Færsluflokkur: Bækur

Örstutt og snaggaralegt leikrit um handrið

  Persónur og leikendur: 

Miðaldra kvenforstjóri

Álappalegur unglingspiltur

----------------------------------------------------------------------------------

Forstjórinn (horfir í forundran á piltinn baslast við að koma stóru handriði inn á gólf).  Hvað er í gangi?

Piltur:  Ég fann gott handrið!

Forstjórinn:  Til hvers?

Piltur:  Þú sagðir á föstudaginn að okkur vanti gott handrið.  Ég leitaði að svoleiðis alla helgina og fann þetta í næstu götu.

Forstjórinn:  Ég hef aldrei talað um handrið.

Piltur:  Jú. þú sagðir að okkur vanti gott handrið til að taka þátt í jólabókaflóðinu í haust.

Forstjórinn:  Ég sagði handrit;  að okkur vanti gott handrit!

Tjaldið fellur.

handrið

 

 


Örstutt glæpasaga um skelfilegt morð

  Rúnar er fyrir hæstarétti.  Í héraði var hann dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að myrða Margréti,  meðleigjanda sinn.  Hann hefur fúslega játað að hafa þrifið upp blóð úr konunni.  Hinsvegar veit hann ekki hvers vegna blóð hennar var út um allt eldhúsgólfið.  Hann tilkynnti ekki hvarf hennar.  Líkið hefur aldrei fundist.  Móðir hennar tilkynnti hvarfið eftir að hafa án árangurs reynt að ná á henni vikum saman.

  Rúnar hefur ekki leynt því að þeim Margréti sinnaðist oft.  Stundum kom til handalögmála.  Einkum þegar vín var haft við hönd.  Vitni segja að hann hafi verið ástfanginn af henni.  Ástin var ekki endurgoldin.  Þvert á móti hafi konan hræðst skapofsaköst hans og hamslausa áfengisneyslu.     

  Rúnar man ekkert eftir kvöldinu sem Margrét hvarf.  Hann hafði verið á fylleríi í nokkra daga.  Allt í "blakkáti".  Rámaði samt í að hafa þrifið upp blóð.  Einnig hníf í sinni eigu.  Mjög óljóst kannaðist hans við hugsanleg áflog. 

  Öllum að óvörum mætir Margrét í hæstarétt.  Hún óskar eftir að fá að ávarpa réttinn.  Hún segist hafa reynt sjálfsvíg kvöldið sem hún hvarf.  Skar sig á púls.  Ástæðan var ósætti við nýjan kærasta.  Á síðustu stundu hætti hún við allt.  Batt fyrir púlsana og tók rútuna norður til gamallar skólasystur sinnar.  Þar hefur hún verið síðan.  Hún fylgdist með fréttum af morðmálinu.  Henni þótti gott að vita af Rúnari engjast fyrir dómstólum.  En hún getur ekki horft upp á hann sakfelldan fyrir hæstarétti. 

  Réttarhaldið er í uppnámi.  Dómarar eru reiðir.  En hún er ekki ákærð í málinu.  Bara Rúnar.  Fangelsisvist hans er lækkuð niður í fjögur ár.  Honum til refsiþyngingar er að hann var ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.  Þverskallaðist við að vísa á líkið.  Var óstöðugur í yfirheyrslum og reyndi að fela sönnunargögn.  Meðal annars með því að þrífa blóð af hnífi og gólfi.  Yfirlýsing Margrétar um að hann sé saklaus af meintu morði á henni er metið honum til refsilækkunar. 

  Einn dómari skilar séráliti.  Hann telur sanngjarnt að stytta dóminn niður í tvö ár.  Ástæðan sé sú að dagblað birti á baksíðu ljósmynd af Rúnari.  Myndbirtingin hljóti að hafa valdið honum skelfingu og hugarangri.  Með því hafi hann tekið út refsingu sem jafngildi einu ári í fangelsi.   

fangi    


Frábær bók

 - Titill:  Born to Run - Sjálfsævisaga

 - Höfundur:  Bruce Springsteen

 - Þýðandi:  Magnús Þór Hafsteinsson

 - Útgefandi:  Ugla

 - Einkunn:  *****

  Bandaríski tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen er einn af þeim stærstu í rokksögunni.  Hann hefur selt 150 milljónir platna;  margsinnis toppað vinsældalista um allan heim;  hlotið fjölda verðlauna.  Þar af 20 Grammy.  Um hann hafa verið skrifaðir tugir bóka.  Þessi sem hér um ræðir hefur þá sérstöðu að vera sjálfsævisaga hans.

  Bruce ólst upp við fátækt og basl í New Jersey.  Til að mynda var ekki heitt vatn á æskuheimili hans.  Pabbinn var alki sem hélst illa í vinnu.   

  Bruce er maður orðsins.  Söngtextar hans eru með þeim bestu í dægurlagaheimi.  Hann er pennafær.  Skrifar beinskeyttan auðlæsan texta og stutt í ljóðrænan blæ.  Yrkisefnið er jafnan örlög alþýðufólks.  Þar á meðal jafnaldrana sem hann ólst upp með.  

  Alþýðurokkarinn reynir hvergi að fegra sig.  Hann er hreinn og beinn.  Kann best við sig í gallabuxum og vinnuskyrtu.  En á það líka til að klæðast fínum fötum og aka um á dýrum bílum.  Hann hefur átt sína táradali jafnt sem hamingjustundir.  Vegna þess hvað hann geislar af gleði á hljómleikum vakti undrun er hann fór að tjá sig um þunglyndi fyrir nokkrum árum.  Þeim hremmingum gerir hann góð skil.   

  Lesandinn þarf ekki að þekkja tónlist Brúsa til að njóta bókarinnar.  Fyrir aðdáendur er hún gullnáma,   hnausþykk,  670 þéttskrifaðar blaðsíður með litlu letri.  Það tók mig nokkra daga að lesa hana.  Þeim var vel varið.  Jólagjöfin í ár!

  Þýðing Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er vönduð og góð.

bruce


Jólagjöfin í ár!

  Út er komin meiriháttar svakaleg bók,  Born to Run - Sjálfsævisaga.  Í henni segir rokkgoðsögnin Bruce Springsteen sögu sína og hljómsveitarinnar E Street Band.  Ég er kominn með bókina í hendur og byrjaður að lesa.  Það er ekkert áhlaupaverk.  Hún er hnausþykkur doðrantur,  hátt í 700 blaðsíður.  Þær eru þétt skrifaðar með frekar smáu letri.  Þýðandi er Magnús Þór Hafsteinsson,  þekktur fyrir góðar og vandaðar þýðingar.

  Ég sé í hendi mér að bókin er ekki lesin á einu kvöldi.  Þetta er margra daga lestur;  margra daga skemmtun.  Ég geri betur grein fyrir henni að lestri loknum. 

bruce

 


Smá smásaga

  Í vor fæddist stór og myndarlegur drengur.  Honum var gefið nafnið Jónas.  Hann var 1,90 á hæð og þrekvaxinn eftir því.  Stærðin er ekki hið eina einkennilega við strákinn.  Aldur hans vekur undrun.  Hann fæddist 27 ára.

  Fæðingar eru svo sem af ýmsu tagi.  Kona nokkur fæddi frosk.  Önnur eignaðist eingetið barn.  Sumir eiga erfitt með að trúa þessu.  Jónas fæddisst 2023.  Samt er kennitala hans 080596.  Hann er jafn gamall og Janis Joplin, Jim Morrison,  Jimi Hendrix og Brian Jones voru er þau féllu frá.  Öll með J sem upphafsstaf í fornafni eða eftirnafni.  Eða hvorutveggja.  Kurt Cobain er undantekning af því að hann féll fyrir eigin hendi.  Upphafsstafur hans er næsti stafur á eftir J.

  Jónas hefur lokið námi í lögfræði.  Prófskírteini hans vottar það.  Einkunnirnar eru frekar lélegar. 

  Þrátt fyrir stærðina hefur hann engan skugga.  Sama hvort ljós,  sól eða önnur birta fellur á hann.  Kannski er hann bara skugginn af sjálfum sér. 

shadow


Smásaga um borð

  Skemmtiferðaskipið vaggar mjúklega.  Mikið er að gera á barnum.  Fastagestirnir mættir.  Mörg ný andlit líka.  Þétt setið við hvert borð.  Margir standa við barinn.  Músíkin er lágt stillt.  Barþjónarnir skynja að fólkið vill masa.  Masið hljómar eins og niður aldanna.  Jafn og þéttur kliður sem er brotinn upp með einstaka hlátrarsköllum. 

  Skyndilega rjúfa þrjú hvell bjölluslög stemmninguna.  Það er síðasta útkall á barinn.  Gestirnir þekkja þetta.  Örtröðin við barinn þéttist.

  Hálftíma síðar eru öll ljós tendruð.  Samtímis er slökkt á músíkinni.  Raddsterkur barþjónn kallar:  "Góðir gestir,  takk fyrir komuna.  Góða nótt!"

  Barþjónarnir hefja tiltekt á meðan gestirnir tínast út og halda til kauju.  Svo slökkva þeir ljós og loka á eftir sér.

  Allt er hljótt.  Að nokkrum tíma liðnum hvíslar borð næst útidyrunum:  "Psss,  psss.  Hey,  þið borð.  Ég þarf að ræða við ykkur."  Engin viðbrögð.  Þá áttar borðið sig á að borð hafa ekki eyru;  engan munn og talfæri.  Þau hafa ekki heila;  ekkert taugakerfi.  Þau geta ekki einu sinni sýnt ósjálfráð viðbrögð.  Við þessa hugsun roðnar borðið af skömm.  Svo fyllist það yfirlæti.  Það hnussar og tautar hæðnislega:  "Þetta mættu fleiri vita um borð!"  

bar  


Varasamt að lesa fyrir háttinn

  Fátt gleður meira en góð bók.  Margur bókaormurinn laumast til að taka bók með sér inn í svefnherbergi á kvöldin.  Þar skríður hann undir sæng og les sér sitthvað til gamans og til gagns.  Þetta hefur löngum verið aðferð til að vinda ofan af erli dagsins í lok dags.  Svífa síðan á bleiku skýi inn í draumaheim. 

  Þetta getur verið varasamt á tækniöld.  Bækur eru óðum að færast af pappír yfir í rafrænt form.  Vandamálið er að á skjánum glampar blátt ljós svo lítið ber á.  Það ruglar líkamsklukkuna.  Þetta hefur verið rannsakað.  Sá sem les af skjá er lengur að falla í svefn en þeir sem lesa á pappír.  Svefn þeirra er grynnri og að morgni vakna þeir síður úthvíldir.

Tómas Tómasson

 

.

 

 

 

 


Smásaga um viðskipti

  Þegar skólasystkinin byrjuðu í unglingavinnunni hannaði Nonni barmnælur með myndum af lunda og kind.  Nælurnar lét hann fjöldaframleiða í Kína.  Sumarið fór í að koma vörunni í túristasjoppur.  Einnig í sjoppur í fámennari þorpum þar sem fátt var um minjagripi.

  Er haustaði var salan orðin hálf sjálfvirk.  Pantanir bárust í tölvupósti og voru sendar með Póstinum.  Ágæt innkoma,  lítil vinna en einmanaleg.  Tíminn leið hægt.  Nonni saknaði þess að hitta fólk og spjalla. 

  Svo rakst hann á auglýsingu.  Heildverslun með ritföng óskaði eftir lagermanni í hálft starf.  Hann hringdi og var boðaður í viðtal.  Reksturinn var í höndum ungs manns og 17 ára systur hans. 

  Nonni sagði vinnuna henta sér vel til hliðar við nælurnar.  Maðurinn sýndi þeim áhuga.  Spurði mikils og hrósaði framtakinu.  Hann fékk hugmynd:  Hvernig væri að sameina þessi tvö fyrirtæki í eina öfluga ritfanga- og næluheildsölu?  Hann kallaði á systurina og bar þetta undir hana.  Hún fagnaði.  Nonni líka.  Ekki sakaði að hann var þegar skotinn í henni.  Hún var fögur og hláturmild. 

  "Drífum í þessu,"  skipaði bróðirinn.  "Þið tvö skottist eftir nælulagernum á meðan ég geri uppkast að samningi."  Þau ruku af stað.  Stelpan ók á rúmgóðum sendibíl.  Eins gott því Nonni var nýkominn með stóra sendingu.  Nú var gaman.  Fegurðardísin daðraði við hann.  Þau ferjuðu lagerinn inn í vöruhús heildsölunnar.  Bróðirinn kom með skjal til undirritunar.  Mikill og torskilinn texti á flóknu lagamáli.

  "Ég get ekki kvittað undir þetta,"  kvartaði Nonni.  "Ég skil ekki helminginn af þessu.  Þetta hljómar eins og ég sé að afsala mér nælunum til ykkar."

  "Já, það er rétt,"  viðurkenndi maðurinn.  "Við þurfum að umorða textann.  Þetta er  bráðabirgðauppkast. Á morgun semjum við í sameiningu nýtt skjal og fáum lögfræðing að þínu vali til að yfirfara það.  En við skulum öll krota undir uppkastið svo þetta sé komið í ferli."

  "Ég á erfitt með að skrifa undir þetta,"  mótmælti Nonni. 

  "Kanntu ekki að skrifa nafnið þitt?"  flissaði stelpan og ýtti skjalinu að honum.  Fallegt bros hennar sló hann út af laginu.  Eins og ósjálfrátt undirritaði hann en sá um leið eftir því.  Stelpan dró blaðið snöggt til sín og hallaði hlæjandi höfði á öxl hans:  "Ég var að stríða þér!"  

  "Sofum á þessu í nótt og innsiglum samrunann með handabandi," stakk bróðirinn upp á og rétti fram hönd. 

  "Eða með knúsi," bætti stelpan við um leið og hún faðmaði Nonna þéttingsfast.   

  Morguninn eftir mættu Nonni og daman á slaginu klukkan 9.  Hún heilsaði honum með knúsi og sagði "Gaman að sjá þig!  Bróðir minn er lasinn.  Hann var með ælupest í nótt.  Við getum dólað okkur á meðan við að uppfæra viðskiptamannalistann.  Slá inn símanúmer, netföng og það allt.  Eða hvort við byrjum á að senda þinum viðskiptavinum póst um að héðan í frá sendi þeir pantanir á netfang ritfangasölunnar.  Já,  gerum það fyrst."

  Dagurinn leið hratt.  Stelpan var stríðin.  Það var mikið hlegið.  Nonni sveif um á bleiku skýi.

  Bróðirinn var frá vinnu í 2 daga.  Svo kom helgi.  Á mánudeginum mætti hann strangur á svip.  "Ég hef legið undir feldi," sagði hann.  "Þú gagnast ekki nógu vel í vinnu hér.  Þú ert ekki með aldur til að fá bílpróf.  Plan okkar gengur ekki upp."

  Þetta var reiðarslag.  Nonni reyndi að bera sig vel.  Lán í óláni var að kynnast stelpunni.  Þau gætu áfram verið í sambandi ef hann tæki tíðindunum án leiðinda.  "Hún skutlar þá lagernum til mín á eftir," lagði hann til.

  "Nei,  höldum honum hérna!"  mótmælti bróðirinn höstuglega.  "Þú afsalaðir þér honum til mín.  Ég þinglýsti skjalinu.  Þetta eru einföld viðskipti.  Ekki illa meint.  Sumir eru lúserar.  Aðrir sigurvegarar.  Þeir hæfustu lifa!"                   

 

lundikind


Skemmtisögur

 

  Út er komin sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur.  Hún er kyrfilega merkt tölunni 6.  Undirtitill er Fjörið heldur áfram.

  Eins og fyrri bækurnar er það blaðamaðurinn Björn Jóhann Björnsson sem skráir sögurnar.  Þær eru á þriðja hundrað.  Þær er ljómandi fjölbreyttar.  Sumar með lokahnykk (pönslæn).  Aðrar eru meira lýsing á spaugilegri stemmningu.  Svo eru það stökurnar,  limrurnar og lengri vísur.   

  Þrátt fyrir að sögurnar séu um nafngreinda Skagfirðinga þá er ekki þörf á að vera Skagfirðingur til að skemmta sér vel við lesturinn.  Ég er Skagfirðingur og kannast við flesta í bókinni.  Þó ekki alla.  Ég skemmti mér alveg jafn vel við lestur um þá ókunnugu. 

  Hér eru nokkur sýnishorn:

  Að loknu stúdentsprófi í MA fór Baldur í guðfræði í Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1956.  Á háskólaárunum bjó hann á Nýja stúdentagarðinum.  Þar var aðeins einn sími til afnota fyrir stúdenta, og þótti ekki vinsælt ef menn héldu honum mjög lengi,  einkum á annatíma.

  Eitt sinn hafði síminn verið upptekinn dágóða stund og voru margir farnir að bíða og huga að því hver væri að tala.  Reyndist það vera Baldur,  en hann bandaði mönnum frá sér og kvaðst vera að tala í landsímann.  Vissu menn þá að hann var að tala við föður sinn,  Vilhelm símstöðvarstjóra.  Þurfti Baldur því ekki að hafa miklar áhyggjur af kostnaði við lengd símtalsins.

  Öðru hverju opnuðu samnemendur Baldurs dyrnar á símklefanum,  en heyrðu aðeins mas um einskis verða hluti og þar kom að einhver spurði Baldur hvort hann væri ekki að verða búinn.

  "," svaraði Baldur,  "ég er að koma mér að efninu."  Og í því að dyrnar á klefanum lokuðust heyrðist Hofsósingurinn segja:

  "En án gamans, er amma dauð?"

  Jón Kristjánsson, fv. ráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins,  er alinn upp í Óslandshlíðinni.  Ungur að árum,  líklega 16 ára,  var hann að koma af balli á félagsheimili þeirra sveitunga,  Hlíðarhúsinu.  Fékk hann far út á Krók með Gísla í Þúfum og Árna Rögnvalds.  Var létt yfir mannskapnum og gekk flaska á milli.  Árni var undir stýri og heyrði Jón þá margar sögurnar fjúka milli hans og Gísla.

  Ein sagan hjá Árna var af ónefndum blaðamanni sem kom á elliheimili til að taka viðtal við 100 ára konu.  Var hún m.a. spurð hvað hún hefði verið gömul er hún hætti að hafa löngun til karlmanns.  Þá mun sú gamla hafa svarað: 

  "Þú verður að spyrja einhverja eldri en mig!"

  Guddi var alltaf eldsnöggur til svars og þurfti aldrei að hugsa sig um.  Um miðjan áttunda áratuginn kom hann sem oftar í heimsókn í Hrafnhól í Hjaltadal.  Þetta var að vori til.  Guðmundur bóndi var að stinga út úr fjárhúsunum.  Guddi greip gaffal og bar hnausana út.  Hann keðjureykti en lét það ekki trufla sig við vinnuna,  sígaretturnar löfðu í tannlausum gómnum.  Ungur drengur varð vitni að hamaganginum og spurði: 

  "Hvers vegna reykir þú svona mikið,  Guddi?"

  Hann svaraði um hæl:

  "Þeir sem vinna mikið þurfa að reykja mikið!"

  Eitt sinn bar gest að garði á Silfrastöðum,  sem spurði Steingrím frétta á bæjarhlaðinu.  Hann var þá með eitthvað af vinnufólki,  enda hafa Silfrastaðir jafnan verið stórbýli. 

  "Ja,  það drapst hér kerling í nótt,"  svaraði Steingrímur við gestinn,  og bætti við:  "Og önnur fer bráðum."

  Margir áttu leið í Búnaðarbankann til Ragnars Pálssonar útibússtjóra,  þeirra á meðal Helgi Dagur Gunnarsson.  Eitt sinn hafði hann verið í gleðskap og þokkalega vel klæddur mætti hann í bankann og bað Ragnar um lán.  Ragnar sagðist ekki sjá ástæðu til að lána mönnum,  sem klæddust jakkafötum á vinnudegi!  Helgi sagði ástæðu fyrir því.

  "Sko," sagði hann,  "ég er svo blankur að ég á ekki fyrir gallabuxum og þetta er það eina sem ég á eftir."

  Ragnar tók þessa skýringu góða og gilda.  Helgi fékk lánið og daginn eftir mætti hann til Ragnars í gallabuxum sem hann hafði keypt sér!"

  Maður einn á Króknum fór í verslunina Gránu í hverri viku og keypti yfirleitt það sama í hvert skipti af helstu nauðsynjum.  Í Gránu voru vörurnar keyptar "yfir borðið" og fólk lagði inn lista eða sagði afgreiðslufólkinu hvað það vanhagaði um.  Sagan segir að hér hafi Jón Björnsson verið á ferð,  kallaður Jón kippur,  en það hefur ekki fengist staðfest.  Einn daginn tók afgreiðslukona hjá Kaupfélaginu eftir því að maðurinn bað um tvær klósettrúllur,  en yfirleitt hafði hann bara beðið um eina.  "Stendur eitthvað til?"  spurði konan og maðurinn svaraði: 

  "Ég ákvað að gera vel við mig í þetta skiptið!" 

 

Skagfirskar-6


Ný ljóðabók og hljómplata

 Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að fylgjast með Ólafi F. Magnússyni eftir að hann settist í helgan stein.  Reyndar líka áður.  Hann var besti borgarstjóri Reykjavíkur.  Eftir það tímabil tók við nýr - og kannski óvæntur - ferill. Frjó og farsæl sköpunargleði fór á flug.  Hann yrkir kjarnyrt kvæði á færibandi,  semur viðkunnanleg söngræn lög og vex stöðugt sem ágætur söngvari.

  Nú er komin út hans þriðja ljóðabók,  Ég vil bæta mitt land.  Eins og í fyrri bókum eru þetta ættjarðarljóð,  heilræðisvísur og allskonar.  Meðal annars um margt nafngreint fólk.  Eitt kvæðið heitir Eivör Pálsdóttir:

Holdtekju listar með hárið síða,

hátónagæði með fegurð prýða.

Sönglóan okkar færeyska fríða,

flögrar um eins og sumarblíða.

  Bókinni fylgir 13 laga hljómdiskur.  Þar af eru 9 áður óútgefin lög.  Hin eru sýnishorn af fyrri þremur diskum Ólafs.  

  Söngurinn er afgreiddur af Ólafi og Páli Rósinkrans,  svo og óperusöngvurunum Elmari Gilbertssyni,  Guðlaugu Dröfn Ólafsdóttur og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur.  Útsetningar og hljóðfæraleikur eru að mestu í höndum galdrakarlsins Vilhjálms Guðjónssonar.  Gunnar Þórðarson kemur líka við sögu. 

      

ÓFM


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband