður.  Aðrir leikarar standa sig einnig með prýði.  Ekki síst Sigurður Sigurjónsson.  Hann túlkar Þórólf, nei ég meina Eyjólf kaupfélagsstjóra, af snilld.

  Gaman er að sjá hvað fjós eru orðin vélvædd og sjálfvirk.

  Ég mæli með því að fólk skreppi í bíó og kynnist skagfirska efnahagssvæðinu. 

héraðið


Einfaldur skilnaður - ekkert vesen

  Hver kannast ekki við illvíga hjónaskilnaði?  Svo illvíga að hjónin ráða sér lögfræðinga sem fara með málið til skiptastjóra.  Matsmenn eru kallaðir til.  Þeir telja teskeiðar, diska og glös.  Tímakaupið er 30 þúsund kall.  Heildarkostnaðurinn við skilnaðinn er svo hár að allar eigur eru seldar á brunaútsölu til að hægt sé að borga reikningana.  Það sem eftir stendur er lítið eða ekkert handa hjónunum.   

  Miðaldra bóndi í Kambódíu valdi aðra leið er hjónabandið brast eftir tuttugu ár.  Hann sagaði húsið í tvennt.  Öðrum eigum skipti hann í fjóra hluta.  Þau eiga nefnilega tvo syni.  Þessu næst lét hann flytja sinn helming hússins heim til aldraðra foreldra sinna.  Þar klambraði hann hálfhýsinu utan á hús þeirra. 

  Konan býr með sonunum í sínu hálfhýsi þar sem stóð.

  Maðurinn átti frumkvæðið að skilnaðinum.  Hann sakar konuna um að hugsa ekki nógu vel um sig.  Hann hafi verið vanræktur eftir að hann fárveiktist andlega.  

halft_hus 

 


Spornað gegn matarsóun

  Matarsóun er gríðarmikil á Íslandi - eins og víða um heim allan.  Algengt er að fólk kaupi of mikið matarkyns fyrir heimilið.  Maturinn rennur út á tíma og skemmist.  Sama vandamál hrjáir matvöruverslanir.  Svo eru það veitingastaðirnir.  Einkum þeir sem bjóða upp á hlaðborð.  Margir hrúga óhóflega á diskinn sinn og leifa helmingnum.

  Í Hong Kong er veitingastaður sem býður upp á hlaðborð.  Gestir eru hvattir til að taka lítið á diskinn sinn;  fara þess í stað fleiri ferðir að hlaðborðinu.  1000 kr. aukagjald er sett á reikning þeirra sem klára ekki af disknum sínum.  Þetta mættu íslensk veitingahús taka upp. 

hlaðborð


Áhrifamáttur nafnsins

  Flestum þykir vænt um nafn sitt.  Það er stór hluti af persónuleikanum.  Sérstaklega ef það hefur tilvísun í Biblíuna, norræna goðafræði, Íslendingasögurnar eða nána ættingja.  Ég varð rígmontinn þegar afastrákur minn fékk nafnið Ýmir Jens.

  Þekkt sölutrix er að nefna nafn viðskiptavinarins.  Sölumaðurinn öðlast aukna viðskiptavild í hvert sinn er hann nefnir nafn viðskiptavinarins.

  Góður vinur minn endursegir ætíð samtöl sín við hina og þessa.  Hann bætir alltaf nafni sínu við frásögnina.  Lætur eins og allir viðmælendur hans ávarpi hann með orðunum " Óttar minn, ..." (ekki rétt nafn).  Sem engir gera. 

  Annar vinur minn talar alltaf um sig í 3ju persónu.  Hann er góður sögumaður.  Þegar hann segir frá samtölum við aðra þá nafngreinir hann sig.  Segir:  "Þá sagði Alfreð..."  (rangt nafn).

  Ég þekki opinberan embættismann.  Sá talar aldrei um sig öðruvísi en með því að vísa í titil sinn:  "Forstöðumaðurinn mælti með..." (rangur titill). 

  Þetta hefur eitthvað að gera við minnimáttarkennd; þörf til að upphefja sig. 


Lúxusvandamál Færeyinga

 

Skemmtilegt er að fylgjast með uppganginum í Færeyjum síðustu árin.  Íbúum fjölgar árlega um 3%.  Nú eru þeir að nálgast 52000.  Sífellt fækkar þeim sem flytja frá eyjunum.  Að sama skapi fjölgar þeim sem flytja aftur heim eftir búsetu erlendis.  

  Til viðbótar eru Færeyingar frjósamasta þjóð í Evrópu.  Að meðaltali eignast færeyskar konur 2,5 börn.  Íslenskar konur eignast aðeins 1,7 börn.  Það dugir ekki til að viðhalda stofninum.  Tíðni hjónaskilnaða í Færeyjum er sú lægsta í Evrópu.

  Ferðamönnum hefur fjölgað mjög að undanförnu.  Ríkissjóður fitnar sem aldrei fyrr.  Tekjur hans uxu um rúm 20% í fyrra.  Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um rúm 15%.  Fyrir bragðið geta bæði ríki og sveitarfélög kastað sér í allskonar framkvæmdir.  Fjöldi gangna eru í smíðum og enn fleiri fyrirhuguð.  Göng til Suðureyjar verða lengstu neðansávargöng í heimi.  Ekki er frágengið hvaðan þau liggja.  Kannski verða þau 26 kílómetrar.  Kannski styttri.  En samt þau lengstu.  

  Sífellt fjölgar fögum og námsbrautum á háskólastigi.  Æ færri þurfa að sækja framhaldsnám til útlanda.

  Útlánsvextir eru 1,7%.

  Uppsveiflan í Færeyjum veldur ýmsum lúxusvandamálum.  Til að mynda skorti á heimilislæknum, leikskólaplássum og húsnæði.  Hvort heldur sem er íbúðum til kaups eða leigu,  svo og hótelherbergjum.  Sem dæmi um skortinn þá er í byggingu blokk í Klakksvík.  Í henni eru 30 íbúðir.  350 sóttu um að fá að kaupa.  Skorturinn hefur þrýst upp húsnæðisverði og leigu. 

  Allt stendur þetta til bóta.  Hús af öllu tagi eru á byggingarstigi:  Skólahús,  hótel, íbúðahús,  iðnaðarhúsnæði,  landspítala, leikskóla og svo framvegis.  Þetta hefur leitt til skorts á vinnuafli í byggingaiðnaði.  Það er sótt til Austurevrópu.  Í fyrra var 525 Rúmenum veitt atvinnuleyfi í Færeyjum.


Ódýrasta bensínið?

  Hvert olíufyrirtækið á eftir öðru auglýsir grimmt þessa dagana.  Þar fullyrða þau hvert og eitt að þau bjóði upp á lægsta verð.  Hvernig er það hægt?  Lægsta verð þýðir að allir aðrir eru dýrari. Ef öll olíufélögin bjóða sama verð þá er ekkert þeirra ódýrast.  

  Er einhver að blekkja?  Ekki nóg með það heldur er Jón Ásgeir kominn í stjórn Skeljungs.  Í kjölfar var færeyski forstjórinn settur af.  Fleiri fuku í leiðinni.  Við lifum á spennandi tímum,  sagði Þorgerður Katrín þegar bankarnir voru keyrðir í þrot (og kúlulán upp á heila og hálfa milljarða voru afskrifuð á færibandi). 

magn


Smásaga um bíleiganda

  Jóhann og frú Þuríður eiga gamlan fólksbíl.  Að því kom að ýmislegt fór að hrjá skrjóðinn.  Um miðjan janúar gafst hann upp.  Þuríður fékk kranabíl til að drösla honum á verkstæði.  Þar var hann til viðgerðar í marga daga.  Bifvélavirkjunum tókst seint og síðar meir að koma honum í lag.

  Verkstæðiseigandinn hringdi í frú Þuríði.  Tilkynnti henni að bíllinn væri kominn í lag.  Þetta hefði verið spurning um að afskrifa bílinn - henda honum ónýtum - eða gera hann upp með miklum kostnaði.  

  Verkstæðiseigandinn útlistaði þetta fyrir frú Þuríði.  Sagði:  "Öll viðvörunarljós lýstu í mælaborðinu.  Þú hlýtur að vita að rautt ljós í mælaborði kallar á tafarlausa viðgerð á verkstæði.  Annars skemmist eitthvað."

  Frú Þuríður varð skömmustuleg.  Hún svaraði með semingi:  "Fyrstu ljósin kviknuðu í október.  Þau voru appelsínugul.  Svo fjölgaði ljósunum í nóvember.  Þar bættust rauð við.  Hámarki náðu þau í desember.  Okkur Jóhanni þótti þetta vera í anda jólanna, hátíðar ljóss og friðar.  Þetta var eins og jólasería.  Við erum mikil jólabörn.  Við ákváðum að leyfa þeim að lýsa upp mælaborðið fram á þrettándann að minnsta kosti.  Blessaður bíllinn stóð sína plikt og rúmlega það.  Ekki kom á óvart að hann reyndi sitt besta.  Við gáfum honum nefnilega ilmspjald í jólagjöf."

aðvörunarljós   


Pallbíll til sölu

  Nánast splunkunýr pallbíll - svo gott sem beint úr kassanum - er til sölu á tíu milljónir króna.  Samkvæmt ökumæli hefur hann verið keyrður miklu minna en ekki neitt;  mínus 150 þúsund kílómetra.  Góð framtíðareign;  fasteign á hjólum.  Slegist verður um hann á bílasöluplani Procar.  Fyrstur kemur, fyrstur fær.  Ryðblettirnir eru meira til skrauts en til vandræða.  

procar

  


Samkvæmt teikningunni

  Hver kannast ekki við að hafa sett saman skáp - eða annað húsgagn - samkvæmt teikningu frá Ikea og uppgötva síðar að hún snéri vitlaust?  Að sú væri ástæðan fyrir því að hurðarhúnn er staðsettur of neðarlega og að hillur snúa á hvolf.   Mörg dæmi eru til um abstrakt málverk sem hafa árum saman snúið á haus uppi á vegg.  Ef fólk gætir sín ekki þeim mun betur er þetta alltaf að gerast:  Að hlutirnir snúa á haus.  Glæsilegt hús virðist líta einkennilega út.  En teikningin er samþykkt og vottuð og "svona er þetta samkvæmt teikningunni."  Í einhverjum tilfellum hefur þetta leitt til málaferla.  Svoleiðis er aldrei gaman.

smiðurinn snýr teikningunni vitlaust asmiðurinn snýr teikningunni vitlaust bsmiðurinn snýr teikningunni vitlaust csmiðurinn snýr teikningunni vitlaust dsmiðurinn snýr teikningunni vitlaust e    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.